Þriðjudagur 17.05.2016 - 15:56 - FB ummæli ()

Á annað þúsund misalvarleg reiðhjólaslys á ári

elliðvogur sl. Sumar

Elliðaárvogur sl. sumar

Á þessum tíma árs byrja reiðhjólaslysin að streyma inn á Bráðamóttöku LSH. Greinileg aukning hefur orðið á tíðni þessara slysa milli ára og þar sem fullorðnir eiga ekkert síður í hlut en börnin. Fólk sem hjólar þá gjarnan í vinnuna eða er að keppa við sjálft sig eða aðra á göngu/hjólastígum borgarinnar. Eins eftir slys sem orðið hafa við hjólreiðar utan stíga á fjallahjólum hverskonar, oft við afar slæm skilyrði.

Eitt það fyrsta sem maður spáir í móttöku þess slasaða, er hvort um höfuðáverka sé að ræða eða innvortis áverka eða blæðingar. Oftast hefur höfuðið orðið fyrir einhverju hnjaski og sem leitar jú fyrst niður í fallinu, ásamt höndum ef tími gafst til. En það var hjálmurinn sem oftast tók af mestan skaðann ef hann var notaður, þ.m.t. andlitsáverkana sem oft eru annars ansi ljótir. Í bílnum ertu oftast vel varinn í belti, en á hjóli hefur þú aðeins á eigið hjólaöryggi og hjálminn að treysta og sem fjöldi og alvarleiki áverka í hjólaslysum ber glöggt með sér.

Reiðhjólaslys voru 6,5% allra skráðra slysa hjá lögreglunni árið 2008 en hafði fjölgað upp í 20% árið 2013. Fjölgunin skýrist að hluta af betri skráningu lögreglu en ekki síður af mikill fjölgun reiðhjóla í umferðinni og sem hefur aukist enn til muna sl. 3 ár.

Ármann Jónsson læknir og félagar gerðu rannsókn á komum slasaðra eftir reiðhjólaslys á Bráðamóttöku LSH á árunum 2005-2010 og sem birtist um daginn í Læknablaðinu. Um var að ræða 3.472 komur á bráðamóttöku LSH vegna reiðhjólaslysa. Meðalaldur slasaðra reyndist 22,6 ár (1-95 ára). Flest slysin voru mánuðina frá maí til september eða 71,3%. Hjálmanotkun var einungis skráð í 14,2% tilvika, en 30.1% höfðu áverka á andliti eða höfði/heila. Flestir voru með áverka á efri útlim eða 47,1%. Alls  þurftu 3.6% sjúklinga (124) á innlögn/aðgerð að halda vegna áverkanna sem þeir hlutu (20-30 einstaklingar að meðaltali á ári).

Hjólreiðamenningin er að mörgu leiti mjög vanþroska hjá okkur Íslendingum og liggja fyrir því örugglega margar ástæður, ekki síst stutt sumur. Í seinni tíð hefur hinsvegar orðið sprenging í áhuga og framboði á allskonar hjólum og sem sum hver eru hönnuð meira til kappaksturs en venjulegra götuhjólreiða. Allt blandast þetta hins vegar saman á fáu og ófullkomnu göngustígunum okkar í borginni og þar sem gangandi á alltaf meiri rétt. Reykjavíkurborg hvetur hins vegar óspart til aukinna hjólreiða án þess að skapa fullnægjandi aðstæður. Gerir auk þess beinlínis ráð fyrir varðandi atvinnuppbyggingu í miðbænum og með niðurskurði á mikilvægum umferðarmannvirkum fyrir bílaumferð. Stórvarasamt verður hins vegar að teljast fyrir börn og gamalt fólk í borginni að ganga á svokölluðum „útivistargöngustígum“ borgarinnar í dag. Hraðinn á reiðhjólakappanum er oft mikill og sem kemur kannski aftan að þeim gangandi og velur frekar að skjótast framhjá fyrirvaralaust en nota bjölluna á síðustu stundu. Fróðlegt væri að vita hve fjölgun á slíkum slysum hefur orðið mikil á síðustu árum.

Um 75% dauðsfalla vegna umferðarslysa á reiðhjólum í heiminum öllum eru rakin beint til heilaáverka og þar sem rannsóknir sýna að hjólahjálmur getur komið í veg fyrir í allt að þriðjungi tilfella. Varðandi minna alvarlegu höfuðhöggin er áhugavert að líta til tengsla höfuðhögga almennt og minnihátta breytinga sem geta orðið við mar á heilavef „minimal brain injury“. Varanlegar afleiðingar eftir tiltölulega lítil höfuðhögg og sem jafnvel ekki er endilega komið með til læknis, en sem getur valdið hegðunarvanda og skertri færni barna og jafnvel fullorðinna löngu síðar. Nokkuð sem reiðhjólahjálmar draga stórlega úr hættu á og sem jafnvel ein lítil steinvala á malbiki getur valdið.

Lögleiðing reiðhjólahjálma hefur oft borið á góma og er hún í gildi fyrir börn. Margir kappsamir reiðhjólamenn sem vilja veg hjólreiða sem mestan, hafa barist gegn lögleiðingu hjólahjálma. Þeir telja að reiðhjólahjálmurinn gefi falst öryggi og að í löggjöfinni fælust þau skilaboð að hjólreiðar væru hættulegar. Eins að bifreiðarstjórar taki meira tillit til hjólandi sem ekki er með hjálm á höfði á götunum. Rök þeirra eru auðvitað fáránleg því vissulega eru reiðhjólar varasamar og allt að því hættulegar samanborið við slysatíðni og alvarleika annarra slysa í samgöngum borgarinnar. Við hljótum að vilja vernda hausinn á okkur sem best a.m.k. og sem jafnframt gefur auðvitað til kynna að hjólreiðar geti verið hættulegar. Að það sé eins gott að fara varlega og setja alltaf á sig hjálm, á sama hátt og við spennum alltaf beltin í bílunum.

http://www.ruv.is/frett/reidhjolaslys-fimmtungur-umferdarslysa

http://www.laeknabladid.is/tolublod/2016/02/nr/5749

http://www.dv.is/blogg/vilhjalmur-ari/2014/5/14/reidhjolaoryggi-takk/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2014/08/26/okufanntar-oft-ekkert-sidur-a-reidhjolum/

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir · Lífstíll

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn