Fimmtudagur 28.04.2016 - 16:46 - FB ummæli ()

Nýr bráðabirgða BLSH við Hringbraut fyrir yfir 100 milljarða króna !?

hringbrautNú allt í einu virðist vera kominn annar tónn í stjórnsýsluna um framkvæmdir á Hringbrautarlóð. Ætli menn þar á bæ séu eitthvað farnir að vitkast í málinu eftir alla umræðuna? Nú  er farið að ræða um þjóðarsjúkrahúsið okkar við Hringbraut eigi bara að verða einhver tímabundin redding, en þá jafnvel fyrir meiri pening en kostar að byggja Nýjan góðan Landspítala á betri stað og margoft hefur verið reiknað út.  Í Morgunblaðinu 26,4.16 segir Páll Matthíasson forstjóri LSP m.a. „Við erum ekki að byggja „nýj­an“ Land­spít­ala. Við erum að byggja sjúkra­hót­el, meðferðar­kjarna og rann­sókn­ar­hús og svo bygg­ir Há­skóli Íslands hús heil­brigðis­vís­inda. Allt er þetta eðli­leg end­ur­nýj­un á úr sér gengn­um húsa­kosti og er í raun um­fangs­mikið viðhalds­verk­efni, sam­hliða öðrum brýn­um viðhalds­verk­efn­um sem ráðast þarf í.“ Bráðabirgðar Landspítali háskólasjúkrahús við Hringbraut (BLSH) þá ekki nýtt framtíðar þjóðarsjúkrahús.  Á sama tíma svarar Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra þegar hann er spurður um málið, að hann taki enga ábyrgð á framkvæmdum við Hringbraut sem Alþingi hefur þegar ákveðið. En hverjir matreiddu/matreiða alla vitleysuna ofan í Alþingi? Vitleysan og tvískinnungshátturinn ríður þannig ekki við einteyming á stjórnarheimilinu og hinu háttvirta Alþingi þessa daganna og orðaleikurinn ætlar að aldrei að taka nenn enda.

Eitt mest aðkallandi feimnismál núverandi ríkisstjórnar er sennilega stefnuleysið og glundroðinn í heilbrigðismálunum. Skipa þyrfti STRAX óháða nefnd til að endurskoða og skipuleggja heilbrigðiskerfið upp á nýtt sem og forgangsröðun verkefna. Endurreisn heilbrigðiskerfisins eins og Kári Stefánsson læknir hefur kallað eftir og þjóðin stendur á bak við með víðtækri endurskriftasöfnun og 86.673 Íslendingar hafa þegar skrifað undir. Uppbygging heilsugæslunnar og framtíðarskipulagsmál Landspítalans eru þar mest aðkallandi að mínu mati. STRAX þarf að grípa til bráðabirgðalausna eins og nauðsynlegra byggingaframkvæmda við Landspítalann, ekki á Hringbraut heldur við Fossvog og sem blasir við öllum sem vel þekkja til mála. Lága viðbyggingu við G-álmu, t.d. fyrir greiningadeild lyflæknissviðs (3-5 daga deild) í tengslum við bráðamóttökuna í Fossvogi sem lyflæknar hafa mest kallað eftir. Framkvæmdir sem þurfa ekki að taka nema 1-2 ár og kosta ekki svo mikið (sennilega innan við einn milljarða króna ef byggt verður á ódýrasta máta). Þetta eru fljótlegar og til þess að gera ódýrar lausnir sem heilbrigðiskerfið æpir hvað mest á og sem hefur verið mest í umræðunni, auk aðflæðisvanda og fráflæðisvanda heilbrigðiskerfisins vegna veikrar heilsugæslu og vöntun á langtímalausnum fyrir aldraða. Bráðamál sem þolir hvort sem er alls ekki 8-10 ára bið, hvar svo sem framtíðarsjúkrahúsið okkar endar (á hvolfi á Hringbrautinni eða ekki).

Sameining sjúkrahúsanna sjálfra er ekki bráðamál dagsins og sem getur auðvitað vel beðið eins og hún hefur í raun gert í tæplega 2 áratugi. Huga þyrfti sem fyrst að skynsamlegu staðarvali fyrir Nýja Landspítalann og aðal bráðasjúkrahúsi landsins með tryggu aðgengi í framtíðinni og sem þyrfti að vera tilbúið innan 10 ára. Á svipuðum tíma og rándýr bútasaumurinn nú er hugsaður við Hringbraut og sem aldrei getur orðið hagkvæmur. Í reynd algert bruðl með almannafé að mínu mati og sem kostar kostar vel yfir 100 milljarða króna þegar upp verður staðið og hugsa þarf málið alveg upp á nýtt. Og á meðan, næstu 10 árin gerist hvort sem er ekkert nýtt nema eitt stykki sjúkrahótel í miðbænum !!!

Ef skynsamlega hefði varið farið í að endurskipuleggja heilbrigðismálin og framtíðarskipulag Nýs Landspítala fyrir segjum bara 2 árum, og mikið hefur verið skrifað um hér á blogginu, værum við í mikið betri stöðu með flest í dag og horfðum björtum augum til framtíðarinnar. Nú á hins vegar að því er virðist enn og aftur að fresta umræðunni í loforð stjórnmálanna fyrir næstu kosningar og sem skilar síðan litlu sem engu þegar upp verður staðið og reynslan best sýnir. Okkur virðist ekki viðbjargandi og þurfum líkast til að fá Alþjóða heilbrigðisstofnunina (WHO) til að taka í taumana, ekkert ósvipað og þegar Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn þurfti að taka í taumana forðum varðandi peningamál þjóðarinnar.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn