Gamli Landspítalinn (1930) var tilbúinn þegar íbúabyggð í Reykjavík nálgaðist hámark vestan Hringbrautar rétt um 1930 (um 30.000 íbúar, en sem eru í dag aðeins um 15.000). Síðan hefur íbúabyggð í Reykjavík aukist stöðugt austan Hringbrautar, í dag um 120.000 íbúar. Nýjan Landspítala á samt að reisa á sama stað við Hringbrautina og hugsaður var besti staður fyrir gamla Landspítalann fyrir meira en öld síðan og staðarvalið ákveðið 1902. Löngu síðar (1962) var síðan Borgarspítali byggður auðvitað mikið austar í höfuðborginni, nánar tiltekið í Fossvogi þar sem var þá nóg pláss og gott aðgengi.
Aðal forsendur staðarvals Nýs Landspítala á Hringbraut upp úr aldarmótunum 2000, var nálægðin við Reykjavíkurflugvöll og fyrirhuguð ný nauðsynleg umferðamannvirki. Miklubrautina m.a. í stokk og ný stofnbraut vestur-austur um Hlíðarfót í Öskjuhlíð (áætlaður kostnaður upp á um 30 milljarða króna). Báðar þessar forsendur voru hins vegar lagðar til hliðar 2012 og flugvöllurinn nú hugsanlega á förum vegna vöntunar á byggingarlandi fyrir miðborg Reykjavíkur. Mikil óvissa er hins vegar þegar í dag að hægt verði að loka Landspítalanum í Fossvogi eins og upphaflegar sparnaðaráætlanir gengu út á, vegna fyrirséðs skorts á hjúkrunarplássum. Raunveruleikinn nú um óhagræðið og aukakostnað sem blasir við okkur í náinni framtíð varðandi Nýjan Landspítala og borgarskipulagið, en þegar menn eru meira uppteknir af umræðunni á sjálfkeyrandi rafmagnsbílum framtíðarinnar og frekari uppbyggingu og sóknarfærum í Vatnsmýrinni.
Byggingaáformin halda bara áfram eins og ekkert sé og án umræðu og gagnrýni ýmissa aðila (m.a. SBSBS sl. 4 ár). Ekkert tillit er tekið til aðgengishindrana fyrir sjúklinga og aðstandendur. Reiknað er reyndar með að meirihlut starfsfólks búi í miðbænum og geti gengið eða hjólað í vinnuna! Ekkert tillit heldur um öryggi sjúkraflugs af landsbyggðinni og ef Reykjavíkurflugvöllur lokar alveg (neyðarbrautin þegar lokuð). Uppbygging þegar reyndar hafin á Valslóð og nágrenni við NA enda gömlu neyðarbrautarinnar í Vatnsmýrinni. Eins er fyrirséð mikið óöryggi varðandi bráðasjúkraflug með þyrlum LHG til spítalans. Ekkert nýtt áhættumat var gert eftir lokun neyðarbrautarinnar sem var líka upphaflega hugsuð sem aðflugsbraut í hönnun þyrlupalls á 5. hæð við nýja meðferðarkjarnann.
Byggingaráformin nú á þröngri Landspítalalóðinni (2018-2023) eru eins óhagkvæm og hugsast getur til lengri framtíðar og auk þess mjög truflandi fyrir spítalastarfsemi og alla umferð í miðbæinn. Eins er varðar endurnýjunarframkvæmdir síðar (2023-2030) á yfir 60.000 fermetrum eldra húsnæðis og sem margt hvert er þegar hálf ónýtt í dag og farið að mygla. – Hugmyndir um nýja Borgarlínu í framtíðinni og sem Reykjavíkurborg er mest umhugað að kynna til mikilvægis miðborgarsvæðisins í atvinnu- og þjónustuppbyggingu, eykur auðvitað ekkert síður á mikilvægi úthverfa Reykjavíkursvæðisins og tengingu þeirra innbyrðis, til almennrar atvinnuuppbyggingar og íbúðaþróunar á höfuðborgarsvæðinu öllu.
Auðvitað ætti þegar verið búið að finna þjóðarspítalanum besta stað, hvað þá á mesta hagsældartímabili Íslandssögunnar. Eins og manni fyndist reyndar alltaf sjálfsagt og forfeður okkar gerðu reyndar í mikilli fátækt fyrir rúmri öld síðan! Sorglegast er þó þöggunin á málinu sl. ár og sem ekki hefur mátt ræða á Alþingi eða ríkisfjölmiðlunum vegna fyrri ákvarðana og hreppapólitíkur þvert á flokka ríkis og borgar. Hugsanlega ein mestu mistök Íslandsögunnar í ríkisframkvæmd vegna forsendubresta sem ættu að vera öllum augljós í dag og verkið samt ekki einu sinni hafið.