Miðvikudagur 17.01.2018 - 10:25 - FB ummæli ()

Eins og pökkuð síld í púðurtunnu.

Tæp öld er síðan gamli Landspítalinn var tekinn í notkun og í ár er aldarafmæli Læknafélag Íslands sem læknar halda hátíðlega upp á. Gamli spítalinn er löngu orðinn of lítill og úr sér genginn eins og við öll vitum. Fyrir löngu var tímabært að huga að nýjum spítala á sem bestum stað og sem gæti sameinað alla bráðastafsemi sameinaðs spítala á einum stað. Eins til að tryggja sem best aðgengi fyrir sjúklinga, bráðaflutninga og sjúkraþyrluflug sem hefur aukist um 66% á sl. 5 árum. Aðflæðis og fráflæðisvandi spítalastarfseminnar hefur aldrei verið jafn mikill og stöðugt yfirflæði á bráðamóttökur, á sama tíma og árlegur niðurskurður hefur verið á fjárveitingum þess opinbera til heilbrigðisþjónustunnar og byggingu hjúkrunarrýma miðað við þörf.

Loks á að fara að hefja framkvæmdir síðar á árinu við byggingu Nýs Landspítala eftir tæplega tveggja ártuga undirbúning sem mjög hefur verið gagnrýndur m.t.t. undirbúningsvinnu og staðarvals. Öllum ætti þó í dag að vera ljóst að Nýja þjóðarspítalanum var valinn kolvitlaus staður á gömlu Hringbrautarlóðinni og sem fyrirséð er að gagnast muni bæði stutt og illa. Hvergi á tregðulögmálið betur við í stjórnsýslunni en hér, enda sjálft Alþingi heilaþvegið þegar það lagði endanlega blessun sína á þennan gamla og úrhelta pólitíska kreppugjörning 2015, og sem var í raun ákveðinn hrunárið 2008.

Þegar við flest kaupum hús eða íbúð, sem við gerum kannski einu sinni á ævinni, viljum við ekki um leið kaupa köttinn í sekknum. Við gerum það a.m.k. ekki vel upplýst. Sama á auðvitað við um hús okkar allra, nýjan þjóðarspítala. Við (þjóðin) ættum auðvitað að vanda vel valið. Ekki aðeins að hluta nýtt hús sem hentar illa, með síðan óheyrilegum kostnaði vegna endurbóta eldra húsnæðis og hættulegu skipulagi m.t.t. umhverfis og aðgengis. Mikill meirihluti starfsmanna og heilbrigðisstarfsfólks veit þetta og vildi því annan og betri kost. Reyndar þjóðin öll og fyrri skoðanakannanir sýna sl. ár. Samt skal „þvinga kaupin í gegn“, sama hvað hver segir og afsalið tilbúið til undirskirftar.

Nú ættum við því að hætta við kaupin. Spýta í lófana og nálgast málið allt með ferskri nútímalegri hugsun. Tafirnar hafa hins vegar kostað sitt og verða að skrifast á umbjóðendur. Nýr þjóðarspítali á nýjum góðum stað þarf hins vegar ekki að taka lengri tíma í byggingu en framkvæmdir sem fyrirhugaðar er í heild sinni nú á Hringbrautarlóðinni og ef hendur verða látnar standa fram úr ermum. Nágrannþjóðir okkar hafa leyst álíka vandamál á 7-10 árum. Huga þarf hins vegar strax að fjármögnun og nauðsynlegum bráðlausnum hvað varðar hjúkrunarrými sérstaklega. Eins að tryggja mönnun heilbrigðisstarfsstétta sem er mesti vandinn í dag og sumar spítaladeildir hálf lokaðar.

Það er löngu ljóst að aðal samgönguás höfuðborgarsvæðisins liggur mikið austar en við fyrirhugað byggingasvæði við Hringbrautina og þar sem auk þess miklu auðveldara og ódýrara er að koma við nauðsynlegum samgöngubótum vegna fyrirséðar aukinnar umferðar í framtíðinni. Mikilvægt er að létta hins vegar eins og kostur er umferðarþungann vestur í bæ. Yfir 90% höfuðborgabúa búa austan Hringbrautar, ekki í kringum eða vestar og ef frá eru taldir túristar og hótelgestir miðborgar Reykjavíkur. Raunverulegir íbúar, mikið austar, sunnar, norðar og í nágrannabyggðum. Af hverju í ósköpunum erum við þá að búa til þetta heimatilbúna vandamál með staðsetningu þjóðarspítalans og sem aðeins einstakar milljónahöfuðborgir heimsins standa frammi fyrir vegna mikils íbúafjölda og skorts á lóðum? Af öllum þjóðum, á Íslandi? Algjörlega fyrirséð stórvandamál í aðgengi sjúklinga og starfsfólks að stærsta vinnustað landsins og einni mikilvægustu heilbrigðisöryggisþjónustunni í framtíðinni. Þangað sem leiðir okkar þó flestra liggur á öllum tímabilum á ævinnar og örlagastundu.

Allt er þetta orðið til vegna vegna einkennilegrar hagsmunagæslu sem unnið hafa að verkefninu á Hringbraut og sem ekki hefur mátt ræða sl. ár opinberlega! Byggt á gjörólíkum plönum og forsendum frá því fyrir aldarmót sem eru löngu brostin og sem voru þó byggð á veikum grunni fyrir. Á síðustu árum ætti hinsvegar flestum að vera vandinn augljós. Skera verður t.d. niður bílaaðgengi að spítalanum um helming og verulegar aðgangshindranir einnig augljósar á sjúkraflutningum. Þrönga spítalalóðin í gamla miðbænum skerðir auk þess heilsusamlegt fallegt nærumhverfi fyrir sjúklinga og starfsfólk sem flestar þjóðir leggja orðið mikla áherslu á, í skipulagi nýrra nútímalegra spítala. Lagnakerfi og skólpmál (sem er okkur sérstaklega ofarlega í huga í dag) tengt spítalanum eru óleyst og dýr úrlausnarefni. Í lítilli miðborg þar sem umferðaöngþveiti veldur þegar miklu þjóðhagslegu tapi vegna umferðatafa og mikilli mengun, flesta daga ársins.

Hagkvæmasti og ódýrasti byggingarmátinn er auðvitað háar byggingar, frekar en ranghalar um allt. Á sem opnustum svæðum og sem truflar sem minnst umhverfið og fyrri starfsemi á byggingartíma. Eins að skapa sem bestu stækkunarmöguleika, rekstrarhagkvæmni og þróun síðar. Hagræði sem samtökin SBSBS hafa reiknað út með sölu eldri eigna, upp 100 milljarða króna og sem gæti jafnvel borgað niður byggingakostnað nýs þjóðarspítala á hálfri öld samanborið nú við útreikninga á framkvæmdakostnaði að lokum við Hringbraut.

Skipulagið á Hringbraut skapar að lokum mikla stórslysahættu við kjarnastarfsemina spítalans vegna staðsetningar á þyrlupalli á 5 hæð þaks rannsóknarhús, á milli allra bygginganna á lóðinni. Það ætti hvert mannsbarn að geta séð og þar sem gera má ráð fyrir þörf á sjúkraflugi nær daglega á 15-20 tonna stórum, a.m.k. 2 mótora þyrlum vegna krafa flugmálayfirvalda og skorts á opnum öryggissvæðum í kringum spítalann. Í öllum veðrum yfir Þingholtið og sem verður ennþá mikilvægara ef Reykjavíkurflugvöllur verður að lokum látinn víkja. Eins stóraukinn ferðamannafjöldi í landinu og slysatíðni a þjóðvegum landsins sl. ár. Algjört sjálfskaparvíti þannig allt saman vil ég segja og að lokum sokkinn kostnaður fyrir þjóðarbúið upp á hundruð milljarða króna og við neyðumst að lokum til að hugsa allt dæmið upp á nýtt. Mál sem virðist hafa verið algjörlega bannað að endurskoða í stjórnsýslunni og fréttabann jafnvel lagt á umfjöllun í ríkisfjölmiðlum sl. ár!!!

Gleðilegt ár kæru lesendur og „Guð blessi Ísland“.  Ættum við nú samt ekki frekar að leggja öll spilin á borðið. Við getum ennþá unnið „þennan leik“. Ræðum málið betur áður en allt verður um seinan og allar fyrri skoðanakannanir sýna yfirgnæfandi þjóðarvilja til. Sá leikur er a.m.k. aldrei tapaður.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn