Sú var tíðin, rétt fyrir aldarmótin síðustu, að Íslendingar fengu yfir sig faraldur fjölónæmra pneumókokka sem lagðist verst á börn og gamalmenni, m.a. alvarlegum lungnabólgum. Flórubaktería sem annars finnst gjarnan í nefkoki flestra barna, en getur valdið algengustu bakteríusýkingum í loftvegum s.s. eyrum og lungum. Nú var hins vegar kominn fjölónæmur stofn sem aðeins sterkustu sýklalyfin virkuðu á og sem gefa þurfti í æð. Vel á annað hundruð barna þurftu þannig að leggjast á sjúkrahús (Barnadeild LSH) til sýklalyfjagjafar og rannsóknir sýndu að allt að 20% barna gátu borið þennan stofn, langmest meðal þeirra sem áður höfðu fengið nýlega sýklalyf á. Faraldurinn vakti heimsathygli og hingað komu fréttamenn frá Norðurlöndunum til að kanna hverju þessu sætti. Vissulega var ekki kjöti eða matvælum um að kenna enda pneumókokkur f.o.f. loftvegabaktería. Mjög mikil sýklalyfjanotkun meðal Íslendinga, einkum barna var talinn vera ástæða að faraldurinn þreifst hér svo vel í um áratug, en þar sem bakterían fjölónæma átti upphaflega rætur að rekja til Spánar (6B spænsk – íslenski stofninn sem síðar var svo nefndur) og sem sennilega hefur borist upphaflega með Íslendingum sem dvöldust við Spánastrendur.
Síðan þetta var eru liðnir tæpir tveir áratugir og síðan var farið bólusetja gegn ákveðnum stofnum þessara pneumókokka, m.a. þeim fjölónæma 6B. Sýklalyfjanotkun okkar hefur hins vegar lítið minnkað og er enn mest meðal Norðurlandaþjóða. Ætla má að aðstæður geti orðið álíka góðar fyrir sýklalyfjaónæma ESBL -colistofnana og jafnvel MÓSA klasakokkana og sem valda flestum sárasýkingum og húðsýkingum meðal manna. Stofnar sem fljótt gætu náð fótfestu í flórunni okkar vegna sýklalyfjaþrýstings frá okkur sjálfum og ef þeir á annað borð berast í okkur, t.d. með matvælum erlendis frá. Lágmark væri því að hefta allt mögulegt smit með hráu kjöti með FRYSTISKYLDU í öllum flutningi og í verslunum landsmanna sem og hertu eftirliti sem nú er rætt um. Smit sýklalyfjaónæmra nærflórubaktería í annars “eðlilegu” og þannig séð “ósýktu” kjöti mun berast. Aðeins er spurning um hversu mikið það verður næstu árin og hvað við viljum ganga langt til að verja lýðheilsumarkmiðin okkar og sterkt heilbrigðiskerfi.
https://blog.dv.is/vilhjalmurari/2018/10/01/islendingar-enn-og-aftur-a-aftasta-bekk-sagan-endalausa/