Dags daglega er þjóðlífið ekki brothætt á Ströndum eins og síðasti pistill ber vel með sér og mannlífið þar afskaplega gott. Brotalamir eru þó í aðgengi að neyðarþjónustu þegar mest liggur við, eins og reyndar víða á landbyggðinni. Jafnvel má stundum tala um afturfarir í því sambandi. Óöryggi sem frekar er til þess fallið að grafa undan vilja að búa úti á landi með t.d. börn, en sem styrkja mætti með góðum og til þess að gera ódýrum ráðum í svokallaðri innviðauppbyggingu stjórnvalda.
Mest hefur verið rætt um átak til vegasamgöngubóta. Hundruð milljarða króna er áætlað í það verkefni samkvæmt vegaáætlun stjórnvalda næsta áratuginn. Með betri vegum um landið minnkar hinsvegar ekki endilega slysatíðnin í réttu hlutfalli við framkvæmdir. Reyndar, sem búast má frekar við næst þéttbýliskjörnum, sérstaklega á sjálfu höfuðborgarsvæðinu og þar sem miklar umferðartafir eru daglegt brauð og umferðarþunginn á vegakerfinu allt of þungur. Aukin umferð, meiri hraði ökutækja og stórauknar rútuferðir með túrista um allt, auk sívaxandi aukning vöruflutninga landveginn, skýrir spá um aukna slysatíðni á landsbyggðinni. Samfara aukinni umferð á þjóðvegunum þarf því a.m.k. samsvarandi innviðauppbyggingu er varðar alla öryggisþætti, en þar sem búið hefur verið við nánast óbreytt ástand sl. áratugi. Í löggæslu, heilbrigðisþjónustu og er varðar aðra bráðaþjónustu sem skilin hefur verið mest eftir á herðum hjálparsveita og sjálfboðaliða að sinna. Og allar flugsamgöngur innanvands miklu ótryggari!
Flugsamgöngur og möguleikar til sjúkraflugs sem landbyggðin treysti víða á hér áður fyrr, er víða ekki lengur til staðar. Innviðarfénu sem verja á nær eingöngu til malbiks og steinsteypu er því illa varið ef undan verða skildar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja mannlegt öryggi á landinu öllu. Ákvarðanir sem skýrist oft af sérhagsmunum sveitafélaga og pólitískum hrossakaupum þingmanna á milli á Alþingi. Staðsetning nýja þjóðarspítalans á Hringbraut með stórkostlega skertu aðgengi og sveltar samgöngubætur í og næst höfuðborginni eru skýr dæmi um þá sérhagsmunagæslu sem átt hefur sér stað í sjálfri höfuðborginni. Þar sem sokkin kostnður getur að lokum numið hundrum milljarða króna og hugsa þarf allt dæmið upp á nýtt.
Læknishéraðið á Ströndum spannar vel yfir hundrað kílómetra í allar áttir. Um er ræða 500 – 800 km. akstur ef keyra þarf í vitjun víða upp í sveit og með sjúklinginn síðan suður á Akranes eða til Reykjavíkur. Svo er auðvitað að koma sér til baka til Hólmavíkur sem fyrst. Slíkir sjúkraflutningar voru yfir 68 talsins í fyrra og tók hver og einn að meðaltali um 6-7 klukkustundir (dæmi er um að vitjun, sigling í sumum tilvikum og akstur taki allt yfir sólarhring). Samtals fóru um 1200 klukkustundir í akstur sjúkraflutningsmanna í fyrra fyrir Strandabyggð.
Aðeins einn læknir er á öllu svæðinu, oftast einn hjúkrunarfræðingur og einn sjúkrabíll sem er orðin gamall. Ef læknir fer með sjúkrabílnum suður, er héraðið skilið eftir læknis og sjúkrabílalaust á meðan. Áttatíu kílómetrar eru í næstu hjálp frá Búðardal. Vegna legu þjóðvegarins norður til Ísafjarðar yfir Þröskulda (og inn í Steingrímsfjörð), getur læknir á Hólmavík þurft að sinna Reykhólahreppi í slysum. Síðan allt Innra Ísafjarðardjúp, Steingrímsfjarðarheiði, Árneshrepp og Suðurstrandir á móts við læknana á Hvammstanga auk Standabyggðar á Hólmavík, Drangsnesi og í Bjarnarfirði. Enginn flugvöllur er lengur nothæfur fyrir svæðið á Hólmavík og sem ekki hefur fengið neitt viðhald sl. tvo áratugi, jafnvel þótt reisuleg góð flugstöðvarbyggingin standi enn við flugbrautina. Þrír flugvellir í Djúpinu voru eins áður nothæfir til sjúkraflugs, en eru það ekki lengur. Eini nothæfi flugvöllurinn í sýslunni er á Gjögri norður í Árneshreppi, í yfir 100 km fjarlægð frá Hólmavík og vegurinn þangað oft illfær og ófær á veturna.
Á sumrin margfaldast akstur í Strandabyggð og nálgast ökutækin að vera um 2000 á degi hverjum og yfir langa vegkafla að fara. Mikill fjöldi útlendinga fer um á bílaleigubílum allt norður í Árneshrepp, langt fram á haust. Miklir vöruflutningar m.a. með frystan fisk frá Ísafirði er um héraðið. Má áætla að fjöldi vöruflutningabifreiða með jafnlanga tengivagna fram og til baka sé um 30 bílar á dag og heildarlengd með vögnunum þá um hálfur kílómeter. Samsvörun þannig við sundurslitna járnbrautalest á þjóvegunum okkar við öll möguleg veðurskilyrði. Til viðbótar er síðan vaxandi fjöldi rútubifreiða og sem hefur reynst stærsta stórslysaógnin á þjóðvegum okkar á Íslandi í dag. Allir sjá a.m.k. hvaða slysahættu allur þessi akstur ber með sér á Ströndum.
Ónógt umferðaöryggi á þjóðvegunum okkar er eitt ótryggasta og alvarlegasta heilbrigðisvandamál Íslands. Eins ásættanlegur aðgangur að nauðsynlegri neyðarhjálp, ekki síst ef hópslys verða. Hins vegar er verið að reisa nýjan þjóðarspítla á Hringbraut í höfuðborginni með nýrri fullkomnri bráðamóttöku slasaðra og veikra (í nýjum meðferðarkjarna). Ættum við þá ekki a.m.k. að huga að hinum enda heilbrigðisþjóðbrautar okkar og tryggja aðgang að henni, bæði á landi sem og með sjúkraflugi hverskonar. Þyrlukostur LHG (2-3 þyrlur) er meira og minna sá sami og verið hefur í áratugi. Hjálp sem hingað til hefur bjargað hvað mestu í alvarlegustu sjúkraflutningunum á Ströndum hin síðari ár og þyrlan gat komið vegna anna og veðurskilyrða.
Aðal forsendur almennns sjúkraflugs og sem er oftast miklu hagkvæmara og léttara að sinna en með þyrluflugi LHG, er auðvitað nothæfur flugvöllur á Hólmavík. Mannvirki sem gengdi einnig lykilhlutverki í loftbrú suður ef hópslys verður í héraðinu. Um þessa öryggisþætti og aðrar hópslysaáætlanir í héraðinu ætlum við öryggisaðilar á Hólmavík að ræða við fulltrúa Lögreglustjórans á Vestfjörðum að þeirra beðni í næstu viku.
Einfaldasta, skjótfengasta og mikilvægasta lausnin eins og ég og fleiri sjáum hana, er að lagfæra gömlu flugbrautina og malbika hana. Og svo ætti auðvitað að bæta sjúkrabílakostinn og hafa helst tvo bíla til taks (einn til vara). Eftir sem áður verðum við samt að treysta á björgunarsveitirnar í sjálfboðavinnu þegar stórslysin verða og sem ríkisvaldinu ber auðvitað að styrkja myndarlega í sinni áætluðu innviðaruppbyggingu á landsbyggðinni til framtíðar.