Laugardagur 04.04.2020 - 17:11 - FB ummæli ()

Er kvef sóttnæmt?

Í tilefni af „kvefveirunni“ Covid19 og þegar heimurinn okkar fór á hliðina, 2020, köldum vetri á Íslandi í ár og nú slæmrar veðurspáar um helgina, endurrita ég hér grein Jónasar Jónassen landlæknis úr alþýðutímaritinu Eir, nánar tiltekið nóvemberheftinu 1899. Dreifbýlið og kaldar aðstæður hér á landi þurfa þannig alls ekki alltaf að vera ókostir. Jafnvel heldur miklu frekar kostir og ávinningur í heimfaraldri kvefveira!

Það er kunnug, að kvef er hér á landi gamall gestur og hann er oft á ferðinni víðsvegar um land og þykir heldur leiðinlegur gestur. Gesturinn fer alls ekki í manngreinaálit, hann kemur við bæði hjá ríkum og fátækum, ungum og gömlum, fullorðnum og börnum. Stundum er kvefið vægast sagt hálf illkynjað. Er óþarfi að lýsa því, því flestum er kunnugt hvernig það yfirleitt hagar sér.

Flestum er kunnugt að þegar einhver á heimilinu fær kvef, þá er það algengt að fleiri af heimilisfólkinu fái það. Jafnvel þeir sem alls ekki hafa farið út úr húsi. Heyra menn þá oft sagt: „Ég skil ekki í því, að ég skuli hafa fengið kvef, ég sem ekki hefi hreyft mig úr húsinu“. Þess skal getið, að hér er ekki átt við „Influenza“.

Í merku ensku tímariti (Spectator) er greinarkorn um kvef og segir svo: Líklegt er, að einhver smá ögn (baktería) sem veldur kvefinu, og að maður fái kvefið nema af því að þessi smáögn hafi borist inn í mann, en kvefið komi alls ekki af því að slegið hafi að manni eða manni orðið kalt. Heimskautafarinn norski Nansen og félagar hans fengu aldrei kvef, meðan þeir voru á ferð sinni í norðurhöfum og var þó kuldinn og vosbúðin meiri þar, en menn geta ímyndað sér. Þegar þeir félagar fóru langar leiðir fótgangandi og svitnuðu, frusu fötin utan á þeim, svo nærri lá að allt yrði seinn stokkur og þiðnaði ekki á þeim fyrr en þeir voru búnir að fara í svefnpokana sína og þíða utan af sér. En aldrei bar á því að þeir fengu kvef. En undir eins og þeir komu heim til Noregs, fengu þeir allir kvef. Þótti Nansen þetta undarlegt og taldi það óefað, að kvefið væri sóttnæmt. …..

Húsdýr vor verða oft kvefuð, og er vér veitum þeim athygli virðist og ástæða til að ætla að kvefið sé næmt. Það eru einkum kettirnir, sem mjög er hætt við því og bera þá veikina í heimilisfólkið. Það er og til gamalt orðtæki er segir: „Þegar kisa er kvefuð, fá allir á heimilinu kvef“. Sauðkindin kvefast og oft og sjáum vér oft að heil hjörð er kvefuð meðútbrotum um snoppuna líkt og á sér stað á kvefuðum mönnum.Hestar eru og mjög kvefsælir. Það er almenn trú þeirra sem hirða hesta, að ef hestur hefir gengið úti, og hann er svo látinn í hús, þar sem eru aðrir hestar fyrir, þá verði hann kvefaður.

Greinarhöfundur (Spectator) endar grein sína með þessum orðum: „Bein afleiðing af þeirri hugsun að kvefið orsakist af kulda, súg og vosbúð, er sú að menn af ótta fyrir þessu fara sér svo varlega og eru að dekra við sig.“ Þetta gerir menn lingerða og bleyðulega, svo þeir þola engan kulda eða óblítt veður og það sem verst er, þeir forðast gott loft og eru inni í húsum þar sem enginn eða lítil loftbreyting getur átt sér stað.“…..

Ætli við nokkrum sinni getum komist með öllu hjá kvefi? Það eru líkindi til að svo geti orðið. Bakteríufræðingar eru vissir að komast að, hver ögnin er og þeim er trúandi til að fræða oss um það, hvernig við eigum að varast hana.

Þetta, sem nú hefir verið sagt, er aðalefnið í grein þeirri sem ég gat um. Sé svo, að telja megi kvefið til sóttnæmiskvilla, þá má vel vera að greinarhöfundurinn sé á réttri leið. Enn sem komið er, þekkja menn eigi þá ögn eða bakteríu, sem hér ætti að eiga hlut að máli. En Influenza-bakteriunna þekkja menn. (J.Jonassen)

Hólmavík 4.apríl 2020

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Menning og listir · útivist

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn