Miðvikudagur 05.02.2020 - 18:13 - FB ummæli ()

Mikilvægi fræðslu til foreldra um skynsamlega notkun sýklalyfja – flensur og miðeyrnabólgur

Hólmavík 5.2.2020

Í flensufaröldrum eins og nú stefnir í, eykst notkun sýklalyfja mikið, eða yfir 50%. Oftast er um að ræða notkun vegna hræðslu um bakteríusýkingar eins og miðeyrnabólgu barna, kinnholusýkingar og jafnvel lungnabólgur. Bakteríusýkingar eru vissulega auknar líkur að fá eftir flensur, en þar sem sýklalyf gagnast ekkert ef aðeins er um veirusýkingu að ræða. Margar vægar bakteríusýkingar í efri loftvegum læknast auk þess að sjálfu sér. Almennt er talið að um að 70% sýklalyfjanotkunar meðal manna sé óþörf.

Nú í öllu þessu tali fjölmiðla um pestir, rifjast upp 9 ára gamall pistill hér á Eyjunni, Sjón er sögu ríkari. Um stórbætta greiningaraðferð og hjálp í ákvörðun um meðferð á algengasta “náttúrulega” heilsuvanda íslenskra barna og sem foreldrar ættu að þekkja betur til. Miðeyrnabólgunnar. Við viljum verjast smitsjúkdómunum með skynsamlegum ráðum, en ekki með offörum og ofmeðhöndlunum sem skapar framtíðinni miklu meiri vanda en efni standa til.

Aldrei hafa áhyggjur heilbrigðisyfirvalda flestra þjóða verið jafn miklar og sem varðar vaxandi sýklalyfjaónæmi sýkingavalda mannkyns vegna ofnotkunar sýklalyfja meðal manna og í landbúnaði. Einms síðan útbreiðslumöguleikum þeirra, jafnvel milli landa. Sérstaklega meðal sýkingarvalda sem teljast til sameiginlegrar flóru manna og dýra. Vandamál sem Alþjóða heilbrigðisstofnunin WHO skilgreinir sem mestu heilbrigðisógn framtíðarinnar og þegar sífellt færri sýklalyf duga á algengar, en oft alvarlegar sýkingarnar eins og t.d. lungnabólgur. Því þarf að vanda til verka og nota nú sterkustu vopn læknisfræðinnar, sýklalyfin, af meiri skynsemi svo þau hætta ekki að bíta. Alls ekki sem skyndilausn og að læknar og sjúklingar kaupi sér ekki tryggingu af tilefnislausu, eða a.m.k í miklu meira mæli en efni standa upphaflega til.

Allar alþjóðlegar klínískar leiðbeiningar um meðferð miðeyrnabólgu barna í dag gera ráð fyrir að beðið sé með sýklalyfjameðferð, nema einkennin séu slæm. Hvatt er til verkjastillingar eftir þörfum, fræðslu og eftirliti með einkennum. Skilningur foreldra á er aðal málið. Vandamálið hér á landi hefur einmitt verið vöntun á fræðslu í upphafi og boð um eftirlit í heilsugæslunni. Flest veik börn á höfuðborgarsvæðinu eru skoðuð á skyndivöktum, á kvöldin og um helgar. Klínískar leiðbeiningar mælst hins vegar til að börnin séu frekar skoðuð á daginn í heilsugæslunni og þar sem hjúkrunarfræðingar geta jafnframt verið með í ráðum og gefið upplýsingar. Á vöktum úti í bæ getur oft verið fljótlegasta og auðveldasta leiðin að grípa til sýklalyfja, svona til öryggis! Afleiðingarnar með tímanum eru hins vegar alvarlegar. Mikil og óþarfa sýklalyfjanotkun leiðir til aukins sýklalyfjaónæmis helstu sýkingavalda eins og áður segir og sem íslendingar hafa svo sannarlega reynslu af. Breytir þar engu um þótt við bólusetjum nú börnin okkar gegn nokkrum þeirra (frá 2012 t.d. með bóluefni gegn nokkrum algengum stofnum pneumókokka).

Heildarsýklalyfjanotkun barna undir 4 ára aldri hefur aðeins minnkað um 10-15% sl. áratug, þrátt fyrir töluverða umræðu og nýjar bólusetningar. Enn í dag er hún helmingi meiri hér á landi en t.d í Svíþjóð og þótt við séum aðeins farin að þrengja sýklalyfjavalið. Í 70% tilefna er sýklalyfjanotkunin vegna miðeyrnabólgu, en sem samt lagast oftast af sjálfu sér!! Meðferð sem um leið eykur líklega hættu á endurteknum eyrnabólgum síðar og margfaldar hættu á að börn smitist af sýklalyfjaónæmum bakteríustofnum úr nærumhverfinu og sem smita síðan önnur börn t.d. í leikskólunum.

Sú tækni sem auðveldar skilning foreldra í sjúkdómsgreiningu miðeyrnabólgunnar og eins í eftirliti, er rafræn myndataka af miðeyrnabólgubreytingunum (breytingum á hljóðhimnunni) og sem bera má saman frá einum tíma til annars og milli lækna. Eins er varðar vökva og aðrar bólgubreytungar í miðeyrum yngra barna og sem er aðal ástæða röraísetningar í hljóðhimnur hjá allt að þriðjungi barna á Íslandi í dag og sem sennilega er heimsmet. Myndirnar mætti senda á milli staða, eins og t.d. frá Læknavaktinni og Barnalæknavaktinni til heilsugæslunnar eða að þær séu vistaðar beint inn í tölvusjúkraskrá sjúklings.

Sjálfur hef ég haft slíkt tæki til umráða sl. áratug, m.a. til að kynna á heilsugæslustöðvum. Málið var einnig til kynningar fræðadögum heilsugæslunnar fyrir áratug síðan. Takmarkaður áhugi hefur hins vegar verið á tækninni (tekur smá tíma frá lækninum með foreldrum til að útskýra í byrjun) og heilbrigðisyfirvöld hafa ekki sýnt málinu neinn áhuga. Tækið sjálft kostar samt ekki nema eins og ein góð myndavél. Myndin hér að ofan er tekin af skrifborðinu mínu á Hólmavík í dag!  Myndavélina geta allir á fjölmennari stöðvum notað og hægt er að tengja hana við hvaða fartölvu sem er og jafnvel snjallsíma. Ódýrt tæki sem gagnast vel í greiningu og ákvörðunum um meðferð á algengasta heilsuvanda barna.

Og hvaða foreldri vill ekki fá að sjá hvernig eyrnabólga barns síns lítur út á rafrænni mynd, sérstakalega þegar til greina kemur að bíða með sýklalyfjameðferð (vægar breytingar) og sjá hvernig hún þróast á næstum dögum. Þessi tækni gefur einstakan kost á sameiginlegri þátttöku sjúkling (foreldris) og læknis í ákvörðunarferli hvort meðferð sé nauðsynleg. Eins útskýringum á ástandi sem fylgir þroskastigi barna og pestagangi. Sterkt nútímavopn til að koma í veg fyrir ofmeðhöndlun á miðeyrnabólgum með sýklalyfjum í dag.

Sjá má kynningu um tækið (myndavélina) frá framleiðenda hér.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn