Föstudagur 10.04.2020 - 18:35 - FB ummæli ()

Hús læknanna

Hólmavík, páskar 2020

 

Ekkert er betra en eiga góða fjölskyldu, góðan samanstað og gott nábýli við nágrannana. Er nú læknir á Hólmavík tímabundið yfir páskana eins og svo oft áður sl. rúma tvo áratugi. Nú á tímum Covids-heimsfaraldurs, en þar sem allir þekkja alla svo vel. Líka þann sem hefur barist fyrir lífi sínu vegna covidsýkingar og bjó hér ekki fyrir svo löngu síðan og börnin léku sér saman í görðunum. Ekkert smit hefur samt sem betur fer komið upp á Ströndum, á sama tíma og stormurinn hefur leikið illa íbúa og heilbrigðiskerfið aðeins norðar á fjörðunum.

Norðan hríðarbylur var samt um síðustu helgi, svona einn venjulegur, og veturinn virðist ekki vilja sleppa takinu. Aldrei í raun verið minna um útköll vegna slysa og ferðamennsku og allt eins og hálf frosið, nema það sem sólin nær að bræða yfir hádaginn. Hjartahlýja og birta samt frá íbúunum, sem maður skynjar meira en í sögðum orðum. Tilfinningar margra tengdar yfirvofandi hamförum. Ótímabærum dauðsföllum jafnvel af völdum veiru og sem áður fyrr var aðallega tengd sjónum, veðuröflunum og slysum. Í dag stórhættulegri veirusýkingu sem flæðir um alla heimsbyggðina með mannfólkinu sjálfu og nánum samskiptum. Skrýtnir tímar og fólk sjaldan eins berskjaldað fyrir ógnum lífsins, einkum gamla fólkið. Í rótgrónu sveitasamfélagi á Ströndum þar sem meðalaldur íbúa er hvað hæstur á landinu og fólk vant að standa saman þegar mest liggur við. Í dag sem fjærst frá hvort örðu og læknirinn jafnvel einn í sínu húsi líka.

Í rúma tvo ártugi hef ég fengið að kynnast allt annarri læknisfræði og nálgun í mannlegum samskipum en ég hef annars átt að venjast í mínum daglegum störfum í höfuðborginni. Á Bráðamóttöku Landspítalans nánar tiltekið hin síðari ár. Veruleiki sem er eins ólíkur og hugsast getur, en samt með sömu taug, læknisfræðina. Tveir veruleikar með sínum ólíku kostum og göllum. Álagið svo ólíkt, en jafn nærandi engu að síður og mannbætandi á sinn ólíka hátt. Stöðuleiki í fámenni, en þar sem alltaf má samt búast við því óvænta. Oft ævintýralega og fáa að treysta á nema sjálfan sig. Þegar tilefni og margar úrlausnir verða að sögum. Á hinum staðnum, höfuðborginni, oft óendanlegt flæði vandamála og mestu máli skiptir klínísk reynsla og að geta unnið hratt og örugglega og skrá allt í sjúkrasöguskránna. Vinnustaðir sem bæta hvorn annan upp fullkomlega og þar sem jafnvel hvíldin mælist mest í tilbreytingu og ólíkri reynslu. Kynni á ólíkum staðháttum og þegar maður fær svo tækifæri að taka púlsinn á nærsamfélaginu sjálfu, á Ströndum.

Við erum nokkrir læknar sem skiptumst reglulega á að leysa hvorn annan af á Hólmavík. Fámennt hérað en stórt og sem nær meira en hundrað kílómetra í norður, suður og jafnvel vestur. Aðeins hægt að treysta á samgöngur landveginn suður og þyrlusjúkraflug, nema í Áneshreppi á Gjögri þar sem er ágætis flugvöllur og þegar flugfært er. Í fámennasta og afskekktasta byggðarlagi landsins og ófært keyrandi stóran hluta vetrar. Ein sjúkralegudeild aldraða fyrir héraðið á Hólmavík, auk heilsugæslunnar. Einn sjúkrabíll og nú enginn hjúkrunarfræðingur! Þjóðleiðin norður til ísafjarðar liggur um Djúp og yfir Steingrímsfjarðarheiði. Oft mikið af ferðafólki, nema akkúrat núna.

Fyrst leysti ég af fyrir Sigfús Ólafsson heitinn sem þá var hér fastur læknir í héraðinu og síðar Guðmund Sigurðsson heitinn. Frábærir héraðslæknar á sinn ólíkan hátt og sem íbúar báru mikla virðingu fyrir og treystu. Andi þeirra svífur ennþá yfir og læknabústaðurinn sá sami, sem og vissir húsmunir. Gömlu landakortin líka sem eru orðin ansi snjáð. Sigfús var ötull íþróttamaður. Hvatti alla til hreyfingar og kom upp dagbók í Kaupfélagi Strandamanna þar sem íbúar kvittuðu fyrir sinn daglega göngutúr. Upp á sjónvarpshæð ofan við Skeljavík t.d. Stofnaði gönguskíðafélag Strandamanna og beitti sér fyrir lagningu golfvallar og stofnaði golfklúbb. Guðmundur tók við keflinu eftir hann og naut virðingar sem mikill mannvinur, góður læknir, fræðimaður og áður brautryðjandi í hönnun sjúkraskráskerfisins Sögu og sem enn er notað í öllu heilbrigðiskerfinu.

Nálgun þeirra á vandamálunum og virðing fyrir sjúklingum, er sá andi sem þeir báðir skildu eftir fyrir okkur hin. Æðruleysi fyrir því sem við getum ekki ráðið yfir og tímanum. Langar sjúkravitjanir vegna veikinda og slysa. Sinna öllu sem læknir þarf að sinna ásamt hjúkrunarfræðingi, sjúkraliðum og sjúkraflutningsmönnum sem og öðru starfsfólki. Sjúkrahúsinu og eftirfylgd langvinna og oft flókinna veikinda sjúklinga með stuðningi sjúkrastofnana fyrir sunnan. Fjórðungssjúkrahússins á Akranesi eða Landspítalans. Sérfræðingum og klíníkum í Reykjavík. Björgunarsveitinni þegar mest á reynir við erfiðustu aðstæðurnar. Tíminn virðist annars standa í stað og starfsumhverfið nánast það sama. Fólk bara eldist og við læknarnir líka með.

Aldrei kemur maður samt eins vel undirbúinn fyrir Bráðamóttökuna og eftir dvöl norður á Ströndum. Eftir dvöl í húsi læknanna og samtöl við samstarfsfólkið, sem er sérstaklega mikilvægt þegar ekki einu sinni fjölskylda læknisins kemst norður. Stundum vegna slæmra veðurskilyrða, en nú vegna ferðabanns og veirustormsins í samfélaginu. Þar sem þá samt góður tími gefst til að hugsa um lífið og tilveruna. Rafræn samskipti látin nægja, tímabundið. Bæta þolið í göngutúrum upp í Kálfanesborgirnar. Taka jafnvel ljósmyndir og njóta stórbrotinnar náttúru á Ströndum. Núvitund í sinni fullkomnustu mynd með alla söguna að baki. Þakklátt starf í sveitinni og þar sem málið snýst um að vera alltaf tilbúinn. Kannski svolítið eins og var í gamla daga. Sögur sem maður þarf helst að fá að lifa, en ekki bara lesa um, til að skilja.

Covid19 faraldurinn nú mun engu að síður væntanlega leggja áherslu á bakvarðarsveit fyrir sveitina. Eins bætt aðgengi í sjúkraflutningum og þar sem ekkert sjúkrahús er á staðnum til að leggja inn á og langan veg að fara. Áform eru þegar um hjálp með sjúkraflutninga frá Akranesi (HVE). Nýir óvissutímar næstu misserin, en vonandi að andinn í læknabústaðnum og meðal samstarfsfólksins á sjúkrastofnuninni, endist vel og lengi.

-Gleðilega páska-

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn