Mánudagur 13.04.2020 - 21:58 - FB ummæli ()

„Það má ekki láta oss standa uppi með ótendraða lampa eins og óforsjálu meyjarnar“ – Eir árið 1900

 

Sagan kennir okkur margt og farsóttir ekki nýjar af nálinni. Inflúensa, bólusótt, taugaveiki og barnaveiki, ásamt berklum og holdsveiki voru allt að því hversdagsleg vandamál hér áður fyrr. Fátækt, hungur og lélegur húsakostur ásamt náttúruhamförum, fylgdi auk þess þjóðinni fram á 19. öldina. Hef nokkrum sinnum áður vitnað og haft eftir texta úr greinum úr Alþýðutímaritinu Eir sem gefið var úr 1899 og 1900. Lestur þessara greina koma manni oft mikið á óvart, auk þess að geta verið skemmtilegar. Skilningur og grundvallaratriði sóttvarna var ekki ólíkur sem er í dag, rúmri öld síðar. Góður skilningur í ónæmisfræði, þótt menn vissu ekki um tilvist veira og bakterían nýuppgötvuð undir smásjá. Bólusetningar gagnvart stórubólu t.d. verið viðhafðar upp úr aldarmótunum 1800, sem ónæmisaðgerð með kúabóluvessa, flutt til landsins í innsigluðum lyfjaglösum. Prestar bólusettu og merktu við í kirkjubækurnar sínar. Allir hjálpuðust að á fyrstu öld læknisfræðinnar hér á landi og aldrei hafa verið gerð jafn stór lýðheilsuátök.

Fyrir aldarmótin 1900 var farið að beita blóðvatnslækningum, þótt menn vissu ekki nema þá staðreynd, að þeir sýktu skánuðu og veiktust síður strax aftur. Dýr notuð til að framleiða blóðvatn fyrir manninn með þá mótefnum sem þau mynduðu og sem nota mátti til lækningar á nýsmitaðnn sjúkling. T.d. vegna svartadauða eða barnaveiki. Slík lyfjaglös með blóðvatni gegn barnaveiki var þannig flutt til Ísland fyrir aldarmótin 1900, þótt ekki séu til staðfestar heimildir að blóðvatnið hafi síðan verið notað. Sömu grundvallaratriðin sem viðhafðar eru stundum í dag og engin bóluefni eða virk lyf eru til. Aðferð sem var síðast notuð í völdum tilfellum Ebolu-sjúklinga um árið og nú jafnvel gerðar gegn Covid19 smiti.

Menn skildu hjarðónæmi reyndar undir öðru orðalagi; sem „ósnortin eða snortin jarðvegur til að geta smitast í eða ekki“, og sem jafnvel bandaríkjaforseti hefur átt erfitt með að skilja. „Sweden did that, the herd, they call it the herd“. Aldrei hefur samt skilningur á hjarðónæmi verið mikilvægari á seinni tímum, og einmitt nú og þegar aðeins lítill hluti samfélagsins hefur tekið smit, jafnvel aðeins < 2% og 60-70% smithlutfall þarf til að skapa gott hjarðónæmi. Hugtak sem byggist mest á því að þeir sem tekið hafa smit eða eru bólusettir, myndi einskonar varnarmúr fyrir hina ósmituðu.

Hér fyrir neðan verður gripið niður í grein Guðmundar Magnússonar læknis um Svarta dauða (yersinia pestis) í Eir árið 1900. Sleppt er kaflanum um farlaldsfræðina fyrri alda, en sem engu að síður er merkileg heimildaskráning en lesa má nánar um líka á t.d. Vísindavefnum, uppfærður til nútímans. Ýmislegt hljómar samt kunnunglegt í greinnin í Eir, samanborið við fréttaumfjöllun dagsins um Covid19, ekki síst er varðar aðgerðir í sóttvarnamálum, sóttkvíamálum og að það sé eins gott „að hlýða þríeykinu“. Eins vöntun á nothæfum lyfjum sem barist er um erlendis og erfitt að fá til landsins, sem og kröfur um betri aðbúnaði í heilbrigðiskefinu fyrir þá sjúku. Orðalag íslenskunnar í þessum greinum í Eir er hins vegar oft skáldlegt, en lýsingar skrifaðar af næmni og nákvæmni, svo almenningur skilji.

Svarti dauði

Einhverjar hinar mestu raunir sem Ísland hefur ratað í fram að þessum tíma (árið 1900), eru plágur þær hinar miklu er gengu yfir landið á 14. öld.

Jón Espólín segir svo frá í árbókum sínum að fyrri plágan, „plágan mikla“ hafi komið út hingað sumarið 1402 með Hvala-Einari Herjólfssyni; barst sótt með skipi hans í klæði og færðist út óðfluga. Tók hún menn svo geyst í fyrstu að „þeir lágu dauðir innan þriggja nátta“ Síðar virðist sem veikin hafa orðið nokkru minna bráðdrepandi og var eignað bænahaldi og áheitum, en ekki minnkaði manndauðin að heldur því að „víða aleyddi bæi, en fólk var ekki sjálfbjarga eftir í mörgum stöðum, það er lifði, og þó 12 eða 15 færri með einn til grafar eða tvo í fyrstu, komu stundum ei nema 4 eða 5.“

Sóttin hélst næstu tvö árin tvö og varð hennar sóðast vart um páska 1404. Hyggur Epsolín að tveir þriðju hlutar landsmanna muni hafa dáið úr sóttinni, og má marka, hve manndauðinn hafi verið mikill að því, að „ekki lifðu eftir nema 3 prestar norðanlands, 2 djáknar og bróðir á Þingeyjum“ og lifðu varla 50 prestar í öllu Skálholtsbiskupsdæmi. Þetta nægir til að sýna hve feykilegur manndauðinn hafi verið, en hitt er erfiðara að gera sér rétta hugmynd um hve stórkostleg áhrif slík mannfækkun, tvisvar á sömu öldinni (15 öld) hafi haft á hagi manna andlega og líkamlega.

Eingin skrif hafa fundist , þau er lýstu einkennum þessarar drepsótta. Um það er ekkert talað nema það eitt, hve bráðdrepandi þær voru. Það virðist svo sem menn hafi eins kallað þær „plágurnar“ fyrst framan af, en síðan fóru menn að kalla þær svartadauða, að minnsta kosti fyrri pláguna og hafa menn líklega tekið það nafn eftir útlendingum, fremur en að nafnið bendi á nokkurt einkenni veikinnar.


„Plágan seinni“ kom hingað 90 vetrum síðar. Hún tók land í Hafnarfirði um sumarið 1493 og hafði fluttst þangað með enskum kaupmönnum. Færðist sóttin um landið allt, nema Vestfirði og hélzt við næstu tvö árin með ógurlegum manndauða. Espólín segir svo frá „að þá eyddust bæir nálega um allar sveitir vestur að Gilsfirði og var víða að ei lifðu eftir fleiri en tveir eða þrír, sumstaðar ungbörn, og sugu mæður sínar dauðar er til var komið. Frá Botnsá og að Hvammi í Kjós lifðu eftir sveinar tveir, ellefu vetra og var enginn jafnaldri þeirra í öllu Kjalarnesþingi…ei lifðu fleiri en tvö eða þrjú af átta systkynum eða níu…. Að mörgum kirkjum voru á hverjum degi grafnir 3 eða fjórir í senn, og þó sex eða sjö færi með þeim til grafar, komu ei aftur nema þrír eða fjórir; hinir dóu á leið til eða frá og fóru sjálfir í þær grafir, er þeir grófu öðrum. Konur sátu dauðar með skjólum sínum undir kúm á stöðlum, eða við keröld í búrum“. Á Norðurlandi aleyddi suma hreppa „og dóu prestar flestir og lærðir menn, svo ei voru eftir nema tuttugu prestar og varð hver að þjóna fimm, sex eða sjö kirkjum.


Það ræður að líkindum, að menn hafi reynt að renna grun í orsakir til svo mannskæðar drepsóttar sem pestin er, og töldu menn líklegt sem ólíklegt. Sumir töldu hana refsidóm guðs. Aðrir eignuðu hana óhreinu lofti og kendu um jarðskjálftum miklum, sem víða voru um svipað leiti og farsóttin mikla á 14. öld. Það vottar fyrir þeirri trú á Íslandi að svartidauði hafi komið af óhreinindum í loftinu í munnmælasögum um móðu, sem lá í sveitum niðri meðan sóttin geysaði , en hvarf um leið og sóttin þvarr. Auðvitað tóku menn snemma eftir því að sjúklingar gátu smitað heilbrigða, en þóttust ekki geta gert sér skiljanlegan allan gang veikinnar, á þann hátt einan. Nú loks í þessari síðustu farsótt, sem enn stendur yfir, hafa menn fengið fulla vissu um að pestinni veldur baktería, og að sóttin er því næm, en að loftið veldur engu um beinlínis, nema þessi baktería sé í því. Enn fremur hafa menn komist að raun um, að pestin tekur ekki aðeins menn, heldur og sum dýr, og eru rottur og mýs þar fremstar í flokki, og þykir mega fullyrða að þessi dýr geta áorkað miklu um ferðalag veikinnar, og að þau sýkist víða á undan mönnunum, en sóttin berst frá hræum þeirra. Á þennan hátt verður ýmislegt skiljanlegt um ferðir hennar og flutningi úr einum stað í annan, t.d. með skipum, enda þótt enginn veikist af skipshöfninni, og var það áður eignað spillingu loftsins eða öðru fráleitara. Auk þess getur hún borist með fötum og öðrum varningi.

Einkenni veikinnar eru mjög margvísleg; hún kemur fram í mörgum myndum og er því oft örðugt að þekkja hana í fyrstu, enda hefir það verið víða svo, til þessa, að læknar hafa ekki getað áttað sig á eðli veikinnar í fyrstu sjúklingunum.

Óræktækasti vottur um pest er pestarbakterían, en það er bæði seinlegt og vandamikið að búa svo í haginn, að bakterían náist og verði aðgreind frá öðrum, enda ekki hættulaust að fást við þess konar rannsóknir, því þær geta orðið til þess að sóttin berist víðar og verður því að gera þær með sérstökum varúðarreglum og tilfæringum í húsum, sem til þess eru ætluð, og er það ekki á allra meðfæri. Þegar veikin er farin að færast út, er hún jafnaðarlegast auðþekkt. Oftast líða 5 dagar frá því sjúklingurinn smitast þangað til veikin brýst út, stundum skemur, stundum lengur, líklega aldrei meira en 10 dagar. Það er langt tíðast að veikin byrjar með megnri hitasótt, eða hita og köldu á víxl, oft skjálfta og höfuðpínu, uppsölumm beinverkjum. Þorsti er mikill, æðin tíð og lin. Svefnleysi, ringl eða óráð. Allt þetta eru afleiðingar hitasóttarinnar og er því ekki einkennilegt fyrir pest, en á meiri hluta þeirra sem sýkjast bólgna eitlarnir, ýmist víðs vegar eða ekki nema einn eða tveir, og verða aumir viðkomu. Ef sjúklingarnir lifa nokkra daga, grefur oftast í einum eitli, og einna oftast í lærkrika, sjaldnar í handkrika eða á hálsi.

Á sumum sjúklingum ber ekkert á eitlabólgu, stundum vegna þess, veikin er svo svæsin, að hún banar áður en bólgan kemur, stundum af því hún er svo væg að hitasóttin og blóðeitrunin eru á lágu stigi. Stundum leggst hún mest á lungun og veldur lungnabólgu með blóðkorgi í hráka, og gætir þá eitlabólgu oftast lítið. Það er því hætt við að þeim mun bagalegra, sem þessi tegund er hættulegust að því er snertir smittun, því bakteríurnar geta komist í loftið þegar hrákinn þornar og anda þá aðrir þeim að sér og sýkjast á þann hátt. Það er augljóst að almenningi er ekki trúandi til að þekkja veiki sem hagar sér svona margvíslega. Læknarnir eiga fullt í fangi með það.

Farsóttin sú sem nú er á ferð (1900) virðist ekki vera mjög mannskæð, enda standa menn nú ekki varnarlausir upp gegn henni eins og kalla mátti að áður væri, þegar menn þekktu hvorki orsakir hennar né læknisdóma. Nú þekkja menn hvortveggja. Síðan bakterían fannst hafa nokkrir læknar starfað að því af alefli að finna ráð við henni, og hefir það tekist. Blóðvatn úr dýrum sem hafa orðið fyrir pestareitri og lifað það af, getur bæði gert menn ónæma fyrir pest og læknað þá sem hafa fengið hana, sé því spýtt inn í líkama þeirra nógu snemma. Þó eru margir annmarkar á þessu. Það er hinn fyrsti að blóðvatnið gerir menn ekki ónæma nema í fáa daga. Það er annað að ekki læknast allir sem fá það, ekki nærri allir. Það er hinn þriðji að blóðvatn þetta er ekki til nema af skronum skammti því það er mjög seinlegt að búa dýr svo undir að blóðvatn úr þeim hafi nægjanlega kraft, en tíminn er enn stuttur síðan menn fundu þessa aðferð. Fer því fjarri að til sé nægjanlegt pestarblóðvatn ef veikin dreifist að nokkrum mun um álfuna, því fremur sem hver sjúklingur þarf mikils með.

Aðalvörnin verður því einangrun sjúklinga og sótthreinsun, eins og við aðrar farsóttir, og verður það atriði gert að umtalsefni á öðrum stað í riti þessu og skal því ekki fjölyrt um það hér. Vér skulum vona að það takist í útlöndum að bæla niður pestina með þeim ráðum. Ekki skortir Englendinga fé til þess, og fullan vilja hafa þeir, ekki er það að efa. En ef það tekst ekki, ef hún dreifist út yfir löndin næstu, hvað þá? Þá er oss Íslendingum háski búinn. Að vísu hefir náttúran einangrað oss frá farsóttum í útlöndum að nokkru leyti. En þó er nú svo komið, að skip fara frá Englandi til Íslands á skemmri tíma en þeim, sem pestin er að búa um sig í sjúklingum. Skipshöfn getur tekið veikina þar, komið hingað heilbrigð, og veikst þegar hingað er komið. Þá er sóttvarnarhald, geta menn sagt. Það er satt, sóttvarnarhald verður auðvitað skipað fyrir. En hvaða hemil hafa menn á sjómönnunum ensku? Hvaða hemil hafa menn á landsmönnum, sem vitja þeirra? En gerum ráð fyrir að allt farai vel: útlendingar leggjast í sóttvarnarhald; innlendir forðast að fara á fund þeirra nema þeir séu sloppnir alheilir úr því haldi. Hverning fer þá, ef útlendingar sýkjast af pest í sóttvarnarhaldi? Hvað á að gera við þá. Sóttvarnarhús eru hér til – á pappírunum. Hvergi annars staðar.

Alþingi hefir lengi hliðrað sér frá því, að veita fé til þeirra. Nú er vágestur á næstu grösum, sem ætti að reka það til þess að fresta því ekki lengur. Þau verða ekki óþörf þótt aldrei pestin komist hingað. Og pestarblóðvatn þurfum vér líka að reyna að eignast, ef það er fáanlegt. Til brýnustu þarfanna, ef á þarf að halda. Það má ekki láta oss standa upp með ótendraða lampa eins og óforsjálu meyjarnar.

https://www.visindavefur.is/svar.php?id=66333

https://blog.dv.is/vilhjalmurari/2019/02/13/blodvatn-og-laekningar-naemra-sjukdoma/

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn