Þriðjudagur 23.02.2021 - 15:56 - FB ummæli ()

Dagrenning á Ströndum


Hafernir eru með því tignarlegasta sem við sjáum í íslensku dýraríki. Á fáum stöðum sómir hann sér betur en í tignarlegu landslagi á Ströndum. Ég átti því láni að fagna að njóta hans tilsýndar í óðalinu hans þar síðastliðið vor. Fylgjast með egginu eina og síðan unganum þegar hann komast til flugs sl. haust. Nær hef ég ekki sennilega komist að njóta Strandanna, þrátt fyrir ótal ógleymanlegar ferðir um Strandir og Djúpið í störfum mínum þar sem læknir sl. rúma tvo áratugi.

Mannlífið á Ströndum er annar kapítuli út af fyrir sig og sem ég hef nokkrum sinnum skrifað um áður. Um Söguna líka aftur í aldir hvar sem maður kemur og mannlífið sem skírskotar beint til hennar endurtekið. Þrautseigja íbúanna og úrræðasemin. Manngæskan og hjálpsemin og þar sem “við gerum allt saman” og þótt ég sé bara reglulegur gestur úr höfuðborginni. Vinnandi undir öðrum kringumstæðum á einum erilsamasta vinnustað landsins, á BMT LSH og þar sem til hefur orðið nýtt slagorð í Covid-kóvinu nú “gerum það saman”, hvernig sem úti viðrar.

Á Ströndum hafa hins vegar alltaf allir tekið þátt þegar eitthvað alvarlegt bjátar á og samfélagið reyndar eins og ein stór ”fjölskyldukúla”. Mikilvægi brothættar byggðar á fáum stöðum sýnilegri og þar sem arfleifð sögunnar er alltaf að standa saman. Ég hef oft hugsað hvað ég sé heppinn að hafa fengið að kynnast og njóta Strandanna sem læknir, jafnhliða minni góðu fjölskyldu í höfuðborginni sem og erlendis. Hvernig allt getur speglast saman í nýrri reynslu og auknu innsæi, í þjóðarsálina ef því er að skipta og til vinnustaða minna góðu. Tækifæri að nálgast líka minn innri mann..

Í enn eitt skiptið, en nú á mjög ólíkan hátt. Að vera þiggjandi þjónustu við erfiðar aðstæður. Að vera sóttur brotinn og lemstraður eftir fall á ísbungu í Kálfanesborgum rétt ofan við Hólmavík. Fullkomlega vel útbúinn á broddum og fjallgönguskóm, en greinilega ekki gætt nógu vel að mér í ástiginu einu sanna í eina sekúndu. Í gönguferðinni minni í gær eftir stofumóttökuna um Borgirnar og sem gefur stórkostlegt útsýni yfir Steingrímsfjörðinn. Á göngustíg sem lagður hefur verið ofan byggðarinnar, meðal annars af grunnskólabörnunum í sumarvinnu sl. áratugi. Hvati til gönguferða íbúanna og sem forveri minn, Sigfús Ólafsson heitinn, lagði svo mikla áherslu á til heilsueflingar íbúanna. Jafnvel svo að hann hvatti til að menn kvittuðu fyrir ferðir sínar í kaupfélaginu.

Það eru auðvitað dýr ráð þegar eini læknirinn í héraði og sem passa á upp á aðra, slasast og þarf auk þess neyðarflutning með hjálp björgunarsveitar innar. Sóttur á börum utan alfaraleiðar á ísilögðum klöppum. Ekki liðu nema innan við 30 mínútur að 12 manna sveit úr björgunarsveitinni Dagrenningu var komin á slysstað. Sett spelku á lækninn og hann síðan borinn af 8 vöskum Strandamönnum niður að sjúkrabílnum. Þar sem kærkomnu sjúkraflutningsmennirnir biðu og keyrðu lækninn sinn suður á bráðamóttökuna í Reykjavík. Á minn gamla góða vinnustað.

Ég er afar þakklátur þessari frábæru hjálp og ekkert síður kærleikshlýjunni sem tók á móti mér hjá mínu samstarfsfólki öllu jafnan. Síðan auðvitað frábæra og þjónustu eins og við var að búast, en var auk þess svo heppinn að lenda ekki í einum af fjölmörgum álagstoppum sem þar ríkir allt of oft. Á eigin vinnustað öllu jafnan og þar sem ég sjálfur hef ekki alltaf haft jafn mikinn tíma til að veita jafn frábæra þjónustu. Þar sem hjartað mitt slær oft miklu hraðar en nú sem þiggjandi þjónustunnar í gær.

Hafernirnir, unginn þeirra sem hóf sig til flugs í byrjun ágúst sl. og reynslan af slysabyltunni minni nú á Ströndum í gær, með aðkomu þess öflugasta sem byggðin þar hefur upp á að bjóða, hefur lyft sýn minni í aðra og nýja vídd. Við verðum að gera þetta saman.

Styðjum nú að minnsta kosti við sjálfboðavinnu bjögunarsveitanna um land allt í fjáröflun þeirra þessa daganna og sem gerir veika innviðaþjónustuna hins opinbera í dreifbýlinu svo miklu sterkari og betri. Þar sem við leggjumst á eitt að gera hlutina saman.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn