Stærsta spurningin í dag er hversu vel okkur tekst að koma í veg fyrir hópsýkingar og jafnvel óheftan faraldur covid19 með öruggri skimun á landamærunum. Vaxandi fjöldi ferðamanna og takmörkuð geta LSH til PCR prófa er mesta áhyggjuefnið á sama tíma og stefnt er að afléttingu sóttvarnahafta og samkomutakmarkana í samfélaginu. Á sama tíma og ferðalög innanlands verða í hámarki og flestir Íslendingar bíða með óþreyju eftir góðu íslensku sumri.
Eitt mesta áhyggjuefnið á heimsvísu eru ný afbrigði veirunnar og sem í dag er kennt er við Indland. Bæði með tilliti til alvarleika veikinda og aukinnar smiteiginleika. Þegar hafa tvö slík tilfelli greinst á landamærunum sl. daga með PCR prófum og á sama tíma og tilfelli hafa greinst af eldri stofnum, aðallega breska afbrigðinu og sem sloppið hafa gegnum landamæraskimun.
Hætt er við að fleiri tilfelli sleppi í gegn ef tekin verða nú upp hraðpróf/skyndipróf á landamærum og sem ekki eru jafn áreiðanleg og PCR prófin og ef rannsóknastofurnar ná ekki að anna PCR prófum vegna mikils fjölda erlendra ferðamanna (>3000 á dag). Enn meiri áhætta er síðan tekin ef bóluefnin okkar duga ekki gegn nýjustu afbrigðum veirunnar og á sama tíma og meirihluti þjóðarinnar, yngra fólkið hefur ekki enn fengið bólusetningu eða tækifæri að mynda ónæmi gegn undangegnum stofnum og hætt við að margir geti veikist alvarlega.
Auðvitað hjálpar smitrakningin áfram og þar sem smitrakningaforrit getur leikið stórt hlutverk eins og sóttvarnayfirvöld hafa ítrekað. Slíkar aðgerðir geta þó í besta fallið aðeins takmarkað umfang hópsýkinga sem upp koma og sem geta náð til þúsunda. Nú með nýjum áætlunum stjórnvalda um slökun sóttvarnaaðgerða og þegar aðeins um 40% þjóðarinnar hefur verið bólusettur. Svipað og skjóta fyrst, en spyrja svo myndu sumir segja og ef illa fer.
Ekkert hefur heldur verið gert til að styrkja innviði heilbrigðisþjónustunnar sl. ár og sem eru afar veikir víða, ekki síst úti á landi og á BMT LSH. Því má segja að a.m.k. að afar djarft sé teflt af hálfu stjórnvalda í sumar með tilliti til bestu sóttvarna og sem reynslan hefur kennt okkur sl. ár að hafur dugað vel, ásamt góðum slatta af heppni. Fyrirséður stórhættulegur afleikur í endataflinu gætu sumir sagt, í nánast sigraðri stöðu og ef fulls þolgæðis væri gætt. Eins ef stjórnvöld hefðu a.m.k. sinnt skyldu sinni að leita einhvers samráðs við lögskipað ráð heilbrigiðisráðherra, Sóttvarnaráð Íslands og sem undirritaður hefur óskað eftir að vera sagður frá.
Þótt stjórnvöld séu bjartsýn og sem ráðast af sérhagsmunum ferðaþjónustunnar, er landsbyggðin og innviðirnir ekki tilbúin í fyrirséða nýja kóvidbrekku og þar sem Íslendingar sjálfir eiga mestra hagsmuna að gæta. Vegna heilsu sinna og barna og íþyngjandi nauðsynlegra sóttkvíarákvæða á miðju sumri. Mál sem heilbrigðisráðherra vill ekki frekar en fyrri daginn ræða við sitt skipaða fagráð samkvæmt gildandi íslenskum sóttvarnalögum.