Laugardagur 08.10.2022 - 18:25 - FB ummæli ()

Ábyrgðin á hruni íslenska heilbrigðiskerfisins

Strandir í vikunni

Umfjöllun um hnignun heilbrigðiskerfisins á Íslandi hefur verð áberandi í fjölmiðlum sl. misseri. Ábyrgir fagaðilar sem best þekkja hafa tjáð sig mjög skýrt. Þróun í heilbrigðisþjónustu sem engan vegin hefur verið með sama hætti erlendis, í löndum sem við gjarnan berum okkur saman við. Á sama tíma og hagvöxtur og gjaldeyristekjur hafa aldrei verið meiri í Íslandssögunni, m.a. vegna mikils ferðamannafjölda til Íslands. Þróun sem kallar auðvitað á sterkari innviðaþjónustu og heilbrigðiskerfi á Íslandi. Talsmenn stjórnsýslunnar hafa hins vegar ekki gefist upp á að verja núverandi ástand og þróun sl. ára. Stjórnsýslupýramídinn sér til þess.

Mörg ár tekur að lagfæra það sem skemmt og eyðilagt hefur verið í valdatíð stjórnmálaflokka í seinni tíð sem segjast alla jafnan hafa almennahagsmuni að leiðarljósi. Vísindastarfsemin í dag er í molum, jafnvel hjá sjálfu háskólasjúkrahúsinu og þar sem núverendi lækningaforstjóri LSH hefur tjáð sig að stefnt geti í þrot!. Bráðamóttakan er í molum og áhersla á uppbyggingu heilsugæslunnar og bráðaöldrunarþjónustu hefur vantað lengi. Svokallaður fráflæðisvandi BMT LSH og yfirflæði á síðdegismóttökur er löngu augljós staðreynd og sem hefur haft mikið niðurrífandi áhrif á almenna bráðaþjónustu sem flestir gera kröfu um sem og persónufriðhelgi, þegar mest á reynir tengt alvarlegum veikindum og slysum. Vöntun er á að manna læknastöður í héraði og atgerfisflótti hjúkrunarfræðinga blasir víða við. Nýliðun í sérgrein heimilislækninga og svo sem í ýmsum örðrum sérgreinum læknisfræðinnar, er mikið áhyggjumál. Ástand og þróun sl. tvo áratugi, án þess að stjórnvöld hafi hlustað á aðvaranir og tillögur til úrbóta.

Á síðasta kjörtímabili var endurtekið reynt að ná eyrum stjórnvalda. Heilbrigðisráðherranum var síðan auðvitað skipt út í stjórnarmeirihlutanum eftir síðustu alþingiskosningar vegna slaks gengis VG og óánægju í þjóðfélaginu öllu Stjórnmálasýsla sem leggur meiri áherslur á ný embætti en ábyrgðina á illa unnu verki. Í íslenska heilbrigðiskerfinu sem tók kynslóðir að byggja upp og var talið með því besta fyrir nokkrum áratugum. Allt að þriðjungs aukning hefur verið síðan í komufjölda sjúklinga á bráðavaktir vegna ferðamanna og eins í þörf á gjörgæsluplássum. Rétt eftir heimsfaraldur Covid19 eins og var fyrir faraldurinn.

Ábyrgð millistjórnenda sem þátt hafa tekið í þessum ömurlega blindraleik er einnig mikil. Fagfólk sem lokaði augunum eða leit í aðrar áttir en til grasrótarinnar og tillagna sem þaðan komu. Miklu frekar til næstu yfirstjórnenda eins og stjórnsýslupýramídinn gerir ráð fyrir. Því minni var ábyrgðin sem millistjórnendurnir voru fleiri. Við hinsvegar sem höfum jafnvel unnið áratugum saman í heilbrigðiskerfinu og á bráðamóttökum, sáum þessa þróun vel. Faghópur sem fjölmiðlar, sem í vasa stjórnmálaflokkanna, vildu helst ekki ræða við. Því fór sem fór og auðvitað alltaf þar sem þöggun fær að viðgangast.

Undirritaður hafði unnið í 4 áratugi á gömlu Slysadeild Borgarspítalans og síðar á BMT LSH í Fossvogi þegar hann sagði starfi sínu þar lausu sl. haust, ásamt nokkrum öðrum sérfræðingum. Ekki vegna starfleiða eða kulnunar, heldur vegna langvarandi og íþyngjandi skilningsleysis stjórnvalda og endalausra skipulagsbreytinga sem oft leiddu til verri bráðaþjónustu við almenning. Undirritaður hefur tjáð sig skýrt með þetta reglulega sl. áratug. M.a. í hundruðum opinberra greinaskrifa á blogginu (gömlu Eyjunni og sem síðar varð hjá DV). Eins með viðtölum við einstaka stjórnmálamenn og Velferðarnefnd Alþingis. Aldrei samt hlotið áheyrn æðstu stjórnenda eða hjá ráðherrum, jafnvel þótt eftir hefur verið leitað! Allt það versta sem spáð hefur verið, því miður gengið eftir.

Þöggun á opinberri gagnrýnni umræðu sl. áratugi í okkar mikilvægustu málaflokkum, heilbrigðis- og jafnvel menntamálum, er stærsti áhrifavaldurinn á stöðunni í dag. Ríkisfjölmiðlarnir bera þar stóra ábyrgð og dæmin fjölmörg. En það þýðir ekki að gráta Björn bónda endalaust og það má alltaf vona að stjórnmálin og ríkisfjölmiðlarnir batni á Íslandi í framtíðinni. Slagorðin, „gerum þetta saman“ eiga ekkert  síður við í dag, en í miðjum heimsfaraldri. Á meðan vill ég þó fá að standa læknavaktina mína í héraði og vonandi verð ég ekki einn af þeim síðustu sem það fá, á t.d. Ströndum.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn