Miðvikudagur 1.8.2018 - 19:20 - FB ummæli ()

MÓSA-innrás samkvæmt lögum

Umræða og áhyggjur stjórnvalda nú eftir að EFTA dómsúrskurðurinn í vetur sem kvað á um að öll höft íslenska ríkisins á innflutningi á erlendum sláturafurðum væru óheimilar hefur litast fyrst og fremst af hræðslu á matareitrunum og ef marka má t.d. ríkisfjölmiðillinn RÚV. Aðallega er um að ræða hræðslu á Salmonellu- og Kamphýlobaktersmiti sem er miklu hættumeira úr erlendri hrávöru en þekkst hefur hér á landi. Í Bretlandi hefur t.d. allt að þriðjungur slátraðs kjúklings borið með sér Kamphylobaktersmit. Nú snýst málið þannig f.o.f. að betri upprunamerkingu kjötsins og gæðaeftirliti sem alls ekki er til staðar hér á landi, nema þá í mýflugumynd. Gott og vel og ef ekki væri lítið framhjá miklu víðtækara (algengara) og langvinnara varanlegu vandamáli, tengt sýklalyfjaþolnum/ónæmum „eðlilegum“ flórubakteríum sem alltaf berst með fersku kjöti (sér í lagi ófrosnu). Flóra sem smitast þá mun óhjákvæmilega í stórum stíl í almenna flóru landans og síðan til dýranna okkar. Sýklar sem munu valda miklu algengari tilfallandi sýklalyfjaónæmum sýkingum hjá mannfólkinu á Íslandi í framtíðinni ef að líkum lætur. Meðal annars með sárasýkingum hverskonar og t.d. þvagfærasýkingum, meðal annars hjá ungum börnum auðvitað.

„Venjulegir“ sýklalyfjaónæmir E. Coli saurgerlar (ESBL) og klasakokkabakteríur (Ca-MRSA, MÓSAR) finnast oft í/á erlendu hráu kjöti og sem dýrin hafa borði með sér við ræktun (í allt að meirihluta kjúklings t.d. frá Svíþjóð og í dönsku svínakjöti). Þessar bakteríur smitast óhjákvæmilega í kjötið við slátrun. Lýðheilsusjónarmið um vernd íslensku næmu flórunnar okkar verða þar með látin lúta í lægra haldi fyrir ESB ákvæði. Ekki eins og með lúpínuna í íslenska jurtaríkið á sínum tíma, heldur með sýklum sem valdið geta lífshættulegum sýkingum og óheyrilegum kostnaði fyrir heilbrigðiskerfið allt. M.a. í lyfjakostnaði (miklu dýrari og breiðvirkari sýklalyf ef þau þá finnast eða eru til) og seinkaðri og oft flókinni meðferð.

Heilbrigðisstofnanir hér á landi hafa t.d. hingað til leitað MÓSA-smitbera til að hefta útbreiðslu og ef sjúklingur hefur dvalist á heilbrigðisstofnum erlendis sl. mánuði. Íslenskt heilbrigðisstarfsfólk sem meðhöndlað hefur MÓSA-smitbera á einhverju stigi, eru sendir í kembileit og mega ekki vinna með aðra sjúklinga fyrr en hugsanlegt smit hefur verið upprætt. Samt á að samþykkja nú að sýklalyfjaónæmu saurgerlarnir og samfélagsmósarnir verði fluttir inn erlendis frá í tonnatali með hráu blæðandi kjöti og í umbúðum sem alltaf geta lekið. Í kjötborð kaupmannsins og síðan eldhúsin og í landsmenn alla, þ.m.t. börnin okkar. Þegar lýðheilsan er látin víkja fyrir hagmunum Samtaka verslunarinnar, í nafni neytendaverndar og gæða!!!

Samfélagsmósar í hráu kjöti og sárasýkingum

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 22.6.2018 - 10:46 - FB ummæli ()

Sjúkrafluningum með flugi allt of óöruggur stakkur búinn

Hér er mynd af einni af 17 nýjum AW101 þyrlum norsku strandgæslunnar og sem ætlaðar eru til sjúkraflutninga, sérútbúnar fyrir flug norðurslóðu. Þær eru með mjög fullkomnum tækjabúnaði til leitar og björgunar við þröng og erfið skilyrði (m.a. lasermiðuðum lendingarútbúnaði. Eins mjög öflum afísingabúnaði sem eldri þyrlur hafa ekki. Þær hafa umtalsvert meiri flughraða (277km/klst) en eldri þyrlur og lengra flugþol eða í allt að 7 klst. Augljóst má vera að slíkar þyrlur mynu henta okkur Íslendingum vel fyrir landið allt og miðin. Tvær AW101 þyrlur höfðu Íslendingar reyndar pantað 2008 fyrir LHG, en hættu síðan við 2012. Norðmenn reka yfir 20 bækistöðvar fyrir sjúkraþyrluflug víðsvegar um landið allt. Nú er verið að ræða um að kaupa/leigja tvær gamlar Puma-þyrlur af Norðmönnunum, í stað tveggja enn eldri þyrlna sem notaðar hafa verið hér á landi um árabil. Innviðauppbyggingin í raun á mesta hagsældartímabili Íslandssögunnar.

Ítrekað verið bent á vanda sjúkraflugs hér á landi sl. ár og sem nálgast að vera 1000 á ári og eykst stöðugt. Aðallega er rætt nú um skert öryggi vegna lokunar neyðarbrautar á Reykjavíkurflugvelli. Skertir samningar um flug alls staðar af landinu sem eru um 700 á ári, vöntun á flugbrautum fyrir vélar sem slíkt flug krefst úti á landi og vannýting á þjónustu þyrlusveitar LHG hefur einnig verið nefnt. Erlendum ferðamönnum fjölgar um 30% á ári og nýjustu fréttir herma að 80% aukning er á alvarlega slösuðum túristum í umferðinni á Íslandi 2015-2016 samkvæmt nýjustu fréttum og þar sem fyrri rannsóknir sýna að túristar eiga stærsta þátt í alvarlegustu umferðaslysunum á ófullkomnum vegunum landsins. Fyrirséð þannig vaxandi skerðing að nauðsynlegum öruggum flutningum á bráðveikum og slösum af landinu öllu til þjóðarsjúkrahússins til sérhæfðar greiningar og meðferðar og þar sem hver mínúta getur skipt máli.

Sem ákveðna lausn við vanda sem skapast hefur af lokun neyðarbrautar á Reykjavíkurflugvelli hafa stjórnvöld beint augum að opnun neyðarbrautar á Keflavíkurflugvelli sem mun kosta allt að 300 milljónir króna og sem samt engan vegin fullnægir þjónustu þegar um neyðartilfelli er að ræða og sem lengir flutning um a.m.k. eina klukkustund. Nú þegar er viðbragðstími fyrir sjúklinga með blóðþurrðarsjúkdóma (aðllega í hjarta og heila) oft allt of langur og fram kemur í nýrri grein í Læknablaðinu. Flugvöllum til notkunar fyrir almennt sjúkraflug hefur einnig stórlega fækkað sl. ár á landsbyggðinni og sem gera þessi mál öll vandmeðfarnari og eykur enn álag á sjúkraflutningum með þyrlum.

Forsvarsmenn ríkis og borgar vísa hvor á annan. Ríkið ber ábyrgð á framkvæmdum við Nýjan Landspítala og borgin á lokun neyðarbrautar. Árið 2012 gerðu þessir aðilar þó með sér samning að flugvöllur væri ekki skilyrði lengur við staðarval spítalans í samræmi við nýtt Aðalskulæag Reykjavíkurborg, AR 2010-2030 og sem fyrri skipulag gerði ráð fyrir ásamt stórauknum samgöngubótum til spítalans. Skipuleggjendur Spítal hópsins reikna síðan með að þyrlupallur verði aðeins notaður í undantekningatilfellum við sjúkraþyrluflugið eða sem samsvaraði um innan við 12 lendingum á ári (árið 2012) en þegar sjúkraflutningar með þyrlum LHG nálgast nú að vera um 300 á ári!! Í um helming slíkra flutninga er um alvarlegra veika eða slasaða að ræða sem þurfa að komast sem fyrst undir læknishendur til frekari greiningar og meðferðar. Áverkar og veikindi eru oft enda óljósir í byrjun og þar sem flestir þurfa á síðar skurðaðgerðum og gjörgæsluplássi að halda. Til að kóróna vitleysun er síðan enn þrengt að lendingarsvæði að fyrirhuguðum þyrlupalli með byggingum allt í kring, meðal annars á Valslóð og gamla enda neyðarbrautarinnar. Löngu er ljóst að aðeins verði leyfðar lendingar á 2-3 mótora þyrlum  vegna öryggissjónarmiða, en ekkert tillit samt tekið til mengunar, hávaða sem fylgja þyrufluginu á viðkæmu spítala- og rannsóknastarfseminni eða auðvitað stórslysahættu á spítalalóðinni sjálfri og meðferðarkjarna ef plan A gengur nú ekki upp einhverja hluta vegna og vill verða!!

Eins er bent á í Læknablaðinu að sennilega séu þyrlusjúkraflutningar þegar í dag vannýtt tækifæri hér á landi og bent jafnvel á þörf á léttari þyrlum til sjúkraflutninga, t.d. frá Suðurlandi. Eins og nú horfir er því allt útlit fyrir að flutningstími sjúkra og slasaðra að þjóðarsjúkrahúsinu okkar og sérhæfðrar læknishjálpar geti lengst til muna í framtíðinni með lokun neyðarbrautar Reykjavíkurflugvallar og staðsetningar Nýs Landspítala við Hringbraut þar sem aldrei verður hægt að bjóða upp á öruggt sjúkraþyrluflug. Er þetta það sem þjóðin kaus varðandi endurreisn heilbrigðiskerfisins árið 2017 og fyrir nána framtíð?

http://www.laeknabladid.is/tolublod/2017/01/nr/6182

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 19.6.2018 - 01:35 - FB ummæli ()

Lífshættulegt tap gegn stjórnvöldum!!

Hið frækna landlið Íslands í fótbolta á HM í Rússlandi og sem sýnir hér samhug með keppinaut sínum, Nígeríu á föstudaginn.

Hvað sem segja má um byggingaáform Nýs Landsítala ohf. nú við Hringbraut og sem reyndar að margra dómi eru mjög misráðin, er víst að engin jafn mikilvæg gagnrýni hefur verið þögguð jafn rækilega niður af stjórnvöldum hér á landi á seinni árum. Einkum sl. 5-6 ár og eftir að ljóst var að upphaflegar forsendur voru brostnar á Hringbrautinni (og sem voru þó sér fyrirfram pantaðar af hagsmunaaðilum upp úr aldarmótunum síðustu, þar á meðal Háskóla Íslands og Reykjavíkurborg.

Allan þennan tíma hefur ekki mátt ræða nýja staðarvalsathugun þrátt fyrir ótal rök fagaðila og stöðugt nýja forsendubresti. Í dag sjá flestir þessi rök og jafnvel að framkvæmdin stefni í gífurlegan sokkinn kostnað þegar upp verður staðið. Fyrir utan óhagræði og óþægindi á viðkvæmri spítalastarfseminni á Hringbraut meðan á framkvæmdum stendur. Aðgangshindranir fyrir sjúklinga, sjúkraflutninga og starfsfólk eru þó alvarlegastir næsta áratuginn í þessu dæmi öllu og jafnvel miklu lengur. Eins stórhættulegar sjálfskapaðar aðstæður fyrir sjúkraþyrluflutninga sem sífellt færist í vöxt og verða mikilvægari og lesa má nær daglega í fréttum.

Hvernig má þetta vera með jafn mikillvægt mál og að öll varnaðarorðin sem vel þekkja til, séu hundsuð. Jafnvel sett í fréttabann eins og hjá RÚV ohf. Rök sem flestir stjórnmálamenn sjá í dag en segja síðan að sé of seint að ræða! Allir vita að nýtt aðalskipulag Reykjavíkur (AR 2011-2030) þurrkaði út samgöngubætur sem skilyrtar voru í fyrra staðarmati á Hringbraut 2008 og sem urðu að vera til staðar ÁÐUR en framkvæmdir hæfust! Nú eins óvissa, og jafnvel stefnt að brottför Reykjavíkurflugvallar strax um svipað leiti og fyrsta byggingaáfanga á að verða náð 2024! Ein af annarri meginforsendum upphaflegs staðarvals á Hringbraut á sínum tíma.

Ekkert nýtt áhættumat á þyrlusjúkrafluginu við spítalann síðan gert eftir 2012, vegna gjörbreyttra hættulegra aðstæðna við spítalann, m.a. vegna staðsetningar þyrlupallsins og byggðarinnar nú allt í kring!

Þjóðinni á eftir að blæða fyrir þessa kúgun á skoðanafrelsi þjóðarinnar og klúðrinu á einni dýrustu ríkisframkvæmd sögunnar. Gríðarlegur aukinn kostnaður hefur eins verið reiknaður við allar framkvæmdir í heildardæminu, miðað við ef byggt væri á besta stað! Stjórnvöld hafa meðvitað þannig hundsað allar ábendingar og hlutast jafnvel til þess með þöggun á ríkisfjölmiðlinum! Allir sjá þetta í dag nema e.t.v. þeir heilaþvegnu á Alþingi. Byggingamálin á þjóðarsjúkrahúsinu væru komin í miklu betri farveg í dag ef strax hefði verið hlustað, eða um svipað leiti og t.d. SBSBS (Samtök um betri spítala á betri stað) hóf baráttu sína, í bestu trú, fyrir um 5 árum síðan, án allra sérhagsmuna. Og vissulega mæti ennþá gera betur í dag ef bara allan viljan vantaði ekki. Þjóðin getur enn unnið þennan stórleik aldarinnar.

Í dag vantar reyndar miklu frekar mannskap í heilbrigðiskerfið, einkum hjúkrunarfræðinga, en endilega meiri steypu og stál á Hringbrautinni. Hálfu sjúkradeildarnar eru lokaðar vegna manneklu, eins og sjá má t.d. á öldrunardeildum, geðdeildum m.a. fíknigeðdeild og síðan á sjálfri Hjartagáttinni í sumar. Stöðugt lífshættulegt yfirflæði hefur síðan verið allt allt árið og miklu lengur á Bráðamóttöku LSH vegna langleguvanda og þjónustu við aldraða.

Lífshættulegu tafirnar sem stjórnvöld hamra bara á ef farið er í nýja og nútímalega staðarvalsathugun á framtíðarsjúkrahúsinu okkar eru þannig ekki byggingalegs eðlis. Nei, þær eru vegna þekkingar- og skeytingaleysi miklu frekar og vonandi ekki mannlegar óvildar. Með tilliti til mannlegrar gæsku, hugvits og reynslu sem býr í grunnlögum heilbrigðiskerfisins, bæði þess ríkisreka og einkarekna. Allra síst er þörf á að ríkisfjölmiðlar séu notaðir til að þagga niður umfjöllun á miklu hagkvæmari lausnunum, til skemmri og lengri tíma. Og það til að þóknast systurhlutafélögum í meirihlutaeigu ríkisins!

Við sem þjóð hljótum að geta gert kröfu um að 100-200 milljarða króna byggingafjárfestingar af almannafé og fjárveitingum til heilbrigðiskerfisins næsta áratuginn, sé sem best varið og forgangsraðað sé eftir þörfum og hagkvæmni á hverjum tíma. Annars standa síðan bara húsin kannski tóm þegar yfir lýkur á henni Hringbraut?

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 10.5.2018 - 12:06 - FB ummæli ()

Gætu lífeyrissjóðirnir bjargað okkur úr gapastokknum á Hringbraut?

Það stefnir í allt að 160 milljarða króna reikniskekkju á Hringbrautarframkvæmdum og rekstri LSH næstu 5 árin!

80 milljarða vantar nú þegar til reksturs LSH til 2023.  Síðan stefnir í að byggingakostnaður við fyrsta áfanga Nýs Landsspítala fari allt að 100% fram yfir áætlaðan byggingakostnað 550.000 per. fm2. í fyrsta áfanga til 2023 og miðað við þá reynslu sem þegar er kominn á framkvæmdir við Hörpuhótelið. Fermetraverð var áætlað um 1.200.000 kr. á Hörpuhótelinu en sem nú stefnir í að verða a.m.k. 1.500.000 kr., auk mikilla tafa og þegar eru orðnar vegna erfiðleika við framkvæmdir á þröngri miðbæjarlóðinni. Fullkomin spítalabygging í tveimur húsum, meðferðarkjarna og rannsóknarhúsi, kostar a.m.k. ekki meira en hótelbygging (um 80.000 fermetrar og því væntanlega aldrei undir 80 -100 milljarða króna).

Verða Hringbrautarframkvæmir síðan enn meiri blóðsuga á rekstur spítalans en orðið er? “Fjárveitingar til reksturs spítalans árið 2018 er um tveimur milljörðum lægri á föstu verðlagi en árið 2008, þrátt fyrir verulega aukna eftirspurn eftir þjónustu og fjölgun verkefna.”

Miklu hagkvæmari og hraðari framkvæmdir fást auðvitað samt með að byggja á hagkvæmum og opnum stað eins og SBSBS hefur margsinnis bent á sl. ár og sem auk þess yrði miklu aðgengilegri og meira miðsvæðis fyrir höfuðborgarsvæðið allt. Fyrir sjúkraflutninga, sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk og sem ætti miklu meiri möguleika að klárast í einum áfanga á ca 10 árum með undirbúningstíma, t.d. á Keldum. Eins til að losna við gríðarlegt ónæði á starfseminni við Hringbraut og aðlægt umferðaröngþveiti næsta áratuginn við miðborgina, enda fyrirliggjandi forsendur úr aðalskipulagi Reykjavíkurborgar (AR2002-2024) löngu brostnar með AR 2010-2030 og Reykjavíkurflugvöllur jafnvel á förum.

Nú hafa skapast miklir möguleikar að fá lífeyrissjóði landsins til að fjárfesta í íslensku atvinnulífi og innviðauppbyggingu, ekki síst þegar um er að ræða ríkisábyrgð. Öruggur fjármagns- og lánakostnaður gæti skilað mikilli hagræðingu í byggingakostnaði þjóðarsjúkrahúss á besta stað á lágmarkstíma og reksturs sem hentar. Reiknað hefur verið út fyrir samtökin SBSBS að hagræðingin af þessu öllu saman miðað við föst árleg fjárlög til LSH, færi langt með að borga niður lántökukostnaðinn, ca. 100 milljarðar króna á hálfri öld. Er ekki fyrir löngu kominn tími að reikna a.m.k. allt dæmið aftur á Hringbrautinni, í stað þess að stefna í óheyrilegan sokkinn kostnað með smjörklípuaðferðinni við ómögulegar aðstæður og fyrir séð að hugsa þurfi allt dæmið að nýju og framkvæmdum loks lýkur um 2030?

Opinn fundur SBSBS (Samtaka um betri spítla á betri stað) verður á morgun 11. maí í Norrænahúsinu með þátttöku fulltrúa stjrónmálaflokkanna af tilefni borgarstjórnarkosninga 2018, eins og fyrir Alþingiskosningarnar 2017.

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Miðvikudagur 11.4.2018 - 16:38 - FB ummæli ()

Hornreka þjóð á Hringbraut!

Þöggun stjórnvalda á gagnrýnisraddir um byggingaáformin á Nýjum Landspítala á Hringbraut síðastliðin 4 ár og þegar löngu mátti vera ljóst að fyrri forsendur og staðarvalsniðurstöður voru gjörbreyttar, er ein alvarlegasta þöggun fyrir almannahagsmunum sem um getur og sem stefnir í að geta valdið sokknum kostnaði sem toppar IceSave skuldina frægu.

Einn alvarlegasti hlutinn snýr þó að fyrirséðum hættulegum aðgangshindrunum að nýja þjóðarspítalanum á Hringbraut og Alþingi samþykkti “í sinni endanlegu mynd” 2014. Eins er varðar öryggi sjúkraþyrluflugs til spítalans og eins óvissu með framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar fyrir almennt sjúkraflug og sem var ein af grunnforsendum upphaflegs staðarvals þjóðarspítalans á Hringbrautarlóðinni. Í dag vantar t.d. nýtt áhættumat vegna fyrirhugaðra lendinga á þyrlupalli á 5 hæð rannsóknarhússins, vegna gjörbreyttra forsenda aðflugs frá því pallurinn var hannaður 2011. Nánar tiltekið brottnáms aðflugsbrauta (opinna svæða) og lokun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli og uppbyggingu hótela- og íbúabyggðar við NA enda brautarinnar sunnan spítalans (m.a. á Valslóðinni). Umfang og þörf þyrlusjúkraflutninga hefur stóraukist sl. ár og stefnir nú í þörf á nær daglegum flutningum, ekki síst á slösuðum.

Stórgallaðar og hættulegar spítalaáætlanir geta í myndlíkingu verið eins og stórslasaður sjúklingur og fjölmiðlar, nærstaddir vegfarendur en sem líta bara undan. Málið varðar hins vegar í raun öryggi og velferð flestra þjóðfélagsþegna oft í mestu neyð lífs síns. Heilbrigðisstarfsfólki ber að taka ábyrga afstöðu til málsins og eins með tilliti til framtíðarþróunar þjóðarsjúkrahússins okkar.

Nýr heilbrigðisráðherra og meirihluti Alþingis kýs hins vegar að stinga hausunum áfram í sandinn. Þrátt fyrir endurtekin sérpöntuð staðarmöt fyrir nýju þjóðarsjúkrahúsi á Hringbraut, síðast 2008 og stofnun opinbers hlutafélags um verkefni 2010, að þá hafa allar grunnforsendur GJÖRBREYTTIST síðar. Mikil og miklu hraðari uppbygging í miðbænum en nokkurn grunaði með tilheyrandi umferðarálagi og nýtt aðalskipulag Reykjavíkurborgar (AR 2010-2030) sem þurrkaði út nauðsynleg umferðarmannvirki og greiðan aðgang bílaumferðar, m.a. fyrir sjúkraflutninga og starfsfólk sem var gert ráð fyrir í fyrra aðalskipulagi Reykjavíkurborgar (AR 2002-2024) enda ein af grunnforsendum Hringbrautarstaðarvalsins. Þannig algjör forsendubrestur þegar orðinn fyrir Hringbrautarstaðarvali 2014 þegar Alþingi lagði blessun sína á gjörninginn en sem allir sjá í dag hvað var einfeldningslegur. Nýjar hugmyndir nú um Borgarlínu og Miklubrautina í stokk eru allt of seint komnar varðandi spítalauppbyggingu í miðbænum og hleypa kostnaðinum þá miklu meira upp, jafnvel tvöfalda heildarkostnaðinn. Eins hefur komið í ljós miklu verra ástand eldra húsnæðis á Landspítalalóðinni en upphaflega var gert ráð fyrir og þannig fyrirséður miklu hærri kostnaður við enduruppbyggingu á allt að 60.000 fm2 húsnæðis Landspítalans í öðrum og þriðja áfanga Hringbrautarverkefnisins og lagt er upp með á árunum 2024-2030.

Til að klóra í bakkann vegna stöðunnar eru komnar nýjar tillögur frá framsýnni stjórnmálamönnum, m.a. í stærsta ríkisstjórnarflokk landsins, Sjálfstæðisflokksins, nánar tiltekið á nýyfirstöðnum landsfundi þeirra. Stranda megi “dæmda” verkefninu a.m.k. eftir 1. áfangann og að strax skuli vera farið í staðarvalsathugun fyrir frekari sjúkrahúsuppbyggingu á besta stað. Í svipaðan streng tekur nýr Landlæknir í viðtali í Morgunblaðinu um helgina. Miðflokkurinn vill hins vegar nýtt stöðumat strax og lagt fram þingsályktun á Alþingi í því skyni. Flokkur fólksins, Píratar og jafnvel Framsóknarmenn vilja nýtt staðarmat fyrir nýjan spítala. Allir vel meinandi horfa nú til Keldnalandsins í því samhengi og sem löngu fyrir aldarmót var hugsað sem besti framtíðarstaður fyrir nýtt og gott þjóðarsjúkrahús. Svipaðar hugmyndir voru einnig með Vífilstaðalandið. Hugmyndafræðin og sem lagt var upp með upphaflega um eitt stórt sameiginlegt háskólaþjóðarsjúkrahús á Hringbraut frá því rétt eftir aldarmótin síðustu, m.a. í hagræðingar- og sparnaðarkyni og sem stjórnvöld vísa enn til, er hins vegar fyrir löngu hrunin. Til hvers að bíða og sökkva sér enn dýpra í sokkinn kostnað og óhagræði í stað þess að endurskoða og ræða allt málið fyrir opnum tjöldum?

Fyrir löngu er kominn tími á opinbert stöðumat framkvæmdaáætlana Alþingis frá því 2014 við Hringbraut til að forða megi þjóðinni frá óheyrilegum sokknum kostnaði, jafnvel strax eftir 1. áfangann. Eins gríðarlegu óhagræði og ónæði í öllu starfsumhverfi spítalans við Hringbraut vegna framkvæmdanna næsta áratuginn. Síðast enn ekki síst stórhættulegu og skertu aðgengi af landi sem úr lofti að sameiginlegri aðalbráðamóttöku alls landsins næstu áratugina. Þjóðin á miklu betra skilið, ekki síst eftir allar hremmingarnar í heilbrigðiskerfinu sl. áratugi og sem daglega eru í fréttum.

Hugsa verður allt Hringbrautardæmið strax upp á nýtt. Starfsmynd og samþykkt Alþingis frá 2014 gerir samt ennþá ráð fyrir heildardæminu öllu og að því verði lokið á árunum 230-2035. Ekki að hætt verði við allt meðan á framkvæmdum stendur við 1. áfangann og nú er mikið rætt og jafnvel miklu fyrr sem er skynsamlegast!!  Í dag vantar okkur fyrst og fremst hjúkrunarrými fyrir aldraða og sem yfirfylla t.d. alla ganga gömlu bráðamóttökunnar í Fossvogi og fleiri reyndar gjörgæslupláss fyrir svæfingardeildir spítalana vegna m.a mikillar aukningar á alvarlegum umferðaslysum og sem nær daglega eru í fréttum. Bráðadeildin sjálf stendur annars nokkuð vel að vígi húsnæðislega séð, ásamt góðu umferðalegu aðgengi og aðstæðum er varðar sjúkraþyrluflugið. Fráflæðið er hins vegar mesta vandamálið og starfsfólk sárvantar, einkum hjúkrunarfræðinga. Sumar deildir gamla Landsspítalans standa t.d. hálf tómar og lokaðar vegna manneklu eingöngu. Gamla fólkið þarf hins vegar allaf þjónustu við sitt hæfi og sannarlega vantar sárlega upp á það í dag, þjónusturými og öldrunarhjúkrunarrými hverskonar.

Við getum vel beðið eftir fullkomnu og nýju hátækniþjóðarsjúkrahúsi á besta stað í rúman áratug. Þar sem allir þjónustuþættir fyrirmyndar þjóðarsjúkrahúss verði vel skoðaðir og hagræðingin höfð í fyrirrúmi.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 15.3.2018 - 23:08 - FB ummæli ()

Þróttmiklir á Ströndum

    Skíðaganga Strandamanna um síðustu helgi

Lífsgæði er afstætt hugtak. Heilsa og atvinnutækifæri skipa þar a.m.k. stóran sess. Í mesta þéttbýlinu er vissulega mikið meira um atvinnutækifæri og menntunarmöguleika. Ókostirnir eru hins vegar stressið, mengunin og jafnvel félagsleg einangrun í öllu fjölmenninu.

Lækna- og heilbrigðisvísindin leita nú allra ráða að fá almenning til að stunda heilbrigðari lífstíl vegna lífstílsvandamálanna sem eru að sliga heilbrigðiskerfið. Að margra mati er heilbrigðiskerfið langt í frá að koma á móts við þarfirnar og sem þar að auki er farið að molna. Erfiðara er að fá þjónustu, jafnvel í heilsugæslunni og sjúklingar sem hafa efni á, kaupa sér einkarekna heilbrigðisþjónustu. Gamla fólkið víða á vergangi í kerfinu, með ótal skammtímalausnir og heimsóknir á bráðamóttökur á bakinu.

Samt er það svo að fólk leitar alltaf meira og meira í þéttbýlið. Oft á kostnað almenns heilbrigðis og bestu nærþjónustunnar. Það er a.m.k. mín reynsla á Ströndum. Þar sem samfélagið er samheldið og stress yfirleitt víðsfjarri. Gott aðgengi samdægurs að grunnheilbrigðisþjónustu og öldrunarvistunarmál nær eingin. Greitt aðgengi að hvíldarinnlögnum og heimaþjónustan til fyrirmyndar, ólíkt því sem er í höfðborginni. Stabíl þjónusta alla daga ársins eins og ég hef best kynnst sl. áratugi.

Umhverfið er ægifagurt og stórbrotið á Ströndum. Við sjóinn og fjöllin, svo vítt sem augað eygir. Hreint loft og gott veðurfar í öllum almennum skilningi. Útivistarmöguleikar óteljandi til sjós og lands. Góð nýtískuleg sundlaug og stórt íþróttahús og félagsmiðstöð. Golfvöllur og mjög virkt Skíðagöngufélag Strandamanna. Varla hægt að biðja um mikið meira.

Gamli snjótroðarinn Fúsi, skírður eftir Sigfúsi Ólafssyni lækni.

Forveri minn, Sigfús heitinn Ólafsson, læknir var frumkvöðull í heilsurækt seint á síðustu öld á Hólmavík og beitti sér fyrir henni hvar sem við var komið. Stofnaði gönguhópa og stóð fyrir gerð göngustíga. Fyrir eru allar gönguvörðurnar á heiðunum. Hann stóð fyrir gerð golfvallar við Skeljavík og stofnaði Golffélag Strandamanna. Áður hafði hann stofnað skíðafélagið. Keypti sjálfur snjótroðara. Farandsbikar gönguskíðafélagsins sem heilbrigðisstofnunin gaf upphaflega, Sigfúsarbikarinn, var veittur sigurvegara Strandagöngunnar 2018 um síðustu helgi. Þar sem um hundrað manns á öllum aldri tóku þátt inn í Selárdal. Til hamingju allir Strandamenn og með ykkar góða samfélag.

 

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir · Lífstíll · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag · útivist

Þriðjudagur 13.3.2018 - 21:38 - FB ummæli ()

Stórkostlegar Strandir og hátt til lofts

Vaxtarhyrna, Kambur, Kaldbakur og Lambatindur lengst til hægri í síðustu viku.

Náttúran á Ströndum lætur ekki að sér hæða og sem leiðir hugan að mannanna verkum og stærstu byggingaframkvæmdunum. Á þjóðargjöfinni stærstu, sjálfu nýju þjóðarsjúkrahúsi en þar sem vinstri höndin virðist ekki vita hvað sú hægri gerir. Óháð stað og sund og síðustu pistlar greina frá. Allt komið í stóran rembihnút, en sem engu að síður telst minn framtíðarvinnustaður ef mér endist aldur.

Á leið minni til Norðurfjarðar frá Hólmavík í allt öðrum lækniserindum í vetur tók ég nokkrar myndir. Stórum gimsteinn íslenskrar stórhuga náttúru sem ræður sér sjálf, ólíkt oft þjóðarviljanum í sínum mikilvægustu málum! Heppinn ég að fá að hvíla hugan og getað séð hluti í allt öðru ljósi. Líka þegar læknar fagna 100 ára afmæli Læknafélag Íslands, fjarri menningalegri dagskrá félagsins þessa daganna í mesta þéttbýlinu.

Kambur og Kaldbakur við Veiðileysufjörð og Lambatindur

 

Reykjaneshyrna og Örkin

 

Drangaskörð og Ófeigsfjörður á leið minni til Norðurfjarðar á snjósleða í byrjun febrúar.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag · útivist

Mánudagur 5.3.2018 - 16:11 - FB ummæli ()

Með RÚV í rassvasanum í þokkabót

Sennilega eru fá mál merki um meiri þöggun í íslenskri stjórnmálasögu en áætlanir um byggingu Nýs þjóðarspítala sem átti þó að vera þjóðargjöfin okkar stærsta á þessari öld. Þar sem gagnrýni og ábendingar um brostnar forsendur upphaflegs staðarvals frá síðustu öld eru hundsaðar, ekki síst nú sl. 3-4 ár og fréttabann hefur ríkt hjá ríkisfjölmiðlinum okkar allra, eða sem átti að heita svo, RÚV. Sennilega skýrist þetta af þverpólitísku flækjustigi og þar sem sjálft Alþingi lét heilaþvo sig 2014. Allir voru sammála um nauðsyn nýs þjóðarspítala, bara ekki um staðsetningu á þröngri Hringbrautarlóðinni, endurgerð hálfónýtra húsa, framtíðar þróunarmöguleika. Ekki síður stórkostlega skertu aðgengi fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra, sjúkraflutninga hverskonar og starfsmenn sem flestir búa á höfuðborgarsvæðinu öllu. Eins var reiknað út af Samtökum um betri spítala á betri stað (SBSBS) að miklu hagkvæmara og fljótar var að klára nauðsynlega uppbyggingu með fullkláraðan spítala á opinni og góðri lóð og þar sem ekki væri truflun á framkvæmdatíma á fyrirliggjandi starfsemi. Eins mikill sparnaður í rakstrarhagræði í góðri byggingu undir sem mest einu þaki, en ekki í tugum húsa með milligöngum.  Þegar allt er lagt til gæti sparnaður á framkvæmdinni munað um helming (um 100 milljarða króna) miðað við fyrirliggjandi Hringbrautarframkvæmdir næsta áratuginn. Þá eru ekki reiknaðar 100 milljarða króna nauðsynlegar samgöngubætur eftir á, til að geta skapað lágmarks aðgengi að framtíðarspítalanum á Hringbraut.

Alvarlegasti hlutinn að mínu mati og sem snýr að almannaöryggi eru stórhættulegar áætlanir um þyrlulendingar á fyrirhuguðum palli á 5 hæð rannsóknarhúss við hlið Meðferðarkjarnans sjálfs og sem fyrirliggjandi áætlanir gera ráð fyrir. Þar sem áætlanir eru nú um þétta byggð allt í kringum spítalann og sem þegar eru hafnar t.d. á Valslóðinni, er þannig ekki gert ráð fyrir neinum opnum öryggissvæðum við spítalann. Áætlanir SPITAL hópsins 2011 og sem lét hanna pallinn gerðu ráð fyrir að hann yrði aðeins notaður 4-10 sinnum á ári og þá aðeins í neyð!!  Vegna aðstöðuleysis var auk þess gerð krafa um 2-3 mótora þyrlur sem geta haldið hæð ef vélarbilun verður í einum mótor og komið sér til næsta lendingarstaðar. Allt að 20 tonna þyrlur og sem auðvitað geta bilað alvarlega við lendingu vegna annarra hluta eða bruna. Allir sjá hvaða stórslysahættu verið er að bjóða upp á. Upphaflega var þó gert ráð fyrir hugsanlegu aðflugi yfir neyðarbrautina svokölluðu og Valslóð sem nú er lokuð. Áætlanir í dag gera hins vegar ráð fyrir þörf á allt að daglegu sjúkraflugi til spítalans og þar sem hver mínúta getur oft skipt máli. Sjálfskaparvíti myndu margir segja og sem væri algjörlega óþarft ef spítalanum væri valinn betri staður. Það sem merkilegast er að ekkert nýtt áhættumat hefur verið gert eftir að neyðarbrautinni var lokað og byggingaframkvæmdir hafnar á Valslóðinni eftir 2012!!

Skoðanakönnun Fréttablaðsins í síðustu viku sýndi að 55% borgarbúa sem afstöðu tóku, vilja annan stað en Hringbraut fyrir nýjan þjóðarspítalann. https://www.frettabladid.is/frettir/join-klofin-i-afstoeu-til-nja-spitalans

Ég vil vísa í fyrri pistla og fésbókarsíðu SBSBS sem tæplega 10.000 manns styðja vegna þessa máls alls saman og sem aldrei hefur mátt ræða opinberlega með ábyrgum aðilum, ef undan er skilinn fundur SBSBS fyrir síðustu kosningar í Norrænahúsinu og fulltrúi Nýs spítala hélt gamla tölu um gömlu áformin eingöngu. Hins vegar hafa verið endurteknar grófar athugasemdir um persónur okkar í SBSBS frá stjórnarmanni Spítalans okkar sem eru áhugamannasamtök um Hringbrautarverkefnið og sem fram kom í síðasta pistli. Dauðaþögn annars á þeim bænum þótt skoðanakönnun í síðustu viku í Fréttablaðinu sýndi að meirihluti borgarbúa styðja, í raun nýja staðarvalsathugun strax og þannig þingsályktunartillögu Miðflokksins sem nú liggur fyrir Alþingi. Til að koma megi í veg fyrir skipulagsmistök aldarinnar og stórtjóni, okkar allra vegna. Mál sem ekki hefur mátt ræða sl. ár hjá RÚV, nema þegar tekin eru viðtöl við stjórnmálamenn eða fulltrúa verkefnisins sem keyra vilja verkið áfram, hvað sem tautar eða raular. Kvartaði reyndar í fyrra við stjórnarmann RÚV sem sagði að stjórnin hefði ekkert með ritstjórn fréttastofunnar að gera! RÚV ohf. er reyndar opinbert hlutafélag með pólitískri stjórn svipað og Nýr Landspítali ohf. Tvö af níu slíkum fyrirtækjum og sem ekki er ólíklegt að gæti hagsmuna hvors annars. Hafði reyndar þegar fengið bréf ritstjóra Kastljóss fyrir tæpum 3 árum sem staðfesti að það væri svo litið á innan stofnunarinnar RÚV ohf að ekki ætti að rugga Hringbrautarverkefninu meira!!

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 27.2.2018 - 10:36 - FB ummæli ()

Brostnar meginforsendur þjóðarsjúkrahússins nýja á Hringbraut!

Töluvert hefur verið fjallað um staðsetningu nýs þjóðarspítala á Hringbraut, sérstaklega eftir þingsályktunartillögu Miðflokksins um endurmat á fyrri staðarvalsákvörðun á Hringbraut og sem Alþingi samþykkti 2014. Mál sem stjórnvöld hafa viljað þagga algjörlega niður sl. 3 ár og sem lagt hefur verið jafnvel fréttbann á, á ríkisfjölmiðlinum RÚV ohf. Verkefnið hefur reyndar tekið langan tíma að þróast frá síðustu öld, en sem að lokum er komið í algera sjálfsheldu og flestar fyrri forsendur brostnar. Þrjóska og stolt þeirra sem unnið hafa hvað mest að verkefninu hjá Nýjum Landspítala ohf. er sennilega um að kenna, í upphafi sjálfsagt með eitt gott í huga.

Frá byrjun voru það hagsmunir HÍ að hafa flaggskipið sem næst Vatnsmýrinni, og áður en við síðan gengum inn í tölvuöld. Nú hafa hins vegar aðalhagsmunir almennings verið látnir víkja, aðgangur og gott spítalaumhverfi, með ófyrirséðum alvarlegum afleiðingum. Alvarlegasti hlutinn snýr að aðgengi sjúkraflutninga, bæði af landi sem og úr lofti. Ekkert nýtt áhættumat einu sinni á þyrluflugi til spítalans eftir að þyrlupallur var hannaður á 5 hæð sjúkrahússins og sem gerði ráð fyrir aðeins 4-10 lendingum á ári!!. Hér erum við líka að tala um eina dýrustu ríkisframkvæmd Íslandssögunnar sem reyndar þegar hefur kostað hátt í 5 milljarða króna í undirbúningi og með byggingu „sjúkrahótels“!!. Í og með stóraukinn kostnaður vegna þess að ráðamenn hafa ekki viljað hlusta á þjóðina og starfsmenn og allar skoðanakannanir styðja. Óskir þjóðarinnar á þjóðargjöfinni okkar allra á 21 öldinni virtar að vettugi.

Óháðir fréttamiðlar, sérstaklega fésbókin (SBSBS) og aðsendar greinar í blöðum sem gjarnan eru þar líka birtar, hafa haldið málefnalegri gagnrýni á lofti. Varaformaður Spítalans okkar (Nýs Landspítala á Hringbraut) og formaður allsherjar- og menntamálanefndar Sjálfsstæðisflokksins, Þorkell Sigurlaugsson, kallar þessar síðu mestu falsfréttamiðil landsins og að það séu samantekin ráð ráðamanna að svara ekki gangrýni okkar, nú eftir að Alþingi hefur lagt blessun sína á gjörninginn. Stuðningshópur SBSBS eru samt menn og konur sem hafa engra sérhagsmuna að gæta, heldur vilja aðeins gæta hagsmuna almennings. Þar á meðal eru læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar skipulagsfræðingar, arkitektar, viðskiptafræðingar. Þessa aðila hefur Þorkell eining kallað „lygara og fólk með athyglissýki (populista)“.

Ítarleg rök hafa samt verið lögð fram um óhagkvæmni þess að byggja þjóðarspítalann eina á Hringbraut (sem margir stuðningsmenn Hringbrautarverkefnisins eru farnir að kalla millileik!). Eins varðandi augljósu skertu aðgengi á alla vegu, sem og framtíðarþróunar spítalans. Til að hann geti verið í fremstu röð jafninga nýrra spítala sem verið er að reisa nú á Norðurlöndunum, t.d. í Danmörku. Kostnaður á lagfæringum á mygluðum eldri húsum á Landspítalalóð er síðan stórkostlega vanáætlaður í fyrri útreikningum til að fegra dæmið. Eins fyrirsjáanlegt rekstararóhagræði í óteljandi húsum sem tengd eru saman með göngum á alla vegu. Sparnaður með staðsetningu á besta stað undir einu þaki ef svo má segja, gæti hins vegar farið langt með að borga upp lántökukostnað slíkra framkvæmda á hálfri öld miðað við áframhaldandi framkvæmdir nú á Hringbraut og reiknaður hefur verið út.

Fullyrðingar um falsfréttirnar sem Þorkell getur um í sinni gagnrýni m.a. á fésbók SBSBS , er þó ástæða skrifanna nú og eins til að benda á hvernig megin forsendur/skilyrði fyrir framkvæmdum á Hringbraut voru sniðgengnar, með leyfi Alþingis. Enn ein upprifjunin á málinu stóra og sem sekkur dýpra og dýpra og sem stefnir nú í að jafnast á við Icesave skuldina frægu um árið, að lokum. Til upprifjunar vil ég bara benda á síðustu stjórnsýsluúttekt á staðarvali á Hringbraut sem sem gerð var fyrir heilbrigðisráðherra í febrúar 2008. Nefnd um fasteignir, nýbyggingar og aðstöðu heilbrigðisstofnana (sem byggðist að miklu leiti á fyrri staðarvalsskýrslum). þar segir m.a.;

„Á undanförnum árum hafa oft heyrst raddir um að staðsetning nýs háskólasjúkrahúss við Hringbraut væri ekki ákjósanleg, einkanlega með tilliti til umferðarflæðis. Nefndin ákvað því að skoða sérstaklega þennan þátt í undirbúningi verksins og kanna hvort einhverjar þær aðstæður hefðu breyst þannig að ástæða væri til breyta frá því sem áður hafði verið ákveðið“

Síðan segir í ályktunum;

„Tryggja þarf öruggar samgöngur úr suðri með því að flýta lagningu leiðar um Hliðarfót við Öskjuhlíð eins og Aðalskipulag Reykjavíkur og Svæðisskipulag höfuðborgarinnar gerir ráð fyrir. Sá vegur þarf að vera tilbúinn þegar stafsemi spítalanas flyst úr Fossvogi.“

Eins segir;

„Gert verði ráð fyrir lendingarstað fyrir þyrlu við nýja samgöngumiðstöð og farið rækilega yfir hvort hægt verði að komast hjá því að staðsetja þyrlupall ofan á spítalabyggingunum“

Nýtt aðalskipulag Reykjavíkurborgar AR 2011-2030 gerðu þessar áætlanir að engu og sem reiknuðu með að einkabíllinn væri nánast útdauður. Tóku auk þess af framtíðarsvæði SV spítalalóðarinnar (neðan nýju Miklubrautarinnar) við enda gömlu neyðarbrautarinnar og sem hugsanlega hefði getað orðið ásættanlegur staður til þyrlulendinga (sem í dag eru áætlað að geti verið þörf á nánast daglega). Þriðja aðalforsenda fyrir upphaflegu staðarvali var svo Reykjavíkurflugvöllur og sem sennilega er á förum um svipað leiti og Nýr landspítali á Hringbraut verður tilbúinn.

Megin grunnforsendur fyrir síðasta faglega staðarmatinu á þjóðarsjúkrahúsinu voru bara strikaðar út með pennastriki, aðgengismál sett í sjálfsheldu og spítalaumhverfinu sjálfu jafnvel sköpuð stórslysahætta. Forsendur sem liggja til grunnmats staðarvali þjóðarspítala eiga auðvitað að vera tilbúnar og klárar áður en verk er hafið, ekki „hugsanlega“ löngu eftir á. Um þetta fjallar þingsályktunartillaga Miðflokksins m.a. nú. Skoðum því allt málið að nýju og fáum stjórnvöld til að hætta að berja hausnum í steininn. Og að Alþingi, aflétti a.m.k. einni alvarlegustu þöggun stjórnvalda í seinni tíð á opinberri nauðsynlegri umræðu í ríkisfjölmiðlum.

http://betrispitali.is/wp-content/uploads/2015/06/Skýrsla_LSH_Febrúar2008.pdf

 

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 8.2.2018 - 12:31 - FB ummæli ()

Björgum óbyggðum þjóðarspítala STRAX frá Hringbraut

Megin forsendur fyrir upphaflegu staðarvali nýja þjóðarsjúkrahússins á Hringbraut sem ráðamenn kappkostað að lofa, hrynja nú eins og spilaborgir. Umferðarsamgöngubætur vestur í bæ á nú að redda langt eftir á með ærnum tilkostnaði m.a. nýjum stokk undir Hlíðarhverfið við Miklubraut til að koma fólki í vinnuna á morgnana og heim aftur á kvöldin ásamt Borgarlínu fyrir yfir 100 milljarða króna, en ekki fyrr en 5-10 árum eftir að fyrirhuguð framkvæmdum á að vara lokið við meðferðarkjarna LSH, 2023. Kosningaloforð vel að merkja og þá enn frekari aðgangshindranir næstu 10-15 árin.

Nú stefnir sömuleiðis í að Reykjavíkurflugvöllur fari á sama tímabili, jafnvel fyrr. Fyrirhugaðir þyrlusjúkraflutningar á pallinn á nýja spítalann á Hringbraut eru hins vegar þegar í algjöru uppnámi af fyrirséðum öryggisaðstæðum. Það eru ófá sjúkraflugin (með flugvélum eða þyrlum) á mínum starfsferli sem hver mínúta skippti öllu máli. Meira en helmings aukning hefur orið á slíkum flugum sl. 5 ár og samtals telja sjúkraflugin yfir 1000 á ári hér á landi.

Hvað á þessi Hringbrautarvitleysa eiginlega að ganga langt hjá ríki og borg og þar sem ennþá má endurmeta stöðuna og ræða?  Hættuleg umræða að sumra mati en þar sem hægri höndin virðist aldrei vita hvað sú vinstri gerir. Afleiðingarnar heimskulegar úr því sem komið er og stefna í að verða jafnvel skelfilegar. Óheyrilegur sokkinn fjárfestingarkostnaður sem meðal annars er líka vegna framkvæmdaóhagræðis á nýjum og ónýtum húsum á þröngri lóðinni.

Alþingi hefur nú sent Samtökum betri spítala á betri stað (SBSBS) beðni um umsögn á þingsályktunarfrumvarpi hvort ekki eigi að endurmeta staðarvalið á þjóðarsjúkrahúsinu ásamt fleiri samtökum sem láta sér málið mikið varða (Þingmál no. 88). Vonandi þannig samtök sjúkraflutningsmanna og heilbrigðisstarfsfólks líka. Nú er lag að bjarga málum áður en allt verður um seinan.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn