Mánudagur 4.6.2012 - 08:56 - FB ummæli ()

Það sem allir karlar vilja vita

Sl. mánuði hefur verið mikið skrifað um gagnsemi svokallaðs PSA (prostata specific antigen), skyndipróf úr blóði karla til að finna blöðruhálskirtilskrabbamein tímalega. Eitt algengasta krabbamein karla sem margir hræðast og nýlega var til ítarlegrar umfjöllunar hér á blogginu. Landlæknisembættið og læknar almennt hafa hins vegar bent á vafasaman ávinning og jafnvel að tjón sé af slíkum skimprófunum hjá einkennalausum körlum. Að meiri ástæða sé til að vera vel vakandi fyrir öllum nýjum einkennum sem tengjast þvaglátum og kyngetu ásamt öllum breytingum á ytri kynfærum með þreifingu og mottumarsinn í vor var fyrst og fremst tileinkaður. Skyndipróf sem þó ákveðin hagsmunasamtök eins og Framför hafa hvatt til að séu notuð hér á landi fyrir alla karla 50 ára og eldri og því full ástæða er til að ræða frekar. Álitaefni sem mikið er spurt um í heilsugæslunni.

Erlendis eru ráðleggingar heilbrigðisstofnana hins vegar yfirleitt á sama veg og hér á landi. Nú um helgina voru síðan að koma enn ákveðnari leiðbeiningar frá mjög virtum bandarískum samtökum heilbrigðisstarfsfólks í forvörnum  (USPSTF) um málið. Staðreyndir sem fengust eftir yfirlegu hundruða rannsókna á síðustu árum og viljinn teygður eins langt og hugsast gat að óskum karla í þessum efnum og ýmissa áhugasamtaka sem láta sig málið miklu varða. Jafnvel litið framhjá fjárhagslegum kostnaði skimunar, en litið þess í stað meira til lífsgæða karla. Þessar nýju ráðleggingar ná til allra aldurshópa, en þó ekki til PSA mælinga sem gerðar eru hjá körlum sem þegar hafa greinst með blöðruhálskirtilskrabbamein á annað borð og fengið meðferð þar sem PSA gildin geta komið að góðu gagni til að meta árangur meðferðarinnar til lengri tíma.

Amerísku sérfræðingasamtökin um forvarnir ráðleggja því læknum að ræða við skjólstæðinga sína hvað felist í kembileit með PSA mælingum og ræði sérstaklega alla ókostina sem fylgt geta „ótímabærum“ greiningum á blöðruhálskirtilskrabbameini. Þannig megi nálgast upplýsta ákvörðun þegar menn óska eindregið eftir PSA mælingu án einkenna. Betri og sérhæfðari próf með meiri sértækni á illvígara formi krabbameinsins er hins vegar beðið, jafnframt sem beðið er betri árangurs meðferða á krabbameinunum en boðið er upp á í dag.

Í óvöldu þýði má búast við að 5 karlar af hverjum 1000 deyi vegna blöðruhálskirtilskrabbameins á 10 árum. Rannsóknir sýna að í mesta lagi má bjarga einum af þessum 5 með PSA kembileit. Líklega er þessi tala enn lægri. Þetta þýðir að 4-5 karlar deyja hvort sem er úr krabbameininu á 10 árum og jafnvel þótt þeir undirgangist kembileitina með PSA prófum reglulega með öllum ókostunum sem því fylgir.

  • Fölsk-pósitive PSA próf. Um 100-120 af hverjum 1000 mönnum sem gerð er PSA kembileit á, fá falsk-pósitíva hækkun í PSA-svarinu. Flestir af þeim fara þá oftast í óþarfa sýnatöku úr kirtlinum en sem veldur óþarfa áhyggjum þriðjungur og kvíða. Um karla sem fara í sýnatöku fá líka hvimleiðar aukaverkanir sem lýsa sér með hitaköstum, sýkingum, síðkomnum blæðingum, vandamálum tengt tíðari þvaglátum auk verkja sem auðvitað skerða lífsgæði umtalsvert (auk áhrifa ofmeðhöndlunar og sem greint er frá hér fyrir neðan).
  • Ofgreiningar á krabbameini. Í fæstum tilfellum heldur blöðruhálskrabbamein sem finnst áfram að stækka eða breiða úr sér. Ef krabbameinið gerir það, vex það mjög hægt og ólíklegt að það valdi einkennum sem maður á eftir ólifað. Í dag er ennþá mjög erfitt að greina þá frá sem eru líklegri að hafa illvígara form krabbameins og sem vex þá hraðar og dreifir meira og hraðar úr sér. Flestar krabbameinsgreiningarnar í dag eru því óþarfar og hafa engin áhrif á lífslíkur. Sem best er þá að vita ekkert af.
  • Ofmeðhöndlun. Vegna óvissunnar um hvaða krabbamein sem greinast eftir hátt PSA eigi að meðhöndla (m.a möguleika á illavígara forminu), velja flestir (>90%) að meðhöndla öll krabbameinin á sama hátt. Um ávinning er sjaldnast um að ræða eins og áður segir þar sem aukaverkanirnar eru að sama skapi algengar. Beint ógagn af meðferð til lengri tíma eru síðan m.a.:
    • Stinningarvandamál eftir skurðaðgerð, geislameðferð, eða hormónameðferð. Hjá 29 körlum af hverjum 1000 sem finnast upphaflega með kembileit.
    • Þvagleki eftir geisla eða skurðaðgerð. Hjá 18 körlum af 1000 sem sem finnast upphaflega með kembileit.
    • Einnig er viss áhætta á alvarlegri aukaverkunum meðferðar eða jafnvel dauðsföllum;
      • 2 körlum fleiri sem fá alvarleg hjartaáföll af hverjum 1000 sem gerð er á kembileit og takast á við niðurstöður PSA mæinga en hinum sem ekki fara í kembileit.
      • 1 karli líklegra að fái blóðtappa og lungnarek af hverjum 1000 körlum sem gerð er kembileit á.
      • 1 dauðsfall tengt aðgerð af hverjum 3000 körlum sem fara í aðgerð vegna blöðruhálskirtilskrabbameins sem greinist með kembileit.

Samtök sérfræðinga um forvarnir í Bandaríkjunum sem heilbrigðisyfirvöld vitna mikið til og eru mjög virt út um allan heim, U.S. Preventive Services Task Force (USPSTF), mæla eindregið gegn að PSA sé notað til kembileitar á blöðruhálskirtilskrabbameini karla. Ókostirnir séu einfaldlega miklu fleiri og meiri en kostirnir.

http://www.uspreventiveservicestaskforce.org/prostatecancerscreening.htm

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll

Miðvikudagur 16.5.2012 - 19:08 - FB ummæli ()

Íslenska beltarósin, hin ófagra og oft illskeytta

Sennilega finnst einhverjum ég hafa furðulegan smekk fyrir rósum fyrst ég fæ mig til að skrifa um rós sem er ekki til að njóta nú í byrjun sumars og meðan við bíðum í ofvæni eftir að jafnvel fyrstu laukarnir láti á sér kræla. Á þessu kalda vori, á landi elds og ísa. Þegar aðeins er rúmlega mánuður í sumarsólstöður og bara fíflarnir eru farnir að stinga upp kollunum. Rós sem kvelur og stingur meðan hún brýst út eftir taugaendum í eigin kroppi. Fagurrauð með safarík og eitruð blóm þegar hún loks springur út á nokkrum dögum á yfirborði húðarinnar og sáir þá fræjum hlaupabólu. Reyndar eins og alls staðar annars staðar í heiminum og því engan vegin séríslensk eins og svo margt annað í okkar áskæru fósturmold og kroppum. Ævagömul hlaupabóluveira (varicella zoster virus) sem hefur oftast lifað með okkur frá barnsaldri en brýst út þegar síst skyldi og við erum veikust fyrir einhverja hluta vegna.

Rós myrkursins sem er lengi að spíra með kvölum áður en hún kemur loks upp úr holdinu og verður öllum ljós. Rós sem var bundin hjátrú og kennd við belti. Væri banvæn yxi hún báðum megin eins og beltagjörð þvert yfir búkinn eða brjóstið. Sem nánast engar líkur eru á að hún geri nema um tvær aðgreindar sýkingar frá tveimur aðgreindum taugarótum á sama tíma er að ræða og þegar gamli hlaupabóluvírusinn vaknar til lífsins. Áminning að við þurfum alltaf að vera á verði og reyna að fara vel með okkur. Alveg eins og með landið sem er okkur svo kært og þolir ekki nema ákveðinn ágang. Sem er oft á mörkum þess að vera lífvænlegt og hvert blómstrá telur þar sem vatn á annað borð finnst og sem er svo sérstakt fyrir íslensku náttúruna. Flóruna sem við viljum vaðveita sem best á öllum stöðum, ekki síst þar sem hún er viðkvæmust á sjálfu hálendinu.

Beltarósin er þó í daglegu tali kölluð ristill (herpes zoster). Um nákvæman uppruna orðins ristill er mér ókunnugt en sem finnst þó í rituðu máli á 17 öld og vísar til „að stökkva á“ eða „flakka um“. En óneitanlega hjólmar ristill óspennandi miðað við beltarós og sem er varla eins lýsandi á fyrirbærinu. Áætlað er að um helmingur fólks hafi fengið ristil á gamals aldri, sumir oftar en einu sinni, jafnvel á mismunandi stöðum. Tíðnin er mun algengari eftir að gömlum aldri er náð, eða eftir 65 ára aldri. Einstaka sinnum verða taugaverkirnir viðvarandi til langs tíma eftir bltarósina. Veirulyf geta oft stytt tíma einkenna og útbrota hjá gömlu fólki ef þau eru tekin innan við 72 tíma frá upphafi einkenna. Þ.e. eftir að verkir byrja sem er oft nokkrum dögum áður en fyrstu útbrotin verða sýnileg. Mikilvægast er hins vegar að sinna húðhirðunni vel meðan á útbrotunum stendur, ekkert ósvipað og gert er þegar um slæma hlaupabólu er að ræða. Eins að við förum eins vel með okkur og kostur er.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag · útivist

Þriðjudagur 15.5.2012 - 11:02 - FB ummæli ()

Nútímavíkingar og útlitsútrásin

Vegna frumsýningar á þættinum hans Sölva Tryggvasonar, Málið í gærkvöldi á Skjá 1 þar sem fjallað var um útlitsdýrkun og m.a. var viðtal við undirritaðan um brjóstapúðamálið margfræga, vil ég endurbirta pistil minn um „málið“ frá því apríl aðeins lagfærðan, lesendum vonandi til betri glöggvunar á þessum nýja lýðheilsuvanda Íslendinga og sem þjóðin öll og heilbrigðiskerfið þarf nú að glíma við.

Fyrir tæpum tveimur árum fjallaði ég líka um aðkomu íslenskra fjölmiðla að ókeypis kynningu á bróstastækkunum, þar sem gefið var í skyn að þær þættu sjálfsagðar m.a. hjá ungum konum eftir fyrsta barn og þegar brjóstin létu á sjá eftir hlutverk sitt, meðgönguna og brjóstagjöf. Sennilega eru þessar offarir og ýmsar aðrar fegrunaraðgerðir sem ég fjallaði þá um, komnar langt út fyrir allt velsæmi og hugmyndafræði læknisfræðinnar, að minnsta kosti eins og ég lærði hana. Þar sem lágmarkskrafan var að gera sjúklingnum aldrei meira ógagn en gagn, til skemmri og lengri tíma litið. Sérstaklega saknaði ég í þættinum hans Sölva í gærkvöldi að meira væri fjallað um þátt fjölmiðlanna sjálfra í þessari þróun útlitsdýrkunar hér á landi og sem virðist hafa náð miklu lengra en hjá nágranaþjóðunum, eins og reyndar í svo mörgum öðrum „málum“ hér á landi undanfarin ár.

Lengi var hetjudýrkun ástunduð meðal þjóðarinnar og litið til fornsagnapersónana með lestri. Sem sumir í dag telja reyndar að hafi ekki alltaf verið heilar á geði, en sem gætu engu að síður samsvarað sér vel í nútímanum, á hinum ýmsu vígstöðum. Taumlaus útlitsdýrkun á sjálfum sér er hins vegar seinna tíma mál og þegar við viljum þykjast vera aðrir en við erum. Karlmannlegri ímynd ungra karla og kvenlegri ímynd ungra kvenna eins og sjá má í teiknimyndafígúrum eða afskræmdum fegurðar- og fitness keppnum. Takmarkanir þessara ímynda eru fáar og sem ná ekki síst til kynímyndarinnar og vöðvafíknar. Að sýnast sem „girnilegust“ fyrir hitt kynið. Útblásin brjóst kvenna eiga sér þannig engin takmörk í tíma eða rúmi, enda eiga þau brjóst rætur að rekja til kynlífsiðnaðarins úti í hinum stóra og villta heimi. Sem sumir telja eitt gleggsta dæmið um flótta nútímamannsins frá fjölskylduveröldinni og sem leiðir hugann óhjákvæmilega að úrkynjun sem þekktastar eru fyrr í sögunni þar sem siðferðisvitund í þjóðfélögum hnignar hratt. Í hrópandi andstöðu við þjóðfélagsgildin okkar ekki svo ævagömlu og góðu.

Alvarlegra er, þegar lýtalæknar, félagar mínir eltast við hégómann, langt út fyrir mörk læknisfræðinnar eins og ég lærði hana. Þegar normið er smá saman að verða spegilmynd „áskapaðs“ sýndarraunveruleika með hjálp fjölmiðla og sem hefur ómæld áhrif á börn og ungmenni. Sem eru að alast upp í okkar umsjón og telja síðan að ekkert sé ómögulegt með hjálp læknavísindanna. Ekki síður tísku- og afþreyingariðnaðinum, sem svo sannarlega reynir að skapa ímyndirnar. Á einu stærsta markaðstorgi í hinum vestræna heimi. Sem að mörgu leiti er komið í stað gömlu góðu bókarinnar og við áttum okkar hetjur ú huganum eingöngu. Þar sem ímyndunaraflið eitt fékk lausan tauminn. Nú er hugsunin hins vegar orðin ansi sjálfhverf og jafnvel ungum konum er leiðbeint að eftir fyrsta barn megi áskapa ný brjóst með gervifyllingum. Til að halda ávalt hinni upprunalegu ásýnd og gott betur.

Fáir efuðust um alvarleika PIP málsins svokallaða, ísetningu gallaðra og jafnvel eitraðara íhluta í brjóstin hjá tæplega 450 íslenskum konum á besta aldri og sem upp komst um áramótin. Í glæpamáli aldarinnar sem tilheyrir læknisfræðinni á heimsvísu og upplýsti í raun svo miklu stærra vandamál sem hafði verið falið lengi. Ekkert síður hér á landi. Jafnvel þótt flest fórnarlömbin vilji nú fara huldu höfði, enda komin á blindgötur og engin góð úrlausn í boði en að fá nýja púða. Þar sem erfitt var að taka það sem áður hefur verið gefið. Málefni sem fjölmiðlarnir sjálfir eru líka feimnir að ræða um. Að allir þeir púðar sem konur í „góðri trú“ fengu undir húð eða vöðva, endast að jafnaði ekki nema í nokkur ár, en ekki út ævina eins og kynnt var í upphafi. Farnir að leka jafnvel í prósentuvís strax á fyrsta ári og skelin að skorpna. Sílikon sem síðan fer á flakk og veldur fyrst staðbundnum bólgum og sýkingum, skemmir síðar vöðva, bein og önnur líffæri.

Ný þekking er skyndilega orðin til, sem þó er enn í mikilli mótun og allskonar nýjar upplýsingar hlaðast upp. Nýyrði eins og sílikon eitlar, sílikon snjókoma í holhöndum og jafnvel sílíkon brjóstverkir eru orðin algeng hugtök á íslenskri tungu. Verkir sem geta jafnvel verið erfitt að greina frá alvarlegustu brjóstholsverkjunum og hjartaverk. Enda gráta oft púðarnir ekkert síður en sálin. Ekki síst síðustu mánuði eftir að umræðan opnaðist loks og öll vandamálin tengt ásköpuðu brjóstafyllingum varð berskjölduð. Þökk sé umræðunni um hið ljóta PIP-mál.

Þúsundir kvenna leita upplýsinga um ástand sitt nú, en mismikið eftir hvað þær eru sjálfar upplýstar og hvað hver og ein kona afneitar vandanum mikið. Konur sem til dæmis hafa haft samband við Krabbameinsfélagið og óskað eftir ómskoðun af brjóstum sem fyrst til að útiloka leka og sem gæti verið að valda þeim heilsuvanda. Eins til að útiloka það versta, þegar óvænt fyrirferð eða bólga finnst í brjósti eða holhönd. Óskir sem félagið getur engan vegin orðið við vegna anna og of lítilla tengsla við brjóstakrabbameinið. Ógn sem allar konur hræðast þó mest.

Konurnar verða því að leita annað. Til lýtalæknanna sinna og heilsugæslunnar þar sem þó engin sérþekking er til staðar og allar verklagsreglur sárlega vantar. Þar sem læknarnir ráða ráðum sínum hver við annan í örvæntingu, enda óttast þeir alltaf afleiðingar af því óþekkta. Í veröld þar sem læknar verða bara að fara eftir sannfæringu sinni og sínu eigin „brjóstviti“. Eins og víkingarnir sem sigldu á höfunum til forna. En nú í leit að öllu sílikoninu sem er horfið úr brjóstum kvennanna. Stundum með blóðrannsóknum til að kanna möguleg mengunaráhrif. Líka vegna skorpinna brjóstskelja sem stundum virðast hafa gufað að mestu upp, í hitanum og ólgunni í líkama kvennanna um árabil.

Enginn veit samt hvað konurnar eru í raun margar, hvert þær stefna og hvaða tegundir af brjóstapúðum hver og ein ber, nema auðvitað lýtalæknarnir sem settu púðana í, í upphafi og sem sumir eru jafnvel horfnir af sjónarsviðinu. Þó er vitað að fjöldi brjóstapúðaísetninga hefur nálgast 1000 á ári sl. ár og að konurnar hljóti því að nálgast tugþúsundið. Sennilega fylla þær í dag meira en tuginn í prósentu talið fyrir ákveðna aldurshópa. Bombur framtíðarinnar í heilbrigðisgeiranum á 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar.

Afar brýnt er auðvitað að kallað sé eftir nákvæmum upplýsingum sem allra fyrst til að kortleggja vandann sem heilbrigðiskerfið þarf óhjálkvæmilega að takast á við á næstu árum. Á hvaða aldri í lífi kvenna þær fá fyrstu púðana, fjölda ára frá aðgerð, barneignir og brjóstagjafir með púðana í brjóstum, hvernig eftirliti með púðunum hefur verið háttað hingað til og hvernig eftirlitið verður ráðgert í framtíðinni. Ekki síst til að ungar konur geti áttað sig á áhættunni sem þær taka þegar þær ákveða að fá brjóstapúða í fyrsta skiptið og ekki verður aftur snúið. Með upplýstri ákvörðun, enda gömlu ráðleggingar eins og fram kemur í upplýsingabæklingi Landlæknis frá árinu 2002 löngu úrheltar. Ákvörðunin að landlæknir fengi að kalla eftir þessum grunn upplýsingum strandaði hins vegar á sjálfri Pesónuvernd og sem úrskurðaði að beðni Læknafélags Íslands „að ekki væri nauðsynlegt að kalla eftir þessum upplýsingunum því þær varði ekki líf og heilsu kvennanna.“ Sjaldan hefur maður heyrt nokkuð eins fjarstæðukennt og sem er í raun makalaust álit frá opinberri stofnun sem á að vera vakandi fyrir hagsmunum einstaklingsins, ekkert síður en samfélagsins. Í stofnun þar sem lögfræðin og læknisfræðin fara greinilega illa saman.

Á sama hátt og við viljum taka á öðrum lýðheilusvandamálum í dag og sem hafa verið skilgreind sem slík, eins og t.d. tóbaksreykingum sem sannarlega skaða heilsuna, verðum við að takast á við brjóstapúðamálið allt eins og það leggur sig. Hvað sem Persónuvernd kann að finnast um vandann. Jafnvel með löggjöf eins og nú er verið að vinna að á Alþingi og Velferðarráðuneytið er að beita sér í þótt hægt gangi. Að eftirlit með umfanginu verði að minnsta kosti mögulegt. Síðar með betri kortlagningu á hinum raunverulega heilsuskaða og fyrirbyggjandi ráðstöfunum fyrir ungar konur í dag. Að ákvarðanir verði byggðar á bestu þekkingu og eðlilegu siðferðislegu mati og normi.

Stærsta spurningin sem þó brennur í mínum huga í dag er aðkoma heilsugæslunnar. Hvað á að ráðleggja öllum konunum og hvernig í ósköpunum á að rannsaka allar þær þúsundir kvenna sem eru nú með hugsanlega leka brjóstapúða, í óljósu magni, af ólíkum gerðum, og óljósum tegundum? Þar sem þöggunin ríkir og læknisfræðin virðist hafa gert meira ógagn en gagn. Með nýjum ásköpuðum lýðheilsuvanda sem við sjáum fyrir okkur um langa ókomna tíð. Og síðan verðum við sjálf dæmd, kannski eftir 1000 ár, nútímavíkingarnir í dag, bæði konur og karlar. Vonandi eigum við þá einhverja samsvörun við framtíðina og að ekki verði skrifað of illa um okkur.

http://blog.eyjan.is/vilhjalmurari/2012/03/01/nytt-og-flokid-heilbrigdisvandamal-medal-thusunda-kvenna-a-islandi/

http://blog.eyjan.is/vilhjalmurari/2012/02/27/vonsviknar-konur-og-brostnir-brjoststrengir/

http://blog.eyjan.is/vilhjalmurari/2012/02/14/hvad-eru-ungar-stulkur-ad-hugsa-i-dag/

http://blog.eyjan.is/vilhjalmurari/2012/01/02/einn-staersti-skandall-sidasta-ars/

 http://blog.eyjan.is/vilhjalmurari/2010/02/26/brjostastaekkun-a-stod2/

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 11.5.2012 - 16:50 - Lokað fyrir ummæli

…og höfuðbúnaðurinn sem við viljum ekki þurfa að nota.

Í sjálfu sér er eins og að bera í bakkafullan lækinn að ræða um öryggið sem reiðhjólahjálmur getur veitt. Slík er umræðan búin að vera um reiðhjólaslysin á undanförnum áratugum, líka hér á landi og slysatölurnar sýna svo vel. En einhverja hluta vegna geta sumir ekki skilið vandann eða vilja ekki. Gegn því sjálfsagða að nota reiðhjólahjálma, alltaf og bera fyrir sig ógn gegn einstaklingsfrelsinu og óþarfa boðum og bönnum. Á svipuðum nótum og barist var gegn bílbeltanotkuninni sem varð aldrei almenn og sjálfsögð fyrr en með lögleiðingu. Hvort sem okkur líkaði þá betur eða verr. En nú efast enginn og það þykir sjálfsagt að spenna beltin um leið og við setjumst inn í bílinn. Okkar vegna og barnanna.

Helstu rökin sem þeir beita sem eru á móti lögleiðingu reiðhjólanotkunar fullorðinna er að með því sé verið að draga úr áhuga á hjólreiðum og heilsuseflingu og að hjálmurinn sé skilaboð um að það sé svo hættulegt að hjóla. Eins að ef hjólreiðarmaður noti hjálm að þá sé minna tillit tekið til hans í umferðinni og að hann skapi sér jafnvel meiri hættu en ef hann væri hjálmlaus. Þetta má lesa m.a. í grein Pawels Bartoszek í Fréttablaðinu í morgun. Í raun þarf ekkert að segja meira um þessi rök, þau dæma sig sjálf en ég vona að þessi sjónarmið sem þarna koma fram séu fyrst og fremst vegna skammsýni greinahöfundar og annarra sem kunna að vera á sömu skoðun. Hjólreiðar aukast auðvitað ef vitað er að öryggis er gætt, í umferðinni með fræðslu og tillitsemi og ekki síst aðgangi að lágmarks öryggisbúnaði. Einkum vegna höfuðsins sem er verst útsett fyrir alvarlegustu slysin á reiðhjóli, ekki síst meðal barna.

Meirihluti þeirra eða 12 einsaklingar sem slösuðust alvarlega í reiðhjólaslysum árið 2010, voru ekki með hjálm. Margfalt fleiri duttu og fengu minna alvarlega áverka sem amk. talið var í fyrstu, þar af margir höfuðhögg. Í því sambandi er ekki síst áhugavert að líta til tengsla höfuðhögga og minnihátta breytinga sem geta orðið við mar á heilavef „minimal brain injury“. Varanlegar afleiðingar sem geta komið fram varðandi færni og þroska barna eftir tiltölulega lítil höfuðhögg og sem jafnvel ekki er endilega komið með til læknis, en sem getur valdið hegðunarvanda og skert færni barna og jafnvel fullorðinna síðar. Nokkuð sem reiðhjólahjálmar stórlega draga úr hættu á en sem jafnvel ein lítil steinvala á malbiki getur valdið.

Til að hjálmanotkunin verði almenn er sjálfsagt að lögleiða hana eins og gert var með bílbeltin 1981. Að gefnum tilefnum og þar sem málið er í sjálfu sér svo einfalt. Eitt er þó víst að aðrir hjámar með stálplötu í höfuðkúpu og spengingu við bein til að verja það sem eftir er af heilavef eru ekki flottir. Og allir eru sammála að slíkur hjálmur eykur ekki öryggið í umferðinni. Höfuðbúnaður sem við viljum helst ekki sjá, en neyðumst þó öll til að veita athygli. Hvort sem okkur líkar betur eða verr.

http://www.brainline.org/content/2008/07/behavioral-considerations-associated-traumatic-brain-injury.html

http://www.brainline.org/content/multimedia.php?id=4434

http://us.is/Apps/WebObjects/US.woa/wa/dp?detail=12599&name=frett_ny

http://www.brainline.org/content/2011/04/bicycle-safety.html

http://www.brainline.org/content/2009/06/facts-about-concussion-and-brain-injury.html

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/05/31/hjalmar_geta_klarlega_bjargad_lifi_folks/

http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/einar-bardarson-vard-fyrir-bil-a-hjoli-sinu-vaeri-ekki-til-frasagnar-hefdi-eg-ekki-haft-hjalm

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag · útivist

Þriðjudagur 8.5.2012 - 13:52 - Lokað fyrir ummæli

Allir með eitthvert vit í kollinum..

…eiga að nota hjálm við hjólreiðar og sem skiptir „höfuðmáli“ ef högg kemur á höfuðið við fall. Þetta hélt maður reyndar að allir vissu þótt umræðan á síðustu árum hafi stundum verið villandi í baráttu þeirra sem berjast gegn lögleiðingu reiðhjólahjálmanotkunar fullorðinna. Umræða sem hætt er við að snúist upp í andstæðu sína og verði sem vatn á millu kærulausra foreldra sem bera engu að síður ábyrgð á lífi barna sinna og unglinga og eiga að vera þeim góð fyrirmynd. Ekki síst þegar koma má í veg fyrir alvarlegustu höfuðslysin þeirra með notkun hjálma. Eins allra annarra sem kunna að hafa minni fyrirhyggju fyrir sér og sínum, einhverja hluta vegna.

Fátt er jafn ömurlegt eins og að taka á móti hjólreiðamanni á Slysa- og bráðamóttöku með höfuðáverka og sem notaði ekki hjálm. Þegar spurðar eru ótal spurninga hvers vegna og hjálmurinn hefði getað bjargað svo miklu. Þegar einhver dettur óvænt á hjóli og höfuðið fer alltaf fyrst niður. Þar sem höfuðhöggið jafnvel við fall á hjól á lítilli ferð getur auðveldlega valdið varanlegum heilaskaða.

Á þetta vorum við nýlega minn með ágætri grein Aðalheiðar Daggar Finnsdóttur sem birtist í Fréttablaðinu í síðustu viku. Þar greindi hún frá höfuðslysi sem systir hennar varð fyrir á hjóli. Höfuðhögg sem olli heilaskaða sem hjálmur hefði líklega getað fyrirbyggt eða dregið mikið úr. Hjá stúlku sem missti hreyfigetu í vinstri fæti ásamt sem tap er á sjón og einbeitingu. Í sama blaði fyrir ári var líka viðtal við Láru Stefánsdóttur um hörmulegt hjólaslys systur hennar árið áður. Annarrar ungrar stúlku sem hlaut mjög alvarlegan heilaáverka og sem hafði venju vant, ekki verið með hjálminn sinn þegar hún datt á reiðhjólinu sínu og rak höfuðið í gangstéttarbrún. Umræða sem því miður virðist alltaf þurfa að taka upp í byrjun hvers sumars og sem mikið var fjallað um á blogginu mínu í fyrra. Þegar afskaplega erfitt getur reynst að vera vitur eftir á enda gera slysin aldrei boð á undan sér, hversu varlega sem maður annars fer. Allra síst reiðhjólaslysin.

Samkvæmt talningu VÍS sem nýlega kom fram í fréttatilkynningu frá þeim, notuðu aðeins 74% hjólreiðamanna hjálm, samanborið við þó 83% í fyrra á höfuðborgarsvæðinu. Þar sagði líka að áberandi færri unglingar noti hjálm en fullorðnir og börn. „Brýnt sé líka að hjálmurinn sé í lagi og notaður rétt, þar sem rangt stilltur hjálmur eða of gamall veitir falska vörn. Líftími hjálma sem ekki verða fyrir hnjaski er alla jafna 5 ár frá framleiðsludegi og þrjú ár frá söludegi.“ Jafnframt var bent á hvað það sé mikilvægt að hjólreiðamenn fari alltaf eftir umferðarreglum og gæti þess að vera sýnilegir í umferðinni.

Flest börn og fullorðnir líka eru ryðguð á hjólunum sínum nú í byrjun sumars eins og reyndar mörg hjólin sem eru misgömul og oft langt frá því þau voru notuð síðast. Mörg ósmurð og bremsur og annar öryggisbúnaður ekki alltaf í fullkomnu lagi. Margir fara full geyst miðað við aðstæður. Allt staðreyndir sem gott er að hafa í huga þegar umræðan snýst um að bera okkur saman við þjóðir þar sem hjólreiðar er hversdagslegur viðburður frá blautu barnsbeini.

Í hjólalandinu Danmörku t.d. þar sem flestir eru hjólandi allt árið um kring og hjólabrautir út um allt, hefur verið ákveðin tregða að sérstklega fullorðnir noti hjálma. En nú er að verða mikil breyting á eins og sagt var frá í fréttum í fyrra á netsíðu danska umferðarrásins Rådet for Sikker Trafik. Á aðeins 2 árum hafði hlutfall fullorðinna sem notuðu hjólahjálma aukist um 10% og notuðu um 25% fullorðinna hjálma árið 2010 að staðaldri í Danmörku á móti 15% árið 2008. Árið 1993 var hlutfallið hins vegar aðeins um 4%. Rannsóknir í Danmörku hafa enda sýnt að fækka megi verulega alvarlegum heilaáverkum fullorðinna, eða um allt að helming með því einu að nota reiðhjólahjálma. Meiri skilningi almennings á slysavörnum og betri hönnun á hjálmunum sjálfum er þakkaður þessi árangur.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/05/31/hjalmar_geta_klarlega_bjargad_lifi_folks/

Hjálmurinn sem bjargaði líklega lífi Kjartans. (Ljósmynd/Kjartan Sverrisson mbl)

Rannsóknarnefnd umferðarslysa (RNU) á Íslandi sagði líka í sinni umsögn í fyrra að rannsóknir sýndu að 75% banaslysa hjólreiðafólks verði vegna höfuðáverka og sem kemur fram í skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) um málið. Til mikils sé að vinna ef draga má úr þessum áverkum. Rannsóknir sem gerðar hafa verið á varnaráhrifum hjólreiðhjálma/hlífðarhjálma sýni síðan að þeir dragi úr líkum á alvarlegum höfuð- og heilaáverkum um 69-79% og að varnaráhrif hjálmanna séu svipuð fyrir alla aldurshópa. Að mati RNU ætti því að skylda allt hjólreiðafólk á Íslandi til að nota hjálma.

Segja má að hjólreiðarmaðurinn sé sjálfur hluti því samgöngutæki sem hjólið er, þegar það er á ferð um götur bæjarins. Það hlýtur að vera eðlilegt að ökumaðurinn sé varinn að lágmarki með einn lítinn hjálm á höfðinu og að hjólið sé ávalt vel sýnilegt, m.a. með endurskinsmerkjum og tilhlýðilegum ljósabúnaði í myrkri. Maður skyldi ætla að það sé meiri skammsýni en heimska sem sumir halda fram, að ökumenn bifreiða taki minna tillit til hjólreiðamanna sem klæddir eru þessum lágmarks „hífðarfatnaði“.

Það er ekki bara mál einstaklings sem verður fyrir höfuðhögginu ef reiðhjólamaður dettur óvarinn á hausinn og heilaskaði hlýst af, heldur líka fjölskyldunar og þjóðfélagsins alls. Því þarf að lögleiða hjálmanotkun sem fyrst fyrir alla, á sama hátt og bílbelti voru lögleidd hér á landi árið 1981. Þannig að engum „detti í hug“ að setjast á hjól án þess að láta á sig hjálm. Það hlýtur að vera skylda okkar allra að forðast alvarlegustu hjólaslysin eins og hægt er. Á sama tíma og við viljum stuðla að meiri hjólreiðum og betra umferðaröryggi allra vegfarenda. Meðal annars með átakinu „Hjólum í vinnuna“ sem hefst á morgun og sem er tileinkað íþróttaandanum (100 ára afmæli Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands), útiverunni og meiri hreyfingu sem er öllum svo lífsnauðsynleg á Íslandi í dag.

Þótt Danir standi okkur langt um framar með hjólastígunum sínum út um allt og með meiri tillitsemi við hjóreiðamenn í umferðinni, að þá megum við ekki láta þá hafa vit fyrir okkur í okkar höfuðmáli. Notum því eigið vit og réttan hjálm á kollinn.

 http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/05/31/hjalmar_geta_klarlega_bjargad_lifi_folks/

http://mbl.is/frettir/innlent/2012/06/02/hentist_upp_og_lenti_a_hofdinu/

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag · útivist

Laugardagur 5.5.2012 - 18:07 - FB ummæli ()

Nýr Landspítali á Landspítalalóð, eins og slæmur draumur í dós

lshNú eru að nálgast tvö ár síðan ég gerði fyrst athugasemdir skriflega um staðarval á byggingu nýja Landspítalans, háskólasjúkrahús allra landsmanna við Hringbraut á blogginu. Til að koma fram með að minnsta kosti mín sjónarmið áður en allt yrði um seinan, en sem mér finnst síðan litlu máli hafa skipt. Ekki heldur athugasemdir annarra, sem jafnvel hafa haft meira til málanna að leggja í efnislegum rökum. Í fjármálaútreikningum og hvað varðar hagkvæmni í rekstri, svo ekki sé talað um aðgengið að stofnuninni fyrir sjúklingana og starfsfólkið, einkum umferðarerfiðleikana til og frá staðnum. Umræða sem hefur verið eins og forboðin og borið við að undirbúningur sé allt of langt kominn til að skynsamlegt sé að endurskoða málin. Allavega fer hver að verða síðastur að hafa einhverja skoðun á málinu áður en framkvæmdirnar sjálfar hefjast. Því miður virðist sem að bjóða eigi verkið út fljótlega með samþykki Alþingis. Í raun frá tillögum erlendra aðila hvað okkur sé fyrir bestu. Hvað sem ýmsir íslenskir heilbrigðisstarfsmenn hafa um málið að segja, sem þekkja ágætlega til málsins og sem hafa þorað að tjá skoðanir sínar í óþökk yfirvalda og stjórnenda. Eins ýmsir arkitektar, skipulagssérfræðingar svo og ýmsir leikmenn. Íbúar og tilvonandi notendur þjónustunnar.

Stjórnmálamennirnir hins vegar, ekki síst nýir og gamlir ráðherrar, hafa komið fram með einstakan talnaleik og beitt fyrir sig hinni þverpólitískri samstöðu. Vitna í draumsýn íslensku þjóðarinnar sem nýr og fullkominn spítali vissulega er, en því miður á röngum stað og tíma. Rök sem sýna nánast sparnað af framkvæmdinni á undraskömmum tíma eða sem samsvarar um tveimur milljörðum króna á ári með hagkvæmari rekstri en nú er. Tölur sem eiga jafnvel að standa undir fjármagnskostnaðinum til að byrja með. Ég og margir aðrir hafa að minnsta kosti ekki trú á þessum talanleik. Frekar að framkvæmdin eigi eftir að vera okkur bæði allt of dýr við ríkjandi aðstæður og óhagkvæm til lengdar, ekki síst samanborðið við aðra hugsanlega valkosti. Af þessu tilefni og vegna áskorana vil ég endurbirta pistil minn, Hugleiðingar um byggingaráformin við Hringbraut, aðeins staðfærðan og breyttan frá því sl. haust. Nú á tímum lokaákvarðana í málinu en líka allt of óupplýstrar umræðu meðal almennings, í henni gömlu góðu Reykjavík;

Heilbrigðisþjónustuna hefur tekið langan tíma að byggja upp á Íslandi, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu með sjálfan Landspítalann í fararbroddi og þangað sem flestra leiðir liggja einhvern tímann á ævinni. Fátt er okkur mikilvægara í mestri neyð lífsins en gott sjúkrahús með góðri bráðaþjónustu, en líka góðri heilsugæslu og dvalarstofnunum fyrir aldraða um allt land auk nauðsynlegrar sérgreinalæknisþjónustu. Um þessi atriði eru allir landsmenn sammála, en bara ekki skipulagi þjónustunnar og forgangsröðun verkefna sem fyrir liggja. Allra síst þegar við höfum nú ekki efni á að reka sjúkratryggingakerfið okkar eins og lög gera ráð fyrir og þar sem vísir er þegar orðinn að tvöföldu sjúkratryggingakerfi á Íslandi. Að þeir efnameiri geti notið þjónustu sem þeir efnaminnstu geta ekki enda gjaldskrá ýmissa sérfræðinga óháð hámarksgreiðslu Sjúkratrygginga í sjúkrakostnaðinum í dag.

Leikskólinn sem ég dvaldist á sem smákrakki hét Grænaborg og var staðsettur á Landspítalalóðinni, rétt hjá hringtorginu við gatnamót Hringbrautar og Snorrabrautar. Þar sem áður hafði staðið bær með sama nafni, löngu áður en Landspítalinn var reistur. Sennilega vegna þess hve svæðið var grænt, fallegt og opið. Leikskólinn minn var hinsvegar smíðaður 1931 og er nú löngu búið að rífa, enda var hann alltaf hálfgerður bárujárnshjallur. Þótt hann reyndi að bera nafn sitt vel og var alltaf málaður af því tilefni grænn. Í sandkassanum þar voru fyrstu skóflustungurnar mínar teknar og ég byggði mér draumahallir eins og önnur börn. Þegar framtíðin var óráðin og löngu áður en maður átti eftir að vitskast, eða svo átti það að heita. Nú þekki ég mikið betur til staðarins þar sem leiksólinn minn stóð áður enda starfað á spítalanum stóran hluta af lífi mínu. Draumaspítala síns tíma sem varð sem betur fer að veruleika. Sama verður hins vegar ekki sagt um „draumahöllina“ sem nú á að byggja, á sama stað og ég byggði forðum.

Nú hefur engu að síður verið nánast ákveðið að byggja nýjan sameinaðan spítala á höfuðborgarsvæðinu sem á að vera hátæknisjúkrahús og háskólasjúkrahús í senn samkvæmt fyrirliggjandi byggingartillögum á þessum stað, Landspítalalóðinni við Hringbraut. Fyrsti áfangi hljóðar upp á rúmlega 40 milljarða króna og byggingarnar eiga að flæða um allt þar í kring. Mér finnst reyndar leiðinlegt að geta vera ekki verið sammál mörgum ágætum kollegum mínum á Landspítla um þessi áform, en í veikri von malda ég nú í móinn. Áður en allt verður um seinan og vona ég að ennþá megi koma í veg fyrir stórkostlegt skipulagsslys sem er í raun hluti af afkróuðum vesturbæ Reykjavíkur, miðbænum svo og Þingholtunum. Klúður sem á eftir að valda miklu óhagræði í aðgengi sjúklinga og starfsmanna að mikilvægasta sjúkrahúsi landsins ef tillögurnar ná fram að ganga.

Sigurður Guðmundsson forseti heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og fyrrverandi Landlæknir og félagi minn skrifaði ágætis grein í Fréttablaðið sl. haust um milvægi tengingar hátæknisjúkrahúsins við háskólasamfélagið og er ég honum þar hjartanlega sammála í mörgu. Sérstakalega er varðar mikilvægi menntunar, vísinda og kennslumöguleika í teymisvinnu í stað einyrkjavinnu. Eiginlega öllu nema því sem mikilvægast er í dag að taka ákvörðun um og er varðar sjálft staðarvalið á sjúkrahúsinu og skipulagi bygginga. Sérstaklega finnst mér vanta í grein Sigurðar að fjallað sé um það sem brýtur mest á heilbrigðsiþjónustunni í dag. Að halda mannauðnum í landinu og styrkja grunnþjónustuna á höfuðborgarsvæðinu. Hvar mætti frekar leggja áherslu á að bæta og laga, sem er líka atvinnuskapandi, í stað þess að byggja endilega bara nýtt úr steynsteypu, stáli og gleri. Skipuleggja þarf nýjan framtíðarspítala á nýjum stað og nýjum grunni á miklu hagkvæmari hátt en fyrirliggjandi áform eru um.

Sagan um nýjan hátæknispítala nær frá því fyrir síðustu aldarmót með sameiningaráformum Sjúkrahúss Reykjavíkur (gamla Borgarspítalans), Landakots og Landspítalans. Áform sem m.a. var til að hagræða á rekstri og sem var mjög skiljanleg þar sem sjúkrahúsin voru þrjú á Reykjavíkursvæðinu og eins að betri tengingu vantaði við Háskóla Íslands. Byggingaráform um stækkun Landspítals nær hins vegar miklu lengra aftur í tímann og lóðir hafa verið teknar frá í það verkefni neðan Hringbrautar. Reyndar var byggt þar hús sem kallað hefur verið Tanngarður og sem átti fyrst og fremst að hýsa tannlæknadeildina, en þar sem læknadeildinni var einnig síðar komið fyrir við illan leik og húsið þá kallað Læknagarður. Hús mistaka sem fyrir löngu er komið með spangir þótt það sé í raun aðeins hálfbyggt og löngu farið að kalla á mikið viðhald.

Það grátlega er þó, að frá sameiningu hefur maður aðallega séð yfirbygginguna í rekstri spítalans stækka, jafnhliða miklum niðurskurði á starfliðinu á gólfinu og auknu vinnuálagi þeirra sem eftir eru. Þjónustu sem er komin að þolmörkum þess ásættanlega. Þrátt fyrir marga samninga við Háskólann og nafni spítalans sem var breytt í Háskólasjúkrahús Landspítali. Jafnvel löngu fyrir hrun og þar sem góðærið kom aldrei. Þar sem brostinn er nú á mikill atgerfisflótti, enda býðst hæfasta starfsfólkinu margfalt betri kjör í öðrum löndum. Starfsfólk sem er á sínum besta starfsaldri og með mestu þekkinguna, jafnvel 6-12 ára sérnám að baki en því miður líka andvirði íbúðar í skuldahala í námslánum og húseignalausir. Þar sem tómt mál er að tala um að eignast hús, þaðan af síður að reisa nýtt.

Mér vitanlega viðhefst starfsemi „sameinaðs“ Landspítala ágætlega í núverandi húsnæði þótt starfsemin sé sannarlega dreift víða um borgina. Aðstaða starfsfólk er líka víða bágborin og oft verða sáttir þröngt að sitja. Sárast vantar hins vegar hjúkrunarrýmin, sérstaklega fyrir eldri borgarana og mikið hefur verið í fréttum. Nýta mætti sjúkrastofnanir í nálægð við höfuðborgarsvæðið mikið betur en gert er í dag. Til dæmis á Vífilstaðaspítlala og St. Jósefsspítla í Hafnarfirði sem var lokað sl. haust. Gömlu byggingarnar eru flestar fallegar byggingar sem eiga sína sögu eins og t.d. líka Heilsuverndarstöðin gamla og sem nú hefur gengið í endurnýjun lífdaga, vegna sálar sinnar og fegurðar. Eins má í dag nýta nýjar og hátæknilegar skurðstofur sem standa tómar, eins og t.d. í St. Jósefsspítala og hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Það hefur verið allt of algengur ósiður hjá okkur Íslendingum, að rífa niður það sem gamalt er, til þess eins að byggja flottari hús. Jafnvel hlaupa frá hálfkláruðum húsum og verkefnum. Venjan ætti jú að vera að eiga fyrir því sem manni langar í. Draumahöllin er auðvitað bara tálsýn í augum fátæklinganna. Það ætti síðasti áratugur að hafa kennt okkur. Gömul hús þurfa einfaldega endurnýjun og í þeim felast mikil menningarverðmæti eins og áður sagði. Í það minnsta er þörfin miklu meiri nú að tryggja mannauðinn og góða menntun í landinu en byggja. Nýr draumaspítali gerir líka lítið gagn ef hann stendur síðan bara tómur og hæft starfsfólk vantar. Jafnvel þegar kreppunni loks lýkur. Húsin eiga alltaf að aðlagast aðstæðum þegar þau eru byggð en ekki öfugt. Sem kallast að sníða sér stekk eftir vexti. Tugmilljarða tvísýn byggingaráform í dag eru því glapræði.

Mín skoðun er að lóðin við gamla Borgarspítalann í Fossvogi sé miklu betur til þess fallin að byggja upp nútímalegan og stóran sameinaðan Landspítala í framtíðinni, þegar við höfum efni á. Sú skoðun fyrst og fremst af praktískum ástæðum en ekki tilfinngarlegum fyrir gömlu góðu Grænuborginni. Landsvæðið í Elliðaárdalnum er opið og staðsett miklu miðlægara í höfuðborginni, og með miklu betri aðkomumöguleikum í framtíðinni, ekki síst fyrir bráðveika á bráðamóttöku, með sjúkrabílum og í sjúkraflugi með þyrlum. Umferðaröngþveiti mun hins vegar skapast í „miðbænum“ á nýjum vinnustað fyrir þúsundir á komandi áratugum á gömlu Landspítalalóðinni. Á sama tíma og Háskólinn á allur eftir að stækka auk mikils vaxtar vonandi annarrar atvinnustarfsemi en heilbrigðisþjónustu, ekki síst ferðatengdri þjónustu. Jafnvel stækkun flugvallarins út í Skerjaförð og þéttari byggðar þar í kring. Þegar í dag eru allar helstu umferðarstofnbrautirnar til og frá miðbænum ofhlaðnar umferð á álagstímum. Flestir vita líka að margar lágar byggingar, jafnvel aðeins upp á 3-4 hæðir nýtast líka illa fyrir bráðasjúkrahús, kosta meira í viðhaldi og valda miklum töfum í ferðum á milli deilda, bæði fyrir sjúklinga og starfsfólkið.

Eitt það vitlausasta í byggingartillögunum sem nú liggja fyrir að mínu mati er samt að þar er gert ráð fyrir þyrlupalli á 3 eða 4 hæð rétt hjá gjörgæslunni og skurðstofunum sem er kjarni svæðisins og viðkvæmastur þannig fyrir stórum skakkaföllum. Það vita allir Reykvíkingar að ímyndin um þyrlupalla á húsþökum í Þingholtunum á ekki við, þar sem allra veðra er von á veturna. Slysahættan er allt of mikil og getur jafnvel stefnt allri starfsemi spítalans og byggðinni þar í kring í stórhættu. Þyrlur þurfa langa aðbraut fyrir lendingu og flugtak sem eru hættulegustu tímabilin í fluginu og því nauðsyn á opnu svæði fyrir nauðlendingar í kringum lendingarstaðinn. Góð aðstaða er hins vegar þegar fyrir þyrlur að athafna sig yfir Fossvoginum og síðan Fossvogsdalnum. Í framtíðinni þarf frekar að gera ráð fyrir fleiri lendingarstöðum enda má gera ráð fyrir mikið auknu sjúkraflugi með þyrlunum.

Fyrir þremur árum voru lagðar lagðir yfir 200 milljónir króna í endurnýjun og breytingar á Slysa- og bráðamóttökunni í Fossvogi og er aðstaðan þar nú til mikillar fyrirmyndar, þrátt fyrir mikið álag á starfsfólk vegna undirmönnunnar. Álag sem að miklu leiti er líka til komið vegna þess hve heilsugæslan hefur verið svelt á höfuðborgarsvæðinu og uppbygging sem hófst fyrir tæpri hálfri öld langt í frá að vera lokið. Þvert á móti, sem nú eru komnir í miklir og stórir brestir í. Í höfuðborginni Reykjavík og nágreni þar sem flestar lækningar fara fram orðið utan dagvinnu, á læknavöktum og bráðamóttökum. Bráðamóttakan á Landspítalanum við Hringbraut þar sem meðal annars er staðsett bráðamóttaka hjartadeildar, Hjartagáttin, er einnig nýleg og fullkomin og þar sem aðeins vantar meiri peninga og starfsfólk til að geta verið starfrækt allan sólarhringinn, öllum hjartveikum til mikils gagns. Eins hafa bráðamóttökur geðdeildar og bráðamóttöka barna á nýja Barnaspítala LSH verið endurnýjaðar nýlega og stækkaðar. Allt starfsemi sem stendur ágætlega að vígi fyrir nánustu framtíð. Starfsemi sem með tíð og tíma gæti síðan flutt í nýjan sameinaðan spítala í Fossvogi ef draumsýn mín rættist, en sem nú er útlit fyrir að verði eins og martröð ellinnar. Eða að minnsta kosti eins og slæmur draumur í dós.

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 30.4.2012 - 14:14 - FB ummæli ()

„Vinir“ í neyð

Um helgina fór ég að sjá bandarísku heimildarmyndina Grimmd (Bully) sem fjallar um einelti, með þremur fjölskyldumeðlimum mínum í Háskólabíói. Sem við vissum að ætti örugglega erindi til okkar allra, en sem því miður virðist ekki ná til nógu margra. Enda vorum við aðeins fjögur ein í stórasalnum. Staðreynd sem varð til þess að maður upplifði myndina enn sterkar og eins og í ákveðnu tómarúmi umræðunnar hér á landi. Umræðu sem sannarlega hefur þó skilað miklu á síðust árum í skólunum og á vinnustöðunum. Vandamálum sem eiga sér ekki svo sterkar rætur hjá fórnarlömbunum sjálfum, heldur miklu frekar í samfélaginu. Sem vex sem illgresi og getur auðveldlega kæft sál þess sem fyrir eineltinu verður. Verið orsök stöðugs kvíða, og þunglyndis með tímanum. Jafnvel leitt viðkomandi á óheillabraut ofbeldis síðar, gegn öðrum eða sjálfum sér. Þegar öll sund virðast lokuð og sjálfsvíg er neyðin. Jafnvel í hugum ungra barna. Um þetta fjallaði þessi frábæra mynd, staðreyndir. En ekkert síður um tilfinningarnar sem að baki býr og sálarangistina, líka meðal aðstandenda, jafnvel um ókomin ár sem eiga bara minningar um saklausa barnið sitt sem varð aldrei eldra en kannski 11 ára.

Myndin sýnir á einstakan hátt samstöðuna innan fjölskyldunnar þegar á reynir og vangaveltur. Líka hvað hefi ef til verið hægt að gera áður en allt varð um seinan. Hvað skiptir mestu máli í ólíku lífi okkar hvers og eins og hvað þarf oft lítið til. Jafnvel bara tilviljanir að einhver verður fórnalamb eineltis. Hvað erfitt getur verið að takast á við grimmdina sem virðist búa innra með okkur flestum. Líka saklausari grimmd barna og unglinga og skilningsleysi okkar eldri sem horfum á og ætlumst jafnvel til að sá sem verði fyrir einelti sættist við árásaraðilann með handarbandi eins og sýnt er svo vel í myndinni. Í því litla en daglega, jafnvel tölvusamskiptum eða með símboðum og sem brýtur að lokum einstaklinginn niður. Jafnvel svo að hann telur óvini sína vini sína, því annars á hann enga vini.

Hver er ábyrgð okkar allra í samfélaginu, að drepa ekki niður lífsvilja annarra, oft í hálfgerðu hugsunarleysi eða vegna eigin vanlíðan? Þessu reynir myndin, eða öllu heldur tilfinningarnar og hugsanirnar eftir á, fyrst og fremst að svara. Þökkum líka fyrir það brautryðjendastarf sem þegar hefur verið unnið hér á landi síðastliðin áratug á vegum RegnbogabarnaStarf sem er fyrst og fremst sjálfboðaliðastarf, sprottið upp af illri nauðsyn og sem þarf að styrkja miklu meira. Í heimi þar sem allir eiga að mega vera aðeins öðruvísi og sem bara auðgar mannlífið og gerir það skemmtilegra. Þar sem góðu tilfinningar fá að ráða, tillitsemin og frelsið sem við öll viljum eiga, til að dafna.

http://eyjan.is/2012/05/07/nidurlaegjum-vid-tholendur-einelti-er-ekki-samskiptavandi-heldur-ofbeldi/

http://eyjan.is/2012/05/09/einelti-er-vist-samskiptavandi-einelti-er-ef-til-vill-allra-grofasta-samskiptavandamal-sem-fyrir-finnst/

Umfjöllun einnig í Kastljósþætti 30.04.2012

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 20.4.2012 - 15:00 - FB ummæli ()

Hin illkleifu fjöll norðursins

Nú í sumarbyrjun verður manni hugsað til allra fjallanna sem gaman verður að ganga á næstu mánuðina, til að njóta þess að vera til. Sum fjöll í huganum eru hins vegar allt öðruvísi fjöll og aðeins myndlíkingar, hindranir til að takast á við og helst sigra. Ekki síst eiga slíkar líkingar við í þjóðmálunum þar sem vandamálin eru farin að vaxa okkur yfir höfuð. Vandamálafjöll sem við höfum sjálf skapað, en sem eru orðin svo stór að þau eru að verða illkleif fyrir þjóðfélagið. Þar sem engin jarðgöng verða í boði og jafnvel nýtt háskólasjúkrahús leysir ekki vandann. En það eru til ódýrar lausnir, sem kosta jafnvel ekki neitt nema skilning almennings.

Fáar ógnir eru jafn alvarlegar heilsu manna í hinum vestræna heimi í dag og sykursýkin (diabetes mellitus, DM), og sem hefur tugfaldast í tíðni sl. áratugi. Of hár sykur í blóði sem er miklu hættulegri en hátt kólesteról og sem mikið meira hefur verið fjallað um. Sýki sem tengist ofþyngd og hreyfingarleysi ásamt slæmu mataræði meira en nokkuð annað. Eins fátækt og skorti á félagslegum úrræðum. Fjall í öðrum skilningi sem veldur öðru fremur alvarlegustu sjúkdómunum í þjóðfélaginu í dag, svo sem hjarta- og æðasjúkdómum, nýrnabilun, heilablóðföllum, blindu og alvarlegum sýkingum. Sjúkdómum sem ættu í eðli sínu fyrst og fremst af vera aldursbundnir við fullorðna, en sem börn með sykursýkina geta líka fengið. Þegar líkami barna og ungmenna eldist langt fyrir aldur fram og mikil þörf er að ræða frekar. Sem helmingur þjóðarinnar stefnir að fá, innan fárra áratuga að öllu óbreyttu.

Greind sykursýki er líka aðeins eins og toppurinn á ísjaka af miklu stærra vandamáli. Þar sem margfalt fleiri eru ógreindir eða með forstig sjúkdómsins. Talað er um allt að tuttugufalda tíðni miðað við tölurnar sem við sjáum í dag. Aðallega hjá vaxandi fjölda fólks sem á við ofþyngd að stríða og eru komnir með fyrstu einkenni skerts sykurþols, neyta of mikils sykurs og hreyfa sig ekki nóg. Nokkuð sem við í heilsugæslunni sjáum í dag í vaxandi mæli.

Í Bandaríkjunum stefnir hátt í helmingur íbúanna í að verða allt of þungir (með þyngdarstuðull (BMI) >30) á næsta áratug, þar sem hlutfallið er um fjórðungur í dag og Íslendingar virðast næstir í röðinni. Í landi þar sem þyngd fólks er oft í öfugu hlutfalli við fjárhag þess og yfir 25 prósent 65 ára og eldri þegar komnir með sykursýkina. Ástand sem verður aðeins snúið við með alhliða lífstílsbreytingum og félagslegum úrbætum í tíma. Ekkert síður hér á landi þar sem 60 prósent fullorðinna eru of þungir og um fjórðungur barna.

Í hugum margra hefur sykursýkin hingað til fyrst og fremst verið tengd við þann hóp sem er með versta formið, svokallaða Typu 1 og sem er yfirleitt arfbundin og leggst oftar á börn. Þegar brisið einfaldlega framleiðir ekki nóg insúlín og viðkomandi tærist upp nema hann fái insúlín í lyfjaformi til að hafa hemil á blóðsykrinum. Þar sem meðferðin er síðan ævilöng og stöng. Þessi gerð af sykursýkinni er sem betur fer ekki nema örfá prósent af öllum sem greinast með sykursýki hér á landi. Þar sem svokölluð fullorðinssykursýki eða offitusykursýki skýrir yfir 95% af öllum greindum, svokölluð Typa 2. Sykursýki sem er viðráðanlegri ef vilji er fyrir hendi að takast á við og oft hægt að halda niðri með róttækum lífstílsbreytingum, hollu mataræði og góðri hreyfingu. Líka lyfjum í töfluformi, sem oft eru nauðsynleg til að halda verstu einkennunum og blóðsykrinum niðri.

Segja má líka að sykursýkin sé hin illvíga bakhlið offitunnar. Þar sem kílóin eru orðin of mörg fyrir framleiðslugetu brisins á insúlíni og/eða vefir líkamans eru orðnir ómóttækilegri fyrir áhrifum þess. Nokkuð sem tengist líka svokallaðri efnaskiptavillu („metabolic syndrome„) og áður hefur verið fjallað um hér á blogginu mínu. Þegar há sykurgildi og brenglun á blóðfitum leiðir til svæsinna æðaskemmda í flestum líffærum og þú ert oft meira líkur epli en peru í útliti. Oft fyrst skemmdir í viðkvæmustu líffærunum eins og augum, víða reyndar í taugakerfinu, nýrum og hjarta. Þegar í raun lífsnauðsynlegt er orðið að fækka aukakílóunum og forðast sykurinn eins og rauðan eldinn. Skammta síðan fjölbreytt kolvetni með öllum ráðum. Fátt eykur hins vegar meira á næmni vefja líkamans fyrir góðum áhrifum insúlíns á sykurstjórnunina en hreyfingin. Stæltari og betur þjálfaðir vöðvar og góða kólesterolið (HDL) hækkar um leið. Sem hreinsar æðarnar aðeins að innan.

Mestar áhyggjur ber auðvitað af hafa af hratt vaxandi ofþyngd barna og unglinga hér á landi. Sem færa má rök fyrir að tengist mest mikilli neyslu sykurs, aðlalega sykraðra drykkja, auk meiri neyslu sælgætis og aukabita, yfir daginn og langt fram á kvöld. Eins og ákveðin fíkn, sykurfíknAlls drekka Íslendingar um 130 lítra af sykruðum gosdrykkjum á ári hverju og innbyrða að meðaltali sem samsvar um 1 kíló af hreinum sykri á viku, töluvert meira en nokkur önnur Norðurlandaþjóð. Í hverjum 500 ml. af sykruðum gosdrykk er sykurmagn sem samsvarar um 27 sykurmolum eða  54 grömmum af hreinum sykri. Sem er töluvert meira magn og ráðlagt er að hámarki yfir heilan sólarhring (36 grömm fyrir karla, 20 gr. fyrir konur og 12 gr. fyrir börn) samkvæmt ráðleggingum manneldisráða. Ekki er óalgengt að sumir unglingar drekki hins um 2 lítra á dag og sumur mun meiria, sem samsvarar neyslu á yfir 216 grömmum af hreinum sykri. Burt séð frá öðrum óhollum og örvandi efnum eins og coffein, sem gos- og orkudrykkir kunna að innihalda og mikið hefur verið til umræðu að undanförnu.

Ein lítil dós af sykruðum gosdrykk á dag í 20 ár hefur líka sýnt sig auka líkur karla á að fá hjartaáfall um 20%, samkvæmt nýlegri rannsókn og sem var fjallað um hér á blogginu. Áhættan mælist þegar tekið hefur verið tillit til annarra þekktra áhættuþátta svo sem þyngdar, kólesteróls, reykinga og jafnvel greindrar sykursýki. Ein lítil dós af sykruðum gosdrykk (um 36 gr sykurs) er þannig talin getað hækkað blóðsykur það snögglega að það hafi áhrif á meingerð kransæðasjúkdómsins sérstaklega og sem annars myndi þróast hægar. Algengustu hjartaáföllin er bráð kransæðastífla, hjartadrep og hjartabilun sem leitt getur til dauða. Niðurstöðurnar ættu auðvitað að hvetja alla að halda sykurneyslu í lágmarki, sérstaklega hvað sykraða gosdrykki varðar. Jafnvel þótt þeir séu grannir og hreyfi sig reglulega. Munum líka að mikil fíkn í sykur í dag getur leitt til sykursýki á morgun, orsök og afleiðing af sama meiði ásamt offitunni og hreyfingarleysinu.

Há tíðni sykursýki í offitufaraldrinum sem nú gengur yfir hinn vestræna heim og allt stefnir í að versni tugfalt að öllu óbreyttu, mun kollvarpa hugmyndum manna um auknar meðallífslíkur. Þess í stað draga líkurnar verulega niður. Fjöldi sjúklinga með alvarlegar afleiðingar sykursýkinnar mun verða heilbrigðiskerfinu ofviða og draga úr gæðum þess. Ekki síst til að sinna mörgum viðfangsefnum sem við teljum svo sjálfsögð í dag. Þegar kostnaðurinn verður einfaldlega kominn langt upp fyrir þau mörk sem við ráðum við. Það er nú okkar og heilbrigðisyfirvalda að snúa við blaðinu. Meðal annars með vel upplýstri umræðu, fræðslu og aðgerðum. Þarna eru gríðarlega mikil sóknartækifæri til að bæta heilsu landans og spara miklar fjárhæðir í heilbrigðiskostnaði þegar fram líða stundir.

Í gær, á sumardaginn fyrsta, gekk ég á lítið fjall eins og svo oft áður, réttara sagt aðeins fell en samt fjallið mitt, Úlfarsfell. Í smá norðannepju en björtu og fallegu veðri. Gangan var örlítið erfiðari en oft áður, enda margar vikur síðan ég gekk síðast á fjallið. Það sem var þó sérstaklega gleðilegt við gönguna var allur sá fjöldi göngufólks sem ég mætti á leiðinni og sem var í sömu erindagjörðum og ég. Á fjórða tuginn á öllum aldri, hver á sinni leið og á sínum hraða. Á fjalli inni í sjálfri höfuðborginni, en sem venjan er þó að hitta í mestalagi aðeins einn eða tvo. Vonandi fyrirboði nýrra tíma í fjallgöngum framtíðarinnar.

http://www.cbsnews.com/video/watch/?id=7403942n

http://ruv.is/frett/24000-bretar-deyja-ur-sykursyki

Diabetes Epidemic on ‘Relentlessly Upward Trajectory’

http://news.bbc.co.uk/2/hi/health/7151813.stm

http://www.cdc.gov/diabetes/pubs/estimates11.htm#2

http://www.ruv.is/frett/offita-samfelagslegt-vandamal

http://visir.is/olettar-konur-allt-ad-180-kilo-/article/2011111029587

Ein feitasta þjóð í heimi, Stöð 2 29.10.2011

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 6.4.2012 - 12:49 - FB ummæli ()

Föstudagurinn, allt of langi

prag clock deathFáir dagar eru jafn lengi að líða og föstudagurinn langi. Þó sérstaklega þegar maður var mikið yngri, fyrir tæpri hálfri öld og allt skemmtanahald var bannað á þessum degi. En maður komst ekki hjá að hlusta á angurværa tónlistina og messurnar í Ríkisútvarpinu. Jafnvel sjónvarpsdagskráin, þegar hún loks byrjaði, var döpur og langdregin. Dagur sem minnti rækilega á að lífið væri ekki án synda, og það tæki enda. Ef til vill hefði verið betra að fleiri hefðu lagt við hlustir á upplestri Passíusálma Hallgríms Péturssonar, þá og síðar. Um syndaaflausnarinnar og áminningu um hófsemi og jafnvel meinlæti sem Íslendingar hafa orðið að tileinka sér gegnum aldirnar. Þegar jafnvel fátæktin og sjúkdómar gátu auðgað andann, en stytt lífið. Sem líður allt of fljótt flesta aðra daga en föstudaginn langa. En líka áminning að geta byrjað upp á nýtt. En það fór sem fór, á gamla Íslandi. Og enn í dag skemmum við jafnvel heilsuna og flóruna okkar sjálfra með allskonar óþarfa íhlutunum. Til að stytta stundirnar sem okkur finnst oft, allt of langar.

Síðustu þrjú ár hefur þessi dagur átt enn ákveðnari skýrskotun í mínum huga. Til afar dapurlegs tíma í Íslandssögunni sem ég, ásamt flestum Íslendingum átti þátt í að skapa. Þegar sjálfur forsætisráðherrann sá ástæðu til að biðja Guð að blessa Ísland á myrkum en miðjum vinnudegi, í beinni útsendingu í Ríkisútvarpinu haustið 2008. Þegar brjóststrengir höfðu slitnað innra með þjóðinni og sem hefur lifað í sorg og eftirsjá síðan eftir gömlu „góðu“ dögunum. Dagur sem á vissan hátt boðaði endalok á vegferð nýfrjálshyggjunnar undanfarna áratugi, en um leið allt aðra og nýja vegferð. Þessi dagur var í vissum skilningi eins og föstudagurinn langi í sinni lengstu mynd.

Sorgin síðar birtist síðan í svo mörgu öðru en bara upplausn heimila og félagslegu óöryggi, og flestum þykir nóg um. Líka ábyrgðarleysi gagnvart okkar eigin líkamlegu heilsu um árabil og sem enn brýtur á. Þar sem fyrir liggur engin rannsóknarskýrsla Alþingis. Skaða í mannheimum af okkar eigin völdum og í engum takt við bágan efnahag nú, eins og fréttir frá vinum okkar Grikkjum sem líka máttu muna sinn fífil fegurri í sögunni segja til um. Meðal annars þúsunda íslenskra kvenna, sem telja sjálfsagt að fá sílikon í brjóstin fyrir stórar upphæðir, sem síðan lekur með tímanum um líkama þeirra. Sem jafnvel hefur skapað mörg nýyrði í íslenskri tungu. Svo sem „snjókomu í holhönd“ og „sílikoneitlar“ og ég lærði aldrei neitt um í læknisfræðinni. En sem flestir geta rétt ímyndað sér hvað þýðir í raun. Á sama tíma og við erum líka á góðri leið með að eyðileggja sýklalflóruna okkar með ofnotkun lyfja og vitlausum áherslum í uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar sem mér hefur svo oft áður verið tíðrætt um, en þar hljómgrunnin hefur oft vantað.

Í Prag er fræg klukka, Prague astronomical clock, sem smíðuð var í upphafi 15 aldar og sem gengur enn. Stórmerkilegt tækniundur á sínum tíma og er í raun enn. Auk þess að sýna sól- og tunglstöður, ár, mánuði og daga, var hún hönnuð til að minna alþýðuna á örlög sín og mismunandi lífsskeið. Lífsklukkuna í stærra samhengi. Þegar drepsóttir voru algengar og enginn vissi hver yrði næsta fórnarlambið. Kirkjan hafði vit á að minna menn reglulega á þessar staðareyndir lífsins, ekki síst yngra fólkið. Að hvenær sem er gætu menn og konur orðið að standa skil á gerðum sínum, frammi fyrir hinum æðsta dómstól. Klukkan fræga minnti á þessa staðreynd m.a. með ímynd dauðans í líkneski beinagrindar sem gekk fram á klukkustundar fresti og sem sést í á myndinni hér að ofan. Sem sló í klukkuna á heila tímanum og allir nærstaddir hugsuðu sitt. Enda klukkan alltaf rétt.

Ég hef stundum velt fyrir mér hvort svipuð klukka væri ekki hentug fyrir okkur Íslendinga. Til dæmis í stað gömlu klukkunnar á dómkirkjuturninum við Austurvöll sem greinilega hefur ekki verið nógu sýnileg hingað til. Kannski á sjálft Alþingishúsið hinum megin við götuna svo fleiri sjái vel á hana, og til að þeir sem þar vinna, taki mark á henni, enda verði hún alltaf rétt stillt. Til að við einfaldlega göngum meira í takt við okkar eigin lífsklukku, allt þar til hún stoppar. Dagurinn í dag er líka áminning um að á morgun kemur nýr og vonandi góður dagur, bjartur og fagur. Gleðilega páska

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 28.3.2012 - 21:43 - FB ummæli ()

Öðruvísi saga úr háloftunum

Nú er ég fyrir löngu orðinn leiður á löngum vetri. Sennileg aldrei fyrr fundist einn vetur jafn lengi að líða. Kaldur, hvítur og blautur. Jafnvel jólaljósin ekki ekta í ár. Sem sumargrænu hagarnir eru, og eins fuglarnir sem kvaka sem mest á vorin og maður bíður eftir að fá að heyra í. Jafnvel í mávinum þeim arna. Þegar náttúran lætur í sér heyra öðruvísi í en með vindgnauð. Eins endalaust nöldur í þjóðmálaumræðunni og sem við erum líka fyrir löngu búin að fá meira en nóg af. Jafnvel þurfum við hvíld frá fjölmiðlaafþreyingunni sem gera á okkur stundirnar skemmtilegri. Þegar nauðsynlegt þykir að drepa sjálfan tímann.

Að heyra síðan í ókunnugu barn gráta í háloftunum í flugvél á leið til útlanda, fékk mig til hugsa öðruvísi. Þegar börn gráta líður þeim yfirleitt illa. Sennilega eyrnaverkur í þetta skiptið, vegna hellu. Tugþúsundir barna fá hins vegar eyrnabólgu ár hvert og gráta sáran og sem allt of oft hafa verið meðhöndluð með sýklalyfjum að óþörfu, á skyndivöktum í stað verkjalyfja og náins eftirlits á daginn í heilsugæslunni og alþjóðlegar leiðbeiningar gera ráð fyrir. Og sem valdið hefur meira sýklalyfjaónæmi en hugsast getur og búið er að benda á í mörg ár. Þar sem uppbygging heilsugæslunnar hefur samt verið látin sitja á hakanum fyrir önnur mál. Þegar loks líka næstbesta bóluefnið var látið nægja fyrir allra yngstu börnin til að verjast eyrnabólgunum í stað þess besta fyrir öll ung börn. Og sem í dag virðist ekki duga nema fyrir um helming stofna sem um ræðir, í þess besta og sem náð hefði til flestra.

Eða grátur vegna tannpínu sem algengar eru á Íslandi og þar sem aðeins um 40% barna fara til tannlæknis. Jafnvel þá vegna skemmda í öllum tönnum og sem eru uppeyddar og við sáum sorglegar myndir af í fréttum RÚV í kvöld. Þar sem heilbrigðisráðherrar í tvo ártugi töluðu alltaf um úrbætur sem engar urðu. Sem kallast líka að drepa tímann.

Hugsanir mínar tengdust líka framtíðinni og hvernig ég skil hlutverk mitt í dag, sem foreldri og afi. Sem manneskja yfirhöfuð og sem heimilislæknir. Í heimi þar sem alltaf er verið að takast á við sætt og súrt, mismikið eftir dögum og aldursskeiðum. Jafnvel nú við hjúkrunarfræðingana góðu sem eru að missa sig í óraunhæfum væntingum. Í hörku starfbaráttu þeirra yfir lyfjaávísanarétti á hormónalyf á móts við okkur læknana og þar sem ekkert er gefið eftir. Jafnvel þótt á þekkinguna vanti og slakað verði á öryggiskröfum hvað heilsu unga fólksins varðar. Með hjúkrunarforystuna og sjálfan velferðarráðherra í broddi fylkingar.

Daglega ræði ég við fólk sem er töluvert eldra en ég er sjálfur. Þar sem lífshlaupið, sem leið allt of hratt, kemur oft til umræðu. Þegar sjálfur tíminn sem maður taldi öllu máli skipta, víkur fyrir endurminningunum, enda hefur svo margt farið öðru vísi en ætlað var og þegar tíminn virtist óendanlegur. Eins og óskrifað blað, en síðar sem hugsanir og orð sem gætu þess vegna fyllt út hið áður óskrifaða blað með allt annarri sögu en maður upphaflega ætlaði, en reynslunni ríkari.

Þó aldrei eins og ég ætlaði með læknisfræðina sem ég lærði og sem nú sumir telja að hægt sé að snúa á hvolf að vild. Þegar maður veit í raun hvorki upphaf eða endir á sögu, hvað snýr upp og hvað snýr niður. Þar sem ekki er leitað samstarfs eða samráðs og ákvarðanir teknar eins og úr lausu loft. Þar sem fátt af viti hefur gerst í tvo áratugi, allra síst er varðar tvö helstu heilsumein barna í dag, tannskemmdir og eyrnabólgur. Þar sem sýklalyfjaónæmið heldur áfram að aukast og aldrei fleiri börn greinast með skemmdar tennur. Saga sem þó á eftir að skrifa áfram sem betur fer, og er ennþá óskrifað blað.

 

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn