Mánudagur 27.05.2013 - 16:43 - FB ummæli ()

„Kremið hennar Siggu“

himinn

Frá Lágafelli 27.5.2013

Stundum kemur læknisfræðin manni svo sannarlega á óvart, sérstaklega þegar hún flokkast ekki undir hin sannreyndu vísindi. Meðferðir sem þó áttu rætur til alþýðuvísinda gegnum aldirnar. Jafnvel árþúsundir aftur í tímann, en sem við týndum einhvers staðar á leiðinni. Í dag notum við enda oftast lausnir sem vísindin ein segja okkur að séu bestar. Oftast með viðurkenndum lyfjum, en sem þó gangast ekki alltaf til lengdar. Vegna aukaverkana eða að þau einfaldlega hætta að virka. En sumir nenna að leita upp því löngu gleymda og góða, fyrir okkur hin sem viljum ekki öllu trúa.

Húðsár hverskonar og ecxema eru sennilega algengustu meinin sem læknar og hjúkrunarfólk hafa fengist við gegnum aldirnar. Legusárin hafa alltaf verið erfiðust viðfangs, ekki síst hjá öldruðum vegna skertrar blóðrásar og græðihæfileika. Eins sýkla og sveppa sem í þau vilja leggjast og sem stundum verða ónæmir fyrir hefðbundinni meðferð. Þegar samfélag myndast svo í nærflórunni sem hagar sér sem ríki í ríkinu og vill lúta eigin lögmálum og verkaskiptingu sín á milli m.a. með fléttum (biofilms), oft án tillits til sjálfs hýsilsins. Samsvörun sem við sjáum svo sem víða í þjóðfélaginu öllu í dag.

Vísindamenn hafa auk þess vaxandi áhyggjur af sýlalyfjaónæmi nærflórunnar okkar, svo sem klasakokkunum (staphylococcus aureus) sem valdið geta sárasýkingum eins og t.d. kossageit og jafnvel öðrum geitum í hársverði sem voru ekki svo óalgengar til forna og þegar mikið vantað oft upp á þrifnaðinn. Sömu sýklar og sem geta valdið hættulegum spítalasýkingum í sárum í dag, ekki síst þegar þeir eru orðnir penicillin ónæmir, svokallaðir MÓSA-ar (Methylycam Ónæmir Staphylococcus Aureus) og tengist ofnotkun sýklalyfja í nútíma þjóðfélögum. Á síðustu árum hafa síðan samfélagsmósarnir (CA-MRSA) valdið erfiðum og þrálátum húðsýkingum, einkum meðal íþróttamanna tengt lélegum þrifnaði á íþróttastöðum og klæðnaði. Nýtt stórt heilbrigðisvandamál víða um heim og  farið er að bera líka á hér á landi. Því er til mikils að vinna að sýklalyfin séu notuð af meiri kostgæfni í upphafi og að sporna megi gegn útbreiðlsu þessara sýklalyfjaónæmu stofna á sjúkrahúsunum og reyndar í samfélaginu öllu.

Einmitt í sárameðferðinni er rétt að horfa meira til sjálfrar náttúrulögmálanna og sögunnar og sjá hvað þetta tvennt hefur upp á að bjóða og ef við þurfum á hjálp að halda. Til náttúrulyfja og grasa sem hafa sýnt sig vera skaðlaus meðferð að öðru leiti í réttum skömmtum og grætt geta meinin okkar jafnvel á betri hátt en nýrri hefðbundnar meðferðir gera. Eins að horfa meira til hreinlætis tengt umhverfinu og á sjálfum íþróttastöðunum þar sem mörg sárin verða til.

Sigríður Einarsdóttir hefur í áratugi þróað húðkrem úr þorskalýsinu okkar með repjuolíu að viðbættum íslenskum frostþurrkuðum jurtum. Kremið heitir bioICE krem og er ætlað að græða upp erfið legusár og ecxema, þar sem jafnvel hefðbundin lyf virka ekki sem skyldi. Um áramótin var ég í afleysingavinnu á Hólmavík, m.a. á sjúkrahúsinu og kynntist af eigin raun undrakreminu sem græddi betur en önnur krem, legusár gamla fólksins sem þar lá og sem gjarnan vill myndast hjá þungum hjúkrunarsjúklingum. Sjúklingar sem jafnvel höfðu verið með ógróin sár mánuðum saman og ekkert gekk að meðhöndla fyrr en kreminu var beitt í lækningaskyni. Sárin voru fyrst þurrkuð og hreinsuð með bórsýruslími sem Sigga kom líka að með að hanna, m.a. til að losna við bakteríur og sveppi í sárunum á náttúrlegan máta. Þannig að fyrir utan að kynnast fádæma góðri hjúkrun á stofnunni, fékk ég kennslu í heimi sem hefur verið mér og mörgum öðrum læknum framandi hingað til og sem gagnaðist svona vel.

Kremið er framleitt undir ströngu gæðaeftirliti og reglum um hollustvernd hjá PharmaActiva á Grenivík. Kremið er til í tveimur styrkleikum og eins er Sigga með leyfi frá matvæla- og lyfjaeftirlitinu í Bandaríkjunum (FDA) til að markaðssetja náttúrulyfið á netinu til meðferðar á sumarecxemsjúkdómum hrossa þar í landi og sem reyndar hefur gefið góða raun við meðferð holdhnjóskasára á hrossum hér á landi. Hrossahúðsár er tengist kulda og vosbúð sem hross mega oft búa við hér á landi. Sannarlega náttúrulyfjaframleiðsla sem mér finnst mikið til koma um og sem getur orðið góður vaxtarbroddur í lyfjaframleiðslu hér á landi ef rétt er á málum haldið, bæði fyrir menn og dýr. Klínískar rannsóknir hljóta svo að vera næsta skerf til að fá náttúrulyfið skráð sem almennt lyf í framtíðinni.

Í dag er mér líka hugsað til lyfjamortélsins hans langalangalangafa míns og forskriftabókanna hans og nú eru geymdar á Héraðsbókasafni Skagafjarðar, fáum til gagns. Hvaða leyndardóm þær hafa að geyma fyrir framtíðina? Eins má e.t.v. heimfæra meðferðina með kreminu hennar Siggu á svo margt annað í þjóðfélaginu í dag sem þyrfti að laga, sem græðir og bætir á svo allt annan hátt en við höfum áður kynnst og erum föst í að hugsa.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn