Mánudagur 09.01.2017 - 00:29 - FB ummæli ()

Höfuðborgarbúinn og landsbyggðin

holmavik

Hólmavík, 7. janúar 2017

Nú sit ég einn á læknavaktinni minni á Hólmavík og bíð eins og oftast eftir næsta útkalli. Norðan stórhríð i aðsigi. Umhugsunin hvað kann að bíða getur verið ansi íþyngjandi og flestir héraðslæknar kannast við. Annars er dvölin kærkomin eftir atið alla daga á Bráðamóttöku LSH, mínum aðal vinnustað. Stutt í nauðsynlegar rannsóknir og hjálp á Landspítalanum öllum. Þar sem allir vinna eftir bestu getu þrátt fyrir oft óhóflegt álag.

Í dreifbýlinu er þetta allt örðuvísi og ekki eins fyrirséð. Vaxandi túrismi hefur margfaldað álagið og sem tengist orðið flestum alvarlegustu útköllunum. Heilsugæslan á Hólmavík, sem heyrir undir Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE), hefur haft sama mannafla á að skipa og aðstæður þau 20 ár sem ég hef verið í þar tímabundinni vinnu minni. Svo er um flesta aðra staði á landinu. Reyndar nýr sjúkrabíll sem er nú samt orðin gamall og slitinn og nýtt hjartalínuritstæki. Héraðið nær yfir 300 km frá suðri til norðurs eftir Ströndum. Hluti af leiðinn norður í Norðurfjörð er oft illfær og stundum lokuð. Þjóðbrautin norður yfir Steingrímsfjarðarheiði til Ísafjarðar tilheyrir héraðinu svo og innsti hluti Ísafjarðadjúpsins. Tæpir 300 km samt til Ísafjarðar frá Hólmavík. Flestir sjá hve margfeldisáhrifin vegna ferðamanna og umferðar norður er mikil, þótt íbúatala héraðsins sé ekki há. Reyndar meðalaldur íbúa ein sú hæsta á landinu. Einn sjúkrabíll, einn læknir og einn hjúkrunarfræðingur auk annars frábærs starfsfólks við heilsugæsluna og sjúkrahúsið á Hólmavík.

Þegar ég kom hingað fyrst var flugvöllurinn á Hólmavík nothæfur fyrir sjúkraflug. Svo er ekki lengur og illa haldið við og blautur. Vegna hættu á skemmdum á mikið öflugri sjúkraflugvélum sem nú eru notaðar eru malarvellir ekki lengur taldir nothæfir. Þannig er líka komið fyrir eldri flugvöllunum við Djúpið og í Reykhólsveit. Eini nothæfi flugvöllurinn er á Gjögri, langt úr alfaraleið.

Þegar slys verða á þjóðveginum eða annars staðar í sveitinni er oft um langan veg að fara. Héraðið er þá jafnvel án læknishjálpar ef keyrt er með sjúkling suður og sem tekur a.m.k. sex klukkustundir frá Hólmavík. Úr Djúpinu eða Norðurfirði getur slíkur flutningur tekið 12 klukkustundir eða meira. Lengsta vitjun sem ég veit um og flutningur út Reykjafirði nyrðri að sumri til, tók sólarhring. Vegna alls þessa sjá flestir hvað sjúkraflutningur með flugi getur bjargað miklu og þá sérstaklega ef kostur er á þyrluflutnngi LHG og veðurskilyrði og ísing í loftunum leyfir. Og gleymum heldur ekki sjómönnunum.

Ef bjóða á útlendingum og ferðafólki að ferðast um landið okkar er lágmark að sinna neyðarþjónustu sómasamlega. Stórauknar tekjur ríkisins ættu auðvitað að fara í að bæta þessa innviðaþjónustu. Bæta þarf þó sérstaklega strax við þyrlukost LHG með læknishjálp og jafnvel að staðsetja þyrlu á Akureyri og kannski aðra á Egilsstöðum, a.m.k. á sumrin. Jafnvel að koma á léttari þyrlusjúkraflutningum af Suðurlandi og bent var á í nýrri grein í Læknablaðinu eftir Björn Gunnarsson, lækni. Í greininni kom fram að sjúkraflutningar taka að jafnaði of langan tíma hér á landi og meira álag er á þyrluflug vegna lélegs ástands flugvalla víða og lágmarksmönnunar heilbrigðisstarfsfólks í héraði. Yfir 2 milljónir ferðamanna sl. ár og þar sem aukningin hefur verið um 40% á ári, kallar á bráðaaðgerðir strax. Nær vikuleg rútuslys í vetur og og önnur óhöpp sem sífellt eru í fréttum lýsir þörfinni vel. Og við höfum í raun verið ótrúlega heppin og bæta þarf ábyrgð ferðaþjónustufyrirtækja. Gera þarf eins stórátak í löggæslu á vegunum og stuðla að bætu umferðaöryggi.

Það er stórfurðulegt hvað stjórnvöld sýna vanda dreifbýlisins lítinn skilning. Til stendur reyndar að endurnýja þyrluflota LHG með 3 gömlum þyrlum og sem standast ekki lengur ýtrustu kröfur hjá bræðrum okkar og systrum í Noregi. Þar er til að mynda verið að endurnýja þyrluflotann með 17 nýjum þyrlum af fullkomnustu gerð, AW101 sérhæfða björgunarþyrla Norðmanna er með flughraða 277km/klst og hefur flugþol næstum 7 tíma og getur brætt af allt af 6 cm ís með afísunarbúnaði. Þær verða staðsettar er á um 20 bækistöðvum um landið allt. Það er fyrir utan þyrlu og björgunartækjakost hers og lögreglu sem jafnhliða er hluti almannaöryggisneti þeirra en sem kostar norskt þjóðfélag hátt í 1000 milljarða á ári hverju með hergögnum). (Hver þyrla, kostar sennilega á núvirði um 4 milljarði IKR og sem Íslendingar pöntuðu með Norðmönnum en hættu við árið snarlega árið 2008 http://www.defenseindustrydaily.com/norway-opens-up-sar-helicopter-competition-03020/). Er til mikils ætlast að Íslendingar bæti nú rösklega í 2017 og léttum þá um leið aðeins á sjálfboðavinnu björgunarsveita um landið allt og sem bjargað hafa því sem sem mögulegt hefur varið að bjarga hingað til. Þar hefur okkar mesta lán legið hingað til. Furðulegast af öllu er þó skilningsleysi ríkis og borgar nú að láta loka neyðarbrautinni svokölluðu á Reykjavíkurflugvelli eins og ekkert sé. Framkvæmd á ábyrgð ríkisins þegar upp er staðið og sem hefur þegar ollið miklum töfum á sjúkraflutningum í misjöfnum veðrum. Hvað þarf mikið til?

Að sama skapi er stórfurðulegt að byggja á nýjan þjóðarspítala sem býður ekki upp á sem besta aðkomu fyrir sjúkraflutninga utan af landi í framtíðinni. Hvað sem segja má með umferðaröngþveitið í miðbænum og sem stjórnvöld hyggjast leysa með bættum almannasamgöngum í borginni í stað umferðamannvirkja. Með lokun neyðarbrautar og uppbyggingar nú við gamla NA endann (m.a. á Valslóð og við Hlíðarenda) lokast um leið opið aðflugssvæði á fyrirhugaðan þyrlupall 5 hæðar rannsóknarbyggingar á lóðinni, rétt utan við glugga legudeilda meðferðarkjarnans sjálfs í framtíðinni! Lendingar þar eru reyndar fyrirhugaðar samkvæmt SPITAL hópsins aðeins í „neyðartilvikum“ (vegna almennt slæmra aðstæðna til lendinga). Áætlun sem 2012 miðaðist aðeins við innan við 20 lendingar á ári og þannig í raun í undantekningatilvikum. Þyrlusjúkraflutningar nálgast hins vegar í dag að vera um 300 á ári og aldrei fleiri en í ár og mættu vera mikið fleiri. Helmingur sjúklinga eru illa rannsakaðir sjúklingar eftir slys hverskonar og sem fyrri reynsla sýnir að meirihluti þurfi á skurðaðgerðum og gjörgæsluplássi að halda. Þvílík naumhyggja og þröngsýni varðandi framtíðarþjóðarsjúkrahúsið okkar, neyðarflutninga og heilsuöryggi almennt. Reykjavíkurflugvöllur var reyndar eitt af þremur helstu forsendum fyrir staðarvalinu á Hringbraut í upphafi eða allt þar til borgin ásældist meira byggingarland og fékk ríkið til að kippa þessari forsendu burt árið 2012. Enginn veit síðan í dag með framtíð hans.

Landsmenn og stjórnmálaöfl eiga nú að grípa strax í taumana. Við viljum flest halda landinu í góðri byggð og tryggja öllum lágmarks nútímalegt öryggi. Við viljum góða neyðarflutninga og nauðsynlega heilbrigðisþjónustu um landið allt eins og best má verða. Borgaryfirvöld í höfuðborginni hugsa hins vegar bara mest um sína. Mest um þéttingu íbúabyggðar, hótel og atvinnutækifæri í miðbænum. Að græða sem mest á túrismanum, sem reyndar er mikil tálsýn og flestum má vera ljóst. Umferðaröngþveiti og síðan ómögulegt skipulag varðandi nýja framtíaþjóðarspítalann og neyðarsjúkraflutninga gegnum miðbæinn ber þessu best vitni og sem hingað til hefur ekki fengist að ræða hjá yfirvöldum eða í ríkisfjölmiðlum. Ríkið dregur hins vegar áfram lappirnar og treystir á flesta aðra, aðallega sjálfboðavinnu björgunarsveita og gamla forna tíð.

http://www.laeknabladid.is/tolublod/2017/01/nr/6182

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja.
RSS straumur: RSS straumur