Sunnudagur 25.04.2010 - 08:47 - 3 ummæli

Íslenskt atvinnulíf í öngstræti

Íslenskt atvinnulíf virðist hafa strandað illilega þegar útrásarvíkingarnir settu allt á hausinn.  Þeir voru jú við stjórn og allir aðrir aðilar í samfélaginu dönsuðu dátt í kringum þann gullkálf.

Þannig leiddu útrásarvíkingarnir lífeyrissjóðina, stjórnmálamenn og bankana sofandi að feigðarósi.  Þetta var svo einfalt, ekkert þurfti að hugsa bara að taka við fyrirskipunum frá hrunliðinu.  Og þar er vandinn í dag.

Enginn hefur hugmynd hvað eigi að gera í einkageiranum, enginn hefur neina reynslu eða þekkingu og allt traust er farið.  Lífeyrissjóðirnir ráfa um ringlaðir, stjórnmálamenn benda á bankana en þeir virðast gera það sem þeir þekkja best og er einfaldast, láta hlutina rúlla eins og þeir eru.

Þetta er auðvita draumastaða fyrir gömlu útrásarvíkingana, enginn hefur þor eða kjark til að setja þeim mörk, þeir halda sínum gömlu eignum og tekst með ótrúlegri bíræfni að telja  mönnum trú um að þeir einir geti stjórnað sínum gömlu fyrirtækjum af því að þeir hafi einhver sambönd og reynslu.  Hvað með að öll þessi fyrirtæki hafa verið rekin á bólakaf með óábyrgri fjármálastjórnun.  Hvers konar reynsla er það?

Rekstur fyrirtækja á Íslandi á ekki að byggjast á samböndum heldur góðri fjármálastjórn.     Og hér er því miður ekki um auðugan garð að gresja, við eigum lítið af reyndu fólki sem getur sýnt fram á 10 ára reynslu af ábyrgri fjármálastjórnun þar sem lánum var haldið innan skynsamlegra marka.

Því vaknar sú spurning, hvernig eigum við að endurskipuleggja einkageirann þegar okkur skortir nauðsynlega reynslu og þekkingu?   Skynsamlegast væri að fá hjálp frá okkar nágrönnum, en einhvern vegin virðist það vera alversti kosturinn í augum íslenskra stjórnmálamannanna (og útrásarvíkinga), betra að láta hlutina rúlla eins og þeir eru.

Hér fylgja verk ekki orðum okkar stjórnmálamanna.  Í orði  skamma þeir hrunliðið en það nær varla lengra.  Á meðan verða launþegar að sætta sig við að Ísland siglir inn í að verða eina raunverulega láglaunasvæðið í norður Evrópu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Bæði Japan, Þýskaland og Finnland hafa sýnt það vel hvernig hægt er að snúa atvinnulífi og iðnaði sem er bókstaflega í rúst til hins betra, jafnvel geta orðið fremstir á meðal jafningja.

    Ísland hefur urmul af möguleikum, fleiri en mörg önnur nágrannalönd. Sveigjanleiki ætti að vera einn af streku hliðum Íslands, á hinn bóginn er það mannfæðin sem gerir það að verkum að forgangröðun er lykilatriði: á hvað á að veðja? Þess vegna hefur það aldrei verið eins mikilvægt eins og í dag að hafa góða atvinnuvegastefnu, sem ríkisstjórnin skuldbindur sig til að styðja beint og óbeint (m.a. í gegnum menntakerfið, samgöngur, osfrv.).

    Ég hef hinsvegar hvorki séð né iðnaðar – né atvinnuvegastefnu sem gefin hefur verið út af hálfu hins opinbera – ábendingar vel þegnar.

  • Ómar Harðarson

    Heimurinn er ekki í svart-hvítu. Fyrir marga þá sem unnu við fjármálastjórn og viðskipti, nýskriðnir úr skóla með litla starfsreynslu, var fjármálahrunið vafalítið afdrifarík reynsla sem flestir hefðu viljað vera án. Hún gerir þá hins vegar reynslunni ríkari. Ég á ekki von á öðru en flestir hafi viljað inna sitt starf heiðarlega af hendi. Ég er því ekki mjög óttasleginn að það sé skortur á mannvali.

    Verkefnið er hins vegar að vinsa úr þá sem lugu, sviku og prettuðu. Þar fóru fremstir hinir svokölluðu útrásarvíkingar. Það er óskiljanlegt að bankarnir skuli enn trúa þeim fyrir rekstri fyrirtækjanna sem þeir komu í þrot af óheiðarleika. Öðrum verðum við flestum að gefa sjens – fyrst í stað undir nokkuð ströngu eftirliti að vísu.

  • Ómar,
    Það er rétt að það er til mikið af góðu fólki en það þarf leiðsögn og þar þurfum við að læra af reynslu annarra. Aðeins dreift eignarhald almennings er ásættanlegt því það er ómögulegt að vita hverjir standa á bak við svokallaða kjölfestufjárfesta. Íslendingar eru heimsmeistarar í að láta leppa fyrir sig og skipta um kennitölu. Um leið og gjaldeyrishöftin voru sett á spruttu um svikarar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sex? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur