Sunnudagur 02.05.2010 - 11:52 - 7 ummæli

Um höfuðstól og heilaga vexti

Þegar kreppa skellur á eru viðbrögðin í flestum löndum oftast þau að vextir eru lækkaðir til að auka greiðslugetu fyrirtækja og almennings og þar með örva hagkerfið aftur til lífs.  Alls staðar nema á Íslandi.  Nei, hér á landi fara menn alltaf einhverja Fjallabaksleið sem engum öðrum dytti í hug.

Á Íslandi eru vextir heilagir og haldi háum en til að laga greiðslugetu fyrirtækja og einstaklinga er reynt að krukka í höfuðstólinn eins og það sé einhver töfralausn.  Vandamálið við þessa aðgerð er að hún tekur á fortíðinni en gleymir framtíðinni.  Lækkun höfuðstóls hjálpar ekki nýjum fyrirtækjum.  Nei, þvert á móti skekkir höfuðstólslækkun samkeppnisgrundvöll fyrirtækja og verðlaunar skussana.

Þeir sem eru með nýjar hugmyndir eða fóru varlega fyrir hrun fá enga hjálp.  Engan aðgang að lánsfé á viðráðanlegum kjörum.  Öll orkan fer í að bjarga því sem hrunið er, en ekki að byggja upp það sem stendur á traustum grunni.

Með því að lækka vexti í stað höfuðstóls, fá hins vegar allir hjálp, bæði þeir sem eru í fortíðarvanda og hinir sem eru með ný atvinnuskapandi verkefni.

Því miður er saga Seðlabanka Íslands ein hörmungarsaga.  Þar þarf algjörlega nýjan hugsunarhátt og viðhorf.  Þar verður að stokka upp á nýtt og setja bankanum heilbrigð markmið um atvinnuuppbyggingu sem stuðla að nýjum gjaldeyrisskapandi störfum.  Verðbólgumarkmiðið eitt og sér á ekki við lengur.

Már, Seðlabankastjóri ætti að hlusta á orð Mervyn Kings, Seðlabankastjóra Bretlands sem sagði nýlega að halda yrði vöxtum lágum í Bretlandi næstu 4 árin til að örva hagkerfið og vega upp á móti skattahækkunum og niðurskurði.  Verðbólga í Bretlandi er nú hærri en stýrivextir en það virðist ekki hræða Mervyn.  Er ekki kominn tími til að Seðlabanki Íslands fari að standa í lappirnar, svo ég noti kunnulegt orðbragð þar á bæ.

Ps.  Fyrir þá sem hafa áhuga bendi ég á heimasíðu Englandsbanka, http://www.bankofengland.co.uk/

Þar sjá menn að stýrivextir í Bretlandi eru 0.5% en verðbólgan mælist 3.4%.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Björn Jónasson

    Loksins sér einhver hið augljósa. Ef við hefðum farið að dæmi ALLRA annarra landa, strax í nóvember 2008 og lækka vexti niður fyrir verðbólgu, þá væru við í mun minni vanda en við erum í dag.

    Hagfræðin, sem hefur sama status og guðfræði hafði fyrir 500 árum, byrgir skynseminni sýn.

  • Íslensk stjórnvöld eru að gera út af við landsmenn með vitleysisgangi og spillingarpólitík.

  • Guðbjörn Guðbjörnsson

    Andri Geir:

    Eru það ekki aðrir sem ráða í Seðlabankanum, en þar á ég að sjálfsögðu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

  • Haukur Sl

    Sæll Andri.

    Það er almennt óumdeilt innan hagfræðinnar að það eina sem Seðlabankar geta haft áhrif á til lengri tíma sé verðlag. Þeir geta ekki haft áhrif á framleiðslu eða hagvöxt til lengri tíma, aðeins til styttri tíma, þ.e.a.s. transitory framleiðslu – með öðrum orðum þá eru þeir aðeins fallnir til þess að hafa áhrif á slaka og spennu…

    Ég veit ekki hvernig Seðlabanki á að setja „heilbrigð markmið um atvinnuuppbyggingu sem stuðla að nýjum gjaldeyrisskapandi störfum.“

    Þetta er ansi óljóst.

    Slík markmið myndu einnig gera lítið annað en að draga úr ábyrgð Seðlabanka því markmiðið er óljóst og í raun óraunhæft.

  • Flestir Seðlabankar hafa kastað þröngu verðbólgumarkmiði fyrir róða til að geta notað það eina tæki sem þeir hafa „stýrivexti“ til að kynda undir hagkerfum heimsins.

    Það sem þarf er heilbrigða skynsemi í bankann. Það er augljóst að það þarf að lækka vexti og aftengja verðtryggingu til að koma atvinnulífinu af stað og hjálpa heimilunum að ná endum saman.

    Það má deila um rétt orðalag á markmið Seðlabankans en það breytir því ekki að núverandi stefna kallar á ekkert annað en stöðnun.

    Auðvita eru fingraför AGS út um allt hjá Seðlabankanum en þá er miklu heiðarlegra að segja hreint út að ekki sé hægt að lækka vexti vegna andstöðu AGS. Til hvers að vera með peningsmála nefnd að hætti alvöru Seðlabanka ef allar ákvarðanir eru teknar í Washington?

    Þetta gengur hreinlega ekki upp.

  • Einar Guðjónsson

    Íslenska leiðin hefur falist í því að fyrirtækin fara reglulega á hausinn en er ekki hjálpað með heilbrigðum aðgerðum. Niðurgreiðslur Seðlabanka til bankanna fyrir að geyma peningalagera í bankanum nemur auðvitað milljörðum á síðasta ári og þessu.
    Sveitarfélögunum verður hins vegar hjálpað enda hafa þau sýnt allra mesta ábyrgðarleysið eða forsvarmenn þeirra. Þeir höfðu flestir vit á að ljúga sig inn á þing á eftir og munu redda þeim þaðan. Bestu dólgarnir eru þar s.s. Ásbjörn Óttarsson, Gunnar Bragi, Steinunn Valdís, Guðlaugur Þór, Svandís, Guðbjartur, svo maður nefni fáa. Áður voru það Sturla, Davíð, Ingibjörg

  • Ég skrifaði nokkrar færslur 2008 og 2009 um skekkju í rökhugsun við ákvörðun stýrivaxta hér á landi. Mér sýnist þú taka undir þær ábendingar mínar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fjórum? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur