Þriðjudagur 04.05.2010 - 12:55 - 5 ummæli

Launastrúktúr ríkisins er skrípaleikur!

Lilja Mósesdóttir talar um markaðslaun og að menn þurfi að hækka og lækka í launum í takt við markaðslaun.  En hver eru þessi markaðslaun og hver reiknar þau út?  Eigum við óháða og sjálfstæða stofnun sem heldur utan um launakjör helstu stétta og birtir upplýsingar um markaðslaun reglulega?  Hvaða gögn styðst Kjararáð við þegar það ákveður laun ríkisstarfsmanna?

Er ekki rétt að staldra aðeins við og huga að grundvallarskilgreiningum á hugtökum eins og „markaðslaun“ áður en lengra er haldið?

Eitt er víst að þegar stjórnmálamenn byrja að krukka í launatöxtum og skilgreiningum er voðinn vís.  Hvergi er þetta augljósara en í bankageiranum.

Seðlabankinn og Landsbankinn eru undir Kjararáði en Íslandsbanka og Arion Banka er frjálst að ákveða laun út frá markaðsforsendum. Eins og staðan er í dag, eru bankastjórar Íslandsbanka og Arion banka með um 1.7 m kr á mánuði á meðan sömu stöður í Seðlabanka og Landsbanka eiga að vera undir launum forsætisráðherra.  Ætli stærstu bankar landsins starfi á jafnréttisgrundvelli í svona kerfi?  Hver eru rökin fyrir þessum mismun?  Gerir þetta ríkisbankana samkeppnishæfari og sterkari?  Ef svo er, af hverju flykkjast ekki hinir bankarnir til Kjararáðs?

Nú eru ansi margir starfsmenn hjá bönkunum með yfir 1 m kr á mánuði, eða yfir launum forsætisráðherra.  Er eðlilegt að bankastjórar Seðlabankans og Landsbankans séu með handstýrð laun en þeirra undirmenn séu allir launahærri enda má borga þeim markaðslaun í samræmi við einkabankana?  Hvaða tilgangi þjónar svona skrípaleikur?  Er hér aðeins um pólitíska barbabrellu að ræða?

Nei, svona launastrúktúr er stórhættulegur og grefur undan réttlætiskennd og góðum viðskiptaháttum.  Hann skapar vantraust hjá starfsfólki og gerir erfitt fyrir að ráða gott og hæft fólk.  Sérstaklega á þetta við í stoðgreinum eins og lögfræði, tölvunarfræði og endurskoðun þar sem ríkið og bankarnir keppa við stærsta hluta einkageirans.  Þá ýtir svona kerfi undir pólitískar ráðningar í æðsu stöður og hyglar einstaklingum sem setja völd og ítök ofar öllu.

Ráðherrar eiga ekki að skipta sér af markaðslaunum, þeirra verk er að sjá svo um að allar stofnanir og fyrirtæki í landinu starfi á jafnréttisgrundvelli.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Það er einhver misskilningur í gangi hér með hugtakið markaðslaun. Það hugtak á að fjalla um þau laun sem greiða yrði til að fá hæft fólk til starfa. Eins og staðan er í dag, eru þau laun væntanlega fyrir neðan þau laun sem greidd eru í bönkunum.
    Sá skilningur sem í þessum pistli er lagður í hugtakið, er sá að það sama sé greitt fyrir sambærileg störf í mismunandi fyrirtækjum. Það er rökleysa og leiðir væntanlega til þess að alltaf verða greidd óþarflega há laun í fyrirtækjum þar sem launakostnaður er í lægri kanti miðað við aðrar stærðir í rekstrar og efnahagsreikningi, eins og raunin er í bönkunum.

  • Arnar
    Í þessum pistli kasta ég fram spurningum um markaðslaun? Þetta er nefnilega erfitt hugtak.

    Það sem er alveg víst er að ekki er glóra i að taka laun forsætisráðherra (sem hver ákvað og hvernig?) og nota sem mælistiku og reikna allt út frá henni. Af hverju ætli sé erfitt að fá lögfræðinga til að fastráða sig hjá ríkinu?

    Markaðslaun ráðast fyrst og fremst af því hvað fyrirtæki eru tilbúin að greiða í laun fyrir ákveðinn starfsmann. Starfsmaðurinn byrjar auðvita að vitna í sambærileg laun í öðrum fyrirtækjum og þannig fer samningaferlið af stað. Hér spilar inn í framboð og eftirspurn, hæfileikar og reynsla.

    Svo má ekki gleyma að þó Ísland sé eyja þá er markaður fyrir starfsstéttir fyrir utan landsteinana. Sérstaklega á þetta við heilbrigðisstéttir og tæknimenntað fólk.

  • Þessi launastefna ríkisins og ríkisstjórnarinn er mjög hættuleg. Það getur vel verið að fullt af fólki haldi að þetta sé frábær leið að lækka launin hjá öllum toppunum niður í grjótið. Það sem hins vegar gerist er að laun allra í landinu verður með sama móti haldið niðri lágum næstu árin meðan Vinstri menn stjórna.

  • Þetta er allt rétt hjá þér Andri Geir.
    Spurningin er hinsvegar sú hvort ástæða sé til að greiða há laun í Landsbankanum þegar margir hæfir einstaklingar eru tilbúnir til að vinna þau störf sem þar eru unnin fyrir minna en verið er að borga.
    Fyrir því þarf að færa sannfærandi rök og ekki nægir að vitna í samanburð við aðra banka.

  • Arnar,
    Það er góð spurning og sjálfsagt væri hægt að lækka launakostnað bankanna með því að stokka alveg upp hjá þeim og endurskipuleggja alla verkferla. Bankakerfið í dag er allt annað en það var, þetta er mest greiðsluþjónusta og venjuleg lánastarfsemi til einstaklinga og fyrirtækja. Tímabundið er mikið endurskipurlagningar starf í gangi en vonandi minnkar það með tímanum.

    Undir venjulegum kringumstæðum hefðu laun snarlækkað í bankakerfinu eftir hrun þar sem eftirspurn eftir störfum hefði verið meir en framboð. Hins vegar flækir það málið að margir bankamenn urðu að yfirgefa bankageirann vegna gruns um misferli sbr. skýrsluna. Þannig eru það tiltölulega fáir sem hafa mikla stjórnunarreynslu og þekkingu og eru tandurhreinir innan bankanna. Sú staða kyndir undir há laun.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fimm? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur