Laugardagur 08.05.2010 - 10:47 - 29 ummæli

Upptaka dollarans rökrétt

Núverandi kynslóð á Íslandi mun ekki sjá upptöku evru hér á landi jafnvel þó að við göngum í ESB innan nokkurra ára.  Í fyrsta lagi munum við ekki uppfylla Maastricht skilyrðin næstu 30-40 árin og í öðru lagi hafa Grikkir sett evrusamstarfið í uppnám og framtíð sameiginlegs gjaldmiðils í Evrópu er óviss í meira lagi.

En er evran rökréttur gjaldmiðill fyrir Ísland?  Við erum að meirihluta orku- og hráefnisútflytjendur.  Í framtíðinni mun orkusala verða sá þáttur í okkar hagkerfi sem leggur grunninn að endurreisn hagkerfisins.  Að því leyti erum við miklu betur sett en löndin við Miðjarðarhafi.  Og að þessu leyti erum við ólík öðrum ESB löndum.

Orka og hráefni eru að mestu verðlögð í dollurum.  Landsvirkjun gerir upp í dollurum enda eru lán og tekjur hennar í dollurum.  Álið okkar er verðlagt í dollurum.  Útgerðin er með stóran hluta af sínum kostnaði í dollurum.  Vissulega er stór hluti af okkar innflutningi í evrum og sama gildir um tekjur af sjávarútvegi, en það eru ekki nógu sterk rök eins og staðan er í dag til að taka upp evru.

Það er því ljóst að við erum og verðum mikið dollaraland.  Því er rökrétt að við hugum að upptöku dollara.  Þetta er viðurkennd leið, mörg örríki um allan heim nota dollarann og Seðlabanki Bandaríkjanna myndi ekki setja sig á móti þessari leið á sama hátt og Seðlabanki Evrópu.

Sveigjanlegur haftagjaldmiðill er ekki markmið í sjálfu sér, hann er aðeins nauðsynlegur þegar hagstjórn fer úr öllum böndum.  Lönd sem ætla sér að búa við lélega og óábyrga hagstjórn verða auðvita að hafa gjaldmiðil eins og krónuna áfram.  Hún er hjálpartæki skussans.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (29)

  • Þú talar um okkur sem hráefnisútflytjendur? Er það ekki vegna gjaldmiðilsins? Verður ekki með Evru kominn grundvöllur að fullvinnslu hér á landi? Með stabílan gjaldmiðil kemur upp framtíðarhugsun í fjárfestingu og þá verður hægt að reisa nokkrar verksmiðjur til að fullvinna sjávarafurðir í neytendapakkningar tilbúnar í hillur evrópskra búða. Það hljóta að verða bestar afurðirnar sem vinnast ferskar frekar en að sigla í gámum eða í frystum blokkum til Evrópu og þíðast upp og svo keyrðar í gegnum einhverja vinnslu (rasphúðun eða eitthvað) og svo frystar aftur.
    Gjaldmiðillinn hefur alltaf truflað dæmið eða hvernig má það vera að meira fæst fyrir fiskinn sem hráefni í gámi heldur en fullunninn hér á landi?
    Ég trúi því ekki að við Íslendingar séum „hráefnisþjóð“ að eðlisfari.

  • Magnús Jónsson

    „Seðlabanki Bandaríkjanna myndi ekki setja sig á móti þessari leið á sama hátt og Seðlabanki Evrópu.“

    Gott og vel, en varla væri hann bakhjarl til þrautavara og varla myndi hann skipta út krónunum okkar fyrir dollara?

    Ertu í alvöru að stinga upp á því að Ísland fari sömu leið og Panama og Kambódía?

  • Villi,
    Verðmætasti fiskurinn er ferskur fiskur sem ekkert hefur verið unninn. Að húða fisk með raspi er verðmætarýrnum.

    Magnús,
    Seðlabankinn er engin banki til þrautarvarnar eins og komið hefur í ljós og skiptir þá engu hvort við notum kr. eða $. Þetta hugtak á aðeins við í tugmilljóna hagkerfum. Það eru hins vegar meiri líkur á að erlendir bankar og Seðlabankar taki mark á okkur og láni okkur ef við notum alvörugjaldmiðil og fylgjum agaðri hagstórn.

    Atvinnulífið þarf dollaravexti til að koma sér af stað.

    Góð hagstjórn og traustur gjaldmiðill fara saman. Légleg hagstjórn og veikur gjaldmiðill fara einnig saman, en aðrar blöndur eru ekki traustvekjandi.

  • Svartálfur

    heyr heyr
    ég tek undir með Andra Geir.

  • Magnús Jónsson

    Andri, þú meinar að fyrst verðum við að hafa náð góðri hagstjórn og þá getum við tekið einhliða upp traustan gjaldmiðil eins og dollarann, þ.e.a.s. þegar við höfum orðið efni á að kaupa nógu mikið?

    Með hliðsjón af sögu lýðveldisins, er þetta ekki svolítið útópískt?

  • Fiskurinn er varla ferskur ef hann er orðinn frá 16 og niður í 5 daga gamall..þó óunninn sé.(nema honum sé flogið en það er væntanlega bara brot af heildinni) Hvert fer bróðurparturinn af íslenska fiskinum sem við seljum til Bretlands?Þú hefur búið í London. Vilja Bretar fiskinn einsog við; með kartöflum og smjöri?

  • Villi,
    Dýrasti fiskur sem hægt er að fá í Bretlandi er ófrosin íslensk lúða. Flakaður þorskur frá Íslandi er einnig dýr og þykir herramansmatur. Auðvita er ekki hægt að flyta allan fisk frá Íslandi beint eða með flugi og alltaf verður eitthvað af fiski unnið.

    Við verðum alltaf hráefnisland og ættum að taka Ástrali okkur til fyrirmyndar. Það er raunhæft að við getum breytt okkur í „Þýskaland“ á einni nóttu.

    Magnús,
    Það er alveg rétt, ekki þýðir neitt að taka upp dollara nema að við hreinsum almennnilega til í okkar hagstórn. Þetta mun þýða að stjórnmálamenn og embættismenn verða að fara að vinna faglega og sýna öguð vinnubrögð. Það verður að setja markið hátt.

  • Átti að vera „ekki raunhæft“ í síðustu ath.

  • Mjög áhugavert.

    Takk

  • Jóhannes

    Ég er algerlega sammála um nauðsyn þess að taka upp aðra og traustari mynt, enda áratuga reynsla af íslensku krónunni afleit.

    En er US dollari lausnin?

    1. Viðskipti Íslands við Evrusvæðið eru mun meiri en við US og hefur það hlutfall farið vaxandi undanfarin ár. Sveiflur gengis US$/EUR hafa verið töluverðar undanfarin ár og gengisáhætta er því töluverð milli US$ og EUR. Eitt af meginmarkmiðum upptöku nýrrar myntar er takmörkun gengisáhættu og ef Evran lifir hrakninga vegna illa rekinna landa virðist hún vænlegri kostur.

    2. US er ekki beint fyrirmyndarríki í stjórnun efnahagsmála. Þarna hefur verið viðvarandi gríðarlegur halli á ríkisrekstrinum og utanríkisviðskiptum mörg undanfarin ár, sem hefur verið fjármagnað af digrum sjóðum Asíuríkja, einkum Kína í dag. Einnig eru innri vandamál US mikil og má t.d. ætla að vandi Kaliforníu sé mun stærri að umfangi en vandi Grikkja. Fleiri ríki eru í erfiðum málum. Styrkur US til að taka á málum er hinsvegar sá að alríkisvaldið er miðstýrt í Washington en ekki sundurlaust eins og í Evrópu, eins og aðildarlönd Evrunnar eru að gera sér grein fyrir í dag.

    3. Það lagar lítið að taka upp aðra mynt ef efnahagsstjórnin batnar ekki. Gríska vandamálið kæmi upp á Íslandi og enginn bakstuðningur frá US. Reyndar virðist sem ríkið og einkum sveitarfélög hafi „Grísku leiðina“ með því að fela raunverulega skuldbindingar með „skapandi“ fjármálagjörningum á undanförnum misserum og árum.

    4. Þótt það sé líklega tiltölulega einfalt að taka upp US$ á einni nóttu er það ekki án kostnaðar. Seðlum og mynt og hugsanlega öðru grunnfé þarf að skipta út fyrir US$. Þetta eru einhverjir tugir milljarða sem eru í umferð í dag. Það yrði enginn kaupandi af þessum íslensku krónum (Evrópski seðlabankinn kaupir þetta grunnfé í tilfelli Evruríkja) og því hægt að halda tugmilljarða seðlabrennu á kostnað ríkisins.

    5. Það er ekki endilega rétt að það taki áratugi að uppfylla Maastricht skilyrðin. Forsenda fyrir stöðugleika og grósku í efnahagslífi á Íslandi er stórbætt hagstjórn, óháð ESB aðild eða upptöku annarrar myntar. Ef farið yrði í aðlögunarferli að ESB eru verulegar líkur á að fara strax í ERM II samstarf við ESB og einnig að Seðlabanki Evrópu kæmi til aðstoðar með beinum aðgerðum, eins og þeir hafa t.d. gert gagnvart dönsku krónunni. Aðlögun að Maastricht skilyrðunum gæti því orðið miklu hraðari en ella og án stuðnings. Reyndar eru skilyrðin mjög góð markmið í stjórn efnahasmála óháð aðild að ESB og örugglega veruleg bót frá vitleysisgangi síðustu áratuga. Stærsta áhættan er kannski sú að það finnist nægilega hæft fólk í íslenskum stjórnmálum til að koma skikki á hagstjórnina, enda hræða sporin mjög í þeim efnum.

    Ég held að það sé skynsamlegra að sjá hvernig Evrunni reiði af sem og samstarfi Evrópuríkja áður en stórar ákvarðanir eru teknar. Eftir hið hrikalega hrun krónunnar er fólk enn í miklu sjokki og mun verða enn um sinn, enda er eignabruninn örugglega heimsmet á alla mælikvarða. Þetta birtist í miklum tilfinningum fólks, s.s. reiði, mikilli þjóðerniskennd, vissri vænisýki, minnimáttarkennd ofl. ofl. sem endurspeglast greinilega inn á alþingi með óvenju sterkum hætti.

    En ég er sammála þér um að US$ er miklu betri kostur en íslenska krónan, ef ekki kemur annað til.

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Jóhannes,

    Takk fyrir innlitið og auðvita eru sterk rök fyrir evrunni en praktískt talað er evran ekki á dagskrá hér a.m.k næstu 20 árin og líklega lengur. Á meðan getur $ verið góð lausn. Seinna þegar Evrópa er búin að bjarga evrunni ef henni verður bjargað getum við skipt yfir. Þetta yrði þá tímabundin notkun á dollara enda er ég sammála að ef evrunni verður bjargað þá eigum við að tilheyra henni en það verður líklega ákvörðun næstu kynslóðar.

    Mín kynslóð hefur valið kr. eða $.

    Auðvita eigum við að ganga inn í ESB þótt við tökum upp $. Það gæti jafnvel styrkt okkar samningsstöðu því þá væri ekki hægt að flokka okkur með jaðarlöndum með veika gjaldmiðla.

  • Jóhannes

    Er sammála þér í því að þetta er kostur sem á að skoða mjög alvarlega.

  • Þetta er a.m.k. einn flötur sem þarf að skoða.

    Miðað við hrakspár sumra um að bandaríski dollarinn eigi eftir að skítfalla þegar viðskiptaójöfnuður og skuldir Bandaríkjanna fari yfir eitthvert mark í tiltölulega náinni framtíð, er þetta kannski ekki fýsilegt.

    Sjálfur hef ég daðrað við kanadadollarann, en það er kannski óraunhæft.

  • KS,
    Kanadadollarinn gæti hentað okkur vel, hins vegar er ekki víst að Seðlabanki Kanada yrði hrifinn að þessu. Kosturinn við Bandaríkjadollarann er að hann er þegar notaður í mörgum löndum og mikil reynsla er af því að aðrar þjóðir noti hann.

    Það yrði tekið trúanlegt að við notuðu dollarann þangað til evran er komin úr gjörgæslu og við upfyllum skilyrðin fyrir evru. Þannig fá fjárfestar tilfinningu fyrir því að við hugsum hlutina til enda og erum með skynsamleg plön. Þetta skiptir öllu máli fyrir markaðinn.

  • skrypill

    Takk fyrir fróðlegar umræður.
    Leiðin liggur oft mitt á milli góðra tillaga, sjálfsagt að nýta það besta frá báðum ef hægt er.
    Legg samt til að beðið verði um sinn og sjá hverju fram vindur.
    Mig grunar að það verði margt óvænt framundan.

  • Sigurjon Sigurdsson

    Takk fyrir opna og malefnalega umraedu um thetta mikilvaega mal.
    Thad er alveg morgunljost ad vilji Islendingar stodugleika til framtidar tha er kronan ekki svarid. Kostnadurinn vid einhlida upptoku dollars eda evru er gridalegur, eins og fram kom her ad framan.

    Godar stundir.

  • Tómas Waagfjörð

    Skil ekki svona hálfvitagang að reyna telja landsmönnum um að krónan sé svona ónýt að það þurfi að skipta henni út.

    Ísland var skuldlaust með þennan svokallaða ónýta gjaldmiðil og ef ekki hefði komið til opið leyfi frá spilltum og mútuþegnum stjórnmálamönnum til að skuldsetja landið og veðja á fall krónunnar þá værum við ríkasta land á jarðkringlunni í dag.

    Svona helvítis bull um hversu vont það er að hafa krónuna þarf að stoppa áður en skaðinn er skeður.

    Þið fávitarnir sem talið fyrir nýjum gjaldmiðli eruð líklegast ekki að gera ykkur grein fyrir því að það sem við eigum er eitthvað sem öllum langar í. Fiskur, vatn og orka er nokkuð sem við getum alltaf selt, og ef við förum rétt að þá á krónan að vera lang sterkasti gjaldmiðill í heimi. Við erum með ótrúlega mikil auðævi hérna við og á landinu og mjög fáa landsmenn sem þýðir að við seljum fyrir meira en við kaupum. Styrjaldir hafa verið háðar fyrir minna.

    Hættið þessu helvítis bulli og reynið frekar að vinna saman að því að byggja landið upp á réttan og réttlátann hátt í stað þess að reyna gera okkur háð öðrum.

    Ég tel svona tal jaðra við föðurlandssvik og er ekkert nema skyndilausn í stað þess að takast á við rótgróinn vanda. Spillingu.

  • Andri Geir !!
    „“Sveigjanlegur haftagjaldmiðill er ekki markmið í sjálfu sér, hann er aðeins nauðsynlegur þegar hagstjórn fer úr öllum böndum. Lönd sem ætla sér að búa við lélega og óábyrga hagstjórn verða auðvita að hafa gjaldmiðil eins og krónuna áfram. Hún er hjálpartæki skussans.““

    Hvað með áföll eins og móðuharðindin , hrun síldarstofnsins eða nærtækara dæmi, bankahrun sem virðis í ljósi nýliðan atburða hafa orsakast að stórum hluta af alþjóðlegri glæpastarfsemi. Gæti verið að svona gjaldmiðill hentaði líka í hagkerfum þar sem slíkt getur komið fyrir ?

    Kenningin um að Grikkir hafi gengið í evrópusambandið til að gera sig gjaldþrota og eyðileggja evruna er ekki alveg að ganga upp. Af hverju hefði það átt að vera markmið þeirra ?

    Og svo þetta með að tak upp dollar eða evru sem margir eru hrifnir af . Í því sambandi er gott að rifja upp að Fiat peningar, hvað nafni sem þeir kallast, eru ekki verðmæti heldur einungis ávísanir á þau. Og sá sem gefur peningana út ræður hversu mikil verðmæti eru að baki hverri einingu. Þetta þíðir að ef íslenska ríkið gefur út krónur þá verða erlendir fjárfestar sem hyggja á fjárfestingar hér að teysta ísenska ríkinu fyrir sæmilegri hagstjórn svo þeir geti seinna losað sínar eignir á ásætanlegu gengi.
    Ef við notum mynt sem einhver annar gefur út þurfa þessir fjárfestar hinsvegar ekki að treysta íslenska ríkinu fyrir góðri hagstjórn heldur miklu frekar þeim sem á gjaldmiðilinn.
    Þetta er ástæðan fyrir því að Grikkir eru komnir í þrot. Það var hægt að lána þeim endalaust út á trú manna þýska og franska hagkerfið. Svipað vandamála var uppi hér vegna þess að bankarnir lánuðu með gengistryggingu sem reyndar var bannað.

  • Gunnlaugur

    Af hverju er krónan slæm? Hvernig hefur reynslan sýnt að krónan sé slæm?

    Ísland hefur síðustu mörg ár verið í hópi bestu landa heims varðandi lífskjör. Og er enn..

    Bankakerfið hrundi ekki vegna krónunnar. Það hrundi vegna stærðar bankakerfisins í samanburði við ríkið. Mannanna mistök.

    Núna er ástandið mikið betra en það ætti að vera. Atvinnuleysi er ekki meira en uþb. meðaltalið í EU. Ástæðan er okkar eigin gjaldmiðill, sem hefur lækkað.

    En ef það á að skipta um gjaldmiðil er dollar betri kostur en evra, tek undir það.

  • Tómas,

    Minnumst Voltaire þegar hann sagði:

    „Ég fyrirlít skoðanir yðar, en ég er reiðubúinn til að láta lífið fyrir rétt yðar til að halda þeim fram.“

    Vinsamlegast engin blótsyrði, þau eru ekki nauðsynleg í málefnalegri umræðu.

  • Ég er svo hjartanlega sammála Tómasi Waagfjörð.

    Það er eins og allir hér fyrir ofa hafi ákveðið að taka ekkert mark á rannsóknarskýrslunni.

    http://this.is/villi/?page_id=691

    Hér eru upplýsingar sem ég bar saman. Upplýsingar fengnar frá seðlabanka.

    Allann tímann augljóst og öllum kunnugt. Ég er farinn að halda að hluti þjóðarinnar sé sturlaður af afneitun á þessa hluti og séu bara búnir að bíta í sig að krónan sé ónýt.

  • Er ekki bara norska krónan málið. Öruggur gjaldmiðill.

    evran er ekki inni í dæminu næstum strax þótt við færum í esb. dollarinn .. veit ekki svei mér þá.

    en krónan er varla gjaldmiðill sem hægt er að sætta sig við til framtíðar. eina sem heldur honum uppi eru höftin.
    hvað ætli við þyrftum annars að kaupa evruna á … 300 kr ?

  • spekingur

    Þú ættir að kynna þér málefnalega umræðu
    Peter Schiff hjá Euro Pacific capital (http://europac.net/) um dollarann.
    Gjaldmiðill er ekkert annað á endanum en verðmætin sem standa að baki honum.
    Dollarinn mun hrynja.

  • En hvað gerðu Grikkir? Þeir hafa lifað um efni fram í áratugi en gátu fleytt sér áfram með eigin gjaldmiðil, með seðlaprentun og gengisfellingum.
    En hvað gerist svo? Grikkir fara í EMU og þurfa allt í einu að annað hvort að lifa eftir efni eða taka lán í evrum til þess að halda sér á floti, ekki geta þeir prentað evrur eða fellt gengið.
    Grikkir völdu seinni leiðina enda hefur verið mjög ódýrt lánsfé í boði á lágum vöxtum frá árinu 2001.
    En nú er komið að skuldardögum, Grikkir eru skuldsettir upp fyrir haus og geta ekkert gert, niðurskurður dregur úr hagvexti og aukin hagvöxtur verður bara til með meira lánsfé.
    En kaldhæðni örlaganna er þó að á meðan túristar forðast Grikkland vegna þess hversu allt er dýrt þar, streyma túristarnir til Tyrklands, en Tyrkland er með eigin gjaldmiðil sem hefur líkt og krónan fallið mikið og þar með gert landið eftirsóknarvert.

    Í rauninni ætti krónan að væri fín til brúk ef að hagstjórn væri hér í lagi. En ruglhagstjórn og eyðilagt orðspor Íslands erlendis hafa eyðilagt hana sem brúkahæfa í viðskiptum við önnur lönd.

    Ég efa að einhliða upptaka annarar myntar sé góð hugmynd, því hvað gera menn þegar að erfiðleikar verða í rekstri vegna aflabrests eða lækkunar á mörkuðum? Ætla menn því að feta í fótspor Grikkja og fá lánað fé til þess að reka landið.

    Heldur ætti að athuga með myntbandalag við önnur lönd, sbr. San Marínó, Lichtenstein, Andórra og Mónakó.
    Væri ekki hægt að athuga slíkt bandalag við Kanada eða USA?

    Evran er slæm hugmynd af því að Evrópa er sundruð og sundrung innan myntbandalags er slæm,mjög slæm.

    En þrátt fyrir upptöku annarar myntar hverfa ekki erlendar skuldir landsmanna, þó þarf að greiða og það verður bara gert með því að auka útflutningstekjur landsins, þ.e. auka framreiðslu og framleiðni.

  • Víðir Ragnarsson

    Mjög gott innlegg frá Jóhannesi og slær út broggfærslu síðuhöfundar.

    Jóhannes ætti að skrifa undir fullu nafni og helst vera með sitt eigið blogg því þarna fer greinilega maður sem veit hvað hann er að tala um.

  • Fyrir það fyrsta. Þá hefur þú rangt fyrir þér. Það mun ekki taka íslendinga 30 til 40 ár að taka upp evruna. Þetta hefur verið rökstutt margoft. Það er ennfremur ljóst að íslendingar geta ekki tekið upp dollaran einhliða. Tilgangslaust og setur efnahagslífið í stórhættu og kemur með fullt af vandamálum. Eins og þá staðreynd að íslendingar geta ekki prentað dollara ef þess þarf.

    Fyrrverandi Sendiherra ESB til Íslands og Noregs útskýrir afhverju íslendingar verða ekki 30 til 40 ár að taka upp evruna.

    http://blogg.esb.is/?p=76

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Jón,
    Það fær enginn evru í framtíðinni fyrr en fjárlagahalli er undir 3% of skuldir eru komnar undir 60% af landsframleiðslu.

    Við erum á full að taka lán til að eiga fyrir vöxtum og endurfjármögnun. Gjaldeyristekjur okkar duga ekki fyrir vaxtagreiðslum hvað þá að greiða af höfuðstól. Ég hef ekki séð neina sjálfstæða útreikninga á hvernig við förum að því að greiða höfuðstól erlendar lána niður og hversu langan tíma það mun taka.

    Sendiherrar eru ekki sama og Þjóðhagsstofnun.

  • Andri, Sendiherran benti einfandlega á það sem stendur í lögum ESB varðandi evruna, hann er vissulega ekki hagfræðingur, það þarf hinsvegar ekki hagfræðing til þess að sjá í gengum svona yfirgengilega dellu. Við inngöngu í ESB þá mundi Íslenska krónan komast í skjól ERM-2 sem mundi tryggja gengisstöðugleika krónunnar gagnvart evrunni og öðrum gjaldmiðlum heimsins, þannig í reynd að við yrðum de-facto með evruna sem slíka í hagkerfinu. Íslendingar yrðu ennfremur eingöngu að uppfylla skilyrðin um niðurgreiðslu skulda, fjárlagahalla, vexti og verðbólgu áður en hægt væri að taka upp evruna hérna á landi. Sé niðurgreiðsla skulda viðundandi og annað í lagi, þá mun það taka íslendinga nokkur ár að fá taka upp evruna. Það mun íslendinga ekki taka 30 til 40 ár að taka upp evruna. Fullyrðingar um slíkt standast ekki nánar skoðun eins og ég hef bent á hérna.

    Það sem þú Andri forðast að útskýra með þessari hugmynd þinni er sú staðreynd að hvar ætla íslendingar að kaupa þessa dollara til þess að skipta þeim út í hagkerfinu, og hvað á að gera við krónunar sem verða verðlausar í kjölfarið. Þangað til að þeim spurningum hefur verið svarað er þessar pælingar einfaldlega tóm froða.

  • Jón,
    Allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi.

    ERM-2 skjólið er vissulega leið sem ég hef skrifað um áður. Hins vegar er ég að benda á að það er nauðsynlegt að huga að öllum möguleikum, sérstaklega þegar Evrópa er orðin ansi völt og hefur um aðra hluti að hugsa en litila Ísland.

    Dollara leiðin hefur verið tekin upp af öðrum þjóðum. Auðveldast er að gera þetta ef hægt er að aflétta gjaldeyrishöftunum og afnema verðtryggingu. Einnig þarf lánstraust okkar að vera á uppleið.

    Kostnaðurinn felst aðalega í að skipta út seðlum og mynt. Það er ekki óhugsandi að það þyrfti tímabundin höft á peningasendingar til útlanda. Vandamálið þá eru seðlar í umferð. Ef það þarf að takmarka fjármagnsflutning til útlanda þyrfti á sama tíma setja þak á seðlaúttekt í bönkum innanlands. Það er auðvita erfitt vandamál. En kannski ekki svo verra en gjaldeyrishöftin núna. Á móti fær atvinnulífið dollaravexti sem er ótrúlega mikil búbót og innspýting inn í atvinnulífið.

    Þessi leið er því aðeins fær að hagstjórn hér sé á réttri leið og að markaðurinn hafi trú á stjórnvöldum sbr. næstu færslu.

    Ég sé 4 leiðir í gjaldmiðlamálum okkar:

    1. Krónan án ESB aðildar
    2. Krónan innan ERM2 þar til evra fæst með ESB aðild
    3. Einhliða upptaka $ sem framtíðargjaldmiðils (eða evru) án ESB aðildar
    4. Einhliða upptaka $ þar til við uppfyllum evru skilyrði með ESB aðild

    Það er nauðsynlegt að ræða allar þessar leiðir, kosti þeirra og galla.

    Betra er að vera vel undirbúinn en fastur í úreltri hugmyndafræði.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og átta? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur