Sunnudagur 09.05.2010 - 07:48 - 19 ummæli

Sjálfstæði Seðlabankans fórnað

Seðlabanki Íslands er einhver mesta hrakfalla stofnun sem Íslendingar hafa átt.  Allt er þetta stjórnmálamönnum að kenna sem sjá Seðlabankann ekki sem hornstein nútíma hagkerfis heldur sem pólitískt bitbein og eftirlaunastofnun.

Það er sorglegt að sjá hvernig sverðið hefur snúist í hendi Jóhönnu.  Hún kom Davíð út en fellur síðan í sömu gildru og hann.  Svo virðist sem íslenskir ráðherrar skilji ekki hugtakið „sjálfstæður“.

Ef Seðlabankinn á að vera sjálfstæð stofnun þá á stjórn bankans að ákvarða launakör sama hversu ósamála ráðherrar eru því.  Ráðherrar eiga að þegja og alls ekki að tjá sig um störf eða ákvarðanir bankans.  Slíkt grefur ekki aðeins undan Seðlabankanum heldur einnig ráðherrum og þeirra dómgreind.

Þessi barátta um laun Seðlabankastjóra er miklu mikilvægari en margir gera sér grein fyrir.  Hér er verið að berjast fyrir sjálfstæði bankans.  Ef stjórnarformaður lætur í minni pokann, hefur hún gefist upp og allt tal um að bankinn sé sjálfstæð stofnun er ótrúverðugt.

Eina færa leiðin er fyrir stjórnarformanninn að standa við sín orð eða að segja af sér.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

  • Björn Kristinsson

    Sæll Andri, frábærir bistlar undanfarið. Takk fyrir það.

    Sjálfstæður Seðlabanki er hornsteinn að hagstjórn landsins. Hann á að veita stjórnvöldum og fjármálakerfinu aðhald. Allt tal um endurreisn efnahagslífsins stendur og fellur með öflugri og faglegri peningastjórnun. Við getum talað fram og til baka um upptöku annara mynta, hvernig hagstjórnin eigi að fara fram ef Seðlabankinn er ekki sjálfstæð stofnun. Annars förum við einfaldlega beina leið aftur í þrot fyrr en síðar !!

    Kallt mat þá eru 1,3 milljónir sem laun Seðlabankastjóra allt of lág laun fyrir seðlabankastjórann. Höfum í huga að áður voru þeir þrír, nú aðeins einn. Launakostnaður hlýtur því sannarlega að vera lægri.

    Fréttir og umræður um launamál Más hafa kristallað út að stjórnvöld líta enn á Seðlabankann sem pólitíska stofnun. Hann er því sjálfstæður í orði en ekki á borði.

  • Langbestur

    Vandamálið í dag er Jóhanna og Vinstri Grænir. Komum þeim frá og þá fara hlutirnir að gerast.

  • Vandamálið eru íslenskir stjórnmálamenn. Þeir geta ekki höndlað sjálfstæðar ríkisstofnanir. Þeir verða að stjórna öllu sjálfir. Það því leyti er ekki mikill munur á Davíð og Jóhönnu. Bæði eru yfir sig stjórnsöm og það veikir þau bæði. Að öðru leyti er þau ólíkir einstaklingar.

    Davíð lokaði Þjóðhagstofnun og Jóhanna kæfir Seðlabankann.

    Það þarf ekki aðeins að setja Forsetanum mörk það þarf líka að setja ráðherrum mörk. Þörfin fyrir nýja stjórnarskrá vex með degi hverjum.

  • Árni Halldórsson

    Mikið rétt, launaumræðan er ekki bara spurning um kjör Seðlabankastjóra, heldur endurspeglar hún í hnotskurn að íslenskir stjórnmálamenn telja sig hafa ítök á stöðum þar sem þeir eiga halda sig í hæfilegri fjarlægð.

    i. Vandinn er, eins og Andri Geir greinir á mjög nákvæman hátt að ofan, að framkvæmdavaldið — ráðherrar — hafa of beinvirk ítök inn í æðsta vald Seðlabankans, nefninlega stjórnina.

    Þó svo að einhver stigsmunur sé á stjórnháttum í dag og fyrir áratug, þá hefur afskaplega lítið breyst hvað eðlisleg vandamál stjórnsýslu á Íslandi varðar.

    Eða hvað? http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=511224

    ii. Þetta með að íslenskir stjórnmálamenn geti ekki höndlað sjálfstæðar ríkisstofnanir er líka áhugaverður punktur.

    Kunna þeir það yfir höfuð?

    Er sú kynslóð stjórnmálamanna, sem nú situr við völd, ekki vafinn of mikið inn í þá stjórnunar- og skipulags(ó)menningu, sem einkennir stjórnkerfið?

    Svo má líka renna stoðum undir þá tilgátu, að ný ríkisstjórn hafi í raun ekki tekið við völdum fyrr en flokkspotið er vel á veg komið; að ‘réttum’ flokksgæðingum hafi verið komið fyrir á rétta stað í ‘krefinu’.

    Flokkspotið er vítahringur sem þarf að brjóta upp.

    Það þarf róttækar breytingar, og ég er alveg sammála því sjónarmiði að þær hefjist ekki með skýrslum núverandi ráðamanna um að stjórnsýsluna þurfi að bæta.

    Það þarf nýja stjórnarskrá, sem er hlaðin öðrum gildum en þeim sem nú stjórna landinu.

  • Ómar Kristjánsson

    Já veit ekki. Þetta mál er samt tengt ákveðnu ariði er varðar laun ríkisforstjóra og tengingu við laun forsætisráðherra sem mikið var í umræðunni hérna fyrir ári eða svo – og hvort sérstök lög voru ekki sett í því sambandi.

    þó Seðlabankin sé sjálfstæð stofnun þá er hann eign ríkisins.

    Það verður alltaf einhver samvinna að vera milli Seðlabanka og Ríkisstjórnar. Sem dæmi, efnahagsstefnu ríkisstjórnar og aðgerða seðlabanka. Gengi ekkert að þau ynnu gegn hvort öðru.

  • Það má líka halda því fram að lög um Kjararáð og lög um sjálfstæði Seðlabankans vinni geng hvor öðru.

    Lögjafinn þarf að hugsa hlutina til enda áður en hann fylgir blindandi fyrirskipunum framkvæmdavaldsins.

    Þetta er angi af miklu stærra vandamáli.

  • Björn Kristinsson

    Við getum ekki miðstýrt launum með viðmiðunum. Kjarninn snýst um lægstu launin, að þeir hópar hafi jafna möguleika og tækifæri. Það verður að vera almenn skynsemi hér á landi.

    Seðlabankinn á að veita stjórnvöldum aðhald, alltaf. Hann getur þurft að bregðast gegn áformum stjórnvalda ef ljóst er að vöxtur ríkisútgjalda er of mikill eða hallinn of mikill á fjárlögum. Hver á annars að veita stjórnvöldum aðhald í peningamálum ef Seðlabankinn gerir það ekki ?

  • Þetta með sjálfstæði Seðlabankans er guðfræðikenning. Þetta eru allt saman sjálfssannandi hringrök í kerfi sem er er hugmyndafræðilega fallít.

  • Hvað hefur faglegt sjálfstæði Seðlabanka með laun að gera, þegar þau laun eru langt yfir því sem almenningur nýtur…? Verða Seðlabankamenn að geta hyglt vinum sínum ot skammtað sjálfum sér ofurlaun, öðlast hann sjálfstæði sitt með því…? Ég segi NEI. Sjálfskömmtuð ofurlaun kalla fram allt aðra mannlega eiginleika heldur en faglega ákvarðanatöku, eins og við sjáum út um allt í hruninu…! Þurfa ekki allir eitthvert utanaðkomandi aðhald á þessu sviði, til að græðgin verði ekki öllu yfirsterkari…?!

  • Jóhanna og Steingrímur hafa aldrei vita á að þegja um mál sem koma þeim ekki við. Hvort sem það eru sakamál í vinnslu hjá sérstökum saksóknara eða laun starfsmanna sem heyrir ekki undir ríkisstjórnina. Popúlistinn i þeim bara getur bara ekki haldið kjafti.

  • Stefán J. Hreiðarsson

    Sjálfstæðar ríkisstofnanir verða að hlýta almennum reglum og viðmiðum og starfa innan þeirra.

  • JonG kemur hér inná athygglisverðan púnkt í launamálum banka og stofnanna, en það eru hugtakið „ofurlaun“.
    Fyrir það fyrsta: Hvað eru ofurlaun ?

    Í bæði breska hernum og þeim ameriska eru launaþrep og föst regla um að enginn geti verið með meira en tiltekið hlutfall yfir þann lægstlaunaða. Í Breska hernum er hlutfallið „sinnum 8“, en í þeim ameríska „sinnum 10“. Og er ekki leifilegt að fara yfir þessi laun. Þarna er því kominn viðmið. Ég er ekki alveg viss um hver verkamannalaunin eru í dag, en líklega eru þau um 180.þús. svo ef miðað er við breta þá ætti það að gera 1440 þús en USA þá er það um 1800 þús.

    Þá er komin spurning um hvaða laun Már er með og er líklegt að hann sé um 1400 þús svo það er bil til að brúa ef við notum sinnum 10.

    Hinsvegar voru bankastjórar „gömlu bankanna!“ með 4-6 miljónir á mánuði og eru flestir líklega sammála um að það hafi verið ofurlaun.

  • Hver ákveður launin og hver taxtinn á að vera, eru aðskilin mál.

    Margar af athugasemdum hér ganga út frá því að aðeins sé hægt að stjórna ríkisstofnunum með algjörri miðstýringu þar sem allt er njörvað niður með lagasetningu sem er pöntuð af framkvæmdavaldinu.

    Er það eftirsóknarvert lýðræði?

    Með því að handstýra launum úr forsætisráðuneyinu er óbeint verið að hafa áhrif á hverjir veljist í stöður innan ríkisins. Þar með er stöðuval orðið pólitískt og allt tal um sjálfstæði ótrúverðugt.

    Hlutafélög sem eru í meirihluta ríkisins eiga að hafa starfskjaranefnd en jafnframt að heyra undir Kjararáð. Hvar eru skilin þarna á milli? Það er ekki heil brú í lagasetningu Alþingis í þessu máli.

    Þetta er vandamál sem er miklu alvarlegra en hvort Már eigi að hafa 400,000 kr meira eða minna.

  • Það vantar „samkeppnina“ kannski milli svokallaðra „hagfræðinga“ „efnahagssérfræðinga“.
    Allir þessir „sérfræðingar“ hafa reynst vera fábjánar, eigingjarnir og vilhallir sjálfum sér og þröngum hópum grunsamlegra hagsmunaaðila sem eru núna að græða á hruninu á minn kostnað.
    Ég er sjálfstæður og ég geri kröfu um mín laun og get gert sömu kröfur og aðrir eins og þessi hrokafulli og ónáttúrulegi seðlabankastjóri.
    Við höfum ekki grætt neitt á að hafa þennan né aðra fábjána og spillingar leynimakkara.
    Eignir og stofnanir samfélagsins sem við borgum undir eiga að vera undir smásjá og eftirliti allra sem vilja forvitnast um hvað er verið að bauka með þær.
    Ef ekki þá er ekki hægt að bera virðingu né traust til þeirra.
    Ég geri það alla vega ekki og fer bara að réttlæti alveg sama hvað lög, ólög reglur eða ó-reglur segja.
    Réttlæti og jafnræði eða jafnrétti fólks er ekki svo flókið í framkvæmd ef fólk vill það.

  • Úr lögum um Seðlabanka Íslands: http://www.althingi.is/lagas/137/2001036.html

    “ 26. gr. Kjósa skal bankaráð Seðlabanka Íslands að loknum kosningum til Alþingis. Bankaráð skipa sjö fulltrúar kjörnir hlutbundinni kosningu af Alþingi ásamt jafnmörgum til vara…“

    Ef það er Alþingi sem kýs bankaráð, þá er varla hægt að segja að Seðlabankinn sé óháður stjórnmálamönnum. Það væri þannig heldur ekki merki þess að Seðlabankinn væri sjálfstæð stofnun fengi bankaráð að reka bankann eins og það vildi því bankaráð er skipað af Alþingi. Alþingi, þ.e. stjórnmálamenn, ráða þannig stjórn Seðlabankans í gegnum kosningu þess til bankaráðs.

    Þú segir að „[e]f Seðlabankinn á að vera sjálfstæð stofnun þá á stjórn bankans að ákvarða launakör sama hversu ósamála [sic] ráðherrar eru því.“ Þetta er gott og blessað, og hrátt á litið hárrétt. En það er Alþingi sem ræður hverjir eru innan bankaráðs! Þess vegna er Seðlabankinn ekki sjálfstæð stofnun, sama hvort bankaráð gerir eitthvað sem Alþingi líkar ekki við eður ei.

    Og fyrr en síðar mun vilji Alþingis, þ.e. stjórnmálamanna, leka í gegnum bankaráðið, sérstaklega þar sem „[efnahags- og viðskiptar]áðherra ákveður þóknun bankaráðs sem greidd er af Seðlabankanum“ og „[y]firstjórn Seðlabanka Íslands er í höndum [efnahags- og viðskiptaráðherra]1) og bankaráðs svo sem fyrir er mælt í lögum þessum.“

    Mér er alveg sama hvað seðlabankastjóri er með í laun, ég vil bara ekki að Alþingi komi á nokkurn hátt, beinan eða óbeinan, nálægt þeirri ákvörðun né stjórn bankans yfirleitt. Og sem stendur er Alþingi með puttana í Seðlabankanum m.a. í gegnum þá staðreynd að kjör til bankaráðs fer fram niður á Austurvelli.

    Seðlabankinn verður aldrei sjálfstæður svo lengi sem Alþingi kemur á nokkurn hátt nálægt rekstri eða skipulagi hans.

  • Ólafur,
    Þú kemur inn á mikilvægan punkt og það er hvernig skilgreinum við sjálfstæði Seðlabankans. Þegar talað er um að Seðlabankinn sé sjálfstæður er átt við að hann sé sjálfstæður gagnvart framkvæmdavaldinu. Það er eðlilegt að Alþingi skipi stjórnarmenn eins og í öðrum löndum.

    Þetta snýst um að valdið sé þrískipt og að framkvæmdavaldi haldi sér á mottunni.

    Í augum margra Íslendinga heyrir Alþingi undir ráðherra og það er talið „eðlilegt“ að ráðherrar tali um að „setja á lög“ til að ná sínum vilja fram.
    Þetta sýnir valdhroka framkvæmdavaldsins gagnvart þinginu og yrði ekki liðið í flestum siðmenntuðum lýðræðisríkjum.

    Þetta er málið (laun Seðlabanakstjóra er aukaatriði) og sýnir hversu mikilvægt það er að semja og samþykkja nýja stjórnarskrá.

  • Eftir öll svörin við skrifum þínum, þá skil ég ekki alveg hver þín meining er í málinu ?

    Sjálfstæði seðlabanka á að vera !

    Laun hafa ekkert með sjálfstæði seðlabanka !

    En skrifn voru út á að launin spilaði með sjálfstæði seðlabanka !

    Hver er punkturinn í málinu hjá þér ?

    Pólitík ?

  • Varla viltu selja Seðlabankann, Andri Geir? Gera hann að Federal Reserves? Það væri mikil mistök. Hver ætti að velja í bankaráð Seðlabankans? Hvað með aðrar stofnanir Ríkisins, eins og t.d. Umboðsmann Alþingis? Það er sjálfstæð stofnun.

    Á meðan þessi maður er á launum hjá mér – sem skattgreiðanda í þessu landi – þá hefur hann ekkert að gera með alla þessa peninga. Ég hlýt að hafa eitthvað um málið að segja, ef við búum í lýðræði – og Seðlabankastjóri er í vinnu fyrir lýðræðið. Eða?

  • Þetta snýst um góða stjórarhætti. Stjórn Seðlabankans á að ákveða launin innan þess ramma sem Alþingi setur. Framkvæmdavaldið á ekki að skipta sér að þessu. Það er málið. Þetta snýst um óðelilega afskiptasemi ráðherra.

    Auðvita getur eigandinn, skattgreiðandinn sett reglur og lög um laun. Þetta snýst aðeins óbeint um launataxta.

    Það er óeðlileg afskiptasemi ráðherra sem ógnar sjálfstæði Seðlabankans.

    Ég geri mér grein fyrir að svona gagnrýni er ekki algeng á Íslandi og flestum finnst þetta smámunir. En ef við ætlum að fara að hegða okkur eins og best gerist á hinum Norðurlöndunum þá þurfa ráðherrar hér að huga miklu betur að hvernig þeir framkvæma hlutina.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sex? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur