Laugardagur 15.05.2010 - 09:24 - 20 ummæli

Uppsagnir eða launalækkun?

Nú er komið í ljós sem margir vissu að skattahækkanir eru ekki að skila í kassann því sem búist var við.  Engin þjóð getur skattlagt sig inn í hagsæld.

Vinstri stjórn S og VG boðar nú niðurskurð upp á 50 ma kr.  Þessi upphæð stendur undir launakostnaði u.þ.b. 5000 ríkisstarfsmanna eða um það bil fjórðungs þeirra sem vinna hjá ríkinu.

Hvar á þessi þungi hnífur að falla?  Ekki hjá stjórnarráðinu ef marka má orð VG, ekki er mikil stemmning þar að skera niður æðstu toppa ríkisins, hins vegar virðist félagsmálaráðherra boða niðurskurð hjá sjúkum, öldruðum og öryrkjum.  Áherslurnar eins og þær birtast almenningi í gegnum fjölmiðla eru ótrúlegar og boða ekki gott.

En hverjir eru möguleikarnir í stöðunni?

Þar sem aðeins 5% af útgjöldum ríkisins fara nú í viðhald og framkvæmdir verður að skera niður í þeim köflum sem kallast tilfærslur og rekstur.  Þetta þýðir niðurskurð í velferðakerfinu og þjónustu við borgarana, lækkun launa ríkisstarfsmanna og uppsagnir af stærðargráðu sem jafnvel Margrét Thatcher hefði veigrað sér við.

Hvernig VG ætla að ná samstöðu um einn stærsta niðurskurð í íslenska velferðakerfinu er spurning sem menn ættu að velta fyrir sér.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (20)

 • Þetta er erfitt..en af hverju ekki að frysta allar opinberar greiðslur í einn mánuð..það eitt og sér myndi spara um 22 milljarða..sársaukafullt fyrir marga..en það verður að minnka útgjöldin.

 • Lilja Mósesdóttir

  Við erum föst í viðjum vanans. Meirihluti á þingi fyrir niðurskurði ríkisútgjalda sem mun þýða fjöldauppsagnir í opinbera geiranum og enn frekari lækkun greiðslna til atvinnulausra og öryrkja. Lífeyrissjóðirnir eru eins og kýrnar á Indlandi – ekki má hreyfa við þeim á meðan að þeir sem minnst mega sín svelta.

 • Hvar á hnífurinn að falla? Því er auðsvarað.

  Hann mun ekki falla. Þessi stjórn hefur ekki hugrekki til að skera niður í ríkisfjármálum eins og nauðsynlegt er og því verður „lendingin“ sú að hækka skatta enn frekar á millistéttina og gera út af við þau fáu heimili sem enn halda sjó.

  Vitið þið til, þessi stjórn mun ekki skera neitt niður, við munum enn moka 6 milljörðum í ESB umsókn, Einar Karl mun áfram flakka á milli feitra starfa í stjórnarráðinu og ráðherrar munu áfram ráða „aðstoðarmenn“ í löngum röðum.

  Lilja Mósesdóttir, ef það er þá hún sem skrifa hér að ofan, mun mæla fyrir því að skattar á laun verði hækkaðir stórlega og að virðisaukaskattur verði einnig stórhækkaður.

  Niðurstaðan verður fólksflótti og gjaldþrot íslenska hagkerfisins.

  Allt í boði gömlu vinstriflokkanna.

 • Er það svo að fyrirhugaður niðurskurður komi til vegna bágrar skattheimtu, eins og síðuhöfundur gefur í skyn? Hefur það ekki blasað við í eitt og hálft ár að skera þurfi verulega niður ríkisrekstur? Halli á þessu ári á ríkisrekstri áætlaður 100 milljarðar. Ríkisstjórnin hefur viljað fara blandaða leið, hækka skatta og skera niður útgjöld. Hefði síðuhöfundur viljað sleppa skattahækkunum og halda sig við útgjaldalækkun eingöngu? Hefði þá ekki Árni Páll þurft að skera en meira niður?

  Stjórnvöldum hefur reynst pólitískt mun erfiðara að skera niður en hækka skatta og óvíst hvort þau hafa þor til að ganga til verksins. Árni Páll er með fjárfrekt ráðuneyti, og það verður ekki skorið mikið niður án þess að horfa til stærstu útgjaldapósta ríkisins. Þó það hljómi betur að skera niður í stjórnarráði þá eru þeir útgjaldaliðir miklu minni og því ekki hægt að spara stórar upphæðir. En vissulega má sýna meiri lit.

  Skil ekki alveg hvert þingkonan Lilja Mósesdóttir er að fara, á að þjóðnýta lífeyrissjóði til að brúa halla á ríkissjóði??

 • Örfá prósent eiga meira en 90% af fjármagninu á innlánsreikningum bankanna.
  Við setningu neyðarlaganna í okt. 2008 var um 200 milljörðum af skattfé þjóðarinnar mokað inná peningamarkaðssjóðina- þessum innlánseigendum til styrktar.
  Er ekki alveg eðlilegt að þeir fjármunir verði gerðir afturkræfir og settir í fyrirhugaðan niðurskurð þar sem sjúkum,öldruðum og öryrkjum er ætlað að verða burðarásar við niðurskurð á velferðarkerfinu ?
  Einnig liggur vafi á lögmæti þess að styrkja peningamarkaðssjóðina á sínum tíma.

 • Rétt að taka fram að ég er Friðriksson, svo lesendur rugli mér ekki saman við nafna minn Einar Karl Haraldsson, sem nafni okkar ‘Einar’ (10:55) vísar til! 🙂

 • Lilja Mósesdóttir

  Nei Einar . Ég mun ekki leggja til að skattar á almenning verði hækkaðir. Heldur að skattur á séreignasparnað verði færður fram til 2011. Slík aðgerð mun koma okkur út úr vítahring niðurskurðar á samdráttartímum og útgjaldaþenslu á þenslutímum. Áætlað hefur verið að tilfærslan á skattinum muni auka skatttekjur ríkissjóðs um 80 ma. á árinu 2011. Skatturinn eykur ekki útgjöld ríkissjóðs eins og niðurskurður gerir óbeint. Uppsagnir og launalækkanir leiða til fjölgunar atvinnulausra og minni skatttekna af launatekjum.

 • Jakob Bjarnar

  „Uppsagnir og launalækkanir leiða til fjölgunar atvinnulausra og minni skatttekna af launatekjum,“ segir Lilja.

  Önnur þingkona stjórnarliða reit nýlega á bloggsíðu sína eitthvað á þá leið að meginhlutverk stjórnmálamanna væri að að útdeila almannafé.

  Ég heyrði að Samtök sveitarfélaga hafi sett sig alfarið á móti því að fækkað yrði í röðum sýslumanna. Á hvaða forsendum? Jú, útsvarpstekjur þeirra myndu minnka!

  Það þýðir ekkert að skera niður hjá hinu opinbera því þá fjölgar atvinnulausum… hvurskonar hringavitleysa er þetta eiginlega? Vex peningatré í fjármálaráðuneytinu og helsta hlutverk pólitíkusa er að lesa af því og útdeila til þeirra sem eru þóknanlegir? Og standa vörð um eitthvað djöfullsins kjaftæði á borð við Jafnréttisstofu og slíkt lúxusrugl – sennilega á þeim forsendum að þá muni atvinnulausum fjölga? Það ekki svo mikið sem glittir í að augu stjórnarliða sé að opnast gagnvart því meginhlutverki sínu að koma að málum við að plægja hér akur fyrir aukna verðmætasköpun.

  Stjórnvöld eru átakanlega ráðþrota. Hvaða jólasveinn sem er gat sagt sér það að auknir skattar, í einhverju forræðishyggjufári, á áfengi, sykur, tóbak etc. myndi ekki gera neitt annað en að minna kæmi í kassann, smygl, dópræktun og brugg eykst og meira fé þarf að setja í löggæslu og í tollara.

 • droplaugur

  Fella gengið um 12% við getum ekkert annað . og hætta vera of snobbuð fyrir fjárfestingar. OG KONUR Í VINSTRI GEIRANUM ERU OF ÁKVÖRÐUNARFÆLNAR. ÞJÓÐSTJÓRN STRAX INNSTÆÐA VINSTRI FLOKKANA ER AÐ MINNKA ENDA HEFUR STEINGRÍMUR SIGFÚSSON ENGAN SKILNING Á MARGFELDISÁHRIFUM VIÐSKIFTA.
  EN HANN ÆTLAR EKKERT AÐ SKERA NIÐUR Í STJÓRNAR-RÁÐINU.

 • Það á að skattleggja inngreiðslur í lífeyrissjóði, það er borðleggjandi og í raun eingöngu lífeyrissjóðirnir sem mótmæla því sökum þess að þá hafa þeir minni fjárfestingagetu. Slík ráðstöfun, hins vegar, mun hlífa millistéttinni.

  Það á að lækka tekjuskatt niður í það sem hann var fyrir brjálæðislegar hækkanir vinstristjórnarinnar. Persónuafsláttur gerir það að verkum að hér var þrepaskipt skattkerfi, og þessar hækkanir bitna á þeim sem reyna að vinna meira til að mæta hækkun verðlags og keyra millistéttina í jörðina.

  Síðan þarf að skera niður fyrir alvöru, það þarf að herða eftirlit með bótasvikum, það þarf að skera gríðarlega niður í utanríkisráðuneytinu, það á að draga til baka umsóknina um ESB aðild, hún kostar gríðarlega fjármuni bæði beint og óbeint. Það á að fækka ráðuneytum og þingmönnum, en hækka laun þingmanna og ráðherra mjög ríflega samhliða meiri ábyrgð þeirra.

  Lilja, ég hef enga trú á því að þessi ríkisstjórn hafi það sem til þarf til að skera niður fituna í kerfinu. Það sýnir t.d. ráðnin 40 „aðstoðarmanna“ án auglýsingar í „tímabundnar stöður“, þar af 24 hjá þingmönnum VG. Ekki ber það mikinn vott um að menn ætli að nálgast niðurskurð af einhverju viti.

  Það sem þessi stjórn hefur sýnt er að það eiga allir aðrir en Ríkið að taka höggið. Ríkið þarf að þenjast enn meira út svo hægt sé að koma þægu flokksgæðingunum á jötuna – af hverju í ósköpunum fundið þið hjá ykkur þörf að búa til nýja stöðu í fjármálaráðuneytinu þar sem dyggur flokksmaður ykkar er á fullum launum hjá skattgreiðendum við að hanna „kynjaða“ fjárlagagerð? Er virkilega ekkert mikilvægara við peningana að gera?

  Það þarf að hugsa allan ríkisrekstur upp á nýtt, vinstriflokkarnir þurfa að kyngja því að ríkið á ekki, og getur ekki, séð um allt. Einkarekstur í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu… virkjun náttúruauðlinda… þetta eru hlutir sem þarf að ráðast í, sama hvaða kreddur vinstrimenn vilja ríghalda í.

  Þegar tekjur heimilisins dragast saman, þá fara menn að eyða minna. Svo einfalt er það. Sumir telja leikhús og veitingahús ómissandi hlut af daglegu lífi, en þegar fólk á ekki peninga þá fórnar það því sem til þarf svo hægt sé að lifa af.

  Lilja, þið í VG mættuð gjarnan taka upp hagfræði hinnar hagsýnu fjölskyldu, í dag lemjið þið höfðinu við steininn og reynið að kría út meiri peninga til að viðhalda lifnaði sem við höfum engan veginn efni á – allt í nafni pólitísks rétttrúnaðar.

  Þið hafið sýnt að þið eruð ekki í liði með Íslendingum í kreppunni.

 • Jakob Bjarnar

  Ég tek heilshugar undir með Einari – því miður bendir allt til þess að þeim sem eru við stjórnvölinn núna sé fyrirmunað að taka á vandanum – og fara með hnífinn á fituna.

  Það bólar ekki svo mikið sem á sparnaði og niðurskurði heldur einungist það sem horfir til útgjaldaaukningar hins opinbera. Eins og dæmið um þessa makalausu nýjustu stöðu í tengslum við þetta fyrirbæri „kynjuð fjárlagagerð“. Heita má merkileg bíræfni að bjóða uppá annað eins á tímum þegar 16 til 20 þúsund manns eru atvinnulausir á Íslandi.

  Og maður veit ekki hvort um afglapahátt er að ræða eða grátt grín að bjóða uppá röksemdafærslu á borð við að það þýði ekkert að skera hjá hinu opinbera því þá fjölgi bara atvinnulausum. Þetta lýsir ótrúlegri firringu gagnvart því hvaðan féð kemur sme heldur þessu á floti – skattgreiðendum.

  Þess í stað er boðið uppá eitthvað málamyndaþvaður og þokukennt um flatan niðurskurð – sem er náttúrlega eitthvað það heimskulegasta sem hægt er að fara í. Það þarf að skilgreina grunnþjónustu, slá vörð um hjúkkur, löggur og kennara – og skera í burtu einhverja vitleysu sem kemur þessari grunnþjónustu ekkert við.

 • Eyjólfur

  Við fengum örlitla nasasjón af því hvernig það mun ganga að ætla að ráðast beint á fituna (til þess að hlífa velferðarkerfinu t.d.), af viðbrögðunum þegar tilkynnt var um niðurskurð á framlögum til innlendrar kvikmyndagerðar. Skrautlegir tímar framundan.

 • Björn Kristinsson

  Sæll Andri,

  Áhugaverður angi frá fyrri pósti þínum. Held að það sé mjög mikilvægt fyrir landið að við komumst úr hinum hefðbundnu flokksátökum. Staða okkar í dag er slík að það dugar ekki lengur.

  Eftirfarandi verður að fara í sem allra fyrst:

  1) Lykilaðilar marki skýra og heilsteypta framtíðarsýn í atvinnumálum og nýtingarstefnu á auðlindum til næstu ára.

  2) Fá trausta langtímafjárfesta til að taka þátt í þessum atvinnutækifærum. Andri þú mynntist á norska olíusjóðinn. Sammála, það er gott dæmi um langtímafjárfesti sem við þurfum.

  3) Ná lendingu í gjaldeyrismál okkar.

  Í stað þess að horfa á niðurskurðinn þá verðum við að auka landsframleiðsluna og þar með tekjuköku ríkissjóðs. Þannig verður unnt að draga úr vægi ríkisins þar sem fólk færi frá ríki (vonandi) til fyrirtækja sem stæðu í gjalderyisskapandi starfsemi.

  Núverandi niðurskurður sendir okkur aðeins niður spíral sem endar með ósköpum. Við erum lítið hagkerfi og það er styrkur okkar. Vegna smæðar okkar getum við þannig auðveldlega aukið útflutning okkar ólíkt stærri hagkerfum.

  Við eigum leik
  Við eigum fullt af tækifærum en við þurfum hins vegar að nýta þau.
  Við erum ekki að því núna

 • Björn Kristinsson

  Framhald,

  Varðandi framtíðarsýn í atvinnumálum þá væri ef til vill hollt að fá erlenda ráðgjafa hér að borðum. Það er viðbúið að ný tækifæri yrðu til sem við höfðum ekki leitt hugann að. Við Íslendingar verðum að vera óhrædd að leita ráða erlendis það er ekki veikleiki, það er styrkur.

  Varðandi nýtingu auðlinda þá erum við allt of föst í ákveðinni nýtingarstefnu einfaldlega vegna þess að okkur skortir alla yfirsýn og festu í stefnumótum. Stjórnmálamenn verða einnig að horfa inn á við og sýna og virða fyrirliggjandi stefnumótum og nýta það sem fyrir er án þess að gera sífellt grundvallarbreytingar á kerfinu. Það er dýrt, kostar mikla orku og á endanum skilar í mörgum tilvikum takmörkuðum árangri.

  Ég held að það væri ef til vill ráðlegt að halda alþjóðlega ráðstefnu hér á landi sem tæki bæði til atvinnustefnu sem og hugmynda um nýtt stjórnkerfi.

 • Hvernig væri að skera vel niður á alþingi, fækka þingmönnum og losa okkur við ráðherrana. Enga ráðherra, sem sitja líka á þingi.

 • Margrét S.

  @droplaugur,
  Fella gengið um 12% ??
  Er það ekki búið að falla nóg að þínu mati ??
  Hvers konar rugl er þetta eiginlega.
  Hafa vörur og lánin ekki hækkað nógu hratt fyrir þig ??

 • Ég hef lengi skrifað um að við hefðum átt að fara írsku leiðina, 1/3 skattahækkanir og 2/3 niðurskurður. Með því að byrja á skattahækkunum er kreppan lengd. Vextir lækka ekki eins hratt því verðbólga og fjárþörf ríkisins er haldið of háu ef niðurskurður fylgir ekki skattahækkunum.

  Afleiðingin er að einkageirinn hefur tekið á sig mest allt atvinnuleysið. Aðeins með því að koma einkageiranum af stað og stækka skattstofninn verður hægt að bjarga velferðarkerfinu. Til að koma atvinnulífinu af stað þarf alla vega tímabundið að skera hressilega niður hjá ríkinu. Það eru engir góðir möguleikar í stöðunni.

 • Lilja:

  Ég hélt í einfeldni minni að Alþingi væri búið að vega og meta kosti og galla hugmyndarinnar um skattlagningu inngreiðslna. Það er jú tæpt ár síðan þessi hugmynd kom fyrst fram, frá Sjálfstæðisflokki. Mér fannst strax þá að þetta væri hugmynd sem yrði að skoða, í ljósi stöðu ríkissjóðs.

  En margir hafa mælt á móti henni, t.d. ályktaði ASÍ eindregið gegn hugmyndinni á ársfundi 2009.

  Guðmundur Gunnarsson skrifar gegn henni
  hér.

  Þannig að ég hélt að þessi hugmynd væri nú eiginlega komin út af borðinu. Í öllu falli myndi ég vilja sjá mun ítarlegri rökstuðning fyrir þessu en í stuttri Smugu-grein þinni frá 3.4. sl. Hann hefur kannski þegar komið fram?

 • Björgvin Þór

  „Engin þóð getur skattlagt sig til hagsældar“. Flott setning en snýst þetta ekki líka um að jafna byrðarnar? Að við hjálpumst að við að vinna okkur út úr þessum erfiðleikum, að sjálfsögðu með sparnaði, hagræðingu og niðurskurði, en hlífum um um leið þeim sem minnst hafa. Jafna byrðarnar, það þýðir að hækka skatta tímabundið á þá sem mest hafa.

 • Núverandi kynslóð er stundum líkt við engisprettur. Búin að éta allt upp sem foreldarnir skildu eftir sig og eru byrjuð á sparnaði næstu kynslóðar.

  Skattlagning á inngreiðslum lífeyrisjóðanna er ekkert nema tilfærsla á milli kynslóða. Þegar engisprettukynslóðin fer á eftirlaun þá fá börn hennar engar skattgreiðslur af lífeyrinum og verða að halda uppi velferðarkerfi fyrir þennan þjóðfélagshóp með auknum eigin skattgreiðslum. Hvað ætli það endist lengi?

  Nei það verður settur skattur aftur á þessar greiðslur seinna, sem sagt tvöföld skattgreiðsla, annars gengur dæmið ekki upp.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og átta? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur