Miðvikudagur 19.05.2010 - 10:33 - 12 ummæli

ENRON og Ísland: sama hegðunarmynstur

Það er alltaf að koma betur í ljós hvað hrunið á Íslandi á margt sameiginlegt með Enron.  Sérstakur þáttur sem er vert að skoða er ákvarðanataka innan íslensks samfélags.  Hún minnin á margt um vinnubrögðin hjá Enron og rökin sem liggja henni til grundvallar eru þau sömu.

Eitt sem Jeff Skilling, fyrrum forstjóri Enrons sem enn situr í fangelsi að mér vitandi, sagði að hefði verið undirstaða „velgengni“ Enrons var skjót ákvarðanataka.  Þar með gat Enron náð í verkefni og fjárfestingar áður en aðrir gátu lokið sinni heimavinnu.  Til að halda forskoti á keppinautana var besta að allar ákvarðanir væru teknar af honum sjálfum og í hæsta lagi var stjórnarformaður eða fjármálastjóri látinn vita.  Umfram allt varð að halda öllum veigameiri ákvörðunum í höndum örfárra einstaklinga sem höfðu sömu sýn á hlutina.  Það hefði aldrei gengið upp að láta 5 manna stjórn taka ákvarðanir að sögn Jeffs, slíkt hefði drepið allt frumkvæði og framfarir!  Sem sagt, Enron hefði aldrei orðið að Enron ef ákvarðanir hefðu verið teknar af hópi einstaklinga með mismunandi reynslu og þekkingu. 

Hér er komið að kjarna málsins.  Hrun Íslands má nefnilega rekja miklu meir til einsleitinnar og óábyrgrar  ákvarðanatöku örfárra einstaklinga, sem ekki trúðu á teymisvinnu, en einhverrar hugmyndafræði.  Málið snýst um hegðun en ekki theoríu.

Þetta átti ekki aðeins við í bönkunum og hjá útrásarvíkingunum, heldur einnig í stjórnsýslunni.  Allt var á sömu Enron-bókina lært, alls staðar.  Það sem er svo sorglegt er að við skulu þurfa að endurtaka mistök annarra þjóða trekk í trekk.  Og enn erum við, við sama heygarðahornið – ráðherraveldið gnæfir yfir öllu hér og ef eitthvað er, hefur ákvarðanataka í íslensku þjóðfélagi orðið einsleitari og þrengri eftir hrun en fyrir.  Hér er ég ekki að leggja mat á gæði ákvarðanatöku heldur að vekja athygli á ferlunum og áhættuþáttum þeim samfarandi.  Pendúlinn hefur einfaldlega sveiflast í hina áttina, enn er það mjög þröngur og einsleitur hópur sem situr í brúnni en tekur nú  helst engar ákvarðanir nema þær feli í sér boð eða bönn. 

Ekki svo að skilja, að ekki þurfi að styrkja regluverkið og bæta vinnubrögðin, en það er verk sem átti að gerast 2009 og vera löngu búið.  Nú, 2010, hefðu menn átt að vera að byggja upp ný atvinnutækifæri og  byrja á nýjum fjárfestingum.  Í staðin eru skilaboðin að útlendingar eigi að halda sér sem lengst frá Íslandi með sína peninga, lífeyrissjóðirnir eigi að koma að uppbygginu atvinnulífsins í framtíðinni en ekki strax, því enginn treystir sér að taka ákvörðun um hvar og hvernig slíkt geti gerst.  Nei, best er að gera sem minnst,  því þá er ekki hægt að gagnrýna menn fyrir rangar ákvarðanir.

Það er hverri þjóð dýrmætt að eiga sér góða og hæfa leiðtoga en þar erum við Íslendingar, því miður, sárafátækir og höfum verið um langt skeið 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Góður pistill, vona að hjörðin í VG skilji sneiðina.

  • Flottur pistill.

    Vinstir Grænir eru að reyna að innleiða það inn í landann að gera ekki neitt sé DYGGÐ. Alltaf komumst við að sömu niðurstöðunni að VG þarf að víkja og það strax.

  • Hákon Jóhannesson

    Það sem vakti óhug minn fyrir löngu var að ég þóttist sjá að verk- og viðskiptaferlar lykilmanna bankahrunsins voru úthugsaðir og markvissir. Það hefur nú komið á daginn. Umfangið er geigvænlegt en það þarf mörg þúsund ársverk til að greiða úr þessu.

    Mín skoðun er sú að alþingi hafi verið og sé enn meira og minna óstarfhæft vegna þeirra áfalla, sem dunið hafa yfir ýmsa þar. Sumir hverjir eru í slæmri stöðu af hreinni óheppni og/eða hjarðhegðun; aðrir er einfaldlega forhertir. Því ættu margir að draga sig í hlé. Ég allavega upplifi stöðuna svona.

    Anars eru þetta góðir pistlar hjá þér og batna með tímanum 🙂

  • Góður pistill, vona að hjörðin í Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum skilji sneiðina.

  • Kristján Gunnarsson

    Sammála og meira til. Það er augljóst að hrunið og eftirmál þess eru að afhjúpa eðli okkar Íslendinga.

    Ég hjó eftir því að þeir útlendingar sem unnu með okkar útrásar- og bankamönnum báru þeim illa söguna sem stjórnendum. Sérstaklega þóttu samskipta og tjáningarhæfileikar þeirra lélegir, en topp hæfileikar á því sviði eru taldir algjört möst bæði af bisnissskólagúrúm og fræknum fyrirtækjastjórnendum.

    Síðan er merkilegt að þegar Steimgrímur J. kemst í ráðherrastóla þá ætlar hann að læða með veggjum ICESave samningnum án nokkurs samráðs eða samskipta við samþingmenn eða almenning, maðurinn sem hafði lofað og krafðist alls upp á borðið. Merkilegt er að okkar menn leita aldrei fulltingis almennings. Ekkert er gert til að vinna traust og álits frá almenningi. Það virðist ekki hafa neitt gildi, sem er stórfurðulegt í sjálfu sér.

    Ég dreg af þessum og öðrum staðreyndum þá óvísindalegu niðurstöðu að pukur, leynimakk og afundni er í genum Íslendingsins. Þetta er sú hefð sem við Íslendingar höfum tamið okkur í áranna rás af einhverjum ástæðum sem ég kann ekki að útskýra. Þar sem þarna er löng saga að baki og steypt inn í okkar stjórnunarkúltúr þá vænti ég engra breytinga á þessu sviði.

    Systemið virkar samkvæmt sínu eðli.

  • Það er líka hægt að liggja yfir þessu og samt taka lélega ákvörðun. Eða ertu að segja að allt gangi upp ef undirbýrð það nógu lengi?

  • Vönduð heimildarmynd um Enron var sýnd í sjónvarpinu veturinn 2008-9, á versta tíma, einhvern tíma undir miðnætti. Ég skil ekki af hverju hún var ekki innrömmuð af kynningu og umræðu á besta tíma. Að mínu mati á að sýna þessa mynd einu sinni í viku í íslensku sjónvarpi.

    Athyglisverðast fyrir hina pólitísku umræðu hér á landi er að myndin sýnir ákaflega vel hvernig pólitísk hugmyndafræði er samofin svona viðskiptaháttum, og hvernig stjórnmálamenn löghelga ruglið með stefnuskrá flokksins.
    Hér á landi höfum við allmarga slíka postula sem löghelguðu gróðærisruglið með hugmyndafræðilegum útleggingum, til dæmis Hannes Hólmstein, Vilhjálm Egilsson, Pétur Blöndal alþingismann og marga slíka — nánast allir með skírteini í Sjálfstæðisflokknum. Halelújakórinn var líka fjölmennur.

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Það er í mannlegu eðli að gera mistök, það gera allir, hins vegar er það eðlilega krafa að stjórnmálamenn og stjórnendur almenningshlutafélaga geri allt sem hægt er að minnka líkurnar á mistökum. Það gerir maður með því að gera sína heimavinnu og deila ákvörðunum með breiðum hópi sjálfstæðra og reynsluríkra einstaklinga.

  • Góður Andri.
    Kveðja að norðan.

  • Magnús Orri

    Þrátt fyrir allt er það þekkt úr áhættustjórnun (e. Risk Management) að hópar taka frekar áhættusamari ákvarðanir heldur en einstæklingar vegna minni persónulegar ábyrgðar eða hjarðhegðunar (e. horde behavior) á ákvörðunni. Þetta er í mótsögn við þína fullyrðingu en ég get s.s. tekið undir að aðkoma fárra aðila að stórum og/eða vandasömum ákvörðunum hjá fyrirtækjum (og opinberum aðilum) er ekki líkleg til að gefa bestu lausnina.

  • Thrainn Kristinsson

    Leyfi mér að rifja hér upp kostulega bloggfærslu frá Dr. Gunna þar sem hann vitnar í samtal við einn ágætan Equity Analyst hjá Kaupþingi:

    Síðasta sumar (sumarið 2008) hitti ég gamla Quarashi kónginn Sölva Blöndal á brettinu. Hann er orðinn eða að verða hagfræðingur, held ég. Við ræddum góðærið sem þá var aðeins farið að láta á sjá þótt blekkingin væri ekki öllum orðin ljós ennþá. „Þú átt bara að horfa á myndina Enron – the smartest guys in the room til að skilja þetta allt,“ sagði hann af innsæi. „Þetta er alveg eins hérna á Íslandi“

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Magnús,
    „Groupthinking“ er vel þekkt fyrirbæri og mikil hætta á því í einsleitum og þrögnum hópum þar sem allir eru á sömu línunni. Þetta er ein ástæða fyrir því að íþróttahugsun á svo illa við í viðskiptum.

    Þess vegna er svo mikilvægt að þeir sem taka ákvarðanir séu sjálfstæðir í hugsun með breiðan og ólíkan bakgrunn. Það er hins vegar mjög erfitt að leiða svona hóp þar sem allir eru skeptískir á alla. Þar reynir virkilega á leiðtogahæfileika.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur