Föstudagur 21.05.2010 - 10:02 - 8 ummæli

Ráðherrar og atvinnurekstur

Íslendingar hafa óbilandi trú á ráðherrum og ríkisstjórnum.  Stjórnmálamenn sem fæstir hafa nokkurn tíma komið að atvinnurekstri og flestir eru aldir upp á ríkismölinni í Reykjavík eru ekki í stakk búnir að reisa við atvinnulíf heillar þjóðar.  Þeir sem hafa óbilandi trú á þessari leið munu þurfa að bíða lengi.

Athyglisvert er að líta á ástandið hér á landi út frá framboði og eftirspurn eftir fólki og fjármagni.

Opinberir aðilar er allir af vilja gerðir til að koma hjólum atvinnulífsins af stað en skortir bæði aðgang að fjármagni og reyndu fólki.

Einkageirinn á mikið af hæfu fólki en það er upptekið í eigin björgunaraðgerðum og þeir fáu sem hafa reynslu, tíma og þekkingu til að skapa ný tækifæri skortir fjármagn á viðráðanlegu verði.

Bankarnir eru uppteknir af eigin vandamálum og meiri  orka  fer þar í að reyna að bjarga rjúkandi rústum en að byggja upp nýtt.

Ofan á þetta bætist að jafnvel þó atvinnuleysi nálgist 10% þá er eftirspurn í hagkerfinu veikari en framboðið.   Það er því lítið vit í að skapa ný störf fyrir yfirmettaðan innlendan markað.  Eina leiðin er atvinnuuppbygging sem byggir á erlendri eftirspurn. 

Því miður hafa Íslendingar ekki mikla reynslu í að byggja upp fyrirtæki sem selja vörur og þjónustu til útlendinga, nema að hluta til í fjórum geirum – ferðamennsku, sjávarútvegi og hugbúnaðar- og orkuiðnaði.  Þetta er sá litli grunnur sem við verðum að byggja á.  En til að svo megi verða þarf að leiða saman fólk með reynslu og hæfileika og fjármagn.  Og hér erum við komin að vandamálinu.

Margt af því fólki sem ætti nú að vera í atvinnuuppbyggingu er að eyða tíma í að bjarga fyrirtækjum sem voru byggð upp fyrir allt aðrar aðstæður en ríkja nú.  Allt of mikill tími hefur farið í björgunaraðgerðir og of lítill í uppbyggingu.  Tapaður tími er töpuð tækifæri.

Sama má segja um fjármagnið.  Mikið af því er bundið í vonlausum fyrirtækjum sem vafasamt er að hafi einhverja framtíð.  Innlent fjármagn er á ósamkeppnishæfu verði og aðgangur að erlendu fjármagni er að mestu lokaður og fæst aðeins á óheyrilegu verði nema með aðkomu erlendra fjárfesta sem hafa betra lánstraust en íslenska ríkið.

Atvinnuuppbygging við þessar aðstæður er erfið og ekki á færi ráðherra að leysa upp á eigin spýtur.  Hér þarf að stokka upp á nýtt.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Þetta er rétt ályktað.

    Það versta er ef til vill, að þegar erlendir aðilar koma til landsins og vilja fjárfesta í atvinnustarfsemi, þá mæta forsvarsmenn VG þeim á Keflavíkurflugvelli og ausa yfir þá fúkyrðum og illnefnum.

    Hvernig kemst þjóðin útúr stöðunni með þetta fólk í forsvari.

    Þjóð sem byggir sína tilveru að mestu á viðskiptum við útlönd, innfluttar nauðsynjar og útflutningur á framleiðslu og þjónustu.
    Hvað með þörfina fyrir erlenda fjármögnun til að komast áfram og uppúr feninu.

    Það þarf að stokka uppí pólitíkinni, og oftar en einu sinni ef þörf krefur, þar til við erum komin með vinningslið.

  • „Hér þarf að stokka upp á nýtt.“

    Auðvelt að vera sammála því.

    En hvernig?

    Og HVERJIR hafa viljann og getuna til þess?

  • Sigurður Sigurðsson

    Þetta er frábær greining. Ef bankakerfið væri ekki harðlokað og einkenntist af hræðslu við áhættur þá væri smá von. Fjármagn er ekki bara dýrt heldur er það algerlega ófáanlegt. Bankar fara fram á margföld veð fyrir lánum og taka ekki lengur veð í viðskipakröfum.

    Íslensk fyrir búa mörg við það að fá ekki lánað hjá sínum erlendu birgjum og verða að staðgreiða allar pantanir. Bankar verða að koma hér að málum og fjármagna innkaup til að hægt sé að reka fyrirtæki á eðlilegan máta.

  • Rétt og orð í tíma töluð.

    Íslendingar þyrftu að spá mun meira í sínum málum á þessum nónum, og í uppbyggilegum anda.

    Ég er því miður hræddur um að Íslendingar séu í mun meiri hættu heldur en þeir gera sér grein fyrir sjálfir. Þeir eru vanir velgengninni frá því fyrir hrun og enn ringlaðir eftir fallið mikla.

    Það þarf eiginlega að verða vakning hjá þjóðinni að horfa raunsætt á þessi mál, og svo með jákvæðum baráttuhug. En hvað gerir þjóðin, allavega sá hluti sem býr í Reykjavík? Það er rétt að stjórnmálamenn stóðu sig ekki nógu vel síðustu 10 árin en þeirra afstaða og nálgun er sprottin upp úr þjóðfélaginu að stóru leiti. Fólk fyrirlítur frammistöðu stjórnmálabatterísins síðustu árin og að miklu leiti með réttu, en hvað gerir fólk? Snýr sér að raunsæju endurmati og áætlunum um uppbyggingu? Nei það snýr sér að gríni og flippi og ætlar að stefna stjórnsýslunni í Reykjavík í þá átt. Vissulega gaman og gott að losna við pirring, en ég er ekki viss um að það kunni góðri lukku að stýra næstu 4 árin sem verða mjög erfið.

    Lausnin í þessum málum kemur ekki frá stjórnmálamönnum, og enn síður frá grínurum og skýjabólstrasmiðum sem listamenn eru stundum, ef þeir verða enn í gírnum í þingkosningum þegar þær verða næst. Lausnin verður að koma hjá þjóðinni í heild sinni.

  • Jóhannes

    Ég er algerlega ósammála þér um að ríkisstjórn og ráðherrar skipti litlu máli við endurreisn efnahagslífsins við þessar aðstæður.

    Almennt eiga ríkisstjórnir, ráðherrar, alþingi og stjórnmálin almennt að setja ramma og skapa skilyrði til að atvinnu- og efnahagslíf dafni og stöðugleiki ríki. Lykilatriði hér er TRAUST. Traust á ríkisstjórninni og traust á að verið sé að vinna að varanlegum traustum grundvelli og stöðugleika í umhverfi atvinnulífsins.

    Vandi sá sem núverandi ríkisstjórn stóð frammi fyrir var gríðarlegur og fordæmalaus. En einmitt þess vegna þurfti skýra sýn, skilning og sterka hönd til að leiða atvinnulífið og þjóðina gegnum botn kreppunnar og hefja endurreisn sem fyrst á traustum grunni. Sem dæmi eru fjöldi verkefna sem ríkisstjórnin hefði getað veitt brautargengi og vakið traust einkaaðila, innlendra og erlendra, til að hefja endurreisnina.

    En í stað þess að byggja upp traust og aðstoða við að setja startkapla á efnahagslífið hefur ríkisstjórnin og einstaka stjórnmálamenn vakið og viðhaldið þvílíkri óvissu og vantrausti að innlendir og erlendir aðilar leggja einfaldlega ekki í þá áhættu sem fylgir fjárfestingu og frumkvæði í eflingu atvinnulífs.

    Skattkerfinu var bylt, skattar hækkaðir og yfirlýsingar um enn frekari skattpíningu (you ain´t see nothin yet), sérstakir skattar á stóriðju, osfr. hafa valdið mikilli óþarfa óvissu.

    VG hefur beinlínis staðið gegn atvinnuuppbyggingu sem byggir á orkufrekum framkvæmdum. Dæmalausar yfirlýsingar, hroki og aðgerðir Svandísar gegn atvinnuuppbyggingu mun væntanlega tryggja að erlendir og innlendir fjárfestar fari sér afar varlega á næstu misserum enda hefur hægt á öllum undirbúningi þeirra verkefna sem þegar voru komin af stað.

    Stjórnarandstaðan í VG og áherslurnar eru ekki beinlínis til að auka trúverðugleika stjórnarinnar. Helsta frumkvæði VG í atvinnumálum er tillaga Atla Gísla um að kyngreina skýrslu Rannsóknarnefndar alþingis. Þetta er verðmætasköpun í anda annars stjórnarflokksins.

    Frumhlaup og klúður Steingríms í Icesave málinu var ekki beint til að auka trúverðugleika á ríkisstjórninni. Ekki bætti hann um betur þegar hann skammaði lífeyrissjóðina fyrir að ráðast ekki í framkvæmdir!! Eins og lífeyrissjóðirnir eigi að fara að eigin frumkvæði í vegagerð, brúarsmíði og jarðgöng!

    Ríkisstjórnina virðist einfaldlega vanta skýra sýn og öfluga(n) leiðtoga. Jóhanna er eflaust mætasta manneskja en hún er enginn leiðtogi. Hennar mál hafa verið félagsmál og þar er hún á heimavelli, en ekki sem verkstjóri ríkisstjórnar.

    Því miður, það er enginn annar en ríkisstjórnin sem getur skapað traustan grunn og tiltrú almennings, fjárfesta og ýmissa framkvæmdaaðila til að aðrir fari af stað. Einnig þarf ríkisstjórnin að hafa frumkvæði í að styðja af afli við bakið á ýmsum verkefnum sem hafa verið í undirbúningi á undanförnum árum. Bankarnir munu líklega fljótt spila með þegar þeir skynja breytinguna. Ef þetta gerist, munu hjól atvinnulífsins fara að snúast hraðar.

  • Jóhannes

    Og ég gleymdi að sjálfsögðu gríðarlegri áherslu stjórnvalda á að keyra í gegn fyrningaleið í sjávarútvegi, þrátt fyrir að sú leið hafi hvergi verið útfærð. Í stað vandaðrar endurskoðunar sjávarútvegsstefnunnar er keyrt á lýðskrum sem vitað er að mun keyra sjávarútveginn enn frekar niður og valda ómældu tjóni í efnahagskerfinu.

    Þetta er ekki beint að skapa stöðugleika og byggja upp traust við erfiðar aðstæður.

  • Jóhannes,
    Ég held að allir geti verið sammála um að þingið eigi að seta leikreglur og ramma og ríkisstjórnin eigi síðan að framfylgja vilja Alþings. En raunin er önnur. Ráðherrar segja þinginu fyrir verkum og eru með fingurnar ofan í öllu. Yfirlýsingar ráðherra og hótanir um lagasetninu ef einkafyrirtæki fara ekki eftir fyrirmælum og dutlungum ráðherra eru ekki til þess fallin að laða fjárfesta að borðinu. Þeir sem ætla að fjárfesta hér verða fyrst að tryggja sér velþóknun ráðherra áður en þeir hefjast handa. Þetta er miðaldarkerfi sem flestir fjárfestar vilja ekki eyða tíma í.

  • Bættu því við að hér er landlæg andúð á fjárfestingum útlendinga. Þeir eru að sögn allir gráðugir arðræningjar sem ætla að misnota Ísland og Íslendinga, og flytja út arðinn af arðráninu.

    Settu svo saman við að ráðherrar VG eiga flest sitt undir svoleiðis fólki.

    En besta dæmið um það, að Íslendingar ætli að klúðra sínum málum fullkomlega, er að Arion banki hefur yfirtekið rekstur BM Vallá.
    Sem sagt, núna keppast Arion banki og Íslandsbanki um steypusölu á Íslandi.

    Arion banki með Símann í gjörgæslu keppir við Vodafone Landsbankans. Spurning hvenær Landsbankinn hirðir Nova, en það fer eftir því hvort gengið verði að vildarvininum Björgúlfi Thor.

    Arion banki er með megnið af ritfangamarkaðnum og heldur hlífiskildi yfir gjaldþrota Bónusfjölskyldu og stærstum hluta matvörumarkaðarins.

    Þá reka bankarnir nokkur verktaka og byggingafyrirtæki, ráða yfir langstærstum hluta af því húsnæði sem er í byggingu, og handstýra markaðsverðinu.

    Hér er sem sagt engin samkeppni, heldur þvert á móti. Bankarnir stuðla meðvitað eða ómeðvitað að rekstrarerfiðleikum hjá þeim fyrirtækjum sem ekki voru rekin í glórulausu rugli.
    Við eigum því eftir að sjá mun umfangsmeiri erfiðleika hjá smáfyrirtækjum, með tilheyrandi gjaldþrotum og rekstrarstöðvunum.

    Hvað ég ætla að gera?
    Eina sem mér dettur til hugar er að finna upp fjallagrasa-skilju, og fá út á það styrk frá VG.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sex? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur