Laugardagur 22.05.2010 - 07:42 - 31 ummæli

Um „Højskole“ og „Universitet“

Flestar þjóðir nota latneska orðið „universitas“ yfir sínar æðstu menntastofnanir.  Danir nota orðið „universitet“og „højskole“ yfir sínar æðri menntastofnanir en hér er munur á.  Danir nota orðið „højskole“ á svipaðan hátt og Þjóðverjar nota „hochschule“.  Þetta mætti kalla fagháskóla sem sérhæfa sig í fögum tengdum atvinnulífinu.  Hér má nefna Handelshøjskolen og Danmarks Tekniske Højskole sem að vísu hefur nýlega breytt um nafn og kallar sig nú Universitet, enda eru þar stundaðar miklar rannsóknir og skólinn útskrifar marga doktorsnema á hverju ári.

Þegar kemur að hinum „klassísku“ fögum, eins og guðfræði, lögfræði, læknisfræði eða stærðfræði er ein stofnun sem ber herðar og höfðu yfir aðrar í Danmörku og það er Københavns Universitet, æðsta og elsta menntastofnun Dana.  Flestir eru sammála um þetta, enda eiga nær öll lönd eina (stór lönd eiga fleiri)  menntastofnun sem skarar fram úr, t.d. Harvard í Bandaríkjunum.

Það sem einkennir æðstu menntastofnun í hverju landi er einkum:

1. þar fara fram miklar rannsóknir enda er rannsóknarskylda prófessora mikil

2. þar sækjast efnilegustu stúdentarnir eftir að stunda nám

3. þar keppast hæfustu kennarar og vísindamenn um prófessorsstöður

4. þar er boðið upp á viðurkennt doktorsnám

Á Íslandi er aðeins ein stofnun sem gæti kallast „univeristet“ og það er Háskóli Íslands, allar aðrar stofnir sem kalla sig háskóla eru „højskole“  og ber að sameina og endurskipuleggja.

Það er ekki rétt af HÍ að taka yfir HR.  Betra væri að við notuðum strúktúr Dana og Þjóðverja og byggðum upp einn „universitet“ og einn fagháskóla með útibú úti á landi.  Þannig myndi HÍ kenna hin „klassísku“ fög eins og gert er í Hafnarháskóla.  Fagfögin eins og verkfræði, viðskiptafræði og landbúnaðarfræði færðust yfir í nýja sameinaða og endurskipulagða stofnun FHÍ (Fagháskóli Íslands) sem tæki yfir HR, Bifröst og aðrar háskóla.

Lögfræði eins og læknisfræði á heima í HÍ.  Allt of mikil útvötnun hefur orðið á lögfræðinámi hér á landi, taka þarf þetta fag föstum tökum og setja undir einn hatt.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (31)

  • Sigmundur Guðmundsson stærðfræðingur

    Fyrir nokkrum árum var Tryggvi Þór Herbertsson prófessor við Háskóla Íslands og þá jafnframt forstöðumaður Hagfræðistofnunar skólans.

    Árið 2006 skrifaði prófessor Tryggvi Þór Herbertsson mikla „rannsóknarskýrslu“ ásamt skotveiðifélaga sínum Frederic Mishkin. Skýrslan fjallaði um stöðugleika íslenska efnahagskerfisins og var fjármögnuð af hinu „óháða“ Viðskiptaráði.

    Það hefur komið fram opinberlega að fyrir þetta verk fékk Tryggvi Þór a.m.k. tvær miljónir íslenskra kóna og Mishkin 135 þúsundir Bandaríkjadala.

    http://www.vi.is/files/555877819Financial%20Stability%20in%20Iceland%20Screen%20Version.pdf

    Samkvæmt vef HR er Tryggvi Þór Herbertsson nú prófessor við þann skóla.

    Til eru fleiri sannar sögur af þessu tagi.

    Er ekki kominn tími til að skera upp herör gegn íslenska háskólavændinu ??

  • Guðbjörn Guðbjörnsson

    Andri Geir:

    Ég skildi aldrei þegar háskólar spruttu hér upp eins og gorkúlur í þjóðfélagi, sem er aðeins stærra en borgin Wiesbaden í Þýskalandi.

    Okkur hefðu að hámarki nægt 2-3 háskólar.

    Þar sem ég dvaldi langdvölum á þýska málsvæðinu skil ég þína röksemdir mæta vel og þetta eru hugmyndir, sem mér hugnast ágætlega.

  • Anna María

    Mér finnst þetta nú hálf-aulalegt. Minnir mig á barnalegt þras um hvers pabbi er sterkastur. Gerum lítið úr einum því þá virkar maður sjálfur stærri. Að gera lítið úr menntun eins hóps til að hvað……Jú auðvitað gefa í skyn að annar hópur sé svo miklu betri. Nú þekki ég dálítið til í HÍ og einum hinna háskólanna og mínar ályktanir segja mér að hvor þeirra um sig hefur sína styrkleika og veikleika. Framsækni hefur ekki verið aðall HÍ svona ef litið er til stjórnunar stofnunarinnar, það má frekar nota orðið íhaldsemi um stjórnunina meðan t.d. Bifröst, sem ég þekki líka töluvert til, hefur einmitt haft kjark til að fara nýjar leiðir. Hvort tveggja getur verið kostsur eða löstur, veikleiki og styrkur samtímis.
    Það truflar mig líka dálítið þegar talað er um hin „klassísku fög“. Einsog það sé til eitthvað lögmál um að sumar pælingar séu yfir aðrar hafnar. Já ég segi það bara einsog ég meina það. Þessi bloggfærsla Andra Geirs er innblásin af hroka. Hroki er raunar klassiskt dæmi um nokkuð sem ég vona að þið þekkið 🙂

  • Ég þakka góðar athugasemdir. Þessi færsla snýst aðalega um nauðsynlegan strúktúr á æðsta menntunarstigi þjóðarinnar. Gæðin innan hverrar stofnunar er svo annað mál, sem væri efni í nokkar færslur.

    Það er ekki hægt að flokka skóla sem stunda vísindarannsóknir og útskrifa doktora á sama hátt og aðra skóla. Hjá öðrum þjóðum flokkast þeir sem „universitas“ enda gegna þeir öðru hlutverki en fagháskólar.

    Þessi færsla er innblásin af metnaði en ekki hroka, Anna María. Við verðum að hafa metnað til að reka einn skóla sem uppfyllir alþjóðlegar kröfur sem gerðar eru til „universitas“ – stofnun sem stundar viðurkenndar vísindarannsóknir og kennslu í samvinnu við erlenda skóla í sama flokki. Þetta starf þarf að sameina í eina stofnun, HÍ.

    Síðan höfum við stofnun, FHÍ, sem stundar aðalega kennslu í faggreinum með góða tengingu við atvinnulífið. Þetta er einfaldlega praktísk uppstokkun.

    Auðvita eru til aðrar tillögur og um að gera að ræða þær. Ástandið í dag er engin framtíðarlausn, enda ekki peningar til að halda því uppi.

    HÍ hefur komið fram með sína tillögu um að taka HR yfir. Ég er ekki henni sammála en sting hér upp á tillögu.

    Það er því miður allt of algengt hér á landi að fólk sé á móti öllu án þess að koma fram með neinar raunhæfar gagntillögur.

    Ég bíð eftir útspili HR og Bifröst?

  • Skrítinn pistill. Ertu að meina að guðfræði og læknisfræði séu „æðri“ greinar, vegna þess að þær eru eldri?

    Hvað myndir þú þá kalla stofnun sem myndi kenna öll heimsins fög fyrir utan lögfræði, guðfræði og læknisfræði, og standa framar öðrum skólum í rannsóknum og kennslu? Höjskole?

    Þetta barnalega tog á milli HÍ og annarra skóla er ekki eitthvað sem skynsamir menn á borð við þig eiga að vera að blanda sér í.

  • Sigmundur Guðmundsson stærðfræðingur

    Q Andri Geir // 22.5 2010 kl. 09:42

    „HÍ hefur komið fram með sína tillögu um að taka HR yfir.“

    Þetta er ekki tillaga Háskóla Íslands heldur félags prófessora við ríkisháskólanna.

  • Sigurður,
    Þakka leiðréttinguna.

    Addi,
    Guðfræði, lögfræði og læknisfræði eru hin gömlu klassísku embættismannafræði sem sögulega búa í gömlum og grónum stofnunum sem oftast eru æðstu menntastofnanir hverra þjóðar.

    Þessar greinar eru ekki æðri öðrum, en vegna sögulegra tengsla eru oft órjúfanlegur hluti af bestu háskólum heims.

  • Sigmundur Guðmundsson stærðfræðingur

    Rétt til fróðleiks vil ég minna á að í stofnskrá háskólans í Stokkhólmi er skýrt tekið fram að hann skuli aldrei reka guðfræðideild.

  • Þú segir:
    „Fagfögin eins og verkfræði, viðskiptafræði og landbúnaðarfræði færðust yfir í nýja sameinaða og endurskipulagða stofnun FHÍ (Fagháskóli Íslands)“
    og seinna:
    „Það er ekki hægt að flokka skóla sem stunda vísindarannsóknir og útskrifa doktora á sama hátt og aðra skóla. Hjá öðrum þjóðum flokkast þeir sem „universitas“ enda gegna þeir öðru hlutverki en fagháskólar.“

    Það er hægt að les til „doktors“ innan allra þessara „fagfaga“ sem þú nefnir. Hvers vegna ættu þau þá að vera færð yfir í fagháskóla?

  • Sigmundur Guðmundsson stærðfræðingur

    Ég legg til að Háskóli Íslands skipi óháða rannsóknarnefnd líkt og Alþingi hefur nýlega gert (RNA) með ágætum árangri.

    Rannsóknarnefnd Háskóla Íslands (RNHÍ) fái það hlutverk að gera úttekt á því háskólavændi hafi verið stundað innan stofnunarinnar eftir árið 2000. Þá fái nefndin það hlutverk að skila tillögum að úrbótum.

    Til þess að auka trúverðugleika nefndarinnar verði hún að hluta til skipuð erlendum sérfræðingum.

  • Hjörtur,
    Ég hef áður skrifað um doktorsnám á Íslandi.

    Doktorsnám á aðeins að vera við HÍ og takmarkast aðalega við jarðfræði, íslensku og sögu. Læknadeild og lögfræðideild HÍ munu einnig bjóða upp á doktorsnám í sértilfellum.

    Annað doktorsnám á að sækja erlendis.

    Þessi nýji fagháskóli sem ég sting up á, á ekki að vera með doktorsnám heldur halda sér mest við kennslu til BS gráðu og diploma nám.

  • Fínn pistill hjá Andra og alveg dæmigert að nokkrir aular fara strax að karpa um aukaatriðin. Þetta með „klassísku fögin“ er söguleg staðreynd en ekki hroki. Það segir hins vegar ekkert um innihald.

    Aðalatriðið er að 300 þúsund manna þjóð nægir einn háskóli (universitas). Allt annað er bruðl og vitleysa a la 2007.

  • kartaflan

    Hvers vegna ætti ekki að vera kennt á PhD stigi hér, t.a.m. í tölvunarfræði? Hér eru menn með doktorsgráður frá topp skólum erlendis, hafa jafnvel haft prófessortitla við þá skóla, og hingað hafa verið að koma erlendir nemendur til að sækja slíkt nám, með góðum afleiðingum á nám á neðri stigum.

    Þar fyrir utan stundar HR jafn miklar eða meiri rannsóknir en HÍ á sumum sviðum, og þann skóla sækja fjöldi doktorsnema. Þetta er bara gamalt menntasnobb, það sama og veldur því að menn tala um „Háskólann“ þegar þeir tala um HÍ. Ég er nokkuð viss um að þú, Andri, hefur ekki hugmynd um það starf sem stundað er í HR.

  • Hvernig dettur þér í hug að verkfræði sé einhurskonarð iðnaðarfag?? Hér þarf stærðfræðikunnáttu á æðsta stigi eins og t.d. í byggingarverkfræði. Við erum að tala um útreikninga í flóknustu mannvirkjum. Hvernig dettur þér í hug að hægt sé að færa fagið í einhvern höjskole??? Viltu vera staddur í hundrað hæða mannvirki þar sem járnið er reiknað út af einhverjum sem fór í höjskole á Bifröst?

  • Er sammála Sérhver hér að ofan, alveg dæmigert að fólk svari pistli Andra með karpi um aukaatriði. Andri setur hér einfaldlega fram tillögu að skipulagi háskóla á Íslandi því núverandi staða þeirra gengur ekki upp vegna kostnaðar. Það hvaða fög myndu flokkast inn í „universitatis“ og hvaða fög fara inn í „højskole“ er bara algjört aukaatriði og í raun dálítið týpískt íslenskt að fara að setja aðra stofnunina æðri en hina. Komment frá Lara um verkfræði endurspeglar þvílíkan hroka að það er vart svaravert og lýsir líka lítilli vitneskju um málin, eða heldur viðkomandi kannski að verkfræðingar útskrifaðir frá Danmarks tekniske höjskole eða Ingeniörhöjskolen i Köbenhavn geti ekki hannað flóknustu mannvirki ?

    Legg til að fólk ýti nú einu sinni tilfinningum og minnimáttarkennd til hliðar og kynni sér staðreyndir og hver veit nema að það gæti opnast nýr heimur!

  • Lara,
    Ég er verkfræðingur frá Danmarks Tekniske Höjskole. Flest okkar stærri mannvirkja eru reiknuð út af verkfræðingum sem hafa útskrifast þaðan. Þetta hefur ekkert með gæði að að gera, þetta er einfaldlega strúktúrbreyting.

    Kartafla,
    Það er rétt að ég hef lítið kartöfluvit á því starfi sem fer fram hjá HR, en ég þekki HÍ og það er okkar gamli skóli sem hefur starfað hér í nær 100 ár. Þar er læknadeild landsins og sú staðreynd er í raun ein og sér nóg til að draga þá ályktun að HÍ eigi að vera eini rannsókanrháskóli landsins. Rannsóknir í HR geta flust yfir þangað.

  • Ég held því miður Andri Geir að þú hafir ekki hundsvit á því sem þú ert að tala um, enda á MBA-nám ekkert skylt við alvöru akademíu. Ég ráðlegg þér að fara yfir ritaskrár kennara við H.Í. í lögfræði. Þetta fólk hefur ekki skrifað staf í almennileg tímarit og þannig hefur það verið alla tíð. Skoðaðu svo ritskrár kennara í Læknadeild. Þar eru rannsóknir á heimsmælikvarða. En menn með eitthvað útvatnað verslunarpróf hafa auðvitað ekki getu til að leggja dóm á það

  • Sesar,
    Einmitt, lögfræðinám þarf að vera á einum stað til að það þrífist og sá staður er HÍ strúktúrlega séð. Í þessari færslu legg ég ekki mat á gæði lögfræináms HÍ, þessi færsla er fyrst og fremst um strúktúr.

    Ég læt lesendur dæma hvort ég eða þú hafir meira vit á þessum málum. Ég hef háskólagráður frá 3 löndum og skrifa undir fullu nafni.

  • Tekið að ofan:
    „…Annað doktorsnám á að sækja erlendis.

    Þessi nýji fagháskóli sem ég sting up á, á ekki að vera með doktorsnám heldur halda sér mest við kennslu til BS gráðu og diploma nám.“

    Er það þá þín skoðun að ekki sé þörf á því að hafa doktorsmenntað fólk innan „fagfaganna“ á Íslandi?

    Það þarf ekki doktora til að kenna við fagháskóla, það verkefni geta BSc eða MSc menntað fólk vel leyst. Doktorar hafa oftast mestan áhuga á því að starfa við rannsóknir, enda er það eitt af aðal markmiðum alls Ph.d náms að nemendurnir læri hvernig eigi að stunda rannsóknir. Það væru því minni líkur á því að doktorar myndu vilja starfa við þessa fagháskóla, þar sem þeir ættu engan möguleika á því að sinna rannsóknum að auki.

    Með því að stunda engar rannsóknir innan t.d.verkfræði við Íslenska Háskóla, þá er hætt við því að hæfasta fólkið innan sinnar greinar vilji ekki starfa við slíka stofnun. Slíkt hefur bein áhrif á gæði kennslunar og námsins sem í boði er. Ransóknavinna við Háskóla tryggir „state of the art“ þekkingu innan skólans, sem yrði að lokum partur af náminu (þegar námskráin yrði uppfærð). Þannig er hægt að tryggja að þessar menntastofnanir þróist í takt við þær uppgötvanir sem orðið hafa innan vísindanna.
    Að hafa aðeins fagháskóla á Íslandi fyrir t.d. verkfærði væri ávísun á stöðnun, þar sem þessar stofnanir myndu ekki búa yfir „State of the art“ þekkingunni innan sín sviðs. Hætt er við að nemendur sem útskrifast frá slíkum stofnunum væru ekki nægjanlega hæfir og þyrftu að byrja á því að verða sér úti um endurmenntun áður en þeir gætu tekist á við verkefni samtímans.

    Ég get lofað þér því að namskránni við DTH hefur verið breytt mörgum sinnum síðan þú varst að læra þar, enda hafa verið gerðar margar vísindalegar upgötvanir sem nauðsynlegt var að bæta inn í námsskránna.

  • Hjörtur
    Það er afar kostnaðarsamt að halda úti masters og doktorsnámi í mörgum greinum í 300.000 manna þjóðfélagi og ef þú skyldir ekki hafa tekið eftir því þá er vandamál Íslands skortur á peningum. Það gefur auga leið fyrir þá sem hafa á annað borð áhuga á að opna augun að gæði mastersnáms og doktorsnáms á íslandi getur aldrei komist nálægt gæðum erlendis nema hugsanlega í örfáum greinum einfaldlega út af mannfæð.

    Danmarks tekniske höjskole heitir í dag Danmarks tekniske univesitet og býður í dag upp á fjölda mastersnáms og doktorsnáms enda eru 6.500 manns í námi þar í verkfræði – hvað eru margir í verkfræðinámi í HÍ og HR til samans?

  • Háskólarnir brugðust gjörsamlega í undanfara hrundinu, einstaka starfsmenn voru tilbúnir að selja (með eigin gróða) nafn háskólanna til útrásarvíkinganna.

    Það er virkilega komin tími á tiltekt og sameiningar í öllum þessum háskólum. Mæli með þessum pistli:

    http://heyrt.wordpress.com/2010/05/22/hreinsanir-i-haskolunum/

  • Hjörtur,
    Þegar ég var við nám í HÍ var gamla verkfræði- og raunvísindadeildin mjög góð. Prófessorar voru flest allir með PhD eða hliðstæða menntum. Allir sem höfðu áhuga á framhaldnámi fóru erlendis í master eða doktor.

    Þá var mikill metnaður að hafa grunnkennsluna sem besta þannig að hún yrði viðurkennd við bestu háskóla erlendis og auðveldaði stúdentum að komast í framhaldsnám.

    Stöðugur og mikill straumur í erlent framhaldsnám jók tengslin við erlenda háskóla og sá um að framtíðakennarar væru með góð og yfirgripsmikla menntun sem við búum enn við.

    Ég er hræddur um að ef við förum að flyta mikið af master og doktorsnámi til Íslands minnki tengslin við erlendar stofnanir, námið verður einhæfara og gæðin minnka.

    Þó svo að við færum það sem ég kalla fagfög yfir í nýjan sameinaðan fagháskóla þá er ekki þar með sagt að rannsóknir prófessora þurfi að hætta og gæðin minnka. Þetta er ekki af eða á, þetta snýst um áherslur og praktískan og hagkvæman strúktúr.

    Ég held að t.d. verkfræðinám og viðskiptafræðinám myndi styrkjast ef það væri sameinað í einn skóla þar sem markmiðið væri að keppa við það besta í nágrannalöndunum en ekki einblína á innlenda samkeppni eins og staðan er í dag.

    Í mínum huga er háskólanám á ákveðnum villigötum hér á landi. Við þurfum að huga að gömlum og sígildum akademískum gildum um gæði menntunar, víðsýni og tengingar við alþjóðaháskólasamfélagið.

    Ég er kannski orðinn allt of gamaldags, en ég held, að mörgu leyti hafi gamla kerfið hentað okkur ágætlega.

  • Gunnar,
    Ég er alveg sammála um að ræða þarf gæðamál háskólasamfélagsins en það er efni í aðrar færslur. Þakka fyrir tenginguna á heita pottinn.

  • Hef nú ekki reynslu af öðru en lögfræðinámi svo ég tjái mig ekki um annað… en hvar eru íslenskir doktorar í lögfræði að kenna?

    Eru þeir ekki nær allir að kenna við HR? Kannski ætti bara að færa lögfræðikennsluna úr HÍ undir HR fremur en öfugt…

  • Páll J
    Enn erum við komið að gæðamálum. Strúktúrlega séð vildi ég sjá lögfræðideildina við HÍ en þar með er ekki sagt að kennarar við HR gætu ekki tekið við stjórn þeirrar deildar ef þeir eru metnir hæfari.

    Fyrst lögum við strúkturinn og svo innréttum við.

  • Kristján

    Sæll Andri, þakka góða pistla, óháð því hvort maður er alltaf 100% sammála þeim eður ei. 🙂

    Mér líst að mörgu leyti vel á þessa hugmynd hjá þér, en hallast að því að sett fram í svona einfaldri mynd er mikil hætta á að hún sé túlkuð sem of einföld lausn við flóknara vandamáli.

    Það sem mér finnst sérstaklega áhugavert er að fyrir ekki löngu síðan hefði ég verið algerlega sammála þessari hugmynd að öllu leyti. Það sem hefur breyst síðan þá er að ég hef haft tækifæri til að kynnast þeirri vinnu sem hefur átt sér stað innan Tölvunarfræðideildar HR. Það hefur leitt til þess að ég sé ágæti þess að hafa þess konar deildir bæði við HÍ og HR. HÍ eru mjög sterkir í grunnbyggingarhlutum tölvunarfræðinnar en að sumu leyti hafa staðnað alltof mikið, sem er ekki ólíklegt að tengist þessu fámenna landi okkar – þ.e.a.s. einungis er hægt að hafa örfáa starfandi við deildina hverju sinni og oftar en ekki eru þeir þar áratugum saman, sem virðist hafa áhrif til stöðnunar.

    HR eru að gera hluti sem ég hélt að þrifust ekki á Íslandi, sérstaklega í tengslum við gervigreind. Þar er einnig mjög sterk tenging við erlenda háskóla, jafnt í gegnum námsbrautir sem og rannsóknir – en stærsta ástæða þess er án efa einmitt sú að þetta fólk sem lærði sinn grunn í HÍ þurfti að fara erlendis til áframhaldandi náms og reynslu og því lykilatriði að þau séu sem betur fer að viðhalda þeim tengingum héðan.

    HR – án þess að útiloka hina, kýs bara heldur að tala um það sem ég þekki til fremur en að giska í eyðurnar – hefur einnig leitt til þess að mikið af gríðarlegu færu fólki sem hefur lengi verið erlendis, sá sér fært að koma til baka til Íslands og vinna sínar rannsóknir héðan og deila um leið sínum tengingum og þekkingu með öðrum hér til frekari uppbyggingar. Þetta var ekki hægt meðan HÍ var eini alvöru kosturinn hér á landi, því miður, enda of lítill markaður.

    Mér skilst raunar að Íslensk Erfðagreining hafi haft amk á tímabili sambærileg áhrif á mikið af góðu raungreinafólki sem hafði ekki haft kost á að flytja aftur heim fyrr – svo lausnin gæti falist í því að taka þetta út fyrir háskólana að einhverju leyti með öflugum rannsóknarstofnunum… en ég er ekki nægilega viss að okkar litla land standi neitt frekar undir því.

    Að lokum langar mig að taka undir – í grófum dráttum – það sem hefur komið fram hér að HÍ er um margt mjög góður háskóli, en utan þess að það hefur aðeins breyst á síðustu árum af áðurnefndum ástæðum (o.fl. ?) þá eru deildirnar þar mjög misjafnar. T.d. veit ég til þess að ákveðnar deildir ýmist standa sig ekkert í rannsóknum eða komast upp með að telja innsendar greinar í dagblöð og ýmis tímarit sem rannsóknir – á meðan aðrar eru virkilega meðal þeirra bestu í heiminum í ákveðnum „niches“ (man ekki íslenska orðið..), að mér skilst áðurnefnd læknisfræðideild og einnig jarðfræðingarnir okkar.

    Held mér lítist vel á hugmyndina hjá þér, en stóra spurningin lægi í raunverulegum útfærsluatriðum, sem væru held ég ansi flókin.

    PS í guðanna bænum gott fólk, maðurinn skrifar hér pistla um sínar hugmyndir og býður okkur upp á að ræða þær með honum – af hverju í ósköpunum þarf það að fara útí persónulegar árásir..???

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Kristján,
    Þakka innlitið og góða athugasemd. Þetta sýnir að það verður að fara með gát í þessi mál, sérstaklega þegar valið kemur að námsskrá og kennurum.

    Þetta þarf ekki að vera svo flókið. Lögfræðin fer frá HR yfir til HÍ og verkfræði, viðskiptafræði og tölvunarfræði fara frá HÍ yfir til HR sem síðan tekur yfir Bifröst og aðra háskóla.

  • Sigmundur Guðmundsson stærðfræðingur

    Ég þakka Andra Geir fyrir að halda úti þessarri umræðu. Hún er sannarlega af hinu góða.

    Þöggunin hefur alltof lengi einkennt íslenskt samfélag og náði hápunkti sínum á seinni hluta Davíðstímans. Honum lauk ekki fyrr en hinn geðprúði neyddist til þess að yfirgefa Seðlabankann.

    Ennþá er þó til nóg af tabúum. Háskólavændið er eitt þeirra. Ég hlakka til þeirra tíma þegar samfélagið þolir þá umræðu.

  • Sæll Andri. Athyglisverðar pælingar ég er þeim þó ekki alveg sammála.

    Á pappírunum gæti virst sem svo að hagkvæmnin væri best með að sameina allt nám í hverri grein i einum skóla.
    Ég tel þó svo ekki vera með skírskotun til þess sem gerðist þegar HR hóf kennslu í lögfræði en þá allt í einu tók hin trénaða lagadeild við HÍ við sér og sendi kynningarbækling til nýnema og bætti þjónustuna í kjölfarið allt vegna samkeppninnar sem ég tel afar mikilvæga háskóla svo hann staðni ekki og verði lélegur.
    Ég þekki til í verkfræði stærðfræði og tölvunarfræði og ég verð að segja að þetta átti við HÍ þ.e.a.s. um ákveðna stöðnun var að ræða þangað til samkeppnin frá HR kom til þá var bætt í. Enn fremur hefur það gerst að sitthvor stefnan er rekin varðandi nám í tölvunarfræði í HÍ og HR sem er stórgott, veitir val og eykur fjölbreyttni fagsins á Íslandi. Varðandi gæði náms þá er HÍ auðvitað framarlega á mörgum sviðum en þó ekki á öllum og er t.d. lagadeild HR alveg mjög frambærileg og tölvunarfræðideildin er meðal þeirra fremstu í heimi á sviði gerfigreindar.

    Það sem vantar auðvitað er að á þessum tímum niðurskurðar hafi stjórnvöld visku og kjark til að hækka en ekki lækka framlög til háskóla og bjóða aðstoð við að allir sem ekki fá vinnu komist í nám við sitt hæfi. Enn fremur þarf að stórauka rannsóknir, sérstaklega á raungreinasviðum en þaðan mun hagvöxtur framtíðarinnar koma.

  • Alfred,
    Sjónarmið þitt er auðvita mikilvægt en hin hliðin á að dreifa greinum á of marga skóla með leiðir til útvötnunar og hættu á að „öllum“ verði hleypt í gegn og standardinn falli. Af hverju þarf samkeppni í lögfræði, viðskiptafræði og tölvunarfræði en ekki læknisfræði og hagfræði svo fáar greinar séu nefndar.

    Vandamálið við margar stofnanir á Íslandi er ekki aðeins skortur á samkeppni heldur að sama fólkið situr áratugi í sínum stöðum og engin endurnýjun á sér stað.

  • Sæll Andri
    Ég er nú að flestu ósammála rökum þínum í þessari færslu en í síðasta andsvarinu hér að ofan hittirðu reyndar naglann á höfuðið: „sama fólkið situr áratugi í sínum stöðum og engin endurnýjun á sér stað“. Þetta er það sem stendur HÍ stórlega fyrir þrifum.

    Ég þekki vel til innan tölvunarfræðinnar. Þar er óhætt að segja að HR stendur HÍ ljósárum framar, bæði hvað varðar gæði kennslu og rannsókna. Gott háskólanám verður ekki byggt upp án rannsókna og þar er doktorsnám lykillinn. Það er marklaust að tala um rannsóknir án doktorsnema – það er eins og hugsa sér 18 aldar hernað án fótgönguliða. Það er sárleg vöntun á fólki með djúpa tækniþekkingu til að byggja upp sprotafyrirtæki í tæknigreinum á Íslandi og þar er doktorsnám lykillinn. Slík fyrirtæki verða ekki mönnuð fólki með PhD í jarðfræði og íslensku (með fullri virðing fyrir þessum greinum). Ég held að það sé ekki raunhæft að allir fari erlendis í doktorsnám.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og tveimur? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur