Mánudagur 31.05.2010 - 20:26 - 16 ummæli

Bakdyraskattlagning á lífeyri upp á 16 ma kr.

26 lífeyrissjóðir tóku þátt í gjaldeyrisbraski Seðlabankans.  Seðlabankinn keypti íslenskar krónur á aflandsmarkaði hjá Seðlabanka Lúxemborgar á 270 kr. evruna og selur svo sömu krónurnar fyrir evrur til lífeyrissjóðanna en nú á 220 kr.  Hreinn hagnaður Seðlabankans er 50 kr. á hverja evru sem lífeyrissjóðirnir láta Seðlabankann fá eða samtals 16 ma kr..  Már gerir hér reyfarasölu en svokallaður „hagnaður“ lífeyrissjóðanna er annað mál.

Það sem vekur sérstaka athygli er að lífeyrissjóðirnir virðast allir sem einn taka þátt í þessu án nokkurrar umræðu við sína sjóðsfélaga.  Á hvaða forsendum var ákveðið að færa enn fleiri lífeyrisegg í valta íslenska körfu?  Hvernig réttlæta stjórnir lífeyrissjóðanna þessa „fjárfestingu“, sérstakleg út frá fjárfestingarstefnu um dreifða áhættu?  Hver er hinn erlendi fórnarkostnaður við þessi kaup?  Hvaða erlendu eignir voru seldar?  Hvernig voru bréf Seðlabankans „verðlögð“?  Voru skammtímasjónarmið látin gilda, þ.e. langtímafjárfestingarsjónarmiðum um dreifða áhættu var fórnað til að fegra stöðu sjóðanna til skemmri tíma litið? 

Er virkilega ekki til einn lífeyrissjóður á landinu  sem taldi þessi kaup ekki í hag sinna sjóðsfélaga og þar af leiðandi tók ekki þátt í þessu braski sem í grunninn er ekkert nema tilfærsla á peningum sjóðsfélaga í ríkiskassann.  Þetta er nefnilega ekkert annað en bakdyraskattalagning á lífeyri upp á 16 ma kr. en vegna tvöfalds gengis krónunnar geta stjórnir lífeyrissjóðanna tilkynnt þetta sem pappírsgróða fjárfestingu.

Og vegna þess að þetta er „skattlagning“ urðu allir að taka þátt í þessu.

Ef einhver lífeyrissjóður hefði talið það góða fjárfestingu að færa erlendar eignir yfir í íslenskar krónur hefði verið eðlilegast að sá lífeyrissjóður hefði keypt krónubréfin beint af Seðlabanka Lúxemborgar eða í gegnum Seðlabanka Íslands á kostnaðarþóknun en ekki á „skattlagningarverði“.

Það er löngu tímabært að endurnýja stjórnarhætti innan lífeyrissjóðanna og setja þar inn stjórnarmenn sem fyrst og fremst hugsa um hag sjóðsfélaga.  Það er ekki í verkahring lífeyrissjóðanna að bæta Seðlabankanum það tap sem varð á gjaldeyrisforða landsmanna í hruninu, eða hvað?

Ps. Sjaldan hefur 16 ma kr. skattlagning fengið jafn litla umræðu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (16)

  • Jón Bragi

    Gæti ekki verið meira sammála þér. Það er hryllingur að sjá hvernig lífeyrissjóðirnir eru notaðir sem einhvers konar viðlagasjóðir án þess eins og þú segir að eigendur þessa fés séu spurðir.
    Ekkert er getið um hvaða ávinning (ef einhver er) sjóðirnir hafa af þessu eða hversu örugg þessi fjárfesting er.
    Algjör skandall, en hvað skal gera? Hvorki blaðamenn eða almenningur virðist hafa hinn minnsta áhuga á þessu.

  • Björn Jónasson

    Ágæt greining. Hitt er annað mál, að ekki er hægt að horfa á lífeyrissjóði sem sjálfstæða vogunarsjóði, úr samhengi við íslenska hagkerfið. Lífeyrissjóðir eiga allt undir gengi íslenska hagkerfisins.

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Björn,
    Það er Seðlabankinn sem er orðinn að vogunarsjóði með þessari 2007 fléttu. Lífeyrissjóðirnir eiga að starfa fyrir opnum tjöldum og svona kaup á að kynna vel og rækilega fyrir sjóðsfélögum áður en þau ganga í gegn.

  • Björn Kristinsson

    Andri,

    Ég hef alltaf litið á borgun í lífeyrissjóði á Íslandi sem skattlagningu. Þessi gjörningur ásamt því hvernig sjóðunum var stýrt í fjárfestingum hér á landi fyrir hrun hafa ekkert annað en sannfært mig í þessari skoðun.

    Fleiri atriði styðja þetta einnig eins og það hvernig lífeyrir erfist til maka. Í Noregi erfist lífeyrisréttur 100% til eftirlifandi maki en hér á landi aðeins 50%. Lífeyrisskuldir þeir yfirfærast hins vegar 100% yfir á eftirlifandi maka. Þetta er sjúkt kerfi, ekkert betra en hið pólitíska. Það er eina orðið yfir það.

    Kveðja,
    Björn Kristinsson

  • Flott hjá þér Andri. Íslenska krónan er ekki markaðshæf en samt kaupa sjóðirnir þetta.

    Enginn fjölmiðlamaður hafði getu né rænu á að gera frétt um þetta.

  • Jóhannes

    Það er annar flötur á þessu máli.

    Segja má að þeir hafi lokað gjaldeyrisstöðu og endi með ávöxtunarkröfu í íslenskum krónum yfir 7% á ári í tryggum pappírum. Það er alls ekki svo slæmt, reyndar afar gott. Ef von er á fleiri slíkum samningum þar sem seðlabankinn innleysir öruggar krónueignir á aflandsgengi og selur lífeyrissjóðunum á svipuðum kjörum, eru allar líkur á að lífeyrissjóðirnir muni hagnast verulega. Lífeyrisskuldbindingarnar eru jú í íslenskum krónum.

    Og það er krystaltært að þessar aðgerðir munu flýta fyrir afnámi gjaldeyrishaftanna, sem eru farin að skaða íslenskt efnahagslíf verulega, og þar með lífeyrissjóðina.

    Gallinn er sá að þetta dregur til skamms tíma úr áhættudreifingu lífeyrissjóðanna, þeir verða of háðir íslenskum eignum. Þar sem íslenska krónan er afar veikur gjaldmiðill og framboð af góðum bréfum takmarkað getur það reynst mjög varasamt til lengdar.

    Ef meðalgengi íslensku krónunnar í framtíðinni verður lægra en kaupverðið í þessum viðskiptum (þe Evran yfir 220) hafa lífeyrissjóðirnir amk ekki grætt eins mikið á swappinu og verða etv ekki gírugir í erlenda pappíra eftir afnám gjaldeyrishafta meðan staðan er þannig. En ef seðlabankinn hefur rétt fyrir sér og jafnvægisgengið verði lægra, hafa allir grætt.

    En óvissan er mjög mikil um gengi krónunnar. Það er ekkert að marka opinbert verð hennar í dag. Og jafnvel ef tekst að losa krónubréfastöður erlendra fjárfesta, þá er eftir að taka inn ýmsa aðra þætti t.d. áhrif Icesave samninga, áhrif efnahagsreikninga bankanna og þrotabúa þeirra, ofl. En þessi óvissa snýst um endurfjárfestingu í erlendum eignum síðar að loknu afmámi gjaldeyrishaftanna, ekki hagnað í þessum viðskiptum.

    En lífeyrissjóðirnir eru sennilega að gera mjög góð kaup. Til skemmri tíma gætu þeir líklega tekið töluvert meira á þessum kjörum án þess að tefla í tvísýnu. Vonandi heldur samstarf þeirra og seðlabankans áfram á þessu sviði.

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Jóhannes,
    Það er Seðlabankinn sem er að gera mjög góða sölu. Því miður er ég ekki jafn jákvæður og þú um þetta samstarf Seðlabankans og lífeyrissjóðanna.

    Sú uppstilling að allir geti grætt á þessu er blekking. Hafa menn gleymt 2007 og yfirlýsingum bankanna þá.

    Þessi sala Seðlabankans er ekkert nema barbabrella. Látum tölurnar tala.

  • Pétur Tyrfingsson

    Sem sannur sósíalisti álít ég náttúrlega að ríkinu beri skylda til að þjóðnýta lífeyrissjóðina og nota peningana til þess að greiða niður skuldir og auka þjónustu ríkisins.

  • Elli kelling

    Tek undir með Andra að þetta er Barbabrella þar sem tilgangurinn helgar meðalið.
    Er ekki straffbart með lögum að braska svona með aflandskrónur ?

  • Björn Kristinsson

    Það er einnig annar hlutur á þessu máli og hann er, eins og „Elli kelling“ kemur inn á, að Seðlabankinn hefur raunverulega búið til tvöfaldan markað. Annan sem almennur útflytjandi neiðist til að selja inn á skv. gengi á millibankamarkaði og síðan hinn sem er honum og stjórnvöldum þóknanlegur þ.e. aflandsmarkaðurinn.

    Ekki misskilja mig og það er gott ef við getum losað um eitthvað af erlendum IKR eignum á hagstæðu gengi en hér getur Seðlabankinn einfaldlega verið að skjóta sig í fótinn. Hvers vegna ? Jú, því ef áætlunin er að byggja upp uppboðsmarkað til að losna um „óþolinmótt“ fjármagn þá hafa þær þegar séð í gegnum þann leik sem Seðlabankinn er að leika.

    Niðurstaðan gæti því orðið sú að þessi millileikur Seðlabankans hafi í reynd eyðilagt möguleikann á uppboðsmarkaði. Hinar óþolinmóðu krónur munu einfaldlega bíða þegar höftunum verður aflétt eða IKR tengd við annan gjaldmiðil.

  • Björn Jónasson

    Níutíuogátta prósent tekna íslensku lífeyrissjóðanna koma úr íslensku efnahagslífi. Því sterkara sem íslenskt atvinnulíf er, því sterkari eru sjóðirnir. Þess vegna er ekki skynsamlegt að fara með fjármuni úr landi, heldur borgar sig fyrir sjóðina að byggja upp Ísland. Sjóðirnir tapa á atvinnuleysi á Íslandi. Sjóðirnir tapa ef efnahagslíf Íslands er veikt. Það gagnar ekki að fjárfesta í uppbyggingu í öðrum löndum. Það er ekki áhættudreifing. Það er bara óskynsamlegt. Það á ekki að vera erfitt að sjá þetta samhengi.

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Björn,
    Hér er ég ekki sammála þér. Það er ekki gott að hafa öll eggin í sömu körfunni. Það sem bjargaði lífeyrissjóðunum í hruninu voru erlendu eignir þeirra. Norski olíusjóðurinn fjárfestir að mestu fyrir utan Noreg.

    Lífeyrissjóðir eiga að varðveita og fjárfesta lífeyri sjóðsfélaga. Þeir verða að eiga bæði fjárfestingar erlendis og innanlands en umfram allt verða þeir að dreifa áhættunni.

  • Björn Kristinsson

    Rétt meirihluti tekna sjóðanna kemur innanlands. Hvernig er fjárfestingarstefna þeirra hér á landi. Einkum í ríkisskuldabréfum og hlutabréfum sem að megninu til eru orðin að engu.

    Er það skynsamleg fjárfestingarstefna ? Nei !

    Sjóðirnir eru sparnaður fólksins. Þeir eiga ekki að fjárfesta í atvinnuuppbyggingu hér á landi þar sem slíkt er aðeins annað form á þjóðnýtingu, pólitísk misnotkun á þvinguðum sparnaði landsmanna.

    Vandi Íslands er hvernig ríkið og hið opinbera er rekið. Linnulaus halli sem krefur peningaprentunar í formi skuldabréfa. Hver kaupir þau svo ? Lífeyrissjóðirnir þ.e. fólkið í landinu borgar fyrir hallan hjá ríkinu. Þetta er súrrealísk fjárfestingarstefna, ekkert annað !

    Það er óskynsamlegasta fjárfestingarstefna sem til er að lífeyrissjóðirnir fjárfestingi megninu hér á landi því með því getur ríkið alltaf treyst á lífeyrissjóðina sem kaupendur á skuldabréfum/ríkisvíxlum.

    Skynsamlegasta fjárfestingarstefnan er eðlilega dreift eignasafn. Það er það ekki í dag og hefur ekki verið hingað til; það er reyndar pólitísk ákvörðun þ.e. þeir mega aðeins fjárfesta ákveðnum hluta erlendis og það fyndna var máttu ekki fjárfesta erlendis þegar hlutabréf voru á botninum á 1Q 2009 ? Þvílík peningastjórnun á Íslandi ??

    Það geta jú eðlilega komið tímar þar sem skynsamlegt er fyrir lífeyrissjóðina að hafa minna umleikis erlendis en frá 1Q 2009 til 2Q 2010 var það alls ekki raunin !!

  • Björn Jónasson

    Andri, að mínu mati birtist þinn misskilningur einmitt í því að bera saman olíusjóðinn og lífeyrissjóðina okkar. Norskir launþegar greiða ekki í olíusjóðinn. Þessir tveir sjóðir væru því aðeins sambærilegir að íslensku lífeyrissjóðirnir væru fjármagnaðir með t.d. auðlindagjaldi (sem væri reyndar hið rétta, ef menn vildu búa til sjóð). Sú staðreynd að það er atvinnulífið sjálft sem greiðir í sjóðinn þýðir að því sterkara sem atvinnulífið er, því sterkari er sjóðurinn. Það ekkert með egg og körfur að gera.

    Ef um væri að ræða sjóði á borð við Olíusjóðinn, þá gilda lögmál fjárfestinga.

    Ertu ekki að bera saman epli og appelsínur, einsog er í tísku að segja?

  • Björn Kristinsson

    Björn, ekki sammála þér. Fyrir það fyrsta er hagkerfi Íslands ekki eyland. Við erum útflutningsþjóð og byggjum alla okkar tilveru á því. Hagsæld landsins er því samofin skynsamlegri nýtingu auðlinda SEM OG ÞVÍ HVERNIG STÓRU ÞJÓÐUNUM VEGNAR. Þess vegna er ekki skynsamlegt fyrir íslensku lífeyrissjóðina að fjárfesta nánast öllu sínu skotsilfri hér á landi. Það dregur úr áhættudreifingu þeirra. Lífeyrissjóðirnir eiga þannig ekkert að koma nálægt fjármögnun á vegum eða hátæknisjúkrahúsi. Það er hlutverk ríkisins að fjármagna slíkt með aðhaldsemri hagstjórn.

  • Björn Jónasson

    Nafni, varst þú ekki enmitt að segja að lífeyrissjóðsgreiðslur væru í raun skattgreiðslur? Ég tel að það sé einmitt eðlilegra að líta þannig á málin og er sammála þér í því. Samkvæmt þeim skilningi eru skattar afar háir á Íslandi.

    Það er hins vegar mikil gambler´s fallacy að halda að maður geti dreift áhættu íslenska þjóðfélagsins með því að flytja peninga úr landi. Með því að fjárfesta ávallt innanlands taka lífeyrissjóðirnir enga, nákvæmlega enga áhættu hvort sem er til skamms eða langs tíma litið. Öll fjárfesting innanlands skilar sér á stundinni sem auknar greiðslur í lífeyrissjóðina. Það er þetta samhengi sem menn verð að átta sig á.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og tveimur? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur