Miðvikudagur 02.06.2010 - 13:44 - 5 ummæli

Skortur á óháðum fjárfestingarbanka tefur endurreisn

Bankarnir eru að enda með hálft atvinnulífið í fanginu segja menn og margt er til í því.  Þetta er ekki sök nýju bankanna heldur eru þeir hér að bregðast við aðstæðum í íslensku atvinnulífi og að reyna af bestu getu að standa vörð um eignir og störf.   Bankarnir vilja eflaust losna við þessi fyrirtæki sem fyrst enda ekki í þeirra verkahring að reka fyrirtæki sem þeir lána í.  Hins vegar verða þeir að selja eignir á viðunandi verði og í opnu, óháðu og gegnsæu ferli.   Og hér er vandinn.

Í eðlilegu markaðsumhverfi ættu bankarnir að geta fengið faglegan þriðja aðila til að sjá um söluna.  Þetta er í verkahring fjárfestingabanka sem hafa tengsl við fjárfesta og þekkja betur til atvinnurekstrar og endurskipulagningar en viðskiptabankar.  Þá skapar þetta fjarlægð frá eiganda og lánsveitanda sem er nauðsynleg til að auka traust og trúverðugleika.

Fjárfestingabankar auðvelda líka alla endurskipulagningu þar sem þriðji aðili getur tekið eignir frá fleiri en einum banka og sameinað og lagað að markaðsaðstæðum til að gera seljanlegri.  Þá hafa fjárfestingarbankar sterk alþjóðleg tengsl og erlendir fjárfestar eru vanir og kjósa að vinna með slíkri stofnun sem á auðveldar með að gæta jafnt allra hagsmuna í söluferlinu.

Þegar bankakerfið var endurreist hefði mátt huga betur að þessum þætti.  Þetta þarf ekki að vera svo flókið eða stórt í sniðum.  Eins og staðan er í dag er ein hugmynd að fá sænskan fjárfestingarbanka til að setja upp litla starfstöð hér sem starfaði undir erlendri stjórn og eftirliti, alla vega fyrst um sinn.  Til að byrja með þyrfti 5 erlenda sérfræðinga sem myndu ráða 10-15 Íslendinga.  Þannig fengist reynsla, fjarlægð, traust og tengsl.  Stokkhólmur er miðstöð fyrir fjárfestingar á Norðurlöndunum.  Þangað sækja fjárfestar innan svæðisins jafnt sem utan hugmyndir og ráð.  Það er því eðlilegt fyrir Íslendinga að snúa sér þangað.

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (5)

 • Quo Vadis

  Mér finnst frekar vanta óháðan viðskiptabanka sem ekki er í fjárfestingarugli og endalausar afskriftir á kostnað þjóðarinnar.

 • Sérhver

  Sænski ráðgjafinn sem var hér eftir hrun lagði einmitt þetta til. En það var auðvitað ekkert hlustað á hann frekar en aðra erlenda ráðgjafa. Við vitum allt best eins og alkunna er.

 • Þú vilt að ósýnilega höndin taki til hendinni Andri.

  Spurningin er hvað þetta myndi kosta. Ekki á mörlandinn mikið af gjaleyri og mjög hæpið er að svíar fengju einhverja útlendinga inn í efnahagslifið hér. Það þorir enginn útlendingur að snerta á íslenskum krónum.

 • Réttsýnn

  Er ekki Saga Capital Fjárfestingarbanki í fullu fjöri? Það amk fer mikið fyrir þeim í sölu skuldabréfa frá hruni, hvað sem öðru líður. Þarf það síðan alltaf að vera þannig að upphefðin og viskan komi erlendis frá? Eru Íslendingar haldnir einhverri sjálfspíningarhvöt? Um að gera að frá erlenda érfræðinga til að segja okkur hvernig allt eigi að vera!! Þeir rukka fyrir það 5-faldan íslenskan taxta og fara svo af landi brott eftir fjárausturinn…lausir allra mála. Mörlandinn bara heldur áfram með allar prófgráðurnar sínar… að mæla göturnar og stækka fjárlagagatið. Íslendingar!! Takið ykkur t aki

 • Þetta er að mestu rétt hjá þér. Svona aðili gæti hreyft við hlutunum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fjórum? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur