Laugardagur 19.06.2010 - 15:26 - 41 ummæli

Stærsta eignartilfærsla Íslandssögunnar?

Nýlegur dómur hæstaréttar í gengistryggðum lánum gæti ollið einni mestu eignartilfærslu í Íslandssögunni.  Fari svo að erlend bíla- og húsnæðislán verði færð niður í upprunalega krónutölu höfuðstóls á óverðtryggðum erlendum vöxtum sem í sumum tilfellum eru ekki nema 3% standa þeir sem tóku þessi lán mun betur en þeir sem voru varkárir og tóku lán i íslenskum krónum.

Útkoman verður að þeir sem tóku meiri áhættu verða verðlaunaðir.  Innlánseigendur, sérstaklega ellilífeyrisþegar og lántakendur í verðtryggðum krónum borga brúsann ásamt skattgreiðendum og næstu kynslóð.

Hér  er sagan að endurtaka sig frá því um 40 árum síðan þegar útvaldir fengu óverðtryggð lán sem „hurfu“ í óðaverðbólgu.

Hér er auðvita ekki verið að sakast við lántakendur enda fóru flestir eftir því sem bankarnir ráðlögðu þeim á sínum tíma en kaldhæðni örlaganna er ótrúleg.  Aftur endum við uppi með tvöfalt kerfi þar sem einn hópur borgar verðtryggingu en hinn ekki.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (41)

 • Allt rennir þetta stoðum undir það sem Eggert Haukdal reyndi að gera í mörg ár á Alþingi, verðtryggingu þarf að afnema, enda er hún í raun ekkert annað en annað form gengistryggingar fjárskuldbindinga.

 • Nei Andri minn, sú stærsta átti sér stað haustið 2008 þegar SÍ henti hundruðum milljaða í hrunið kerfi. Í kjölfarið bættu þáverandi stjórnvöld um betur og tryggðu að fullu innistæður fjármagnseigenda uppá fleiri hundruð milljarða til viðbótar. Með peningunum þínum og mínum. Við þetta þarf engin spurningarmerki eins og pistillinn þinn er með um allt.

 • Hákon Jóhannesson

  Hvaða einstaklingur hannaði þetta kerfi í upphafi ? Hver er „hönnuðurinn“ að þessu fyrirkomulagi að tengja lán við gengi erlendra gjaldmiðla ? Eitt er víst, að ekki kom það af himnum ofan. Þurfti einhver eftirlitsaðili að gefa leyfi fyrir þetta fyrirkomulag ? Hvaða stofnun/fyrirtæki byrjaði að bjóða þetta á markaði ? Það er í mínum huga mjög sérkennilegt að þetta hafi yfirleitt farið á markað.

 • Gunnar Tómasson

  „Eignatilfærsla“ er ekki réttnefni á afleiðingum úrskurðar Hæstaréttar.

  Sbr. 18. gr. laga nr. 38/2001:

  „Ef samningur um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti telst ógildur og hafi endurgjald verið greitt ber
  kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft.“

  Endurgreiðsla á „ranglega“ innheimtum greiðslum skuldara og niðurfærsla á höfuðstól vegna bókfærðrar hækkunar á honum vegna ólöglegrar yfirfærslu á gengisáhættu frá fjármálafyrirtækjum á herðar skuldara eru jafngildi þess að dómsvald úrskurði að þjófstolnum eigum skuli skilað til réttra eigenda.

 • Ég er eins og flestir með bæði verðtryggt og gengislán, og er ekkert að öfundast út í sjálfan mig þótt ég haldi áfram að borga verðtrygginguna. Allt tal um „útvalda“, „mismunum“ og þess háttar er bara kjánalegt svo ekki sé meira sagt. Lög eru lög, og það er ekkert flókið við það.

 • Ef við tölum um verðtrygginguna og þau áhrif sem hún hefur haft á húsnæðislánin, er nær að tala um eignaupptöku.

  Fólk sem tók ekki þátt í neinu „góðæris“ bulli og neyslufylleríi, heldur keypti sér bara húsnæði. Þak yfir höfuðið… að þeir aðilar hafa þurft að horfa upp á lánin hækka um milljónir.
  Fólk sem átti kannski ævisparnaðinn í fasteign sinni, búið að borga árum saman af húsnæði sínu, hefur staðið í skilum í hverjum mánuði og kannski búið að eignast í íbúðinni nokkrar milljónir.
  Það er horfið.
  Þrátt fyrir að lántaki hafi ekki fengið krónu í viðbót út á lánið að þá hefur það hækkað um milljónir og lántaki sem átti kannski fáeinar milljónir í íbúð sinni skuldar nú í henni og horfir upp á lánið hækka við hverja afborgun, í staðin fyrir að það lækki.

  Þetta er eignaupptaka og þjófnaður.

  Og að þetta sé ekki leiðrétt er skammarlegt !!

  Að horfa upp á stjórnvöld dæla milljörðum í bankana á sínum tíma á meðan ekkert var hægt að gera fyrir fólkið í landinu.

  bankar og fjármálafyrirtæki tóku stöðu gegn krónunni og þar með viðskiptavinum sínum og þegar allt hrynur að þá lendir það á fólkinu að borga allt upp í topp.
  Engu máli skiptir þótt lánasöfnin voru seld yfir í nýju bankana með miklum afföllum. Hef heyrt að söfnin hafi verið keypt á c.a 40-60%.
  En lántakendur þurfa að borga þetta að fullu með vöxtum, vaxtavöxtum og verðtryggingu osfrv.

  skjaldborg ríkisstjórnarinnar um fjármagnseigendur er ógeðfelld í besta falli.

  Ég held að best sé að komið’ verði á fót utanþingsstjórn þar sem ráðherrar verða ráðnir eftir hæfi, ekki hver er næstur í röðinni í stjórnmálaflokkunum.

  Núna í mesta efnahagsástandi íslandssögunnar er fjármálaráðherra vörubílstjóri og jarðfræðingur og forsætisráðherra fyrrv. flugfreyja og útbrunninn pólitíkus eins og fjármálaráðherrann.

  Maður veit ekki hvort maður eigi að hlægja eða gráta.

 • það er búið að beygja framkvæmdavaldið og löggjafarvaldið. Dómsvaldið lætur enn ekki kúga siga af AGS og fjármagnseigendum. Lof sé John Locke og öllum baráttumönnum fyrir þrískiptingu valdsins.

 • „Ollið“ hmm

 • Fyrir tíma verðtryggingar fjárskuldbindinga (lána) var sparifé innlánseigenda í bönkum, einkum ellilífeyriþega á neikvæðum vöxtum um tugi % . Allt sparifé var hreinsað úr innlánsreikningum með þessum hætti og fært yfir til útvalinna skuldara á um 10 árum. Útvaldir efnuðust feikilega með þessu gjafafé. En innlán gengu til þurrðar- það var ekkert lengur til að lána. Enginn lagði fé á innlánsreikninga. lausnin við þessu var að verðtryggja innlán einkum lífeyrisfjármuni. Nú eru innlánsvexti neikvæðir og ef þessi Hæstarétardómur blívur- þá verða innlansvextir meira neikvæðir. Þetta lendir einkum á gamla fólkinu eins og fyrrum-vasar þeirra verða tæmdir. Aðrir taka fé sitt út og festa það í steinsteypu eins og fyrrum…. Við eru að komast hringinn á 30 árum…En mismunun milli landsmana eykst mikið.

 • Það væri þvílík sturlun ef lántakendum yrði mismunað með þeim hætti sem þú nefnir að EKKERT annað en borgarastyrjöld yrði hrint af stað. Þetta yrði svipað og ofbeldisfullur kynþáttarasismi yrði innleiddur á Íslandi, þeir sem eru með gengistryggð lán vs. þeir sem eru með verðtryggð lán.

 • Uni Gíslason

  Stærsta eignartilfærsla Íslandssögunnar varð þegar ríkið kom í veg fyrir að innstæður á hinum hrundu bönkum skyldu þurrkast út (að 2ja milljóna lágmarkinu)

  99.5% af öllum innstæðum voru í eign nokkur hundruð fjölskyldna. Restin var innan við 2 milljónir eða skuldaði.

  Það sem átti sér stað í Hæstarétti voru leiðréttingar á ólöglegum lánasamningum, samningum sem bankarnir sem þá gerðu hefðu átt að vita betur en að bjóða.

  Þar að auki átti víst að vera svo óstjórnlegur uppgangur hér, talaður upp af ríkisstjórn og bönkum, að það var í rauninni *skynsamlegra* að taka s.k. gengistryggð lán en að velja verðtryggð lán, nema kannski svona rétt síðustu mánuðina fyrir Hrun.

  Gengi krónunnar átti að vera þokkalega stöðugt til næstu 5 ára amk. Kannski að einhverjar sveiflur gætu átt sér stað, en ekki Hrun. Að mála þá sem tóku gengistryggð lán sem óábyrgt fólk er varla málefnalegt.

 • Einar Guðjónsson

  Sparnaður á Íslandi hefur alltaf verið hverfandi. Þið gleymið því dálítið hér að ofan.

 • „Sparnaður á Íslandi hefur alltaf verið hverfandi. Þið gleymið því dálítið hér að ofan“

  Eingöngu sparnaður í lífeyrissjóðakerfinu er nú eftir hrun um 1900 milljarðar isl.kr. Og um 3000 milljarðar isl.kr í inneignum í bankakerfinu,
  Þessir fjármunir eru geymdir en ekki gleymdir. En með neikvæðum vöxtum – hluti af þeim .Þeir neikvæðir hverfa þessir fjármunir til lántakenda með neikvæða vexti á sínum lánum… Það er í uppsiglingu núna með gengislánin- Einhverjir verða að borga mismunin…

 • Þessi pístill er nú meira þunnildið. Ef allir þessir aðilar „tapa“ sem tilteknir eru….má ég þá spyrja….græddu þeir rosalega þegar gengið féll um 80%?

  Og annað. Ef þeir sem tóku gengistryggð lán eru áhættusæknari en þeir sem tóku verðtryggð vegna þess að þeir hafa ekki gengistryggð laun má ég ennfremur spyrja….hverjir eru með verðtryggð laun?

  Má ég líka benda á að í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis kemur alveg skýrt fram að gjaldeyrismarkaður á Íslandi fyrir hrun var ekki frjáls frekar en hlutabréfamarkaður. Sömu aðilar og lánuðu gengistryggðu lánin (og stærstu eigendur þeirra) tóku stöðu gegn krónunni og ollu að lokum stórkostlegu falli hennar sem var langt umfram það sem búast hefði mátt við. Íslenskur almennignur var fórmarlamb innherjasvika og markaðsmisnotkunar og það þurfti Hæstarétt við til að rétta hlut þeirra.

  Að lokum má benda einnig á að það eru fullt af aðilum sem græða vegna dómanna aðrir en lántakendur. Þar má telja t.d. ríkið (meiri skatttekjur, lægri vaxtabætur), sveitarfélög (meiri skatttekjur, leiðrétting gengislána), lífeyrissjóðir og Íbúðalánasjóður (betri veðhlutföll, minni tapsáhætta af útlánum) osfrv…osfrv.

  Mig grunar að þegar frá líður þá verði 16. júní 2010 minnst sem dagsins sem Ísland spyrnti í botninn og hóf endurreisnina!

 • Nei, Andri.
  Með því að dæma þessi gengistryggðu lánin er Hæstiréttur að hindra stærstu eignatilfærslu sögunnar sem stjórnvöld og fjármálastofnanir hafa markvisst unnið að.
  Við sitjum hins vegar uppi með þá aðgerð stjórnvalda að tryggja innistæður án hámarks í hruninu á kostnað annarra kröfuhafa og skattgreiðenda. Þá var þeim sem kosið höfðu önnur fjárfestingarform gróflega mismunað.
  En það er rétt að nú hallar á þá sem tóku verðtryggð lán en við þurfum varla að hafa áhyggjur af því til lengdar því núverandi forsætisráðherra hefur verið svarinn andstæðingur verðtryggingar (.. eða a.m.k.þangað til hún varð forsætisráðherra).

 • DROPLAUGUR

  Hlutirnir eru einfaldir það sem léttist af skuldurum núna fer mest megnis í það að borga skuldir. HALLÓÓÓ GJALDMIÐILLINN ER ÓMARKTÆKUR ERLENDIS. Ef gjaldmiðill fellur það mikið og þjóðinn fer faktískt á hausinn á þá að taka viðmið við þann gjaldeyrir ef hann fellur um 130% UPPÁ AÐ BORGA SKULDINA HÉRNA HEIMA.
  LÖGINN VIRKA ÞAU VERJA OKKUR GEGN ÞESSU SIÐLEYSI-OG ÓVÆRU
  EN ÞAÐ FYNDNA OG NÝJASTA ER AÐ BANKARNIR FYLGJA EKKI SIÐREGLUM, LÖGUM , OG ÆTLA BARA AÐ HUNSA HÆÐSTARÉTTARDÓMINN.

 • bitvargur

  Hvernig getur þú fullyrt að þeir sem tóku verðtryggt hafi veðjað á öryggi (varkárari)?
  Þeir sem tóku gengistryggt voru einmitt að fylgja ráðleggingum bankanna um að ekkert væri öruggara en gengistryggð lán, verðbólga á Íslandi yrði vandamál vegna þenslu.
  Niðurstaðan er hins vegar sú að baknamenn lugu blygðunarlaust.
  Þeir vissu að krónan myndi hrynja, tóku stöðu gegn henni og buðu þar að auki gengistryggt ólöglega.
  Þeir sem tóku gengistryggt eru búnir að borga meira en tvöfalt umfram þá sem tóku gengistryggt síðustu næstum 3 ár. Þeir eru búnir að halda bönkunum á floti.
  Svo, nú er komið að skuldadögum.

 • Vissulega felur þessi dómur í sér eignatilfærslu, en að halda því fram að hún sé á kostnað ellilífeyrisþegar og lántakanda sem tók verðtryggð íslensk lán „ásamt skattgreiðendum og næstu kynslóð,“ er einfaldlega rangt hjá þér.

  1. Bankarnir og lánafyrirtækin eru í eigu erlendra kröfuhafa (að NBI undanskildum, sem er í meirihlutaeigu ríkisins). Þeir bera tapið, ekki þeir sem tóku krónulán, ellilífeyrisþegar og skattgreiðendur.

  2. Fjölmargir af þeim sem voru með „erlend“ lán eru jafnframt með lán í krónum og tilheyra því báðum hópunum.

  3. Óverðtryggð lán „hverfa“ varla í núverandi tíðarfari. Í síðustu verðbólgumælingu mældist VNV 7.5% og gert er ráð fyrir að hún lækki niður í 6.0% í þessum mánuði.

  4. Valið á milli að taka verðtryggt lán og óverðtryggt lán var ákveðið við lántöku. Þeir sem tók verðtryggð lán í íslenskum krónum voru til í að sætta sig við það, á meðan þeir sem tóku óverðtryggð „erlend“ lán vildu ekki verðtrygginguna. Jafnvel þó svo að þessi dómur hefði ekki fallið, væru „erlendu“ lánin hagstæðari en verðtryggð íslensk lán, jafnvel þótt krónan styrktist aldrei aftur…

 • Ef þið lesið aftur yfir það sem er skrifað hér að framan þá veit maður ekkert um hvað þetta mál fjallar !

  Hér eru notuð orð eða orðskrípi til að segja eitthvað !

  Fjallar þessi dómur ekki um það hvort fjármálafyrirtæki mættu nota sína aðferð við útreikning á lánum til sinna viðskiptamanna ?

  Fjallar þessi dómur um það hvort hægt er að snúa út úr öllum hlutum ???

 • Málið snýst ekki um hugtak um eignatilfærslu sem er hugarburður þinn. Málið er lagalegt og kom þess vegna til kasta dómstóla. Snýst ekki eignatilfærslur, heldur um hvað er og var ólöglegt – og hvað verður ólöglegt.

  Því miður verður þú að hugsa þetta mál betur. Þetta mál er algjörlega viðskiptalegs og lagalegs eðlis. Hefur ekkert með áhættusækni almennings að gera.

 • Uni Gíslason

  Því miður verður þú að hugsa þetta mál betur. Þetta mál er algjörlega viðskiptalegs og lagalegs eðlis. Hefur ekkert með áhættusækni almennings að gera.

  Nákvæmlega Einar, nákvæmlega. Hæstiréttur var bara að uppfylla skyldu sína skv. 61. gr. grundvallarlaga Íslands.

 • Þetta er allt rétt Andri. Þeir sem börðust í því að borga upp lánin af bílunum sínum áður en allt kaffærðist þeim er refsað.

  Áhættusæknin er verðlaunuð. Samt keyrði þessi sama áhættusækni hér allt í kaf.

 • Andri Geir, nú fatast þér flugið. Ef eitthvað er að marka söguna, þá getur sá sem tekur 40 ára verðtryggt lán átt von á því að vísitala neysluverðs hækki um allt að 80.000% á lánstímanum. Það er hækkun síðustu 40 ára. Já, 80.000%. Vissulega búum við við meiri stöðugleika í dag, en allir sem taka þátt í þessu hagkerfi eru fæddir áhættufíklar. Vilji maður forðast fjárhagslega áhættu, þá flytur maður annað.

  Þú verður að afsaka orðbragðið, en það er fjandans kjaftæði að innistæðueigendur beri brúsann af dómi Hæstaréttar. Að þú skulir segja þetta, Andri Geir, fær mig alvarlega til að efast um rökhyggju þína. Í fyrsta lagi þá eru eignaleigufyrirtæki ekki með innstæður. Í öðru lagi þá er búið að gera ráð fyrir þessum lækkunum í þeim afslætti sem stóru bankarnir fengu frá gömlu bönkunum. Í þriðja lagi þá eru Frjálsi og SPRON í slitameðferð og þar er búið að færa innstæður yfir til ARion banka. Í fjórða lagi eru BYR og SpKef búin að semja við sína kröfuhafa og innstæðum var bjargað í samræmi við neyðarlögin. Í fimmta lagi voru nær engin önnur innlánsfyrirtæki með gengistryggð lán.

  Skattgreiðendur eru ekki að borga fyrir þetta nema í tilfelli Landsbankans verði innheimtur lakari eftir leiðréttingu en fyrir. Skattgreiðendur fengu 260 milljarða reikning vegna Landsbankans og hann þarf að greiða, ef innheimtur verða lakari en felst í afslættinum sem Landsbankinn fékk frá gamla bankanum.

  Ef einhverjir fengu gjöf frá skattgreiðendum, þá voru það innistæðueigendur sem áttu meira en 3 m.kr. inni á reikningi við fall bankanna. Þar voru ótryggðar krónur tryggðar í botn án spurning og án þaks. Við þessa aðgerð fengu skattgreiðendur a.m.k. 300 milljarða kr. reikning. Kröfuhafar bankanna töpuðu um 6 – 900 milljörðum á þeirri aðgerð. Nei, leiðrétting Hæstaréttar kostar innistæðueigendur ekkert, en skattgreiðendur gætu fengið bakreikning, ef lántökum Landsbankans reynist erfiðara að greiða skuldir sína núna en gert var ráð fyrir við uppgjörið á milli bankanna.

  Nú varðandi eignatilfærsluna, þá er Hæstiréttur að gera að engu óréttláta eignatilfærslu frá heimilunum til bankanna.

 • Takk fyrir athugasemdirnar. Sitt sýnist hverjum. Tæknilega á þetta að lenda á erlendum „kröfuhöfum“ en ég er nú ekki eins viss of flestir vilja halda hér að á endanum lendi þetta ekki á Íslendingum. Ef allt fer á „versta“ veg þá þurfa bankarnir meira fé. Það mun þýða dýrara bankakerfi, meiri vaxtamun og meira eigið fé frá eigendum.

  Það er alveg ljóst að einhver verður að borga brúsann. Það er óskhyggja að hægt sé að velta öllu alltaf yfir á erlenda kröfuhafa.

  Allt snýst þetta um tilfærslur á eignum og kostnaði.

  Ps. Í þessari færslu geri ég ráð fyrir ákveðnum forsendum. Líkurnar á að þær standi eru háðar mikilli óvissu eins og allt.

 • Kristján G. Kristjánsson

  Ef það er stolið frá þér og nágranna þínum, og þýfið frá nágrannanum finnst, þá á ekki að skila honum því af því að þýfið frá þér fannst ekki?

 • Sæll Andri Geir
  Það er ávallt þannig að þegar maður er mjög langt frá umræðunni skolast eitthvað til þar til hún berst manni. Vil ég benda þér á greinar sem ég hef skrifað um málið í Morgunblaðinu og ef þú sendir mér tölvupóstfang þitt skal ég senda þér þær. Þar hef ég fjallað út frá fjármálafræðum hversu mikilvægt er að dómurinn félli á þennan veg. Þetta skiptir einnig máli hvað varðar almennan skilning á fjármálastöðugleika og það að bankar fóru framhjá Seðlabanka Íslands sem reyndi á sínum tíma með veikum mætti að hefta ofvöxt bankakerfisins í gegnum stýrivexti sem bitu ekki m.a. vegna þess hvernig bankar lánuðu þessi lán.

  Þetta fellur ekki á almenning og á ekki að gera það nema að ríkisstjórnin hafi gert einhverja baksamninga við kröfuhafa um að ríkið yrði á „2. veðrétti“ ef svona dómar myndu falla. Ekki má ætla að svo hafi verið og því taka kröfuhafar á sig þessa leiðréttingu. Já, þetta er ekki eignatilfærsla heldur leiðrétting.

  Það voru einmitt fjármálastofnanirnar sem keyptu þessi bréf af útgefendum þeirra (lántakendum), undirbjuggu alla pappíra og ákvörðuðu vaxtastig og álag á lánafundum. Því voru það þeir sem áttu að kaupa á milli gjalddaga tilsvarandi framvirka samninga í viðkomandi myntum til að tryggja eign sína, þ.e. skuldabréfið. Við vitum að þautóku gríðarlega áhættu þessu ágætu fjármálafyrirtæki eins og skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis segir til um. Þeir gætu í raun hafa verið að veðja á styrkingu krónunnar.

  Eins og við vitum tóku þessi fyrirtæki stöðu gegn krónunni og það er aðför að fjárhagslegu fullveldi Íslands. Því og þess vegna setti löggjafinn þessi lög um vexti og verðtryggingu á sínum tíma til að girða fyrir þetta og gekk þar m.a. eftir ábendingum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og ætti AGS því að vera ansi ánægðir með það.

  Þetta ristir því dýpra en mér sýnis umræðan taka til og vona að fleiri kanni þau mikilvægu mál sem þetta varðar. Það sem stendur eftir að eiginfjárreikningur fjármálafyrirtækjanna var rangur og stjórnir þeirra gætu verið skaðabótaskyldir sem og endurskoðendur þeirra.

  Með þessu má skýra einn hluta þess sem olli hruninu eða varð til þess að hrunið fór verr með okkur en annars hefði verið ef þessi fyrirtæki hefðu farið að lögum.

  Með vinsemd og virðingu,
  Sveinn Óskar Sigurðsson

 • Sigurður #1

  Hvernig færðu það út að það sé varkárni að taka verðtryggt húsnæðislán?

  Hvernig færðu það út að það sé varkárni að taka lán þar sem raunvextir fóru langleiðina í 30% 2009???????

  Hvergi í veröldinni nema hjá nokkrum hálfvitum á Íslandi myndi maður láta það út úr sér að það sé varkárni að hlekkja sig við þetta þjófakerfi verðtryggingar í áratugi.

 • Þráinn Guðbjörnsson

  Sammála Sigurði hér að ofan. Ég er ansi leiður á því að vera kallaður óreiðumaður og áhættufíkill. Fyrir þeremur árum hugsaði ég sem svo að ef ég tæki gengistryggt lán þá væri til útleið, þ.e.a.s. flytja erlendis og fá erlendar tekjur á móti. Verðtryggð lán byggja hinsvegar á eiginlegum vaxtavöxtum (sem eru nota bene bannaðir með lögum) sem geta risið í hæstu hæðir fyrirvaralaust BÆÐI vegna þenslu og kreppu. Draumur fjármagnseigandans (þýðist sem lífeyrissjóðir). Ég tók semsagt illskárri kostinn og skrifa þetta bréf nú frá Osló, Noregi.

 • Andri
  Nú ertu aldeilis búinn að fá á baukinn

 • Andri Geir Arinbjarnarson

  Þessi umræða sýnir í hversu mikið kviksyndi lánamál á Íslandi eru komin. Það mun taka a.m.k eina kynslóð til að vinda ofan af þessu.

  Þegar svo er komið að betra er að taka erlend lán en lán í eigin gjaldmiðli er búið að snúa allri almennri skynsemi á höfuðið með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

  Þessi „leiðrétting“ mun þýða veikara bankakerfi, hægari hagvöxt og dýrari lán fyrir næstu kynslóð. Alveg sama hvernig við komumst í þetta kviksyndi, það er ekki ókeypis að komast upp úr því.

  Eitt er víst að íslenska krónan og verðtryggingin er núna á síðasta snúning. Eðlilega afleiðing af þessum dómi er að enginn mun vilja taka verðtryggð lán í íslenskum krónum.

  Eini lántakandinn í framtíðinni verður líklega ríkið eins og í Japan.
  Eftir 20 ára „kreppu“ hafa lífskjör í Japan ekki náð fyrra hágildi.

 • Fólk á að borga sín lán. Það er óþolandi að almenningur skuli vera að ráðast að bönkum og jafnvel lífeyrissjóðum. Fólk tók þessi lán og á að borga þau. Hvað kemur fólki það við þó lífeyrissjóðir og bankar hafi verið í gjaldmiðlasamningum og verið að veðja með eða á móti okkar góðu krónu og að þessir menn sitja allir fastir á allt of lágum launum td hjá lífeyrissjóðum landsins. Gott fólk þið skuluð borga og þegja!

 • Magnús Stefánsson

  Það á eftir að koma í ljós hvaða vextir munu gilda á þessum lánum. Þar til það er komið í ljós vitum við lítið um hvaða áhrif þetta hefur.

  Það sem ég hef mestar áhyggjur af er pattstaðana meðan að verið er að finna út úr þessu. Þessa stundina er algjör óvissa um efnahag bankana og stór hluti heimilana hefur ekki hugmynd um hvort þau séu gjaldþrota eða ekki. Þetta er ekki til þess fallið að auðvelda hagkerfinu að koma sér af stað.

  Hvaða vextir sem gilda, þá er best að fá úr því skorið sem fyrst…..

 • Borgarinn

  Má ekki orða þetta sem svo að í kjölfar stærstu eignaupptöku Íslandssögunar er við hæfi að í kjölfarið fylgi stærsta eignatilfærsla Íslandsögunar ?

  Svona klassískt kredit debit bókhald ?

 • Jakob Bjarnar

  Þetta sýnir hversu erfið umræðan á Íslandi vill reynast. Hér er öllu snúið á haus. Og hver finnur sér rök sem henta sér prívat og persónulega. Íslendingar hafa það eitt á móti spillingu að komast ekki með puttana í hana sjálfir. Ég er til í að veðja á að þeir hinir illskeyttustu í umræðunni eiga allir persónulegra hagsmuni að verja. Glæsilegt siðferðið í því. Menn veigra sér við að leggja orð í belg vegna ofstækisins og lýðskrumararnir á þingi (og dómarar) halda að þeir sem gala hæst séu fulltrúar hins viðtekna.

  Andri Geir er auðvitað að benda á þá staðreynd að vitleysingarnir eru verðlaunaðir með þessum undarlega dómi. Þetta eru skelfileg skilaboð. Brask og áhættusækni er í góðu lagi á Íslandi meðan það gengur upp. Þá hirða braskararnir gróðann og allt í góðu geimi. Þegar illa fer þá er þetta ómark – og tapið lendir með einum eða öðrum hætti á samneyslunni. Ríkið – allir – borga brúsann. Þetta lánaform er tæplega tíu ára gamalt og því fyrirliggandi að þúsundir manna högnuðust á þessu formi í samanburði. Ef þetta var aldrei neitt að marka – má þá búast við því að þeir hinir sömu greiði þann mismun til baka? Ætli það.

 • Jakob Bjarnar

  Ps. Ég mótmæli nafngiftinni á því fyrirbæri sem kallar sig Hagsmunasamtök heimilanna – sem er afar villandi. Þetta eru Hagsmunasamtök skuldara. Með því að hamast eins og naut í flagi hefur mönnum tekist að koma þeirri flugu í höfuð alls almennings að þessum dómi beri að fagna sem einhverjum sigri hagsmuna alls almennings. Svo er ekki.

 • Ég held að mönnum væri afar hollt að gera greinarmun á tvennu í þessu dæmi: annars vegar tilfinningalegum þætti, hverjir séu hugsanlega að græða, séu áhættusæknir o.s.frv. og hinu sem er lagalegur þáttur.

  Það má vel vera að hér sé einhver að hagnast á einhverju en það breytir því ekki að mönnum ber að fara að lögum. Nú hefur komið í ljós að ákveðin viðskipti voru/eru ólögleg. Lánveitendum bar að tryggja að lán þau sem þau veittu væru í samræmi við lög. Það er óhugnanlegt hvað menn eru tilbúnir að ganga langt í því að horfa framhjá lögum ef þeim þóknast svo. Gerist það hér í umræðunni einnig.

  Þessi fyrirtæki stóðu í ólöglegum gjörningum og þau ættu nú að þurfa að standa andspænis sektum frá ríkinu, hugsanlegum skaðabótamálum. Í stað þess virðist sem ríkisstjórnin ætli að reyna að hjálpa þessum lögbrjótum.

  Hitt er síðan annað að það er ljóst að það munu ekki allir hagnast á þessum dómi og grunar mig að það séu helst þeir sem ekki tóku umrædd gengistryggð lán sem fari hvað hörðustum orðum um dóminn og þá sem tóku þessi lán. Í aðra röndina lyktar þetta af öfund. Þótt einkennilegt sé að hugsa til þess.

 • Andri,

  Þú hefur ekki enn svarað þeim sem hafa skrifað athugasemdir um eignatilfærsluna sem átti sér stað þegar ríkið tryggði innistæður í botn í bankahruninu? Afhverju myndi það ekki flokkast sem stærsta eignatilfærsla sem gerð hefur verið? Innistæðurnar sem voru tryggðar yfir 3 mkr eru miklu stærri upphæð en þær upphæðir sem um ræðir í bílasamningum!

 • Uni Gíslason

  «Þú hefur ekki enn svarað þeim sem hafa skrifað athugasemdir um eignatilfærsluna sem átti sér stað þegar ríkið tryggði innistæður í botn í bankahruninu?»

  Nákvæmlega. Stærri eignartilfærsla hefur aldrei átt sér stað í einu augabragði á Íslandi.

  Það er sú eignartilfærsla sem skapaði þetta skandals-ástand. Réttast hefði verið að leyfa bönkunum öllum sem einum að fara lóðbeint á hausinn.

  99.5% af öllum innstæðum fyrir ofan tvær milljónir voru í eign um 100 fjölskyldna. Eignartilfærsla sem segir sex!

 • Hvað ber að gera við þá sem haldnir eru einbeittum brotavilja og eru sannanlega uppvísir af stórkostlegum lögbrotum??

 • Andri, þú þarft að vinda ofan af þessari bullfærslu þinni!!

  Það er áætlað að hátt í 2400 milljarðar hafi farið frá hinu opinbera yfir í bankana til þess að tryggja fjármuni fjármagnseigenda. Þetta er ein mesta eignatilfærsla á kostnað almennings sem hefur átt sér stað frá upphafi vega.

  Nú dómur hæstaréttar í gengistryggðu lánunum er ekki eignatilfærsla í þeim skilningi heldur leiðrétting á markaðsmisnotkun bankanna gagnvart lánþegum.

  Svo vil ég minna þig á að bankarnir voru rændir innanfrá af eigendum sínum. Fyrir hrun voru yfir 90% skil í greiðslum lána. Það er því fáránlegt að kenna lántökum almennings um hvernig allt fór hér á hvolf. Bankarnir hrundu yfir samfélagið vegna glæpsamlegra starfshátta eigenda þeirra. Í hruninu tóku þeir svo viðskiptavini sína með sér í falli sínu; en áður höfðu þeir tjónað viðskiptavini sína með því að taka stöðu gegn krónunni, ár eftir ár. Það tjón ber þeim að bæta, þó svo þeir hafi skipt um kennitölur.

  Svo lýsir það ágætlega heimskum ráðamönnum að hafa tekið þessa banka yfir í stað þess að keyra þá bara í þrot. Ríkið, sem nýr eigandi „bankanna“ bergði af þeim eitraða bikar, sem þeir voru, með þessum lánasöfnum. Þér væri nær að fjargviðrast yfir því.

  Svo á almenningur ekki að láta fláráð hirðfífl meðal elítunnar og spillta stjórnmálamenn etja sér saman í þessum málum. Ef ég hef verið tjónaður, þá einfaldlega krefst ég þess að fá það bætt, þér eða öðrum kemur það einfaldlega ekki við. Megi svo þeir sem hafa tekið málstað þessara glæpastofnanna svíða undan eigin heimsku.

 • Andri Geir Arinbjarnarson

  Þegar ríkið tryggði innistæður eins og aðrar siðmenntaðar þjóðir þá var það til að verja hagsmuni almennings. Það varð engin eignartilfærsla til þá vegna þess að þetta voru innistæður réttra eigenda í yfirgnæfandi tilfella. Hefðu bankarnir verið látnir fara á hausinn hefði orðið gríðarleg eignartilfærsla frá íslenskum sparifjáreigendum til erlendra kröfuhafa.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sex? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur