Þriðjudagur 29.06.2010 - 15:58 - 30 ummæli

Hinn þögli meirihluti

Hvar er hinn þögli meirihluti, sem sparaði þegar aðrir eyddu, sem tók sín lán hjá íbúðarlánasjóði í krónum og fór eftir eigin sannfæringu en hlustaði ekki á ruglið í gömlu bönkunum?  Þetta er fólk sem treystir á stjórnarskrána og mannréttindaskrá Sameinuðu Þjóðanna þar sem eignarrétturinn er verndaður.  M.ö.o réttur innlánseigenda er alltaf hærri en skuldara.

Hvar er réttlætið ef þeir sem tóku stærstu og áhættusömustu lánin verða verðlaunaðir með niðurfærslu á höfðustól og vaxtakjörum sem öðrum standa aldrei til boða og eru lægri en eðlileg ávöxtunarkrafa innlánseigenda?  Þegar mistök eru gerð þarf auðvita að leiðrétta þau en gæta verður hófs og sanngirni.  Það er mjög bagalegt að ekki skuli vera neytendalöggjöf á Íslandi sem verndar almenning gagnvart „óeðlilegum“ lánskjörum í báðar áttir, lög sem taka af allan vafa hvað eigi að gera þegar lánskjör eru dæmd ólögleg.

Alþingi ber skylda til að vernda hagsmuni allra landsmanna og sjá svo um að allir sitji við sama borð á grundvelli stjórnarskrár Íslands.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (30)

 • Mér finnst vanta kjarna málsins í þetta hjá þér Andri Geir. Hvernig má það vera að íslenskur almenningur situr núna uppi með 100 milljarða kostnað vegna þessa máls?

  Voru gengistryggðu lánin flutt yfir á yfirverði? Ef svo er þá eru það mistök ráðamanna sem landsmenn sitja allir uppi með og ekki hægt að kalla það sanngirni að hluti lántakenda greiði kostnaðinn sem af hlýst.

  Sanngirni ætti svo að ganga í báðar áttir er það ekki? Hún hefur verið engin í garð þeirra sem eru með gengistryggð lán. Þá er ekki hægt að reikna með að maður fái hana á móti.

 • Gunnar Gunnarsson

  Seiken, þeir sem voru með gengistryggð lán kvörtuðu ekki þegar krónan hækkaði og hækkaði. Þá voru þeir snjallir fjármálaspekulantar sem voru fetinu framar en verðtryggingarliðið sem engu þorði.

 • Af hverju hefðu þeir átt að kvarta yfir því Gunnar? Og af því að þeir kvörtuðu ekki er þá í lagi að mokað sé yfir þessa lántakendur 50-60% handstýrðu gengisfalli. Er það kjarninn í þessum málflutningi?

  Svo er þessi flokkun í áhættufíkla og ekki áhættufíkla ekki líkleg til þess að leiða til þessarar „sanngjörnu“ lausnar sem auglýst er eftir. Ég held að ég sé ekki að móðga neinn þegar ég kalla þetta kjánalegan málflutning.

 • Svartálfur

  Við sem erum með verðtryggð lán eigum ekki í stríði við þau sem eru með gengistryggð lán. Eða það vona ég ekki. Sennilega á það eftir að fara fyrir dóm hvernig gengistrygðu lánin verða gerð upp. Látum það gerast. En ekki reyna að níða skóinn hver af öðrum.

 • Halldóra

  Hér er einn af þessum þögla meirhluta. Engin bílalán – enda fannst mér það fáráðlegt á sínum tíma að ganga að þeim skilmálum. Ekkert neyslulán – enda jafn fáráðlegt að taka lán fyrir lífsstíl. Horfði hins vegar furðu lostin á meðlanda mína tapa sér algjörlega í gerfilífinu – og er fullkomlega ósátt við að verða að taka þátt í að beila þetta lið út.

 • Ég á ekki bíl Halldóra og ég er þar af leiðandi ekki með bílalán, né heldur er ég með neyslulán. Ég á hóflegt húsnæði og ég er með háar tekjur. En það eru bara ekki allir sem þurfa að lifa eins og ég og þú. Ef fólk telur sig geta keypt þessa hluti og einhver vill lána því fyrir þessum hlutum þá kemur það í raun okkur ekkert við. En fólk er ekki réttindalaust þó það taki lán. Alveg sama fyrir hverju það er.

  Og hvern ert þú að beila út og af hverju ertu að beila einhvern út? Ef þú ert að beila einhvern út þá skaltu kenna núverandi stjórnvöldum um það. Ef þetta kostar þig eitthvað þá hafa stjórnvöld væntanlega gert risastór mistök við endurreisn bankanna.

 • Magnus Björgvinsson

  @Seiken // 29.6 2010 kl. 17:27
  Af hverju á hún að kenna núverandi stjórnvöldum um þetta? Það lá nú ekki ljóst fyrr en í síðasta mánuði að þessi lán væru ólögleg. Og þegar þú eins og fleiri talar um að kröfuhafar gömlu bankana eigi að bera þetta og hitt þá minni ég þig á að þeir sömdu um þessa niðurstöðu. Þeir hefðu getað komið í veg fyrir endurreisn bankana og stoppað allar millifærslur milli nýju bankana og þeirra gömlu. Finnst svona Sigmundar Davíðs skýringar ódýrar.

  Það er óvart bara engin rök fyrir því að fólk með gengistryggð lán borgi vexti sem í upphafi voru miðaðir við gengi erlendra gjaldmiðla. Og svo er bara búið að úrskurða um ákveðin bílalán/kaupleigu en ekki öll gengistryggð lán. Síðan er það næsta víst að það er ekki hægt að dæma eina af meginstoðum samning ólöglega án þess að samningar séu teknir upp. Annars verður það almenningur sem borga fyrir útvalin hóp áhættulántakenda.

 • Mjög rétt hjá þér.

  Nú þarf meirihlutinn að láta til sína taka.

  Það gengur ekki að fólki sé refsað fyrir ráðdeild.

  Það gengur heldur ekki að ákveðinn hópur terroríseri stjórnvöld með óraunhæfum kröfum, frekju og yfirgangi.

  Annars er það dæmigert fyrir þetta fávitahæli sem Ísland kallast að hinir áhættusæknu séu verðlaunaðir og þeim komið til hjálpar.

  Þetta samfélag er bara svo gjörsamlega vonlaust.

 • Það var áhætta að eiga meira en 3 milljónir á bók. Hversvegna var því breytt. Í því ríki sem ég vil lifa í þá er réttur skuldara og lánveitenda jafn.

 • Magnús Björgvinsson.

  Stjórnvöld völdu að ganga inn í viðskiptasamband á milli einkaaðila og gefa sér fyrirfram hvernig því sambandi myndi reiða af í réttarsal. Hvernig getur það verið annað en stjórnvöldum að kenna ef kostnaður fellur á almenning vegna þessa máls?

  Ertu svo að segja okkur að hinar alíslensku skilanefndir hafi verið tilbúnar að stoppa endurreisn bankakerfisins ef stjórnvöld hefðu gert fyrirvara um niðurstöðu dómstóla í þessu máli? Ég held ekki.

  En eigum við ekki að hætta þessum feluleik í kringum endurreisn bankakerfisins og fá það upp á borðið hvað raunverulega var samið um?

 • Húrra, svona pistil vantar. Hinn þögli meirihluti var nefnilega ekki t.d. á fundinum í Iðnó í gær, heldur samsafn af reiðum skuldurum sem skulda mikið. Hagsmunasamtök heimilanna o.fl. mættu koma hreint fram og hætta að kenna sig við heimili, heldur skuldara. Fátt sem varðar mína hagsmuni hefur komið frá þeim, þ.e. mitt sparifé og verndun á því.
  Skv. fréttum frá fundinum í gær var greinilegt að þarna voru bara fyrst og fremst „skuldarar“ sem voru flestir með myntkörfu með meiru. Nú er flest fólk skuldarar en það er ekki sama skuldari og skuldari, sumt fólk skuldsetti sig meira og vill fá afskrifað fyrir áhættuhegðun(hefur nú þegar gerst f. suma og þeir halda sumir fína kagganum og stóru íbúðinni). Þeir sem voru nánasarlegir og tóku sem fæst lán og keyptu notaða bíla og spöruðu, þeir fá enga leiðréttingu, þeir mega alveg „taka höggið“.
  Nú er ég sjaldnast sammála Pétri Blöndal en hann hefur lög að mæla með að það þurfi að vernda sparifjáreigendur. Ef að verðtrygging er afnumin og myntkörfur afskrifaðar, hefur það ekki áhrif á verðbólguna sem þýðir að hún geti étið upp sparnað. Skuldurunum er alveg sama um sparifjáreigendurna, þeir vilja endilega láta þá verða f. höggi svo legni sem þaðhentar þeim og þeirra hagsmunum. Skuldsetning og meiri skuldsetning, lán og aftur lán á að vera dyggð. Viljum við semsagt samfélag sem byggir á að það sé áhættusamt að spara og óhagstætt, eyðslusamfélag sem safnar ekki uppí hluti, heldur lánasamfélag, eyðslusamfélag, rétt eins og var. Fá lánað og lánað og ef einhver vill að maður borgi þá eru allir bara ósanngjarnir. Hvernig á fólk að safna uppí íbúð í framtíðinni ef skuldasamfélagið verður við lýði, allir skuldsetja sig í botn og kerfið fellur aftur og tekur bankana með sér, þá eigi bara að láta spariféeigendur alltaf að falla og missa ævisparnað sinn. Góður hvati að ráðdeildarsömu samfélagi?
  Það virðist vera í íslensku samfélagi að það sé dyggð að taka lán en ekki spara, það er einmitt öfugt í henni Skandinavíu o.fl löndum Evrópu. Hvað veldur þessu siðferði?

  p.s. Það er út í hött að myntkörfufólk vill að einn hluti samnings falli niður en annar haldi, þ.e. vextirnir. Allur samningurinn stendur eða fellur í heild sinni. Það verður að finna nýja vexti á þetta.

 • Andri Geir Arinbjarnarson

  SAS,
  Þinn punktur er athyglisverður. Það útópíu ríki þar sem réttur skuldara og innustæðueigenda er jafn er ekki til og yrði ansi furðulegt. Til dæmis yrði þar engin raunveruleg bankaþjónusta. Þeir sem ættu peninga myndu geyma þá undir koddanum sem væri betra en að láta þá í banka þar sem skuldarar ættu jafnan aðgang að þeim og „eigendurnir“. Slíkt ríki gæti ekki orðið aðili að mannréttindaskrá Sameinuðu þjóðanna og ætti engan aðgang að lánum frá öðrum ríkjum eða AGS.

  Það er engin tilviljun að eignarrétturinn er vel varinn í stjórnarskránni enda undirstaða undir nútímavelferðarþjóðfélag.

  Það verður ekkert bankakerfi til án innistæðueigenda og ekkert bankakerfi mun þrífast þar sem innlánsvextir eru hærri en útlánsvextir.

 • Af hverju eiga bara skuldarar að borgar kreppuna , þeir sem eru með verðtryggð og/eða gengistryggð lán ??
  Hversvegna eiga spaifjáreigendur að sleppa ? Af hverju ábyrgðist ríkið einungis sparifé?
  Á ekki eitt yfir alla að ganga?

 • Þetta er náttúrulega bara bull að innistæður upp á 100 milljónir hafi verið tryggðar, þegar viðkomandi fékk þessar 100 milljónir með kúluláni, svo er kúlulánið fellt niður en viðkomandi heldur 100 millunum….

  Hvernig er þetta réttlátt, það voru ekki allir sem fengu aðgang að kúluánum, þess vegna átti að hámarka innistæðutrygginguna við 15 milljónir, restinn átti svo að fara í að greiða kröfuhöfum.

  Þannig er þetta gert allstaðar annarsstaðar í heiminum…. því þurfti Sjálfstæðisflokkurinn að tryggja allar innistæður???

 • Hulda Björg Sigurðardóttir

  Ég ætla að gefa mig fram sem ein meðal hins þögla meirihluta. Ég tapaði 30% af sparnaði sem var í ávöxtun hjá einum bankanna þannig að það eru ekki bara skuldarar sem gjalda fyrir kreppuna. Má nefna atvinnulausa og lífeyrisþega sem dæmi.
  Ástandið var afbrigðilegt frá 2005 a.m.k. þegar bankarnir komu inn á íbúðalánamarkaðinn og alltof mörg fórnarlömb bæði neysluæðisins sem stöðugt var hvatt til á ýmsum vígstöðvum og líka bara þessa óeðlilega ástands. Þetta voru bara tölur á blaði.

 • Hvers vegna má ekki sækja þá sem bera ábyrgð á þessum gjörningi og láta þá borga ?

  Þar eru bæði bankamenn og alþingismenn !

  Er það rétt, sem Svavar Getsson segir í Fréttablaðinu í dag, að það hafa ekki verið starfandi neitt viðskiptaráðuneyti frá því þegar Davíð varð forsættisráðherra, og þangað til að Björgvin Sigurðsson tók við sem ráðherra ?

 • Ef það væru til svona lög eins og þú ert að tala um Andri Geir, þá mætti ef til vill skoða þann möguleika að vextir á gengistryggðu lánunum yrðu hækkaðir eitthvað. En það eru ekki svona lög í landinu og þá er bara ekki um annað að gera en að hlýta dómi Hæstaréttar. Fjármálastofnanir verða að fara að lögum eins og aðrir í þessu samfélagi, en gengistryggðu lánin voru ólögleg frá því lög um þennan málaflokka voru samþykkt 2001.
  Sanngirni hefur ekki verið að þvælast fyrir þeim sem hafa ráðið ferðinni í fjármálafyrirtækjum á Íslandi undanfarin ár. Það er því ekki með nokkrum rökum hægt að fara fram á „sanngirni“ bara frá þeim sem tóku lánin.

  Ég og minn maður lentum í gjaldþrotahrynunni á 9. áratugnum og þá var sami söngurinn uppi með fyrirhyggjuleysi og allt það. Hvernig á almenningur að reikna út duttlunga stjórnmálamanna sem setja einn daginn á verðtryggingu allra fjárskuldbindinga í bullandi verðbólgu.
  Ekki get ég kallað slíka stjórnun „sanngirni“

 • Ari.
  Það er eins og fyrri daginn (sjá færslu mína hér að ofan) að þeir lántakendur sem verða fyrir barðinu á skellum í íslenska fjármálakerfinu, eru óreyðufólk sem á bara að súpa seyðið af hruni þjóðar eða illa undirbúnum breytingum í því kerfi.
  Lán með gengistryggingu voru ólögleg og það vissu þau fjármálafyrirtæki sem veittu lánin. Dómur Hæstaréttar er skýr og hann segir að hluti samninga sé ólöglegur og jafnframt að ekki sé heimilt að breyta öðrum lánakjörum, það er að segja þau brjóti ekki í bága við lög og séu undirrituð af báðum aðilum.

 • Hákon Hrafn

  Það er ljóst að áhætta fylgdi þessum lánum. Áhættan lá hjá bæði lánþega og lánveitanda sem tengist ríkinu ekki neitt. Nú er ljóst að það var lánþeginn sem vann. Þá kemur öfundsjúki nágranninn sem tók ekki áhættu og vill fá hlutdeild í gróðanum og reynir að telja öðrum trú um að hann sé að borga út „gróðann“ sem nágranninn fékk. Gáfulegur sá eða þannig.

 • Alþingi og ríkisstjórn Íslands brugðust ítrekað skyldum sínum þ.e. að vernda hagsmuni allra landsmanna og að sjá svo um að allir sitji við sama borð á grundvelli stjórnarskrár Íslands. Nú virðist það sama vera upp á teningnum.

  Hæstiréttur stóð í lappirnar og felldi skýra dóma um ólögleg ákvæði í lánasamningum. Eignaréttir færðist til en ráðherrar í ríkisstjórn og þingmenn á Alþingi vilja ekki virða þennan rétt. Vill síðuhöfundur að þessi dómsúrskurðaði eignaréttur verði ekki virtur?

 • Mikið óskaplega vorkenni ég fólki sem er svona innrætt, það sem kennir sig við þögla meirihlutann sem er að farast úr vanlíðan vegna þess að einhver annar er mögulega að fara betur út úr sinni lántöku en það sjálft.

  Hvernig er það, ef nágranni minn læsir ekki hurðinni hjá sér og tekur þannig meiri áhættu en ég og svo er brotist inn hjá okkur báðum og meiru stolið frá mér, á ég þá að engjast um í vanlíðan yfir því að hans tjón er minna en mitt?
  Eða á reiði mín að beinast að þjófnum?
  Hvað græði ég á því að nágranninn tapi meiru?
  Þetta er ömurlegur hugsunarháttur.

  Það skal tekið skýrt fram að þeir með verðtryggðu lánin borga ekki krónu fyrir þá með hin ólöglegu lán (ólöglegu verðtrygginguna, þ.e. gengistrygg.). Slíkur málflutningur er úr lausu lofti gripinn, enda hafa bæði Ísl.banki og Arion lýst því yfir, þeir bankar eru heldur ekki í eigu ríkisins. Hafi Landsbankinn tekið erlend lán yfir á of háu verði, skal kenna þeim um sem það gerði.
  Svo má margt annað um þetta mál segja, sem ekki er rúm fyrir hér. Nefna má þó 2 stór atriði sem horfa skal til,
  1. leitt er í ljós að bankarnir tóku sjálfir stöðu gegn krónunni og felldu hana svo með slíkum hætti að engin fordæmi eru fyrir öðru eins, gegn þeim sem þeir gerðu lánasamninga við og bundu við gengi erlendra gjaldmiðla. Einum af stóru bönkunum í USA var nýlega stefnt af þarlendu fjármálaeftirliti fyrir sömu sakir, þ.e. gera samning við kúnna og taka svo viljandi stöðu gegn honum (í skuldabréfavafningum þar). Í þroskuðum réttarkerfum er þetta ólöglegt.
  2. Ísland er réttarríki, í réttarríkjum er svokallað réttaröryggi. Í því felst að staðfesta verður að vera hjá dómstólum varðandi það að dæma eftir lögunum. Þegar öflugustu aðilar landsins, fjármagnslega séð með tilliti til lögfræðiráðgjafar, velja að leika þennan leik, verða þeir að bera hallann af mistökum sínum. Það er margdæmt gegnum aldir og áratugi og hefur mótað nokkuð sem heitir samningaréttur. Þessir lánasamningar falla þar undir. Það er því ekki dómstóla að setja nein sanngirnisviðmið í þessu heldur bara dæma eftir lögunum, eins og alltaf hefur verið dæmt. Grundvallaratriði í þessu er að sterki aðilinn í samningssambandi, sem setur inn ólöglegt ákvæði, verður að bera tjónið sjálfur af því. Það máttu þessir aðilar (lánafyrirtæki) sannarlega vita þegar þessir samningar voru gerðir. Það eru reyndar fjölmörg önnur svona atriði sem styðja þetta enn frekar en of langt mál að fara út í. Niðurstaðan er að dómstólar eru að dæma eftir sömu reglum og skuldarar hafa verið dæmdir eftir. Alkunna er að allir skulu vera jafnir fyrir lögunum.
  Höfum líka í huga að enginn gat gert neitt þegar lánin voru skuldara í óhag, þ.e. fyrir dóma Hæstaréttar. Því hafið þið vesalingarnir gleymt. En væntanlega sátuð þið heima og leið mjög vel yfir því að öðrum leið verr en ykkur.
  Hversu ömurlegur er hægt að vera?

  Svo er mikið öfugmæli að segja að þeir sem tóku verðtryggð lán hafi verið þeir sem ekki tóku áhættu. Það eru fá eða engin lán áhættumeiri en íslensk verðtryggð lán vegna þess að þau eru tengd við verðbólgu og enginn veit fyrirfram hver hún er. Verðbólga á Íslandi stjórnast ekki síst af gengi krónunnar og þegar hún fellur, hækka verðtryggðu lánin alveg eins og gengistryggt lán, það gerist bara hægar, hins vegar gengur sú hækkun aldrei til baka.
  Að auki eru kynslóðir í þessu landi sem eignuðust sínar fasteignir nánast sjálfkrafa, það eru þeir sem tóku sín húsn.lán fyrir setningu verðtryggingar á lán og afnám hennar á laun, kringum ´80. Það eru því tugþúsundir aðila í samfélaginu sem fengu sínar fasteignir fyrir lítið sem ekkert.
  Þið þarna vesalingarnir sem eru að drepast úr vanlíðan yfir réttarbót hinna, ættuð að fara með heykvíslina heim til þess fólks, ekki síður en þeirra með ól. lánin, og krefjast réttlætis.
  Nú eða hafa uppi sömu háværu kröfuna um að setja einhver lög á það fólk.

  Svo til að kóróna þetta bull í ykkur þá þykist þið vera með eitt alveg á hreinu, þ.e. eitthvað svokallað ,,réttlæti“ sem þið hafið sjálf skilgreint. Það felst í því að réttlætinu sé fullnægt þegar skuldir hinna hafa hækkað aftur.
  Þið eruð svo sjúk í huganum að þið eruð farin að bera ykkur saman við þá með hin lánin.
  Allir með vott af heilbrigðri hugsun sjá hins vegar að í þessari réttlætisumræðu er eina sem skiptir máli sambandið milli skuldara og kröfuhafa. Þið sem eruð ekki með þessi lán en eruð með réttlætiskennd á við sjálfan Jesús að ykkar mati, ættuð þá að hafa vit á því að skoða sambandið milli þeirra og setja fram ykkar skoðun á því. Þar er hið raunverulega deilumál, milli skuldara og kröfuhafa.
  Nei, þið eruð búin að setja dæmið þannig upp að þetta sé réttlætis/ranglætis mál milli ykkar annars vegar og svo hinna með hin lánin.

  Mikið óskaplega ætla ég að vona að þið séuð gífurlega mikill (fyrrverandi) þögli minnihluti en ekki meirihluti.
  Fólki sem hugsar svona er mikil vorkunn.

 • Árni kristjánsson

  Hvar varst þú þegar almennir borgarar þessa lands voru teknir aftan frá ósmurt af bönkum og með leyfi eftirlitsstofnana.

 • Lög eru lög. Þau eru ekki alltaf sanngjörn en það þarf samt að fara eftir þeim. Það hefur amk. almenningur þurft að gera hingað til. Af hverju ætti allt í einu annað að fara að gilda þegar fyrirtæki sem hingað til hafa yfirleitt ekki haft sanngirnina að leiðarljósi eiga í hlut?

  Kunningi minn er endurskoðandi. Hann gerir skattaskýrslur fyrir fjölda einstaklinga og fyrirtækja. Hann sagði mér að flestir sem væru með umrædd lán séu ungt fólk með börn. Ungt fólk sem vill búsetuöryggi fyrir sig og börnin sín og bíl svo allir komist þangað sem þarf að fara á sem stystum tíma því vinnudagurinn er langur og margt þarf að fara. Í vinnu, leikskóla, skóla, tómstundir barnanna, versla í matinn o.s.frv. Er sanngjarnt að einhverjir þurfi ef til vill að fórna einhverju til að koma á móts við ungt fjölskyldufólk?

  Þeir sem eru með lúxusbíla og dótakassa á lánum eru yfirleitt með eignarhaldsfélag utan um það, þar sem ekki er tekin eins mikil persónuleg áhætta. Og hafa ýmis ráð eins og kennitöluflakk, afskriftir og þh. Þannig að þeir hefðu alltaf staðið betur hvort eð er. Auðvitað voru einhverjir sem fóru of geyst en stærsti hlutinn er ungt barnafólk.

 • Jón B G Jónsson

  Voru ekki allar innistæður tryggðar vi’ð hrunið? Peningamarkaðssjóðir líka? Hver tryggði þetta? Var það ekki þjóðin. Líka skuldarar. Og nú erum við að tala um upphæðir sem tekur í. Á meðan krónan hélt gildi sínu og áður en bankarnir felldu hana borgaði fólk af gjaldeyrislánum eins og fólk gerir í USA og evrópu. Auðvitað var ákveðin áhætta . Í versta falli 20-30%.
  Bankarnir og lánafyrirtækin sátu hins vegar á svikráðum. Lánuðu gengistryggt og felldu svo gengið um 100-120%. Hvar gæti þetta gerst nema í spilltu landi?. Þar sem glæpamenn fara sínu fram án athugasemda. Hvað er svona hræðilegt við það að almenningur fái leiðréttingu sinna mála? Að gengistrygging var dæmd ólögleg af hæstarétti er endanlegur dómur. Þá gilda vextirnir sem samið var um. Það verður kannski til þess að bankarnir og ríkið hafi einhvern hag af því að halda verðbólgu í skefjum. Ekki ræður almenningur það ferðinni. Það er auðvitað ósættanlegt að breyta vöxtum lánasamnings eftirá sé ekki samið um slíkt. Verði verðbólga skikkanleg fá lánafyrirtæki alveg ásættanlega vexti. Í lífinu taka allir áhættu. Lánafyrirtæki tóku hana meðvitað og ætluði að ná sér í ofsagróða á kostnað lántakanda á ólöglegan hátt. Sem betur fer gilda ennþá lög í landinu.Hæstréttur á þökk skilið fyrir að sína okkur fram á það. Dómur hefur fallið. Kverúlantar þessa lands telja sig vita betur og það er ekki flóa friður fyrir þeim í öllum fjölmiðlum. Eigum við ekki að gera eins og sumir segja “ veltum okkur ekki upp úr fortíðinni heldur horfum til framtíðar“ . Ég er til í það.

 • Stundum stjórnast „réttlætiskenndin“ af öfund.

 • Heyr heyr, mikið er ég sammála þessari bloggfærslu. Loksins einhver sem segir það sem (nánast) allir hugsa.

  Er sjálfur með erlent bílalán en finnst algjörlega út í hött ef það á að fella út gengistryggingu og láta upphaflega vexti standa.

  Mér finnst það einfaldlega ekki sanngjarnt þó að ég myndi eflaust hagnast á því.

 • Jakob Bjarnar

  „Allir með vott af heilbrigðri hugsun sjá hins vegar að í þessari réttlætisumræðu er eina sem skiptir máli sambandið milli skuldara og kröfuhafa,“ segir einhver sem kallar sig S. Á kollgátuna en tekst engu að síður að snúa öllu á haus í sínum málflutningi. Og eys yfir þá sem leyfa sér að efast um lendinguna í þessu máli þvílíkum óhróðri að manni stendur ekki á sama: Þeir eru öfundsjúkir illa innrættir vesalingar og ég veit ekki hvað og hvað. Skilja má af hverju hinn þögli meirihluti sem Andri Geir nefnir réttilega til sögunnar er þögull.

  Niðurstaðan er sú að reikningurinn lendir á almenningi. Hann lendir á þeim sem skrifuðu ekki undir þessi lán. Ábyrgð þeirra sem skrifuðu undir ÓLÖGLEG lánin – sem menn með vondan málstað nefna ranglega „almenning“ – á hins vegar að heita engin. Sú réttlætiskennd sem fær menn til að efast um slík hefur ekkert með öfund að gera.

 • Þetta er alveg ótrúleg umræða!!

  Þegar við þessi „áhættusæknu“ vorum í viðskiptum við bankana, og það alfarið á þeirra forsendum, þá vorum við ein tryggasta stoð hagkerfisins; en með með lántökum okkar varð að hluta til sú ávöxtun sem þið meinlætaflólkið auðguðust á. Þegar við og þið svo versluðum okkur þann „munað“ sem við búum við, þá héldum við hjólum atvinnulífsins gangandi og jók það arð fyrirtækjanna.

  Hvaðan haldið annars að ávöxtun ykkar sparifjárs komi? Hún dettur ekki af himnum ofan. Það erum væntanlega við „áhættufíklarnir“ sem tryggjum verðgildi króna ykkar en ekki falsaður loftbólugróði fyrirtækja hin síðari ár.

  Lifandi hagkerfi þrífst ekki á hugmyndafræði Pétur um „ráðdeild“ og eilífan sparnað. Í þeim efnum veit ég t.d. ekki betur en Pétur, sá ágæti maður, hafi auðgast á okkur sem hann kallar í dag áhættufíkla og óráðsíufólk.

  Ég tel þessa umræða í garð lánþega vera runna undan rifjum þeirra sem mest bera ábyrgð á efnahagshruninu. Þeir neita að gangast við ábyrgð sinni og því tjóni sem þeir ulli hagkerfinu. Svo er algerlega litið fram hjá sök ráðamanna og eftirlitsstofnanana. Hvernig voguðu t.d. yfirvöld sér að færa baneitruð lánasöfnin yfir í nýju bankana? Jú það átti að láta okkur lánþega byggja upp á nýtt bankana og hagkerfið með útbólgnum höfuðstól lánana okkar.

  Ef enginn tekur lán, þá er sparifé ykkar í bönkunum dautt fé.

  Það sem gerðist og skaðaði okkur sem tókum lán, með gengistryggingu og svo verðtryggingu, er að bankarnir tóku stöðu gegn krónunni. Þar með unnu þeir gegn okkur viðskiptavinum sínum, líka ykkur sjálfsupphafna meinlætafólk. Það ber að bæta okkur það tjón með einum eða öðrum hætti, hvort sem ykkur líkar það betur eða verr.

  Ég minni svo á að það er þegar búið að moka hundruðum milljarða af opinberu fé í fjármagnseigendur þessa lands. Þeim er því ekkert vorkun þó þeir taki á sig skaðan af gengistryggðu lánunum.

 • Sæll Andri.

  Það er rétt hjá þér að eignarétturinn er tryggður skv. stjórnarskrá o.fl.

  Innistæður í bönkum og fjármálastofnunum eru samt ekki tryggðar samkvæmt þessu ákvæðum stjórnarskrárinnar. Innistæður eru tryggðar samkvæmt sérstökum lögum. Þau lög sem tryggja þessar innistæður það eru sömu lög og gilda á öllu EES svæðinu og sérstakur sjóður, Tryggingasjóður innlánseigenda í hverju landi er falið að tryggja innistæður.

  Samkvæmt þeim lögum þá eru innistæður tryggðar að hámarki fyrir 20.887 evrur per reikning.

  Það að íslenskir stjórnmálamenn ákváðu að trygga allar innistæður á Íslandi 100% var aðgerð sem mun kosta skattgreiðendur hundruðir milljarða.

  Íslendingum bar engin skilda að tryggja innistæður langt úr fyrir öll lög og allar reglur.

  Sú aðgerð að tryggja allar innistæður 100% var gerð með „lögbrotum“ og „þjófnaði“. Sjá nánar hér:

  http://fhg.blog.is/blog/fhg/entry/1072731/

 • Andri Geir Arinbjarnarson

  Hefðu innistæður ekki verið tryggðar og bankarni látnir rúlla hefði meirihluti innistæðna lent í vasa kröfuhafa. Það má segja að það sé þjófnaður því kannski áttu erlendir kröfuhafar meiri rétt á þessum peningum? Enn hafa neyðarlögin ekki komið fyrir dómstóla. Hver veit.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og átta? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur