Fimmtudagur 22.07.2010 - 07:58 - 10 ummæli

Landsmenn borga

Björgólfur Thor gefur út yfirlýsingu um að hann ætli að borga sínar skuldir og er það gott og vel, en mér finnst nú að hann hefði getað þakkað sjúklingum Íslands fyrir þeirra þátttöku í hans persónulega átaki.  Flestir landsmenn munu, nefnilega, taka þátt í að borga skuldir útrásarvíkinganna í formi hærra vöruverðs og lægri launataxta.  Hinn mikla áhættusækni útrásarvíkinganna hefur leitt til þess að mörg stærstu fyrirtæki landsins (og ríkið) eru skuldum vafin og sliguð af fjármagnskostnaði og lélegu lánstrausti. 

Til að lækka þennan fjármagnskostnað þarf að borga þessi lán upp.  Til að fá peninga til að borga lán hratt upp þarf að halda tekjum eins háum og kostur er og kostnaði lágum.  Ein aðferð er hátt vöruverð og lág laun!  Ef lánin eru ekki borguð upp þarf að koma til endurfjármögnunar, en þá geta málin versnað, þar sem vaxtakostnaður á erlendum lánum mun rjúka upp úr öllu valdi enda er lánstraust okkar nú í ruslaflokki en var í hæstu hæðum þegar upprunalegu lánin voru tekin.  Þetta er t.d. hættan við OR, eins ég hef áður skrifað um.

Þetta lélega lánstraust og hár skuldabaggi mun verða einver mesti dragbítur á lífskjör hér á landi næsta áratuginn hið minnsta. 

Aðeins þegar við höfum frjálsan aðgang að lánsfé á sambærilegum kjörum og okkar samkeppnislönd er hægt að tryggja sambærileg lífskjör.  Nauðsynlegt en þó ekki nægjanlegt skilyrði fyrir þessu er að við fáum alþjóðlegan viðurkenndan og traustan gjaldmiðil.

Það er nokkuð ljóst að 320,000 manna samfélag getur ekki haldið úti stöðugum og traustum gjaldmiðli á 21. öldinni.  Hér þurfum við hjálp.

Eini erlendi seðlabankinn sem mun hjálpa okkur í því máli er Evrópski Seðlabankinn og þá aðeins að við göngum inn í ESB.

Allt er þetta tengt, eins og hlekkir í keðju.  Vanti einn hlekkinn heldur keðjan ekki.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

 • Aurapúkinn

  „Það er nokkuð ljóst að 320,000 manna samfélag getur ekki haldið úti stöðugum og traustum gjaldmiðli á 21. öldinni. Hér þurfum við hjálp.

  Eini erlendi seðlabankinn sem mun hjálpa okkur í því máli er Evrópski Seðlabankinn og þá aðeins að við göngum inn í ESB.“

  Já frábært að taka upp Íslenska Evru!

  Það eru til margar Evrur sem hefur mismunandi áhrif á efnahag landana sem nota hana, raungengi stjórnast af efnahagslegu heilsufari hvers lands fyrir sig sem er víða ekki upp á marga fiska, Evran er nefnilega ekki jafn sterk eða jafn veik alstaðar í Euro Zone löndunum eins og sumir ESB-istar vilja vera láta.

  Við leysum ekki eina vitleysuna með því að taka upp aðra vitleysu!

 • Ég hugsaði einmitt það sam þegar ég las þessa frétt. Auðvitað munu afleiðingar fífldirfsku þessara manna bitna á þjóðinni allri í formi skattahækanna og niðurskurðar í velferðakerfinu. Það að þessir menn segist ætla að standa við sínar skuldbindingar breytir því ekki. Kerfið hrundi vegna þeirra gjörða og við hin erum nú þegar byrjuð að borga reikninginn.

 • Haukur Kristinsson

  Þetta er hárrétt hjá Andra Geir. Við þurfum á aðstoð að halda, strax, og hún getur aðeins komið frá EU. Af hverju eru svona erfitt að sannfæra þjóðina um augljósan hlut? Kvótaeigendur, en einnig heildsalar sem nýta sér samkeppnissnautt samfélag, vilja þetta ekki, en sá hópur er aðeins brot af þjóðinni. Líklega er vandinn sá, að eini flokkurinn sem hefur umsókn um EU aðild á dagskrá er Samfylkinginn, flokkur, sem er orðinn „pain in the arse“.

 • Magnús Jónsson

  „Allt er þetta tengt, eins og hlekkir í keðju. Vanti einn hlekkinn heldur keðjan ekki.“

  Góð líking í þessu samhengi. Málið er bara að meirihluti landsmanna og meirihluti stjórnmálamanna sjá annaðhvort enga keðju eða ímynda sér að Ísland sé svo sterkur hlekkur að hann geti spjarað sig einn. Og þessu fær trúlega ekkert breytt nema langvarandi basl og fátækt í hlekk hins „sjálfstæða“ hugarfars. Því miður.

 • Björn Kristinsson

  Mjög góð færsla Andri og hefði verið enn betri ef ekki hefði verið spyrrt við hana þína sýn á þvingaðri stöðu. Ég vona að okkur beri gæfu til að fjalla um hrunið, aðdraganda þess, það sem hefur gerst eftir hrunið og kostnað án þess að tengja þá umræðu við ESB, EUR eða eitthvað annað. Annars er hætt við að umræðan missi „fókus“.

  Meginintakið á færslunni er áhugaverður vinkyll sem ég vona að þú takir lengra og dýpra.

 • Einar Solheim

  Björn,
  Það er nú bara þannig að eini raunhæfi kosturinn til að koma hér á stöðugleika, felst í því að ganga í ESB og taka upp evru. Það er því eðlilegur og sjálfsagður hlutur umræðunnar um hrunið og þess sem gerast þarf eftir hrunið.

 • Björn Kristinsson

  Einar Solheim,

  Það er skoðun út af fyrir sig en bara ein af mörgum. Megininntak mitt í fyrri færslunni var að reyna að fá fólk til að horfa hlutlaust á „hrunið“ án þess að vera fast í ákveðnu fyrirfram mótuðu „lausnamiðaðri“ stefnu. Sé það ekki gert hefur það ekkert upp á sig að fjalla um þessi mál. Hún verður þá alltaf lituð af ótengdu máli.

  Hrunið er eitt – það er staðreynd, reynsla sem á að skoða sem slíkt

  Innganga í ESB – það er leið á að fjalla um án þess að tengja við „hrunið“. Umræðan um ESB verður að vera út frá framtíðinni, ekki fortíðinni, ekki heldur núverandi stöðu.

  Það er mjög mikilvægt að menn beini umræðunni í þennan farveg. Annars fæst hvorki rétt greining á „hruninu“ né því að ganga í ESB. Sé þetta tvennt tengt saman þá lýtur það út fyrir að við höfum valið ESB út frá þvingaðri stöðu í gjaldeyrismálum. Er það raunverulega ástæða þess að Ísland ætti að fara í ESB, aðeins gjaldeyrismálin ?

  Takið umræðuna á annað plan.

 • Svartálfur

  Það er dáldið merkilegt hvernig fólk hefur tilhneigingu til að halda myntir eigi að haldast á svæðum sem um voru dregnar línur eftir einhverjum tilviljunum í fortíðinni. Ef Ísland hefði ekki fengið sjáfstæði frá dönum fyrir hartnær 100 árum mundum við nota danska krónu og enginn mundi velta fyrir sér af hverju. Ef Ísland hefði verið hluti af Norska konungsdæminu frá 1262 þá mundum við nota norska krónu og enginn mundi velta fyrir sér af hverju við gerum það.

  Engum dettur í hug að Álasund eigi að nota aðra mynt en Stafangur þó fyrri borgin byggi á fiskveiðum en sú seinni á olíuvinnslu. Það þykir sjálfsagt að íbúar Slésvíkur noti sömu mynt og Bayern en ekki sömu mynt og Jótland sem er hinum megin við línu sem enginn sér nema á korti.

  Svona mætti lengi telja – það er ekki hvert einasta smápláss með sína eigin mynt og ekki meiri rök fyrir því að Ísland eigi að hafa eigin mynt frekar en Katalónía.

  Restin er spurning um efnahagsstórnun.

 • Andri Haraldsson

  Björn Kristinsson er með ágætis punkt, en ef skrif Andra Geirs eru skoðuð í samhengi, þá er hann bara búinn með hrunið, sem gerðist fyrir 2 árum, og er kominn í að hugsa um framtíðina. Það eru ekki margar raunhæfar leiðir, að hans mati, sem ekki leiða til langtíma stöðnunar. Hann sér ESB sem lausnina og skrifar því um það.

  Í stuttu máli þá held ég að hann og flestir sem hafa skoðað málið séu búnir að greina þetta nokkurn veginn svona:

  Hrunið var afleiðing. Það voru þrjár megin orsakir.
  1. Króna sem leyfði viðskiptabönkum og seðlabankanum að fíflast í meiriháttar gengisstöðutöku (kannski án þess að gera sér að fullu grein fyrir því).
  2. Reynsluleysi viðskiptalífsins sem sá ný fyrirtæki taka skammtímalán (byggð á stöðutöku bankanna) til að kaupa eignir um tvist og bast sem síðan reyndust ekki nægjanlega verðmætar til að standa undir lántökunni.
  3. Almennt siðleysi og vanvirðing við settar reglur, þar sem bæði einkaaðilar og eftirlitsaðilar horfðu framhjá lögbrotum vegna ofurlagatæknilegra leiða sem teknar voru framhjá skynsemi og reglum. Þetta birtist t.d., í ehf væðingunni, krosseignatengslum og krossfjármögnunartengslum, og í samhæfðum aðgerðum til að forðast upplýsingaskyldu opinberra hlutafélaga.

  Síðasti þátturinn leiddi svo af sér Icesave, sem er í raun stærstu mistökin í allri útrásinni, því að þar var áhættunni leyft að færast frá erlendum lánardrottnum yfir á íslenskan almenning.

  Niðurstaðan er sú að Íslandi sjá ekki sjálfborgið, því að þessi vandamál séu í rótina ekki leyst á skömmum tíma í fámenninu. Sérstaklega eru afleiðingarnar af hruni krónunnar svo alvarlegar að reikna megi með 5-10% áhættuálagi af áframhaldandi krónu. Slíkt álag slær flest fyrirtæki í samkeppni útaf borðinu, enda þarf óraunhæfan hagnað til að standa undir slíku. Eina lausnin ef krónunni er haldið er því að lækka kostnað fyrirtækja sem þessu nemur, og því verða laun að lækka mjög mikið og kaupmáttur enn meira því að gengi krónunnar verður áfram lágt.

  Að lokum þá hefur Andri Geir (ásamt mörgum öðrum sem eru að hallast að ESB) leitað svara um hvaða aðrar leiðir eru raunhæfar. Ekkert hefur fram komið, þó að í einhverju heilaþveiti megi koma upp með alls kyns dót eins og að ganga aftur í samband við Danmörku, myntsamstarf við Noreg, tvíhliða samninga við Kína, Indland, og fleiri, taka upp dollara einhliða, eða evrur.

  Vandamálið við allar þessar leiðir er að þær eru álíka raunhæfar og útrásin. 320.000 manneskur sama hversu ánægðar þær eru með sig og sitt land, eru innan talningarskekkjumarka stórþjóða. Þannig er óraunhæft að halda að meiriháttar árangur í tvíhliða samningum náist upp á eigin spýtur. Einhliða upptaka erlendra mynta gengur heldur ekki upp nema að gjörbreyting verði á rekstri ríkisins og seðlabanka.

 • Skyldi Karl Wernersson ( Lyf og heilsu eigandi ) skila bòtasjòdnum, sem hann stal ùr Sjòvà? Audvitad thurfum vid ad losna vid thessa handònytu krònu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sex? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur