Þriðjudagur 10.08.2010 - 15:32 - 11 ummæli

Vængstýfður Seðlabanki

Seðlabankinn er einhver mesta hrakfallastofnun sem Íslendingar hafa sett á laggirnar og er samkeppnin þó stíf.  Í raun endurspeglar Seðlabankinn vandamálin í íslenskri stofnanavæðingu sem flest má rekja til leiðtogaskorts og samskiptaörðugleika.

Það er loksins að renna upp fyrir Íslendingum að stofnanir eru ekki sterkari en þeir aðilar sem leiða þær.

Það er nefnilega ekki nóg að setja upp stofnanir að erlendri fyrirmynd.  Þær þurfa leiðtoga og sérþjálfaða starfsmenn sem geta unnið sína vinnu sjálfstætt og faglega.

Til að manna slíkar stofnanir þarf ráðningarferli sem eru óháð pólitískri afskiptasemi.  En þar sem pólitískir ráðherrar líta á sig sem yfirstarfsmannastjóra framkvæmdavaldsins er ekki von að þetta breytist í bráð – hrun eða ekki hrun.

Þetta er vandamál sem hefur legið hjá ráðherrum landsins í yfir 100 ár og lausnin verður að byrja þar hvenær svo sem það verður.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Valur B (áður Valsól)

    Menn hafa verið valdir til starfa og mælikvarðinn hefur verið flokksskýrteini Sjálfs-framsóknarflokksins svo langt aftur til Lúðvíks Jósepssonar Allaballa.

  • Það má alveg halda því fram að hrunið hafi verið rökrétt afleiðing heimastjórnarinnar 1904!

  • Jón,
    Athyglisverð athugasemd sem ég held að sé mikið til í. Nokkuð sem sagnfræðingar ættu að grúska í. Það hefði kannski farið öðruvísi ef dr. Valtýr hefði orðið fyrsti ráðherra Íslands en ekki Hannes Hafsteinn?

  • Jón kom þarna við viðkvæmann atburð í þjóðarsögunni.

    Hvers vegna var svo nauðsynlegt að íbúarnir á þessari eyju stofnuðu heimastjórn og „sjálfstætt“ ríki.

    Voru ekki þá þegar ákveðnir aðilar sem sáu hag „sínum“ betur borgið með íslenskri stjórn.

    Hag „sínum“ er ekki það sama og hagur þjóðarinnar.

    Hve „sjálfstætt“ getur lítið eyland orðið sem á allt sitt undir viðskipti við önnur lönd

  • Andri Haraldsson

    Andri Geir-

    Það er nauðsynlegt, en ekki nægjanlegt, að yfirmenn stofnana séu ráðnir í opnum ferlum. Það er amk. nokkur önnur nauðsynleg atriði sem þurfa að vera til staðar. T.d., 1) að embættisvald þeirra sé skýrt og mörk við önnur embætti skýr. 2) Að opinberir gjörningar standist formreglur og séu aðgengilegir almenningi. 3) Að einstaklingar hafi úrræði gagnvart brotum á opinberum gjörningum. 4) Að dómsvald sé sjálfstætt, vel rekið og hafi burði til að sinna skyldum sínum.

    Það má líklega telja lengi áfram, en allt er þetta nauðsynlegt, en ekki eitt sér nægjanlegt, til að lýðræðislegur réttur geti talist virkur og að stjórnsýsla geti sinnt skyldu sinni.

    @Jón
    Mætti kannski orða þetta svona:
    Ísland í Danmörk, krónuna burt..?

  • Björn Kristinsson

    Andri Haraldsson // 10.8 2010 kl. 18:48

    Gjaldmiðill er eitt en umgengnin um hann er annað. Við getum haft EUR og vonast eftir stöðugleika. Vandinn er sá að EUR eða annar stærri gjaldmiðill hér á landi er ekki forsenda stöðugleika, ekki heldur nægjanlegt skilyrði. Forsenda hans kemur með agaðri hagstjórn og stjórnsýslu, nokkuð sem ALDREI hefur verið við líði hér á landi !!

    Við getum haft EUR en samt haft mikla verðbólgu, eignabólu o.s.frv. Þetta sýna einfaldlega staðreyndir hér og þar í Evrópu.

    Ef hagstjórnin verður slæm hér á landi eftir upptöku EUR verður vaxtaálag á Íslandi sem lögaðilar og einstaklingar hafa aðgang að mun hærra en á svæðum þar sem hagstjórnin er agaðri.

    Varðandi Seðlabankann, þá hefur ekkert enn sannfært mig um að við getum séð um eigin peningastefnu.

    Varðandi stjórnsýsluna, þá hefur ekkert sannfært mig um að við séum á réttri leið í átt að virkara lýðræði.

  • Andri Haraldsson

    Björn-

    Það sem þú segir var kannski rétt á einhverjum tímapunkti. En í fjármálaheimi nútímans eru örmyntir ekki raunhæfar. Það eru aðeins tvö raunmódel fyrir myntir: annars vegar einhvers konar gengisnefnd sem ákveður gengi gjaldmiðilsins (og tryggir að það gengi haldi með hvers kyns höftum), eða að gjaldmiðill fljóti á opnum markaði.

    Íslensk saga segir okkur að hvorugt gengur upp með krónuna. Það er engin leið fyrir mig að fara í gegnum söguna í stuttu svari á bloggsíðu, en það er ágætt að hafa í huga að íslenska krónan er í dag, miðað við danska krónu, brotabrot af því sem hún var fyrir 65 árum.

    Ég hef ekki séð útreikninga sem eru nákvæmir um kostnað íslenska hagkerfisins af því að hafa krónuna. En ef tekið er inní myndina gengisáhættan, kostnaður við hversu illa fyrirtæki eiga erfitt með að gera langtíma áætlanir vegna gengisfalls og verðbólguskota, kostnaður við prentun og stjórnun peninganna, kostnaður við viðhaldi á gjaldeyrisforða, og kostnaður vegna þess að ríkið hefur aðgang að bæði neyslufé um efni fram, og fjárfestir krónurnar eftir einhverjum merkantílískum hugmyndum, þá er ekki óraunhæft að meta kostnaðinn einhvers staðar um 2-3% af landsframleiðslu. Munar um minna.

    Ábatinn af krónunni, sem er fyrst og fremst sjálfblekkingin um það að gengisfelling bæti samkeppnisstöðuna útá við (hún gerir það ekki, hún eyðileggur kaupmátt almennings, og flytur hagnaðinn af lækkuðum launakostnaði til nokkurra útflutningsfyrirtækja, erlendir þáttaliðir breytast ekkert þó að gengið breytist), er án nokkurs vafa talsvert minni en tapið. Má líkja við það að þó að alkinn geti tekið afréttara af og til og strammað sig nóg til að mæta í vinnuna, þá dytti engum í hug að segja að slík hegðun, væri eina lausnin fyrir hann því að hann ætti bara svo erfitt að fara með áfengi.

    Íslendingar eru gjaldmiðilsalkar. Þeir þurfa af láta af þessari sjálfsblekkingu og fara í meðferð. Það er ekki þar með sagt að allt verði einfalt við það eitt að hætta að fara á gjaldeyrisfyllerí annað slagið. Það þarf að gera allt sem þú segir — en 65 ár eru nógu langur tími til að vita að það mun ekkert breytast fyrr en utanaðkomandi agi þrýstir á pólitíkina og embættismenn.

  • Þórhallur Kristjánsson

    Andri Haraldsson skrifar

    „Það sem þú segir var kannski rétt á einhverjum tímapunkti. En í fjármálaheimi nútímans eru örmyntir ekki raunhæfar. Það eru aðeins tvö raunmódel fyrir myntir: annars vegar einhvers konar gengisnefnd sem ákveður gengi gjaldmiðilsins (og tryggir að það gengi haldi með hvers kyns höftum), eða að gjaldmiðill fljóti á opnum markaði. “

    Þetta er einfaldlega ekki rétt. Það sem á að ákveða styrkleika gjaldmiðilsins er framleiðslugeta landsins. Það á engin peningastefnunefnd að ákveða hvað gengið á gjaldmiðlinum á að vera.

    Viðskiptajöfnuðurinn samanstendur af þremur þáttum. Vöruskiptum, þjónustuviðskiptum og þáttatekjum.

    Þegar viðskiptajöfnuðurinn er núll þá er gjaldmiðillinn rétt skráður. Það þarf enga nefnd til þess að ákveða þetta vegna þess að framleiðslugeta landsins á að stjórna.

    Ef það væri farið eftir þessu væri hér allt í ballans og lífskjörin mundu ákvarðast af því hvað landið gæti framleitt. Þannig væru lífskjörin raunveruleg en ekki drifin áfram á lánum.

    Ég vil bara minna á eina góða reglu í fjármálum sem er ósköp einföld og ef eftir henni er farið þá gengur allt vel.

    Það má aldrei eyða meiru heldur en hægt er að afla.

    Á íslandi voru lífskjörin fyrir hrun haldið uppi á allt of sterku gengi sem myndaði hundruð milljarða viðskiptahalla. Þá var krónan fljótandi þannig að ljóst er að það gengur ekki upp.

    Krónan á að reglast í kringum núllpúnkt á viðskiptajöfnuði. Þannig er hún alltaf rétt skráð.

  • Björn Kristinsson

    Andri,

    ég var ekki í fyrri færslu minni að dásama IKR heldur aðeins að benda á að upptaka EUR eða annars stórs XXX gjaldmiðils hér tryggir ekki stöðugleika og er ekki heldur forsenda hans. Það er hagstjórnin sem gefur stöðugleikann. Stöðugt stjórnarfar og öguð stjórnsýsla bætir síðan um betur.

    Þórarinn,

    þar sem enn er stór viðskiptahalli þá hefur IKR ekki fundið botninn sinn. Við verðum að finna hvert raunvirði IKR er. Það verður ekki gert með því að horfa á raungengið, PPP, afgang af vöruskiptum o.s.frv.

  • Uss !

    Þessi færsla er allt of kassalaga hjá þér Andri. Þú gerir flókið mál einfalt og yfirfærir S. Í. yfir á allar stofnanir landsins !

    Það vita allir að það er í senn mesta gæfa og ógæfa þessarar þjóðar að vera svona fámenn, og hafa á fáum heiðarlegum mönnum á að skipa.

  • Andri Haraldsson

    @Þórhallur-

    Það sem þú segir hljómar fallega. En ég sé ekki hvernig þetta stenst nokkra skoðun. Ef gengið og gjaldeyrir væru á opnum markaði þá gætu bankar fjármagnað umfram þína þröngu skilgreiningu á réttu gengi. Það myndi hafa sveiflur í för með sér. Ef gengið/gjaldeyrir eru ekki á opnum markaði þá er þa ákveðið af gengisnefnd. Hvaða viðmið sú nefnd má nota er svo annað mál. Þú vilt setja upp formúlu frekar en nefnd, en það er ekki hægt að reka hagkerfi á formúlu.

    Ef gengisnefnd notar þína aðferðafræði þá væri hún í raun að líta framhjá öllum framtíðarupplýsingum um hagkerfið og stöðugt að setja gengi dagsins í dag byggt á upplýsingum sem eru alla jafna 12-18 mánaða gamlar þegar loka tölur koma, en amk. 3-6 mánaða þegar frumtölur koma fram.

    En jafnvel þó að hægt væri að reikna út nákvæmlega hver staðan er á hverjum degi, þá væri hugmynd þín algerlega útúr korti, því að hún neitaði okkur um það góða við markaði (þeir veita upplýsingar um hvað markaðsþátttakendur halda að framtíðin beri í skauti, burtséð frá reiknilíkani ríkisins), án þess að gefa okkur nokkuð til baka (í handstýrðu gengis umhverfi myndu vextir alltaf vera hærri vegna áhættumats erlendra viðskiptaaðila).

    Annars er þessi setning í raun allt sem þarf að benda á til að þú hefur mjög frumstæðar hugmyndir um fjármögnun verkefna:

    „Það má aldrei eyða meiru heldur en hægt er að afla.“ Ef þetta væri túlkað með strangasta hætti mætti aldrei taka lán, því að það er alltaf áhætta að maður hafi rangt fyrir sér um hversu mikið maður getur aflað í framtíðinni. Land sem ekki fjárfestir í framtíðinni mun ekki hafa marga þegna þegar frá dregur.

    Ef maður tekur einhver lán (eins og flest vel rekin fyrirtæki og einstaklingar gera, yfirleitt með góðum árangri), þá er maður að gera sér forsendur um framtíðina. Það sem þín speki segir okkur er að þú vilt að ríkið sé að spá um framtíðina (og það með einfaldri formúlu) og ákvarða heildarlán og áhættutöku þjóðarinnar (það er eina leiðin sem hægt væri að framkvæma hugmyndir þínar).

    Ég held að flestir séu sammála því að slík miðstýring, sama hvar hún hefur verið reynd, er dæmd til að mistakast. Og ekki benda á Kína sem andmæli. Kína er einræðisríki þar sem þegnunum er miskunnarlaust mismunað og þeir starfa fyrir þrælalaun. Það er ekki hluti af framtíð sem skiptir máli í íslensku samhengi.

    Með fyllstu virðingu, þá er það svona hugmyndir sem eiga sér engar rætur í raunveruleikanum sem gerir það að verkum að Ísland er á reki. Það er ekki hægt að finna patentlausnir á vandamálum landsins. Það þarf að eiga við grunnvandann, og grunnvandinn er ónýt stjórnmálastétt, lélegt innra stjórnkerfi, og gjaldmiðill sem leyfir landinu að lifa í sjálfsblekkingu á milli þess sem það fer í afvötnun á nokkurra ára fresti.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og tveimur? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur