Miðvikudagur 11.08.2010 - 08:44 - 3 ummæli

Hið 100 ára vandamál

Þegar ný vinstristjórn í Danmörku bauð Íslendingum heimastjórn rétt eftir aldarmótin 1900 með einn ráðherra búsettan í Reykjavík voru landsmenn í sjöunda himni eins og búast mátti við.  Fáir gerðu sér þó grein fyrir hvaða afleiðingar þetta átti eftir að hafa næstu öldina og líklega erum við nú að taka út hinar verstu afleiðingar af þessari ákvörðun.

Í stjórnarskrárdeilunni á þessum árum um 1900 höfðu verið nokkrar umræður um að fara fram á tvo ráðherra við Dani, annan búsettan í Kaupmannahöfn og hinn í Reykjavík og var hér höfðað til fyrirkomulags Norðmanna og Svía.

Það voru líklega mikil mistök að fara ekki þessa norsku leið enda sjá augu betur en auga!

Að skipta landshöfðingja út fyrir heimastjórn með einn ráðherra var ekki nóg.  Með aðeins einn ráðherra myndaðist hefð fyrir „ráðherraveldi“  í anda gamla landshöfðingjans sem enn bjagar landsmenn.  Með tveimur ráðherrum hefði æðsta valdið á Íslandi dreifst og meiri umræða og skoðanaskipti hefði orðið um málefni líðandi stundar.  Þó ráðherrum fjölgaði síðar urðu þeir eins konar kópíur af þeim fyrsta, einráðir á sínu sviði, því lengi býr að fyrstu gerð.

Það er löngu orðið tímabært að þjóðin setji sér sína eigin stjórnarskrá þar sem framkvæmdavaldinu eru settar lýðræðislegar skorður og staða og völd ráðherra eru vel skilgreind og í samræmi við þarfir heildarinnar.

Þetta 100 ára gamla vandamál þarf að leysa sem fyrst.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Ómar Harðarson

    Ég er sammála þessari greiningu.

  • Stjórnalagaþingið sem ákveðið er að efna til n.k. vetur hefur það hlutverk að endurskoða/gera stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland. Þar verður væntanlega tekið á þessum mikla vanda sem er að springa framan í okkur Íslendinga með ýmsu móti þessa dagana og hefur valdið okkur margskonar vanda undanfarin 106 ár.

    Þetta ráðherravald hefur valdið hinni gríðarlegu klíkumyndunum sem við höfum verið að upplifa undanfarna áratugi og þjóðfélagið er gegnumsýkt af.

    Það er ekkert skrítið að hver höndin sé upp á móti annari, þegar landshöfðingjar í hverjum málaflokknum eftir annan láta ljós sitt skína hver um annan þveran.

  • AldreiÞessuVant!

    Aldrei þessu vant er ég 100% sammála Andra, þjóðþrifamál að koma á auknu lýðræði hér á landi, núverandi ráðherravald er búið að kosta okkur dágóðan skildinginn.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og tveimur? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur