Fimmtudagur 12.08.2010 - 17:50 - 11 ummæli

Stjórnlagaþing fyrir þjóðina

Nú er komin dagsetning fyrir stjórnlagaþing í haust.  Gríðarlega mikilvægt er að kynna þessa kosningu vel fyrir almenningi og skora á breiðan hóp úr þjóðfélaginu að bjóða sig fram.  Svona kosning má alls ekki að vera á vegum stjórnmálaflokkanna og allar aðferðir þeirra við að koma sínu fólki að eiga að hringja viðvörunarbjöllum hjá kjósendum.

Nú verður þjóðin að vera vakandi.  Þeir sem hafa mesta reynslu af kosningum eru jú stjórnmálamennirnir.  Því verða kjósendur að taka vel eftir hvernig fólk kemur sér á framfæri og undir hvaða fána það fylkir sér.  Allir sem njóta „stuðnings“ flokkanna og geta auglýst sig á „faglegan“ og áhrifaríkan hátt mega ekki skyggja á hinn almenna frambjóðenda.

Á Alþingi sitja aðeins 63 svo í mesta lagi getur einn Alþingismaður setið á þessu stjórnlagaþingi, annað væri óeðlilegt.  Sama á við fjölmiðlafólk, það má ekki troða sér hér fram og misnota sína aðstöðu sem þekkt andlit.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • alþingismenn koma seinna að ferlinu, því miður, og geta grisjað það sem þeir vilja út því þeir eru síðasta stöðin áður en málið fer í þjóðaratkvæði. Þeir ( einnig varaþingmenn) eiga því ekki að sitja í stjórnlagaþingi og heldur ekki flokksdindlar.

  • Eygló Aradóttir

    Jamm, því miður, þá gerir kerfið eins og það er núna, ráð fyrir því að alþingismenn/-konur þurfi að samþykkja eða synja eða breyta því sem frá stjórnlagaþingi kemur. Nú þyrfti sum sé að hefja upp herferð á stjórnmálafólk að það lýsi því yfir að það muni ekki hefta framgang þess sem frá stjórnlagaþingi kemur.

  • Best væri að fram kæmi áskorun á hugsanlega kandidata frekar en einhverjir væru að bjóða sig fram á eigin vegum. Ég vil sjá Njörð P Njarðvík þar og svo held ég að Lára Hanna Einarsdóttir yrði góður fulltrúi. Mannvalið er nægt, og því er brýnt að framagosar með peninga á milli handa skyggi ekki á aðra kandidata.

  • Jóhannes:
    Njörður er í stjórnlaganefnd og er því ekki kjörgengur á stjórnlagaþing. Hans hlutverk er að undirbúa drög að stjórnarskrá sem lögð verður fyrir stjórnlagaþingið.

  • Andri Haraldsson

    Þetta er ekki stjórnlagaþing. Þetta er tillögunefnd til hugmynda um stjórnarskrárbreytingar. Á endanum heldur alþingi á öllum spottum og getur í raun sett tilllögur stjórnlagaþings til hliðar.

    Eins og til þessa máls er stofnað og hvernig að því er staðið er næstum öruggt að niðurstaðan verður ónóg, og árangurinn sá einn að miklum tíma verður sóað. Því miður.

    Skynsamlegra ferli hefði verið að kjósa fyrst til vinnuhópa um ákveðin málefni sem stjórnarskráin þarf að taka til. Þeir vinnuhópar (kannski 5-10 hópar, hver með kannski 10-30 manns og fastráðið starfsfólk til skipulags), hefðu síðan kosið fulltrúa sína í samsetningu á heildartillögu að stjórnarskrá. Ferlið allt þarf að taka amk. 1-2 ár og vera opinbert og fylgja fyrirframákveðnum formkröfum. Eins þyrftu þessir vinnuhópar að hafa aðgang að ráðgjöfum og sérfræðingum, og fé til að greiða þeim fyrir vinnuna sína.

    Það litla sem ég hef séð af þessu ferli er grátlegt og sýnir að það er ekki skilningur á mikilvægi stjórnarskrárinnar sem grunnstoðar í skipulagi landsins, eða ef það er skilningur þá er metnaðurinn enginn, eða ef það er skilningur og metnaður, þá er það einbeittur ásetningur ráðandi afla að tryggja að lítið breytist.

  • Alþingismenn eru ekki kjörgengir til Stjórnlagaþings. Alþingi verður að afgreiða endanlega gerð Stjórnarskrárinnar og hjá því verður ekki komist.

    Hvað varðar fjölmiðlafólk, þá hefur það sama rétt og aðrir til að gefa kost á sér. Það veður svo hver að velja það sem honum/henni finnst henta í þetta vandasama verk.

  • Andri, það er til skýring á þessu skilningsleysi og hún kemur fram í 3. grein laga um Stjórnlagaþingið.
    7.
    Framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana og meðferð utanríkismála

    Eindreginn ásetningur Samfylkingarinnar, um að innlima Ísland í ESB, dregur væntanlega úr þörfinni fyrir nýrri og vandaðri stjórnarskrá að þeirra mati.

    e.s Takk Magnús fyrir leiðréttinguna, Mér yfirsást þetta

  • Andri Haraldsson

    Ef einhver efast um hvort stjórnalaþing hafi einhver raunveruleg völd, þá er þeim bent á lög um stjórnalagaþing. Í raun er þetta bara sérstök nefnd á vegum alþingis. Lögin má nálgast í heild hér: http://www.althingi.is/altext/stjt/2010.090.html

    Sú grein sem mestu skiptir í þessum lögum er mjög einföld:

    27. gr.
    Frumvarp sent Alþingi.
    Þegar stjórnlagaþing hefur samþykkt frumvarp til stjórnarskipunarlaga skal það sent Alþingi til meðferðar.

    Semsagt, Alþingi getur ‘meðferðað’ þetta eins og það vill. Þetta er ekki stjórnlagaþing, þetta er nefndarálit. Alþingi hefur ekki framselt neitt vald í hendur þessarar nefndar, og setur henni meira að segja skorður um skipulag, tímasetningu, hver hefur forsætis- og skipulagsvald, og hvernig lokameðferð skuli háttað. Líkur á að sátt verði um þetta ferli þegar því lýkur eru hverfandi (ég myndi segja engar, en segi hverfandi þar sem ég er annálaður bjartsýnismaður).

  • Björn Kristinsson

    1) Andri, algjörlega sammála þér. Ég hefði vilja bæta um betur við tillögur þínar. Það hefði verið mjög áhugaverður vinkyll ef við hefðum hleypt erlendum hugsuðum hér að ferlinu því það er ekki á hverjum degi sem lönd taka sig til og hanna nýja stjórnarskrá. Með því hefði mögulega komið hugmynd að stjórnskipan sem hefði verið unnt að aðlaga að öðrum löndum.

    Þetta hefði verið góð leið til að sýna í reynd að Ísland vill leggja eitthvað að mörkum til alþjóðlega samfélagsins. Með þessu værum við að rétta út sáttarhönd í kjölfar fjármálahrunsins.

    2) Varðandi kosningu til stjórnlagaþingsins spyr ég af hverju kosningin má ekki vera í tvennu lagi og stærri hópur kæmist þá í gegnum fyrri umferð t.d. 200 manns sem hefði síðan úr jöfnu framlagi að spila í seinni umferð.

    3) Það er mjög mikilvægt að stjórnlagaþingið og allt það ferli verði breytt úr því að vera ráðgefandi í að vera gerandi. Þetta ferli er vegna almennings og komandi kynslóða en EKKI stjórnsýslunnar.

    Það eru margar fleiri spurningar sem varða þetta mjög svo mikilvæga málefni sem er svo miklu mikilvægara en við höldum. Þetta er grunnurinn að framhaldinu. Ef við köstum hér til hendinni, framganga og vilji almennings verður ekki tær þá verður framhaldið svo miklu erfiðara. Þetta eru krossgötur.

  • Sammála Andra.

    Hrunið og trúnaðarbrestur milli ríkis-valda-kerfisins og óbreytts almennings gerir það enn mikilvægara að allur almenningur landsins skynji og sannreyni, að þetta sé … stjórnlagaþing þjóðarinnar … fyrir þjóðina … að þjóðin setji fram nýjan sáttmála og hornstein fyrir uppbyggingu trausts í samfélaginu.

  • Kristján Gunnarsson

    Allajafna er stjórnlagaþing í mannkynssögunni hápúnkturinn í byltingu þjóðfélags og er samkundan sem haldin er eftir að forkólfar hinna gömlu ráðandi afla hafa verið hengdir eða á annan hátt teknir úr leik!

    Við Íslendingar virðumst hafa annan skilning á hvernig þjóðfélagi er umturnað enda óvanir og ætlum að byrja á afturendanum, ákveða hverju byltingin hefur áorkað og biðja síðan fulltrúa hinna gömlu ráðandi afla, Alþingi, að bylta sér sjálfum. Líklegt eða hitt þá heldur.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og átta? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur