Laugardagur 14.08.2010 - 07:44 - 12 ummæli

Jaðarskattur á fjármagn stefnir í 55%

Morgunblaðið greinir frá hugmyndum ríkisstjórnarinnar um hækkaða skatta sem, ef reynast réttar, eiga eftir að hafa mikil áhrif á nýsköpun og fjármagnsmyndun hér á landi.

Margt bendir til að nýi auðlegðarskatturinn fari upp í 1.5% og fjármagnsskattur upp í 25%.  Á sama tíma fara vextir lækkandi þannig að hlutfallslega eykst vægi auðlegðarskattsins langt umfram 0.25%.  Tökum dæmi.

Hæstu vextir á bankabók eru nú rétt undir 6% og fara lækkandi.  2011 má búast við að þessir vextir verði komnir niður í 5%.  Fyrir þá sem eru í auðlegðarþrepinu, verður jaðarávöxtun eftir skatta á þessari bankabók 2.25%, þ.e. 55% fara í skatta af síðustu ávaxtakrónunni.

Ekki verður ástandið betra hjá fasteignaeigendum.  Þar stefnir í að sumir verði að borga allt að 2% eignarskatt af sínum fasteignum.  1.5% til ríkisins og 0.5% til sveitarfélagsins í formi fasteignaskatts (hámark í dag).  M.ö.o eign sem ekki gefur arð af sér er tekin upp af hinu opinbera á 50 árum.

Þar með er eignarréttur á Íslandi orðinn takmarkaður.  Þeir sem eiga of „miklar“ eignir eru í raun leigutakar hjá hinu opinbera.

Það hættulegasta við þessa skattlagningu eru áhrifin á hegðun frumkvöðla sem hafa orku, vilja og metnað til að standa í fjármagnsmyndun sem getur skapað fjölda atvinnustarfa.  Þeir munu einfaldlega flytja úr landi með sínar hugmyndir þar sem skattakerfið er „vinsamlegra“ og auðveldara verður fyrir þá að byggja upp sparnað fyrir sig og sína afkomendur.

Skilningur á Íslandi á hlutverki fjármagns sem undirstöðu fyrir atvinnusköpun og góðum lífskjörum er lítill.  Sagan kennir okkur að þær þjóðir sem halda að ríkið geti fjármagnað allt og ekki þurfi að hlúa að fjármagnseigendum gera það á eigin kostnað.  Afríka og Suður-Ameríka er full af svona dæmum.  Á hinn bóginn er mikil respekt borin fyrir fjármagni í Asíu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • María Kristjánsdóttir

    Þar er almennt borin mikil respekt fyrir valdi, er það ekki? Og kjör og réttindi alls þorra manna bág?

  • Haukur Kristinsson

    Pistlar Andra Geirs eru með þeim bestu. Fróðlegt væri að heyra skoðan hans á því hversvegna niðuskurður í stjórnsýslunni, fækkun embættismann, virðist vera óframkvæmanlegur. Þótt öllum ætti að vera ljóst að þjóðin hefur ekki efni á bákninu.

  • María,
    Allt er afstætt, ég var hér að bera saman Asíu, Afríku og Suður Ameríku, ekki Evrópu eða Norður Ameríku. Kjör og réttindi manna í Asíu, Suður Ameríku og Afríku eru yfirleitt, en ekki alltaf, bág miðað við Evrópu, hins vegar eru flestir sammála um að uppbygging og efnahagsþróun í Asíu er ívið betri en í Afríku þó að í Afríku séu ef til vill meiri nátturulegar auðlindir en í Asíu og þær yfirleitt allar í 100 eigu hins opinbera.

    Það sem þú ert að gefa í skyn er að uppskriftin að bættum lífskjörum hér á landi sé engin respekt fyrir valdi eða fjármagni.

    Ekki skrifa ég upp á það.

  • Ómar Harðarson

    Ég hef ekki mikla trú á að skattarnir verði svona til frambúðar. Það eru ákveðnir tímabundnir erfiðleikar nú. Ef þeim sem geta lagt hlutfallslega meira til er það ofviða þá eru þeir væntanlega í röngu þjóðfélagi hvort eð er. Fátækt fólk og bótaþegar hafa lengi búið við slík jaðaráhrif á neðri enda skattakerfisins. Það hefur fundist það vera líka í röngu þjóðfélagi en átt óhægt um vik með flýja annað.

    Til að komast hjá jaðaráhrifum af því tagi sem Andri Geir bendir á þarf að umbylta skattkerfinu og koma á prógressívu skattkerfi. Það myndi líklega gagnast fátækum líka. Ef „skattpíning“ auðmanna á að vera viðvarandi yrði það væntanlega niðurstaðan.

  • Leifur Björnsson

    Því miður er það svo í núverandi andrúmslofti í samfélaginu að allir sem eiga eignir eru litnir hornauga.
    Enginn greinarmunur er gerður á þeim sem högnuðust með ósiðlegum hætti á innherjaviðskiptum og eldra fólki sem með samblandi af vinnusemi , sparsemi, og nægjusemi á skuldlausa fasteign og 10 til 20 milljónir á bankabók oft er þetta fólk sem alla starfsævina var á almennum vinnumarkaði og mátti þola endalausar skerðingar á lífeyrissréttindum sínum og er því með litlar greiðslur úr lífeyrissjóði.
    Ég þekki dæmi þess að þegar eignaskatturinn og sérstaki eignaskatturinn var við lýði þá áttu eldri borgarar sem áttu skuldlausar fasteignir en voru með léleg lífeyrissréttindi vart matinn ofan í sig vegna þess að skattayfirvöld skilgreindu viðkomandi ranglega rík og gengu alltof nærri þeim.
    Auk þess skerðir tryggingastofnun greiðslur til fólks sem á sparifé og refsar þannig almenningi fyrir ráðdeildarsemi.
    Tek undir með þér Andri Geir að við mættum gjarnan taka margar Asíu þjóðir okkur til fyrirmyndar hvað snertir virðingu fyrir ,sparsemi, vinnusemi, nægjusemi og þeirri eignauppbyggingu sem það leiðir af sér.

  • Friðrik Tryggvason

    Þessir skattar eru meðal annars settir til þess að borga fyrir innistæðutryggingarnar hérna um árið.

    Og það eru ekki bara stjórnvöld sem hafa ekki skilning á „hlutverki fjármagns sem undirstöðu fyrir atvinnusköpun“, það eru líka fjármagnseigendur, þeir hafa vanist síðustu ár að hafa aðgang að 16% vöxtum og þess vegna voru peningarnir ekki látnir vinna úti í samfélaginu.

  • Raunar getur þetta verið miklu verra en þú skrifar um Andri Geir.
    a) Húsnæði er gríðarlega ofmetið enda keppast bankar við að halda verðinu uppi með að kaupa eignir tilbaka ef maður lítur á þetta línurit um vísutölu byggingarverða er það ávísun á verðhrun enda er raunverð núna meira en 3falt það sem það var árið 1999. Við bætist offramboð, raunlaunalækkun þar sem lífskjör stefna óðfluga niður fyrir það sem þau voru árið 2000, við bætist gríðarleg skuldsetning og erfitt aðgengi að lánsfé, atvinnuleysi og ótryggt atvinnuástand.
    http://datamarket.com/is/data/set/b/visitala-ibudaverds-a-hofudborgarsvaedinu#display=charts&ds=b|1ts=1c83&axis2=
    Þetta mun í raun þýða að hlutfall skattheimtu er enn verra.
    b) Ef verðbólga er 5%, vextir eru 6% þá er raunávöxtun ekki nema 1% en fjármagnstekjuskatturinn kemur á 6% þanning að það mun í raun stroka út eigið fé fjármagnseigenda.

    Saman mun þetta þýða gríðarlegan fjármagnsflótta frá skattalandinu Íslandi og í raun grafleggja nánast alla framtíðar uppbyggingu til að halda lífi í velferðarkerfinu sem mun soga til sín stærra og stærra hlutfall þjóðarkökunnar með þessu framhaldi.

    Það eru engir alvöru erlendir fjárfestar á Íslandi eins og þú hefur í raun gert góð skil áður.

  • Þessi skattlagning er möguleg í skjóli hafta á fjármagnsflutningum. Það er borin von að hægt verði að aflétta þessum höftum því á fer ekki aðeins fé útlendinga sem hér sitja fastir heldur einnig innlent sparifé.

    Svona skattkerfi ruglar alla eðlilega fjármagnsstarfsemi og mun verð næstu kynslóð dýrkeypt.

    Það er mjög varasamt að reyna að endurreisa fjárhag ríkisins með skattaaðferðum sem byggja á höftum.

    Við verðum að fara að líta til okkar nágranna. Éf skrifaði í apríl 2009 um þörfina að nota hlutföllin 2/3 niðurskurður og 1/3 skattahækkanir eins og Írar gerðu. Nú hafa Bretar ákveði að skera ríkisbáknið enn meira niður og þar verður niðurskurður 3/4 og skattahækkanir 1/4.

    Hér stefnir allt í að skattahækkanir verði 60% og niðurskurður aðeins 40%. Þessi aðferð lítur vel út til að byrja með en verður dýrkeypt síðar og mun leiða til lægri lífskjara. Ein afleiðingi verður veik haftakróna um ófyrirsjáanlega framtíð.

  • Íslensk stjórnmál og fjölmiðlaumræða snúast nær undantekningarlaust um aukaatriði. Sterkir og háværir þrýstihópar horfa á sína einangruðu hagsmuni.
    Fólk heldur að ástandið núna sé eðlilegt, það að við séum í skjóli IMF með gjaldeyrishömlur og krónumúr sem hefur í raun hindrað það að það hafi gjörsamlega skolað undan okkur þetta er ekki neitt framtíðarástand eins og sumir virðast halda.
    Trúverðugleikinn á íslensku efnahagslífi er í raun afspyrnu lítill og við sitjum ofan í ruslafötunni hvað varðar lánstraust og það er langur vegur upp úr henni.
    Undirstöður þessar svokölluðu endurreystu banka eru langtum verri en ég held að flestir geri sér grein fyrir enda virðist seðlabanki og viðskiptaráðherra vera í nokkurs konar pókerleik, láta flesta halda að ástandið sé betra en það er.

    Það segir sig sjálft að stórt og dýrt velferðarkerfi getur ekki lifað án stöndugs efnahagskerfis. Núna er velferðarkerfið að sjúga blóð úr efnahagslífinu og hagkerfinu.
    Sjávarafli er að dragast saman og 13% minni afli á fyrstu 6 mánuðum þessa árs en í fyrra.
    Sumarið varð talsvert betra hvað varðar ferðamannastraum en búist var við þegar eldgosið í Eyjafjallajökli lét sem verst.

    Dæmigert fyrir íslenskan strútahugsunarhátt er að gera lítið sem ekkert og stjórnarandstaðan er í raun litlu betri en þessi sundurlausa vinstristjórn. Hefur einhver heyrt eitthvað vitrænt frá Sjálfstæðismönnum eða Framsóknarmönnum, hvað ætla þeir að gera í ríkisfjármálum, hvað ætla þeir að skera niður?

  • Magnús Orri

    Þetta með niðurskurð á ríkisrekstri er bara tómt mál að tala um því pólitíkin er alltaf að hugsa um næstu kostningar og 4 ár er stuttur tími. Af þessum sökum ræðst engin að þessu nauðsinnlega verkefni vegna þess að þetta eru bara allt of mörg atkvæði í næstu rimmu.

    Eina raunhæfa lausnin á þessu er að koma fram með mjög mótaða áætlun um það hvernig fækkun/minnkun á ríkiskerfinu mun verða útfærð og hvaða efnahagslegar afleiðingar (hellst jákvæðar) þetta hefði. Gallinn er bara sá að það eru og mörg EF í efnahagskerfi landsins (og heimsins) til að svona áætlunargerð sé marktæk/raunhæf og því gildir 1. málsgrein þessa komments.

    ERGO: þetta er sennilega vonlaust mál nema að þeir sem eru við stjórnvölin beinlýnis sækist ekki eftir áframhaldandi setu við kjötkatlana og hvenær gerist það nú?

    Þetta er vissulega flókin staða.

  • Björn Kristinsson

    Stór hluti af bættri afkomu ríkissjóðs 2009 kom vegna útgreiðslu séreignar fólks í lífeyrissjóðum. Upphæð séreignasparnaðar almennings er um 200 milljarðar sem þýða auknar skatttekjur upp á 50-60 milljarða fyrir ríkið. Bið fólk einnig að hafa í huga að á sama tíma hefur skattprósentan aukist þannig að þessi útgreiðsla fer líklegra en ekki í hæsta þrepið – það þriðja.

    Hvað gerir síðan ríkið þegar fólk hættir að taka út séreignasparnaðinn ?

    Hvað gerist þegar fólk hættir að leggja til hliðar – spara þ.e. þeir sem hafa möguleika á því ?

    Hvað gerist þegar fjárfestar hætta að fjárfesta í nýsköpun vegna þess að skattastefna ríkisins er sífellt að breytast bæði á fjármagnstekjur, eignir og á lögaðila ?

    Þetta snýst ekkert um að vilja ekki taka þátt í að rétta hagkerfið við. Á meðan hið opinbera býður ekki upp á annað en flatan niðurskurð (sem er vitað að mun aldrei ganga upp) þá verður engin grundvallarbreyting á rekstri hins opinbera.

    Hið opinbera verður að að fara í grundvallar breytingar á því kerfi sem er fyrirliggjandi. Við höfum ekki efni á að reka kerfið eins og það er í dag. Þetta snýst ekki um einkavæðingu eins og margir myndu halda heldur hvernig við nýtum skattpeninga almennings. Við þurfum að spyrja erfiðra spurninga.

    Við þurfum einnig að hafa í huga að 20% af öllum tekjum ríkisins fer í afborganir af vöxtum – fjármagnskostnaður. Þetta er alvarleg staðreynd sem fer allt of lítið fyrir í umræðunni og er í reynd mesta einstaka hættan á því að ríkið fari í þrot.

  • Það er sem betur fer ákveðinn hluti af þjóðfélaginu sem á skuldlausar eignir. Því ber að fagna. Það eru til breið bök. Fjölgum þeim.

    Þessi hópur er að gera mikið gagn í hagkerfinu. Hann hefur innan sinna raða fólk sem hefur sýnt fyrirhyggju, aga og dugnað í sinni vinnu (jafnvel stofnað fyrirtæki og rekið þau með góðum árangri) nú þegar allt snýst um skuldir. Í hópnum er líka ráðdeildarsamt fólk sem á sínar húseignir skuldlitlar eða skuldlausar en skv. tölum er mikill meirihluti þeirra sem nú er gert að greiða eignaskatt eldra fólk sem ekki tók lán eða hefur greitt upp sín lán.

    Án þeirra væri þjóðin verr stödd. Best væri ef fleiri væru í þessum hóp sem gætu greitt háa skatta, viðhaldið neyslu og í mörgum tilvikum atvinnu fyrir sig og aðra. Það er til fólk í þessum hóp sem er meira en tilbúið til að bera auknar byrðar með sinni þjóð, mun gera það og er að gera það. Þá hlýtur tilgangurinn að vera sá að ástandið batni og að skattar lækki með tíð og tíma. Það er undarleg skoðun að óska þess að þetta fólk fari eða ala á neikvæðni í þeirra garð.

    Slík hugsun má ekki grafa um sig en hún þjónar því miður pólitískum áróðri þeirra sem nú stjórna landinu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og tveimur? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur