Föstudagur 20.08.2010 - 13:09 - 9 ummæli

Þjóðargjaldþrot ekki útilokað

Frankfurter Allgemeine Zeitung greinir frá því að þjóðargjaldþrot á Íslandi sé ekki útilokað og í raun líklegar en á Grikklandi þar sem ESB geti betur hjálpað Grikkjum.  Þetta er auðvita ekki góð greining í svona víðlesnu og virtu þýsku blaði enda eigum við líklega mest undir Þjóðverjum komið við endurfjármögnun lána í framtíðinni.  Hins vegar verður að segjast eins og er að líkurnar á þjóðargjaldþroti hér eru langt frá því að vera núll og því er nauðsynlegt að gera ráðstafanir í tíma til að bregðast rétt og fljótt við ef síga skyldi á ógæfuhliðina.

Líklegast er að viðvörunin komi frá OR, sem er eins konar kanarífugl í námunni.  Ef ekki tekst að semja um endurfjármögnun OR er voðinn vís.  Erlendir bankar munu þá vilja ganga að sínum veðum sem verður erfitt þar sem orkuauðlindir eiga að vera í íslensku eignarhaldi.  Þeir munu því búast við að ríkið taki OR eignarnámi en hafi enga burði til að greiða skaðabætur og því séu miklar líkur á að Ísland verði eins konar Venesúela Evrópu.

Þetta mun koma af stað keðjuverkun, krónan mun hríðfalla, bankarnir riða til falls, innflutningshöft verða sett á og gríðarlegur landflótti mun skella á.  Þetta er hin svartasta sviðsmynd sem verður að ræða en ekki stinga undir stól.  Líkurnar eru ef til vill ekki miklar en afleiðingarnar svo hrikalegar að ekki er forsvaranlegt að keyra á „við reddum þessu þegar þar að kemur“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

 • Væntanlega munu bankar endurfjármagna skuldir sínar til OR þar sem þeir gætu ekki gengið að veðunum sem eru gefin, en svo er spurning um framtíðar lánveitingar til OR eftir þetta og væntanlega yrði algjört stopp í vexti og framþróun OR svona svipað og staðan er hjá Landsvirkjun núna…

  Sammála ólíklegt að þetta gerist en þarft að hafa raunhæfa viðbúnaðaráætlun.

 • Sauradraugur

  Þetta scenario hafa vísir menn verið að draga upp frá því fyrir hrun, því margir voru búnir að vara við fáránlegum skuldsetningum landsmanna. Því miður eru alla líkur til þess að þessir sorglegu hlutir verði að veruleika, ekki síst ef fólk ætlar að ganga til samninga um aðild að Evrópusambandinu með því hugarfari (Ögmundísku!) sem hér virðist tröllríða allri umræðu. Ef við værum að tala við Evrópusambandið í fúlustu alvöru en ekki einhverjum leikaraskap, væru minni líkur til að erlendar fjármálastofnanir gengju að fyrirtækjum okkar og ríkissjóði sem ábyrgðaraðila.

 • Það eru nákvæmlega ENGAR líkur á að landið verði gjaldþrota, ENGAR. Hugsanlega þarf að skrúfa niður lífskjörin og draga saman seglin, en svona hræðsluáróður er eitthvað sem varla er svaravert.

  Reyndar er þessi ríkisstjórn sú slappasta sem sést hefur síðan lýðveldið var endurreist á Íslandi, en jafnvel þessi ömurlega ríkisstjorn getur ekki sett Ísland á hausinn.

 • Jóhannes

  Það eru ansi litlar líkur á eiginlegu þjóðargjaldþroti á Íslandi.

  Hinsvegar er líklegt að almenn lífskjör hér verði þó nokkuð lakari hér en í helstu nágrannalöndum okkar á næstu árum, t.d. hinum Norðurlöndunum. Hérlendis er margt óuppgert, skuldir hins opinbera verða mjög miklar á alla mælikvarða sem mun taka töluverðan toll úr hagkerfinu, bankakerfið er að mestu óuppgert og mikil óvissa um hvort bankarnir séu rekstrarhæfir til lengri tíma án utanaðkomandi stuðnings, eftir er að taka á stórum hluta af tæknilega gjaldþrota einkafyrirtækjum í rekstri, osfr osfr. Kaupmáttur ráðstöfunartekna einstaklinga er að minnka og töluverður hluti fólks nær saman endum með því að ganga á sparnað.

  „Norræna velferðarstjórnin“ er afar slæm ríkisstjórn í sögulegu samhengi, en það versta við hana er að hún virðist vera andsnúin atvinnurekstri af flestum toga. Það mun einfaldlega hefna sín í lífskjörum almennings til lengri tíma.

  En þjóðin á það einfaldlega skilið sem hún kýs yfir sig.

 • Til að vinna okkur út úr þessu þá þurfum við tímabundið að gefa eftir prinsipinn og hugsa til langstíma. Þarna getur lausnin verið að veðsetja eignir, samninga og auðlindir á meðan lánin eru greidd á næstu 20-30 árum. Efast hinsvegar um að almennir pólitíkussar hafi kjarkinn sem vantar til þess. Jafnframt er hægt að setja lög sem leyfa ekki slíkt í framtíðinni ef menn vilja

 • Kristinn M Jónsson

  Andri Geir: Þetta eru stórmerkileg skrif hjá þér og ekki síðri en grein þýska blaðsins, en hver gæti viðbúnaðar áætluninn verið ? Verðum við ekki að búa okkur undir það versta, eða hvað ? Það tók ekki margar mín á haustdögum 2008 þegar kerfið hrundi, ekki gat maður látið sér detta það í hug. Gott væri að heyra frá fleirum um mögulegt þjóðargjaldþrot landsins.. og hvað sé til bragðs að taka í tíma.

 • Það er reyndar sagt að stór hluti lána til OR séu án veða. Greiðslufall myndi þýða að Reykjavíkurborg yrði að bregðast við. Það mætti leysa með laufléttum nefskatti á hvern Reykvíking.

  OR fer því ekki í eigu kröfuhafanna. En Reykvískar fjölskyldur gætu þurft að blæða fyrir hrikalega fjármögnunarstefnu fyrirtækisins.

 • Andri Haraldsson

  Miðað við hversu mörg og stór vandamál þjóðarinnar eru, þá er þetta nú frekar akademískt á meðan AGS er í raun þrautalánveitandi landsins. Það þyrfti virkilega að gera gloríur til að ýta AGS í burtu og loka línunum. Ég vona samt að í seðlabanka og fjármálaráðuneyti sé einhver sem hefur reynt að búa til líkan sem finnur veiku punktana sem geta sett af stað þá keðjuverkun. Til að af þessu yrði, þyrfti væntanlega að verða einhvers konar utanaðkomandi krísa ásamt hugsanlega náttúruhamförum eða slysi í landhelginni.

  En greiðslufall er hins vegar allt annað mál. Það er alveg hægt að ímynda sér að einhver aðili sem er ekki íslenska ríkið, en sem er álitinn njóta bakstuðning ríkisins (eins og félög í eigu bæjarfélaga, eða ríkisfyrirtæki) verði fyrir greiðslufalli á næstu árum vegna þess að íslenskir bankar geta ekki séð um endurfjármögnun, og erlendir bankar væru ekki reiðubúnir til að taka að sér verkefnið, og ríkið ekki í stakk búið til að gefa út ábyrgð. Þetta er kannski ekki svo ólíklegt.

 • Ég tek undir með Andra Geir og Kristni M Jónssyni. Það er ekki úr vegi að hugsa um það sem getur gerst ef ekki tekst að endurfjármagna OR. Og hvað með Landsvirkjun, er hún komin fyrir vind.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fjórum? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur