Sunnudagur 29.08.2010 - 08:13 - 21 ummæli

2 stelpur og 1 strákur

Kynjahlutfall í mörgum framhaldsskólum landsins stefnir í 2 stelpur á móti hverjum strák.  Í lauslegri könnun á nýnemum í MR kemur í ljós að um 64% eru stúlkur og 36% piltar, tveir bekkir eru eingöngu skipaðir stelpum.  Er þetta jafnrétti?

Það er alveg greinilegt að grunnskólinn er að bregðast drengjum.  Möguleiki þeirra á topp framhaldsmenntun er nær helmingi minni en hjá stelpum.  Hvers konar menntakerfi er það sem „síar“ út helminginn af öðru kyninu á grunnskólastigi og rænir það framhaldsmenntunarmöguleikum?  Getum við verði stolt af svona kerfi?

Er eðlilegt og rétt að rétta af stöðu kvenna í þjóðfélaginu með því að skekkja menntunarmöguleika sona þeirra?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (21)

 • Villi Gunnarsson

  Það er alveg hárrétt að eitthvað er verulega brogað við grunnskólamenntun drengja. Smátt og smátt hefur sigið á ógæfuhliðina. Það versta er þó, að ef vakin er athygli á þessu þá endar það í einhverri undarlegri jafnréttisumræðu sem snertir aldrei kjarna málsins. Það er nefnilega bara ein ein rétt skoðun á jafnrétti kynjanna.

 • Þetta er nú meiri rökleysan. Kannski hefur uppeldi foreldra drengja brugðist. Kannski hefur þjóðfélagið brugðist. Ég hugsa að grunnskólanum sé ekki um að kenna. Þú þarft að leita annarra skýringa.

 • Og það er nú ekki fallegt af þér að ýja að því að þetta sé allt konum að kenna.

 • Í fyrsta bekk Austurbæjarskóla er hlutfallið reyndar þrjár stelpur á móti einum dreng. Þetta eru stórfurðuleg hlutföll í öllum stigum menntakerfisins. Hvað er í gangi?

 • Ólafur,
  Við verðum að horfa á staðreyndir. Ef það er ekki hlutverk grunnskólans að undirbúa nemendur undir framhaldsnám, hvað er þá hlutverk hans?

  Hin staðreyndin er að yfirgnæfndi fjöldi kennara í grunnskólanum eru konur, það vantar algjörlega fyrimyndir þar fyrir drengi. Þetta er ekki konum að kenna heldur miklu fremur körlum.

  Enginn er yfir gagnrýni hafinn og þar með grunnskólinn og kennarar þar. Þetta mál verður að ræða á málefnalegum grunni þar sem staðreyndir eru hafðar að leiðarljósi.

  Einn hluti af málefnalegri umræðu er að kasta fram vandræðalegum og ögrandi spurningum.

 • Ég held að þú ættir nú frekar að reyna greina orsakir þess að kynjahlutfallið er svo skakt heldur en að gefa þér að þetta sé bein afleiðing þess að staða kvenna í samfélaginu hafi verið „rétt af“ á undanförnum árum (samanber síðustu málsgrein þína).

  Gæti nú ekki verið fleiri ástæður sem lægju að baki? Eru ekki fleiri atvinnumöguleikar sem bjóðast drengjum á menntaskólaaldri heldur en stúlkum á sama aldri. Ef ég miða við mína samnemendur frá grunnskóla, þá man ég eftir þónokkrum drengjum sem urðu hásetar á togurum eða völdu að vinna önnur líkamlega erfið störf (ss. í byggingarvinnu eða við vöruflutningar) í stað þess að halda beint áfram í framhaldsskóla að grunnskóla loknum. Flestir þessara drengja ílengdust svo á vinnumarkaðnum í stað þess að hefja nám að nýju.

  Ég held að það séu atvinnumöguleikar ungra drengja (fyrir erfiðisvinnu) sem hafi einnig nokkuð það að segja um það hversu skakt hlutfallið milli kynjanna er í framhaldsskólum. 120þús í útborguð laun er rosalega mikil upphæð fyrir 16 ára ungling nýkomin á vinnumarkaðinn og þess vegna er freistingin mikil.

  Það er eflaust hægt að tína mörg atriði sem hafa áhrif, en allaveganna finnst mér það vera of einföld greining á þessu „trendi“ að skella þessu alfarið á jafnréttisbaráttu undanfarinna ára.

 • Hjörtur,
  Ég er ekki að skella neinu á neinn, aðeins að velta upp ögrandi spurningum sem byggja á staðreyndum.

  Hin spurningin sem menn verða að velta fyrir sér er hvers vegna eru kynjahlutföllin svona skökk í bestu menntaskólum landsins. MR er vinsæll og þar þarf góðar einkunnir til að komast inn. Hlutföllin þar benda til að grunnskólinn búi stúlkur mun betur undir framhaldsnám en drengi.

  Jafnréttisbarátta framtíðarinnar mun snúast um að veita strákum sömu möguleika til framhaldsnáms og stúlkum.

 • Hjörtur: Er s.s. í góðu lagi að strákar fari bara beint í störf sem ekki krefjast mentunar? Skerðir það ekki möguleika þeirra í framtíðini? Mér finnst að það þurfi að hvetja þá í nám til jafns við stelpurnar.

 • Svo er hlutfallið svipað í Háskólanum.

 • Bjarki: Ég var einfaldlega að benda á annan þátt sem hugsanlega gæti spilað inn í hin skökku kynjahlutföll í menntaskólum landsins. Ég er að sjálfsögðu fylgismaður þess að allir séu hvattir til áframhaldandi náms sem passar viðkomandi.

 • Anna María

  Þetta hefur verið í umræðunni um tíma, aðallega hefur þó verið talað um að konur séu í meirihluta háskólanema en nú er farið að ræða um framhaldsskólana. Í mínum huga er dálítið klikkað að benda á gunnskólana eina sem orsakavald í þessu eða að konur séu í meirihluta kennara. Þetta snýst um samfélagsmyndina alla. Þegar ég var ung voru krakkar frjálsir í frítíma sínum og lærðu af lífinu. Krakkar fengu útrás fyrir hreyfiþörf sína og forvitni. Í dag er allt niðurnjörfað og nánast allt frjálsræði í hugsun talið hættulegt. Í ljósi þeirrar hættuumræðu er tilveran máluð svo svört að allir sem ekki eru myrkranna á milli í íþróttum, tónlist, dansi eða öðru slíku rammskipulögðu eru á stórhættulegri braut. Ég veit sem kennari og móðir að drengir þurfa „almennt“ meira á því að halda en stúlkur að hreyfa sig rækilega. Það hefur eflaust eitthvað með hormon að gera að kannski finnst ungum mönnum það lausn á unglingsárum, í nútímanum að losna úr skólagöngunni og fá útrás í „erfiðisvinnu“ í meira mæli en stúlkurnar. Ég legg þetta svona til umræðunnar

 • Andri: Þú sem verkfræðingur, hvaða skoðun hefur þú á hinum griðarlega skökku kynjahlutföllum innan verkfræði og almennt innan raungreinafaga í háskólum landsins (og reyndar um allan heim)? Í þeim greinum er algengt ap ca. 90% nemenda séu karlkyns.

  Getum við verði stolt af þannig kerfi?

 • Sælir

  Ég vann sem aðstoðarkennari í grunnskólum í Noregi á tíma sem kerfisfræðingar fengu engin störf og án þess að hafa nokkur gögn mér til halds en þá leit þetta ósköp svipað út þar og hérna að ég tel. Allt umhverfið og námið var að svo miklu meira leyti miðað við þarfir stelpna en stráka. Flest starfsfólk var konur og mér fannst það engan vegin ná til strákanna og meðhöndla öll agamál svo illa að þau leystust í raun aldrei, það var svo bara allt í lagi að flestum fannst.

  Allt sem snéri að strákum og karlgildum var í raun úthýst og sama hversu lítið t.d. strákar gerðu var þeim alltaf hælt og klappað á öxlina fyrir engan árangur en sama sálfræði virtist virka mun betur á stelpur.
  Þetta er bara brot af þeirr upplifun sem ég hef þaðan sem kennari en öll „sálfræði“ skólanna þarna var engan vegin að gera sig fyrir stráka og konunum virtist bara finnast þetta í lagi.

  Það stórhallar á allt nám gagnvart drengjum og þetta ástánd endurspeglast í þessari tölfræði sem er nefnd hérna og þetta er með öllu ólíðandi og ótrúlegt að þetta mál fái ekki meiri athygli.

  Með þetta að leiðarljósi spyr maður sig hvort að kvennréttindabarátta sé ekki að þróast út í kvennvaldabaráttu því þessi menntamál ásamt endalausu jafnrétti gegnum kynjakvóta að ofan í vel launuð þrifaleg störf með dreifða ábyrgð getur ekki talist jafnrétti.

  Simon

 • Hans Haraldsson

  Hvernig lítur heildartölfræðin út ef iðnnám er tekið með í reikninginn?

 • Ragnheiður Kristjánsdóttir

  Eru einhverjar tölur um það að hvert hlutfall stráka og stelpna sem sóttust eftir að komast að í M.R er. Ég útskrifaðist fyrir 15 árum úr M.R og þá voru einnig skökk kynjahluföll og ofast einn til tveir stelpubekkir í hverjum árgangi. Það þótt betra að hafa heila bekki eingöngu stúlkur frekar en að hafa ójafnt kynjahlutfall í öllum bekkjum vegna leikfiminnar. Huganlega sækjast stelpur frekar í bekkjarkerfi en strákar.
  En þetta vekur margar spurningar. Hefur mikið breyst á stuttum tíma. Hefur drengjum fækkað í framhaldsskóla eða hefur stúlkum fjölgað. Hið nýja „opna kerfi“ sem er í mörgum nýjum skólum hentar það drengjum verr osfrv. Mér skilst að Reykjvíkurborg hafi stofnað nefnd til að athuga stöðu drengja í grunnskóla það verður áhugavert að sjá niðurstöður hennar.

 • Ég kenni stærðfræði og eðlisfræði í 8.10. bekk og því miður er mín reynsla að stelpur standa sig yfirleitt betur. Ég hefði kosið að betra jafnvægi væri milli kynja varðandi námsárangur. Samt reyni ég að höfða til strákana varðandi kennsluaðferðir.
  Þennan kynjamun varðandi námsárangur þarf að rannsaka.

 • Jón Skafti Gestsson

  Á þetta hefur svo sem verið bent margoft undanfarin ár. Það virðist bara vera þannig að jafnréttisstofur og -ráð séu læst fangar þeirrar hugsunarvillu að kvenframi sé jafnrétti. Þannig er það í raun að nánast öllu orka fer í það að auka veg ungra kvenna. Vandamál drengja og ungra karla koma málinu að því virðist ekki við því karlar hafa það víst svo miklu betra í samfélaginu.
  Þetta er alla vega mín upplifun af því að reyna að ræða þessi mál í gegnum tíðina.

 • Það stefnir í að sonur Sóleyjar Tómasdóttur geti með tíð og tíma orðið jafn skeleggur talsmaður jafnréttis kynjanna og móðir sín!!

  Fyrir hönd síns kyns!

  Og kannski blammerað móður sína fyrir misrættið sem hann sætir?

 • Anna María

  Einsog ég sagi hér ofar held ég að skýringuna á þessu sé ekki alfarið að finna innan grunnskólanna. Ekki nema að því leyti að þeir eru partur af samfélaginu. Leikskólarnir, foreldrarnir og kröfur samfélagsins alls, um ófrelsi og hreyfingarleysi eru að mínu viti ástæðan fyrir þessu. Til að strákar blómstri þurfa þeir að fá að hreyfa sig og vera frjálsir. Stelpur virðast almennt bregðast öðruvísi við kröfum um kyrrsetu fyrirkomulag og fyrirfram ákveðið skipulag allan sólarhringinn. Þær virðast almennt þola það betur.
  Ég held líka að strákar sem lenda í þessu líkamlega útrásarleysi, detti oft ofan í að verða tölvufíklar, hanga sólarhringana út í tölvunni, fá litla sem enga hreyfingu og lítinn svefn. Það er ekki góður lífsmáti ef vel á að ganga í skólum. Þetta er vandi nútímans og mér finnst ferlega ódýrt að kasta ábyrgðinni af því á konur eða grunnskólana. Hugsið nú aðeins út fyrir rammann og sjáið hvernig umhverfi barna hefur breyst rosalega síðustu árin og áratugina.

 • Þetta er þörf ábending hjá Andra Geir en ég held að þetta sé margþætt vandamál með óteljandi anga. Ég td. fór þá leið að fara í Iðnskólann fyrst og síðar í Meistaraskólann og reka fyrirtæki í byggingariðnaði. Þegar lánærið var að hefja innreið sína setti ég fyrirtækið, sem var annars í góðum rekstri í „salt“, og fór í háskólanám erlendis (fyrst BSc og síðar MSc) og lauk námi með góðum árangri.

  Á mínum grunnsólaárum var ég talin latur og jafnvel „tossi“ því þetta höfðaði bara ekki til mín. Vandinn var bara ekki að ég gæti þetta ekki, þetta var bara ekki spennandi program. Ég tel að áhugaleysið hafi stafað af miklum áhuga á öðru en því sem kennt var í skólanum s.s. útivist og tölvum enn ekki síður var þetta vegna þess að kennararnir voru bara ekki í tengslum við praktíska þátt lífsins og því fór sem fór.

  Stór hluti annarra sem voru með mér í árgagni fór í menntaskóla og síðan hefur lítið sést til þeirra (veit bara ekki hvað þeir eru að fást við).

  Ég hef því verið einn að þeim sem bjó til þessa skökku mynd án þess að vera endilega ekki efni í menntamann. Það vantaði bara eitthvað.

 • Sauradraugur

  Það vantar nú smávegis inn í þetta. T.d. hvernig hlutfallið milli kynja er í þessum árgöngum, hversu margir eru í verknámi o.s.frv. Það er svolítið athugunarvert hvað áherslan er mikil á bóknám hér á landi, það er enn í fullu gildi sá hugsunarháttur, að helst allir þurfi að ljúka prófi í viðskipta- eða hagfræði, að maður tali nú ekki um lögfræði. En við þurfum ekkert síður á því að halda að fólk mennti sig á sviði verknáms. Það vill nú svo til að þær greinar eru líklegar til að stuðla að aukinni framleiðni´og framleiðslu í þjóðfélaginu og af því veitir okkur ekkert. En það er ekkert til að óttast að konur mennti sig fyrir stjórnunarstöðurnar og taki við þeim í auknum mæli. Karlarnir sjái hinsvegar um þau verkefni í meiri mæli sem þarfnast góðra handtaka og líkamlegra burða.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fimm? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur