Laugardagur 04.09.2010 - 11:20 - 10 ummæli

Enginn vill Þjóðhagsstofnun?

Nýlegar tölur frá Hagstofunni sem stangast á pólitískar glansmyndir Jóhönnu og Steingríms sýna enn eina ferðina, fram á nauðsyn þess að endurreisa Þjóðhagsstofnun.  Enginn stjórnmálaflokkur berst fyrir að hér rísi óháð og sjálfstæð stofnun sem geti sett fram þjóðhagsspár byggða á bestu fáanlegum staðreyndum en ekki pólitískum spuna.

Davíð lagði þessa stofnun niður vegna þess að hún passaði ekki inn í mynd sjálfstæðismanna og framsóknar og það sama virðist vera upp á teningnum núna hjá vinstri grænum og samfylkingunni.  Aldrei á orðtakið, „það er sami rassinn undir öllum stjórnmálamönnum“, betur við en þegar rætt er um Þjóðhagsstofnun.  Stjórnmálamenn allra flokka vilja jú mata kjósendur á sínum upplýsingum og ekki hafa einhverja sem geta spillt þeirri matreiðslu.  Allt tal um að Seðlabankinn eða ráðuneytin sinni þessu starfi er ótrúverðugt eins og tölur Hagstofunnar sýna.

Hagstofan er ein af fáum opinberum stofnunum sem enn nýtur trausts og virðingar, en Hagstofan horfir aftur í tímann, á meðan Þjóðhagstofnun horfir fram á veginn.  Þessar tvær stofnanir eru undirstaða áreiðanlegra efnahagsupplýsinga í öllum löndum þar sem hagstjórn er rekin á ábyrgan hátt.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Mörður Árnason

    Jú — það er einmitt mikill áhugi á að koma aftur upp Þjóðhagsstofnun. Þetta er einn af punktunum tuttugu sem fram voru settir við breytingarnar á ríkisstjórninni. Þegar hun kemst á fót er grundvallarmál að hún sé algerlega sjálfstæð. Mér finnst koa til greina að hun heyri undir alþingi, ekki framkvæmdavaldið, og að í stjórnina veljist að meirihluta erlendir fræðimenn einsog Þórólfur Mattthíasson hefur lagt til. — Það átti sinn þátt í hruninu að Davíð skyldi leggja Þjóhagsstofnun niður á sínum tíma, við þurfum að fá slíka stofnun aftur.

  • fridrik indridason

    ruglið í kringum mælingar á landsframleiðslunni að undanförnu sýna betur en allt annað hve mikil þörf er á þjóðhagsstofnun. hagstofan virðist ekki ráða við þessar mælingar. skekkjan er sláandi hjá hagstofunni á milli bráðabirgðatalna sem sýndu hagvöxt á fjórða ársfjórðingi 2009 og þeim fyrsta í ár og svo endanlegum tölum sem sýna töluverða niðursveiflu.

  • Gunnar Axel Axelsson

    Gerð þjóðhagsspár hefur reyndar verið færð úr Fjármálaráðneyti til Hagstofunnar og er nokkuð síðan það gerðist. Hagstofan horfir því ekki lengur aðeins til baka heldur líka fram. Það er hins vegar spurning hversu gott það er að hafa spágerð og hagskýrslugerð undir sama þaki, en þannig var það reyndar að hluta í gömlu Þjóðhagsstofnun. Um þetta eru skiptar skoðanir.

    Þessi umræða um endurreisn Þjóðhagsstofnunar er skiljanleg en hún er því miður alltof lituð af fortíðarþrá og of litlum skilningi á núverandi aðstæðum.

    Það sem helst til virðist skorta er sjálfstætt starfandi hagdeild sem þjónað getur löggjafarvaldinu og það ætti að skoða hvort ekki sé tilefni til að efla þann þátt í störfum alþingis.

  • Þjóðhagsstofnun er eitthvað sem nægir að huga að eftir ca. 5 ár, þegar búið verður að skipta út flestum núverandi þingmönnum. Við sáum það að skýrslan hefur engin áhrif haft. Helstu leikarar í henni eru enn á sviðinu og hafa hátt. Dómsmálaráðuneytið með sinn vinsæla ráðherra prumpaði ekki einu sinni þegar lánafyrirtæki og innheimtumenn þeirra gengu í skrokk á almennum skuldurum. Við lásum framhaldssögur um hverskyns hryðjuverk vörslusviptingarfyrirtækja og lögfræðinga á borgurum þessa lands og jafnvel eftir Hæstaréttardóminn.
    Það virðast ekki gilda nein lög þegar bankar og fjármálafyrirtæki eru annarsvegar. Hvað sérðu Þjóðhagsstofnun gera inn í þennan veruleika? Einn álitsgjafinn enn?
    Á stundum hvarflar að manni að í árdaga hrunsins hafi eigendur fjórflokksins handsalað samkomulag um að leyfa stóru kröfuhöfum bankanna að fara sínu fram eins og þeim hentaði og AGS sæi um að við framfylgdum því. Að öðrum kosti færu neyðarlögin fyrir dómstóla og þá færi þjóðin aftur á steinöld.

  • Þetta er örvænting áttavilltrar ríkisstjórnar.

    Steingrímur og Jóhanna hafa barið bumbur á torgum yfir góðum viðsnúningi og hagvexti þegar í ljós kom að Ísland er áfram á fleygiferð inn í kreppuna, öfugt við aðrar þjóðir. Þau vita einfaldlega greinilega ekki hver staðan er og ráfa um áttavillt í þokunni.

    Það er örugglega fínt að fá þjóðhagsstofnun aftur, en hún leysir engan vanda. Aðalástæðan fyrir því að kreppan heldur áfram er fullkomin vantrú á ríkisstjórninni og gjörðum hennar, innanlands sem erlendis. Í stað þess að skapa forsendur fyrir uppbyggingu atvinnulífs hefur hún sáð fræjum tortryggni og andúðar á atvinnustarfsemi og skapað andrúmsloft mikillar óvissu.

    Það er verulegt fjármagn í landinu til fjárfestinga og uppbyggingar. T.d. eru um 1.500 milljarðar í innistæðum í bankakerfinu, auk annars peningalegs sparnaðar í verðbréfum. Mest af þessu er í eigu íslenskra aðila. Þetta fé er greinilega ekki að leita sér leiða í fjárfestingar eða til annarrar uppbyggingar, enda væri það í mörgum tilfellum glórulaus áhætta við núverandi aðstæður. Líklegt er að töluvert af þessu fé fari í traustar erlendar fjárfestingar á næstu árum, verði slíkt heimilað.

    Það ku vera opinbert leyndarmál að meðal erlendra fjárfesta sem sýnt hafa áhuga á Íslandi á undanförnum árum séu afar fáir alvöru aðilar og raunveruleg tækifæri eru í reynd fá. Markaðssetning ríkisstjórnarinnar gagnvart þessum fáu alvöru aðilum hefur verið með eindæmum enda ljóst að lítill áhugi er fyrir hendi miðað við þá áhættu og vesen sem felst í fjárfestingu hérlendis.

    Ríkisstjórnin þarf ekki á nýrri þjóðhagsstofnun að halda, nema þá helst til að koma henni í tengsl við raunveruleikann. Það þarf ekki nýjar úttektir. Það þarf skýra stefnu og aðgerðir til að skapa hvetjandi efnahags- og rekstrarumhverfi fyrir atvinnulíf og einstaklinga sem leiðir til eflingar atvinnulífs og hagvaxtar. Hagvöxtur er ekki áhugamál þessarar ríkisstjórnar. En stóraukinn hagvöxtur er einfaldlega bráðnauðsynlegur ef Íslendingar eiga ekki að dragast verulega aftur úr öðrum þjóðum í lífskjörum á næstu árum. Ný þjóðhagsstofnun skapar engan hagvöxt.

  • Meðal atvinnuleysi í maí til júlí 2009 var 8,3% en á sama tíma í ár er það 7,8%. Þetta er bein óháð mæling á hagkerfinu myndi ég ætla. Við þurfum alveg tvímælalaust þjóðhagsstofnun óháða framkvæmdavaldinu og ekki eftir neinu að bíða.

  • Efnahagsstefna verður ekki mörkuð nema með góðum gögnum og staðreyndum. Þjóðhagsstofnun er áttaviti sem segir okkur hvort við séum að fara rétta leið. Án áttavita í þoku fara menn í eindalausa hringi.

    Menn eiga að muna að klukka sem ekki gengur, er samt sem áður alltaf rétt tvisvar á dag! Þetta halda margir að sé nóg!

  • Tek undir með Merði Árnasyni og bendi á að það er einn af 20 áherslupuntun við breytingar á ríkisstjórn að koma Þjóðhagsstofnun aftir upp.
    Það er því ekki rétt að einginn vilji koma henn aftur á fót, enda er slík stofnun nauðsynleg fyrir stjórn landsins hverju sinni.

  • Ragnar Thorisson

    Já hefur ekki sagan sannað að ríkisstofnanir sem eiga að boða hinn heilaga sannleika, séu farsælar.
    þá er bara að koma réttu mönnunum inn, og bingó,,,,,,,,,,sannleikurinn gerir yður frjálsa.

  • Eitt er að tala um að endurreisa Þjóðhagsstofnun einhvern tíma í framtíðinni, það er allt annað að gera það. Það vantaði ekki hraðann þegar FME og Seðlabankinn voru tekin í gegn, en ekkert liggur á að endurvekja þá stofnun sem á að hafa eftirlit með efnahagsstjórnun landsins.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og þremur? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur