Fimmtudagur 09.09.2010 - 14:48 - 19 ummæli

Simbabve norðursins

Samkvæmt nýrri skýrslu World Economic Forum er Ísland það land á norðurhveli jarðar þar sem minnstan þjóðhagslegan stöðuleika er að finna.  Á suðurhveli er Simbabve með þennan vafasama heiður.  Þetta hljómar ótrúlega, en hvað er það sem fellir Ísland.  Samkvæmt skýrslunni eru það sex þættir:

  1. Ríkishallinn sem er sá versti af öllum 139 löndunum
  2. Háar skuldir ríkissjóðs
  3. Mikil verðbólga
  4. Lítill sparnaður sem hlutfall af landsframleiðslu
  5. Hár mismunur á milli útláns- og innlánsvaxta
  6. Lélegt lánstraust

Auðvita hefur ýmislegt unnist í þessum málum hjá ríkisstjórninni með tilstuðlan AGS, en þessar tölur tala sínum máli, á ákveðnum tímapunkti var staðan þessi.  Hins vegar sýnir svona skýrsla hversu afleitt það er að hafa ekki sjálfstæða og viðurkennda Þjóðhagsstofnun sem getur miðla upplýsingum til erlendar aðila og sett svona skýrslur í rétt samhengi.  Seðlabankinn og íslensku ráðuneytin hafa ekki traust eða trúverðugleika til þessa verks, enda sýndi sú vandræðalega staða nýlega þegar fjármálaráðherra og Hagstofan voru á öndverðum meiði varðandi hagvöxt, best, hversu erfitt það er að fá trúverðugar og tímanlegar upplýsingar um íslenska hagkerfið.  Í augnablikinu er það aðeins AGS sem getur miðlað traustum og trúverðugum upplýsingum, það er sú eina stofnun sem hefur alþjóðlega viðurkenndan gæðastimpil hér á landi.

En aftur að skýrslunni, því þar er ýmislegt annað að finna.  Til dæmis er athyglisvert að skoða hvað erlendir aðilar telja helstu vandamál við atvinnusköpun á Íslandi.  Þar eru topp 5 atriðin þessi:

  1. Lélegt aðgengi að fjármagni
  2. Gjaldeyrishöftin (sem eru númer 137, aðeins 2 önnur lönd hafa strangari höft en Ísland)
  3. Verðbólga
  4. Skattar
  5. Pólitískur óstöðuleiki

En það er ekki allt svart í þessari skýrslu, þegar kemur að netaðgangi í skólum er Ísland í fyrsta sæti.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

  • Andri Haraldsson

    Jamm, íslenskir skólakrakkar hafa amk. góða aðstöðu til að finna vinnu. Geta leitað á Internetinu eftir störfum erlendis. Kannski innan ESB…

  • Jóhannes

    Þetta virðist vönduð skýrsla og staðreyndirnar tala sínu máli.

    Einn stærsti vandi þjóðarinnar er líklega sá stjórnvöld, alþingi og allnokkur hluti þjóðarinnar er í bullandi afneitun. Gott dæmi um það var „landris“ fjármálaráðherra, sem reyndist langstysta hagvaxtarskeið sem sögur fara af.

    Því er full ástæða til að halda þessum niðurstöðum á lofti og í umræðunni næstu misserin.

  • Hvað gerir „norræna velferðarstjórnin“ nú?

    Norðurlöndin eru öll í efstu sætunum.

    En nei, samanburður við Norðurlönd hentar bara stundum.

    Til að auka skatta og forræðishyggju.

    En að tryggja íslendingum sömu kjör og rðéttindi og fólk nýtur á Norðurlöndum?

    Nei það er nefnilega ekki á dagskránni.

    Aðeins að auka ríkisafskiptin og forræðishyggjuna.

    Ómerkilegur málflutningur þessa fólks er þjóðarskömm.

  • Ég er ósammála Jóhannesi hér að ofan. Ég er aðeins búinn að fletta í skýrslunni og mér sýnist hún vera mjög illa unnin, a.m.k. sumir hlutar hennar. Eitthvað virðist byggt á hagtölum en ótrúlega margt lítur út eins og illa unnin skoðanakönnun.

    Einhvern tíman var birt „skýrsla“ sem sýndi að Íslendingar voru hamingjusamastir í heimi. Í annarri var Ísland óspilltasta land í heimi. Það var mikið rætt um það en það var náttúrulega marklaust kjaftæði.

    Kíkið á bls. 368 og nokkrar þar á eftir. Ísland fær þar mjög jákvæða einkunn fyrir hluti eins og:
    – Diversion of public funds
    – Irregular payments and bribes
    – Public trust of politicians
    – Favoritism in decisions of government officials
    – Transparency of government policymaking
    – Ethical behavior of firms
    – Quality of roads
    – Quality of primary education
    – Quality of the educational system
    – Quality of math and science education
    – Quality of management schools
    – Effectiveness of anti-monopoly policy
    – Buyer sophistication
    – Brain drain
    – Quality of scientific research institutions

    Ég get ekki tekið mikið mark á þessu.

  • Það er vissulega erfitt ástandið hérna en á samt ekkert sameiginlegt með Simbabve. Maður hefur oft lesið heimsendaspár um Íslenskt efnahgaslíf en ekki hafa þær gengið eftir. Hagfræðingur jyske bank lét hafa eftir sér á TV2news eftir hrun að þeir gerðu ráð fyir 75% verðbólgu og 20% atvinnuleysi á Íslandi. Atvinnuleysistölur sem er reyndar að finna innan ESB en hvorki verðbólgan né atvinnnuleysið hefur náð þeim hæðum hér.

    Ef hrunið kenndi okkur eitthvað þá er það óáreiðanleiki „skýrslna“ um ágæti einhvers umfram aðra. Við vorum í plússandi sókn hjá öllum þessum „sérfræðingum“ þar til að allt hrundi.

    Ástandið er mjög slæmt á Íslandi en þessi vinsældarlisti segir manni ekki neitt. Danir sem taldir eru hafa komist vel frá krísunni eru í bullandi erfiðleikum með að ná endum saman. Hvort sem það er ríki eða sveitarfélög. Þriðjungur sveitarfélaga leita við að hækka útsvarið.

  • Svona er heimurinn, ekki eru allir ánægðir. Hins vegar er svona skýrsla litin allt öðru auga erlendis, hverju eiga menn að trúa þar. Útlendingar lesa ekki íslensku og geta því ekki sett sig vel inn í hlutina hér. Þess vegna er svo bagalegt að hafa ekki Þjóðhagsstofnun til að taka faglega á svona hlutum.

    Íslendingar geta tuðað hvað þeir vilja, en hver hlustar?

  • Sæll Andri,

    Er þessi skýrsla virkilega tekin alvarlega? Ég spyr nú bara sem almennur borgari sem hefur ekki hundsvit á þessum málum.

    Ef tölurnar eru svona langt frá raunveruleikanum fyrir Ísland, þá veltir maður fyrir sér hvort það sé almennt svo í skýrslunni, eða hvort íslenski hlutinn sé svona illa unninn. Það er hálf ömurlegt til þess að hugsa að þeir sem segjast vera fagmenn í þessu noti svona gögn til að taka ákvarðanir og veita ráðgjöf.

    Bestu kveðjur,

    Eiður

  • Andri Haraldsson

    Eiður-

    Ég er sammála því að Ísland virðist ofmetið á þessum sviðum. En ekki bætir það málið að Íslendingar séu ófærir um að horfa gagnrýnum augum á eigin mál? Eða að staðan sé jafnvel verri en skýrslan segir? Það kann að vera að fyrir smærri lönd eins og Ísland (eitt af þremur minnstu hagkerfunum í könnuninni) sé erfitt að treysta öllu sem þarna er sagt — en þetta er samt aðgengilegur og ókeypis gagnagrunnur sem fólk nýtir sér.

    Þar fyrir utan, eins og Andri Geir bendir á, þá stendur Ísland illa í flokkum sem byggðir eru á hagtölum. Allt í allt er þetta enn eitt lóð á vogaskálar þeirra sem meta áhættu/hag af því að fjárfesta á Íslandi.

  • Andri Geir , þetta sem ég er að fara skrifa kemur svo sem ekkert við seinustu blogg færslunni þinni. Bara nokkrar spurningar sem brenna á mér sem ég held að þú gætir svarað betur enn margir aðrir.

    1. Afhverju eru krónur sem ég borga in á lánið ekki verð tryggðar eins og fjárhæðin sem ég tók að láni. Þær hlóta að lúta sömu lögmálum ekki satt.

    2. Afhverju reiknar Ísland verðbólgu öðruvísi enn löndin í kringum sig. OECD er búinn að benda á þetta. Við tökum húsnæðið inn í vísitöluna ekki önnur lönd. Af þessu leiðir hærri verðbólga enn ella og lánin rjúka upp.

    3. Ég hef heyrt að Ísland sé eina landið í heiminum sem er með verðtryggingu á lánum til húsnæðiskaupa. Nokkur önnur lönd eru með verðtryggingu en það er bara ríkisskuldabréf.

    4. Erum við virkilega með ósanngarnasta lánakerfi gagnvart lántakenda í heimi. Í mörgum öðrum löndum getur þú skilað húsnæðinu án þess að verða sendur í sláturhúsið.

    5. Hver ber ábyrgð á þessari verðtryggingu. Fólk segir við mig að hún kom upp úr 1980 og er einhverskonar nátturulögmál. Enn engin hefur geta sagt mér hvaða fólk kom þessu á.
    Ég vil fá nöfn. Þetta er krabbamein sem étur alþýðunna.

    Með smá von að þú finnur tíma til að svara.

    Kristján Örn.

  • Smá extra sem ég gleymdi.

    6. Verðtryggða krónan er sterkasti gjaldmiðill í heimi. Þeir ætlast til að ég borgi það með óverðtryggði krónu sem er einn veikasti gjaldmiðill í heimi. sér engin hvar þetta endar?

  • Svona skýrslur verða notaðar af erlendum bönkum til að hækka vaxtaálag á íslensk lán, áhættan er gríðarleg á Íslandi, sveiflurnar eru svo miklar, ekkert hagkerfi sveiflast frá topp 10 til botn 10 á 2 árum. Í þessu felst áhætta sem ekki hverfur þegar hlutirnir batna hér, það verður alltaf spurt, en getur ekki orðið annað hrun á Íslandi? Hvaða tryggingar getið þið reitt fram til að varna því? Það er málið, hrunið afhjúpaði þá staðreynd að Ísland er miklu áhættumeira en margir gerður sér grein fyrri. Það mun ekki hverfa.

    Auðvita eru villur í svona skýrslu en hverju máli skiptir það? Kannski skeikar tölum hér upp á 10% eða 20%, skiptir máli hvort við eru í flokki með Simbabve eða Íran? Málið er að við eru alls ekkert Norðurland þegar að hagtölum kemur. Hvernig við ætlum að halda uppi norrænu velferðarkerfi með hagtölur eins og Afría eða mið-Austurlönd er spurning sem menn ættu að velta fyrir sér, þetta reddast í augnablikinu en hvað eftir 10 ár?

  • Kristján,

    Það var forsætisráðherra á síðustu öld sem hét Ólafur Jóhannesson, kallaður Óli Jó, úr framsóknarflokknum sem kom verðtryggingunni á. Málið var að menn voru að fá lán sem brunnu upp í verðbólgunni og voru aldrei borguð til baka. T.d. voru námslán fyrir 1970, minnir mig óverðtryggð og brunnu hreinlega upp. Menn byggðu einbýlishús og fengu lán sem voru svo borguð til baka í gömlum krónum. Þetta virkuðu sem gjafir frá bönkunum og var skammtað eftir pólitísku liftrófi. Til að vinna á þessari spillingu var tekin upp verðtrygging.

    Þetta voru síns tíma kúlulán sem voru „felld“ niður af verðbólgunni.

    Verðtrygging er afleiðing af slæmri hagstjórn.

  • Mig langar að gera athugasemd við það, að hér á landi sé lítill sparnaður. Samkvæmt mínum útreikningum nemur sparnaður/innlán allt að 4.400 milljörðum eða 2,5 sinnum þjóðarframleiðslu. Bætum svo við þetta eignarhlut almennings í húsnæði og þá er hægt að bæta við 1.500 milljörðum. Þetta er ekki lág tala og ég efast um að margar þjóðir í heiminum ná þessum sparnaði. Vandinn er að lífeyrissparnaður er yfirleitt ekki talinn sparnaður í svona samantekt og eigið fé fólks í húsnæði er af furðulegri ástæðu ekki talin sem sparnaður.

    Annars væri óeðlilegt ef Ísland kæmi ekki illa út um þessar mundir. Hagtölur fyrir 2008 og 2009 lýsa hryllilegu ástandi og meðan stjórnvöld og fjármálafyrirtæki gera ekkert af viti til að greiða úr flækjunni sem við erum í, þá á ástandið eftir að versna áður en það batnar.

  • Hvernig dettur nokkrum heilvita manni í hug að skýrsla sem unnin er af World Economic Forum (málsvara fjármálakerfisins) sé hlutlaus um Ísland? Landi þar sem stjórnvöld neituðu (gátu ekki) bjargað bönkunum og úr var mikið tap.

    Vissulega mun banka- og fjármálageirinn taka mark á þessu enda er þar ekki að finna óvitlausa mannveru. Þetta er bara enn ein tilraunin til að fá eitthvað meira upp í tapið, tapið sem lánveitandinn á alla sök á en ekki þeir sem þeir eru að rukka.

    Í þessu sambandi má benda á matsfyrirtækin sem eru bara svikamilla því það eru þeir sem eru metnir sem borga og þá er bara um að gera að borga vel. Matsfyrirtækin eru hvort sem er ábyrðarlaus er kemur að matinu og niðurstöðunum.

    Ruglið á bara eingan endi í þessu fjármálakerfi heimsins (eins gott að það er að brotna saman, þá tekur ruglið kannski enda).

  • Björn Kristinsson

    Magnús
    09.09 2010 kl. 19:52 #

    Staðan á Íslandi síðustu 2 árin hefur verið:

    *Mikill stjórnmálegur óstöðugleiki

    *Fjármálakerfið hrundið með öllu

    *Gjaldmiðill þjóðarinnar hrundi

    *Landið stendur í stórri milliríkjadeilu við Breta og Hollendinga

    *Sífeldar breytingar á skattalöggjöfinni bæði til launþega og lögaðila

    *Stærstu fyrirtækin í opinberri eigu, OR og LV, eiga í miklum erfiðleikum með endurfjármögnum á næstu tveimur árum, mörg hundruð milljarðar IKR

    *Landið er undir verndarvæng AGS og Norðurlandanna

    *Fjármál hins opinbera eru ógegnsæ. Þetta birtist í því að ríkið og sveitafélag virðast reka ósamræmanlegar rekstraráætlanir, engin heildaryfirsýn

    *Skuldir ríkisins eru yfir 100% af vergri landsframleiðslu. Vaxtakosnaður ríkisins telur um 20% af brúttó tekjum þess á hverju ári

    *Landsframleiðsla heldur áfram að dragast saman

    *Fjárfestingargeta ríkis, almennings og einkaaðila er mjög takmörkuð

    *Aðgangur að fjármagni til fjárfestinga er mjög takmarkað

    o.s.frv. Er eitthvað hér, Magnús, sem er ofsagt ? Held ekki, þetta er því miður sorglega rétt staða. Það er hins vegar margt gott á Íslandi sem betur fer. Við eigum einnig mörg góð tækifæri í stöðunni. Við verðum hins vegar að horfa raunsætt á stöðuna eins og hún er, og hún er ekki heiðskýr.

    Við þurfum ekki aðeins hjálp, heldur MIKLA hjálp.

  • Það er tvennt í þessu.

    Annars vegar er það rétt að það bjargar engu í augnablikinu að tuða yfir skýrslum sem þessum. Ef fjármálaheimurinn nýtir sér þetta við ákvarðanatöku, þá er það bara þannig og Íslendingar verða að taka þátt í sjónarspilinu til að allt fari nú ekki endanlega til andskotans.

    Hins vegar er augljóst að ef þetta er það besta sem fjármálaelítan getur gefið út, þá er kerfið sem slíkt bara ónýtt.

  • Tek undir það mesta sem hér hefur komið fram.
    Því miður held ég að í raun sé húsnæðisbólan á Íslandi þanning að sá sparnaður sem menn áætla í húsnæði eins og Marínó hélt fram sé stórfaldlega ofmetin. Fólk hefur telft geysilega djarft við lánatöku enda vissi þetta fólk sem stýrði bönkunum lítið hvað það var að gera. Það var hugsað skammt til skamms tíma með skammtíma ágóða í huga. Góður vinur minn í bankakerfinu átti fyrir nokkrum orðum varla orð til að lýsa fyrirlitningu á norrænu bönkunum sem voru varkárir og ákaflega lítið áhættusæknir enda eru núna álitnir þeir traustustu í Evrópu og komu ákaflega vel út úr síðustu álagsprufum. Bankaeftirlit norrænu landana anda ofan í hálsmálið á þeim og grípur í hárið á þeim straks og þeir gera eitthvað óvenjulegt og það er alvöru eftirlit þar sem Fjármálaeftirlitið er sterki aðilinn og þar eru allir á dekki þegar eftirlitið kemur enda þýðir lítið að rífa kjaft. Það var raunar gert grín að því í norrænu pressuni við hrunið að efnahagsbrotadeild íslensku lögreglunar væri með álíka margt starfslið og fjárveitingu eins og meðalstórt dagheimili.
    Hér liggr bankakerfið allt í kaldakoli og menn eru að reyna að „blöffa upp“ eitthað bankakerfi í nokkurs konar pókerspili með lítið sem ekkert bak við sig enda eru engir bankar hér alþjóðlega viðurkenndir enda réttilega litið á þetta sem brak. Með lógo og flottheit eru þeir álíka mikils virði eins og skítaklessur verðmæti er í raun neikvætt þar sem dæla þarf stórfé og það af alvöru peningum til að búa til alvöru bankakerfi. Ein höfuðástæða hrunsis hér er „bad banking“ samt er nánast sama fólkið í bönkunum að gera nánast sömu hlutina fyrir hrunið.
    „Kyrrstöðusamkomulag“ við ofurskuldug eignarhaldsfyrirtæki auk þess liggja risakúlulán þarna sem aldrei verða borguð skráð til eignar og veð í gríðarlega ofmetnu húsnæði almennings. Allt þetta þarf að færa niður. Fólk býst við einhverju skuldaniðurfellingu/leiðréttingu og augljóslega eru margir sem ekki geta staðið í skilum en þetta verður jafnvægiskúnst og augljóslega mun fjármálakerfið geta hrunið aftur og það verður einungis reist af opinberu fé og það augljóslega kemur úr vasa almennings á Íslandi.

    Ekkert vestrænt hagkerfi stenst án fjármálakerfis. Það er ekkert réttlæti að fá lán. Það er stór hópur á Íslandi sem hefur fengið lán sem aldrei átti að fá lán og fékk allt of stórt lán. Fólk ber fyrst og fremst ábyrgðina sjálft. Þetta er ekkert einsdæmi og gerist og hefur gerst út um allan heim. Gengislán er riskósport sérstaklega með lítinn sveiflukenndan og ofskráðan gjaldmiðil.

  • Sævar Óli Helgason

    5. Pólitískuróstöðugleiki…?
    Er það búsáhaldabyltingin sem er að valda þessu mati…? Eða ákvörðun forseta útaf Icesave…?
    Eða meta þeir hjá WEF að hætta sé á alvöru byltingu á skerinu vegna getuleysis núverandi stjórnvalda í efnahagsmálum…?

  • Þrándur

    Það að leggja niður Þjóðhagsstofnun voru mestu mistök á ferli Davíðs Oddssonar*. Það ætti að vera núverandi stjórnvöldum létt og skylt verk að endurreisa þessa stofnun….. er það ekki augljóst fyrsta skref?
    *Mat undirritaðs, ekki ótvírætt. Að festa ISK í andaslitrum krónunnar skorar líka hátt á þessum mælikvarða.

    Hvað er málið með „netaðgang í skólum“? Er þetta einhver grínparameter?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og átta? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur