Föstudagur 17.09.2010 - 09:44 - 14 ummæli

Eðlilegt framhald

ESB aðild er eðlilegt framhald af AGS prógramminu.  Ástæða þess að hlutirnir eru ekki verri en þeir eru í dag, er aðstoð AGS.  Án sjóðsins væri ástandið hér hörmulegt.  En meðferðinni er alls ekki lokið, enda vita allir hvað gerist þegar alkóhólistar ljúka ekki meðferð.  Erlendir aðilar búast flestir við að næsta skref okkar sé innganga í ESB, aðeins þannig getum við endurvakið traust og trúverðugleika á íslensku samfélagi.  Þegar kemur að hagstjórn, fjármálamörkuðum og framkvæmd laga erum við enn stimpluð sem þróunarland, tveimur árum eftir hrun. 

Við lítum út eins og glæsiverslun, full af fínum varningi, sem getur aðeins afgreitt viðskiptavini sem eru með reiðufé, aðrir geta bara skoðað og margir koma og skoða, þannig að allir eru á hlaupum og allt virðist brjálað að gera.  Viðskiptavinir eru hins vegar tvístígandi því verslunin hefur slæmt orð á sér, stendur illa við vöruábyrgðir, skilaréttur er ótryggur og varahlutir eru oft ófáandi.  Þá er leiga, skattar og skuldir að sliga verslunina en því var reddað með því að breyta kaupi starfsmanna í inneignarnótur og slá lán hjá vinveittum nágrönnum, þegar bankinn lokaði á yfirdráttinn.  Ekkert fé er til í viðhald eða þróun.  Nú hefur versluninni boðist að gerast aðili að erlendri keðju sjálfstæðra verslana, þar sem hún fengi hjálp við að endurskipuleggja reksturinn og aðgang að  sameiginlegum lager og bankaþjónustu.  Starfsmenn eru hins vegar alls ekki sannfærðir enda, eins og þeir segja, eru allar hylllur fullar af vörum og allt brjálað að gera og svo segir starfsmannablaðið að inneignarnótukerfið hafi bjargað versluninni og að allt erlent samstarf sé ógn við sjálfstæði verslunarinnar.  Nokkrir óprúttnir starfsmenn hafa vogað sér að segja að staða verslunarinnar sé ekki eins góð og hyllurnar gefi í skyn og að starfsmenn séu orðnir að láglaunastétt, en allt svona tal er blásið af sem óheilindi og fólki sagt að hypja sig ef það er ekki ánægt með kjörin.  Það eru jú aðrar verslanir í næsta nágrenni þar sem menn fá borgað í alvöru peningum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

  • Fólk hlýtur að sjá að ekki er lengur búandi við spillinguna hér á landi og handónýta krónu sem hefur orðið almenningi að falli. Aftur og aftur.

    Þó það sé engin allsherjarlausn þá er löngu ljóst að hagsmunum almennings er best varið innan ESB og með nýjum gjaldmiðli þar.

    Það vinnst ekki bara nýr gjaldmiðill heldur einnig annað og betra bankakerfi, regluverk og neytendavernd þar sem kúgaðir íslendingar losna undan ofurvaldi spillingarinnar og krónunnar.

    Þeir einu sem „græða“ á núverandi ástandi eru Sægreifarnir sem nota sjálfir annan gjaldmiðil, evru, og gengisfella krónuna þegar þeir tapa t.d. á hlutabréfamarkaði.

    Almenningur er að fatta að íslensk lán eru „sér-íslensk“ að því leyti að það þarf að marg-borga þau upp út af ónýtum gjaldmiðli og í raun eins óhagstætt og gæti verið að taka lán. Þetta sama átti við fyrir hrun. Það er brjálæði að taka lán.

    Mesta hagsmunamál almennings er að komast í skjól innan ESB og það sem allra fyrst þar sem hagsmunum okkar er best varið. Þó ESB sé langt því frá að vera fullkominn klúbbur þá er hann miklu mun betri og gagnsærri en sá sem við erum föst í hér heima.

  • Gangi þér vel að sannfæra fólk um að AGS veiti Íslandi trúverðugleikann sem þarf, hér er nefnilega flott að vera á móti hinum „stóra kúgara“

  • Haukur Kristinsson

    EU eru flott samtök. Og að okkur, með virkilega allt niðrum okkur, skuli standa til boða að „fá að vera með“, er sögulegt lán fyrir þjóðina. Við ráðum ekki við vandann sjálf, hallo, face it! Okkar embættismenn eru vanhæfir með öllu og stærsti stjórnmálaflokkur þjóðarinnar spilltur og rótfúinn.

  • Sagðir þú ekki þetta:

    „Ég hef lengi haldið því fram á þessu bloggi að IMF væri skipaður handrukkari hér á landi af erlendum stjórnvöldum. Nú virðist vera komin staðfesting á þessari tilgátu“

    Og nú segir þú:

    „Ástæða þess að hlutirnir eru ekki verri en þeir eru í dag, er aðstoð AGS. Án sjóðsins væri ástandið hér hörmulegt.“

    Hvað breyttist?

  • Álkóhólistum sem koma úr meðferð er ráðlagt að fara ekki beint í nýtt samband þegar þeir koma út. Þeir eiga að nota tímann, 1-2 ár, til þess að vinna í sjálfum sér.

    Sama með Ísland, nauðsynlegt að vinna í okkur sjálfum – og ná einhverjum bata – áður en við íhugum samband við jafnkrefjandi og fyrriferðarmikinn aðila og ESB.

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Sæll Palli,
    Ég er búinn að bíða eftir þessari athugasemd í nokkurn tíma. Gott að vita að sumir fara vel ofaní saumana.

    Báðar þessar staðhæfingar geta verið sannar á sama tíma. AGS er auðvita að gæta hagsmuna fjármagnseigenda (af hverju halda menn að gengið hafi hækkað á sama tíma og vextir lækka, það er til að halda erlendum aðilum góðum)

    Tvennt hefur orðið til að afstaða mín til AGS og stjórnvalda hefur breyst. Sjóðurinn hefur greinilega lært af fyrri mistökum en það sama er ekki hægt að segja um íslenska stjórnmálastétt. Fyrri tilvitnunin var skrifuð áður en Rannsóknarskýrslan kom út, hún breytti miklu.

    Það má svo ekki gleyma að hagsmunir alþýðufólks og kröfuhafa fara saman, öflugt atvinnulíf gagnast báðum. Hins vegar er AGS og ESB afleitar fréttir fyrir þá sem eru vanir að skammta sér völd og ítök hér á landi. Það eru allar líkur á að þessi hópur muni hafa yfirhöndina enda vanir menn á ferð þar.

    Ég geri mér fulla grein fyrir að um 3/4 hluti landsmanna vilja ekkert með AGS eða ESB að gera, þeir trúa á einhverja glansmynd sem ég sé ekki.

  • Ég vil taka alkaferlið til samlíkangar eins og Ragnar, en þar sem alkinn – íslenska þjóðin er í meðferð og við þurfum nauðsynlega að komast á áfangaheimili eftir meðferðina hjá IMF, þá er næsta skrefið að áfangaheimilið og það er ESB. Á aðlögunarferli að sambandinu munum við vinna í okkar samfélagsmálum og þá fyrst getum við farið að kalla okkur sæmilega heilbrigt samfélag

  • „Hins vegar er AGS og ESB afleitar fréttir fyrir þá sem eru vanir að skammta sér völd og ítök hér á landi. Það eru allar líkur á að þessi hópur muni hafa yfirhöndina enda vanir menn á ferð þar.“

    Sammála að held að þetta sé nákvæmlega málið en því miður held ég að fáir Íslendingar sjái í gegnum þetta 😮

  • Það sem alltaf vantar í rökræðu ESB sinna er hvernig aðild að ESB breyti öllu. Það er aldrei farið í saumana á því, því er bara haldið fram án þess að rökstyðja það frekar.

    Vandi ýmisa ESB ríkja er ekki til þess fallin að stija fullyrðingar ESB sinna og flest okkar vandræði eru innanlandsmál sem ESB sinnar halda fram að ESB skipti sér ekki af. Þetta tvent fer bara ekki saman í málfluttningi ESB manna.

  • Andri Geir,

    Það er ekkert að því að skipta um skoðun. Vandamálið er að þeir sem þurfa að taka ákvarðanirnar, þ.e.a.s. stjórnvöld, njóta ekki þess lúxus.

    Ef þú hefðir verið við stjórn þegar þú skrifaðir fyrri pistilinn þá væri AGS ekki lengur hérna til að hindra „hörmulegt ástand.“

    Hjá bloggurum og öðrum áhorfendum fylgir orðum ekki ábyrgð vegna þess að þeir og þau þurfa ekki að taka ákvarðanirnar.

    Þessu er ekki beint persónulega til þín en ég vildi samt benda á þetta.

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Heill og sæll Andri Geir

    …og takk fyrir góðan pistil. Reyndar góða pistla. Ég held að þú hafir hitt naglann á höfuðið.

    Mig langar samt að spyrja þig að einu. Færðu aldrei á tilfinninguna að það sé verið að stýra okkur eitthvað eins og fé í rétt?

  • Runólfur G

    Nei Andri þú serð ekki þessa glansmynd. Fyrsta lagi þá er þetta ekki glansmynd, ég er að horfa upp á sjálfur, í gegnum þau verkefni sem ég er búinn að koma af stað, að það verður í raun mjög lítið mál að koma Íslandi af stað aftur. Eg veit að þú skilur ekki – en hvernig væri þá að hætt að eyða öllum þessum tíma í að blogga um dásemdir ESB og gera eitthvað frekar í því að byggja upp atvinnulífið. Næga hefurðu reynsluna. Auðvitað mun ekkert gerast ef við situm bara og hugsum um pilsufaldið. Eg hef ekkert kommenteraði hjá þér í einhverja mánuði að mig minnir núna – í millitíðinni – er eg buinn að koma af stað verkefni sem mun mjög líklega gefa líklega af sér um 5-10 milljarða nýjar auka skattekjur fyrir ríkissjóð á næstu árum – ongoing. Það þarf bara að spýta í lófana eins og við erum vön hér á Íslandi og hætt að hugsa um þetta neikvæða pólitíska ástand – eða að það komi einhver möppudýr í Brussel og hjálpi okkur út úr þessu.

  • Palli,
    Það er einmitt málið, eitt er að blogga, annað að stjórna. Þegar maður bloggar getur maður skipt um skoðanir að vild.

    Runólfur G.
    Til hamingju með verkefnið. Það er nauðsynlegt að skrifa og halda uppi málefnalegri gagnrýni og viðra allar skoðanir. Það er hluti af því að búa í lýðræðið.

    Svo er ágæt æfing að gagnrýna allt og alla, sérstakleg þá sem eru við völd. Kannski að ég fari að gagnrýna ESB, af nógu er að taka, það má margt bæta í Brussel alveg eins og í Reykjavík.

    Eins og ég hef margoft sagt, er ESB engin töfralausn og auðvita væri æskilegt að við gætum staðið með hinum EFTA löndunum utan ESB, en það er bara ekki raunverulegur efnahagslegur möguleiki eins og staðan er í dag.

  • Skemmtilegar samlíkingar og býsna góðar líka. Reyndar er mig farið að gruna að AGS verði hér alveg þangað til Íslendingar kjósa um aðildarsamning.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og átta? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur