Mánudagur 20.09.2010 - 10:02 - 7 ummæli

Að reka „eigið“ bú á háum vöxtum

Nýtt skuldabréf LV sem ber 6.5% vexti í dollurum gefur góða innsýn í hvað það þýðir að reka fyrirtæki á háum vöxtum.

Samkvæmt ársreikningi LV fyrir 2009, eru langtímaskuldir um 2,700 m dollara og af því eru um 2,400 m í dollurum og evrum og bera meðalvexti upp á 1.8%.  Hækkun um 1% þýðir hækkaðan vaxtakostnað á þessum lánum upp á 24 m dollara.

Ef meðalvextir á þessum lánum hækka upp í 6.5% þýðir það aukin vaxtagjöld upp á 112.8 m dollara.  Nú var rekstrarhagnaður LV fyrir 2009, 114.8 m dollarar, þannig að þessi aukni vaxtakostnaður þurrkar út svo til allan hagnað.

Þannig geta útlendingar stillt af sín vaxtakjör svo að allur hagnaður renni beint í þeirra vasa.  Formlegt íslenskt eignarhald er ekki mikils virði í krónum og aurum ef allur rekstrarhagnaður rennur úr landi.

Seðlabankinn keyrir nú innlenda vexti niður sem auðvita hjálpar heimilunum og fyrirtækjum til skamms tíma, en ef þessi innlenda lækkun verður til þess að gjaldeyrishöftin festast í sessi og erlent lánstraust helst áfram veikt, munu við að hluta til borga þessa lækkun með hærra erlendu vaxtaálagi.  Hér þarf Seðlabankinn að feta sig varlega, því það er ekki bæði haldið og sleppt.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • 2.700 milljónir USD hlýtur þetta að vera.

    Samkvæmt sama ársreikningi er LV líka áætlað að greiða niður skuldir þannig að það er ekki þar með sagt að þessi skuldastaða verði raunin um aldur og ævi.

  • Rétt, laga þetta

  • Andri Haraldsson

    @Hermann-
    Án þess að þekkja málið náið, þá liggur fyrir að skuldastaðan mun haldast há í langan tíma, ef ætlunin er að halda eignunum verðmætaskapandi. Bæði þarf endurnýjun virkjana, og eins þá má ætla að viðhald og umbætur aukist eftir því sem meðal aldur íslenskra virkjanaframkvæmda eykst.

    En i raun eru þetta hliðaratriði, aðalmálið er að hagnaður Íslands — ekki bara þessa eisntaka fyrirtækis — er í auknum mæli að fara í að borga vexti sem eru uppblásnir vegna þess að Ísland hefur ekki tekið á skuldavandamálum sínum (þá sérstaklega Icesave) og opnað fyrir frjálsa fjármagnsflutninga.

  • „sem auðvita hjálpar heimilunum…“.
    Rétt er að rita „auðvitað“.

  • Þórhallur Kristjánsson

    Langtímaskuldir eru 2700 m dollarar þannig það það þarf varla að endurfjármagna þessa upphæð. Væntanlega eru fastir vextir í langan tíma á þessu.
    Það eru skammtímaskuldirnar sem þarf að endurfjármagna og þær eru mun lægri.

    Landsvirkjun þarf að einbeita sér að greiða niður skuldir frekar heldur en að stofna til nýrra. Ég held að það sé akkurat það sem þeir eru að stefna á miðað við ummæli forstjórans. Þegar skuldir Landsvirkjunar lækka fá þeir væntanlega lán á betri kjörum ef þeir óska þess.

  • Þrándur

    Hefur þú einhverja hugmynd um hvers vegna þeir ganga að þessum kjörum? Er það CDS á ísl. ríkið, Basel III (sem þvingar banka til að safna eigið fé) eða hreinlega gambl, spilað upp á að dollari veikist gagnvart krónu?
    (þetta síðasta skiptir vart máli, þar sem fyrirtækið gerir upp í usd og fær tekjur í usd að megninu til).

    Eða er þetta handstýring frá eigendanum, til að „skapa atvinnu“?

    Ekki hefur komið til skerðingar forgangsorku í fjölda ára og með hækkandi hitastigi fer vatn með æ meiri líkum á yfirfall á núverandi virkjunum á sumrin, þannig að ég er ekki alveg að skilja þetta út frá rekstrarforsendum.

    Þætti gaman ef þú gætir gefið álit á þessu, opinberað það.

  • Vextir til LV í erlendum gjaldeyri ráðast nær eingöngu af erlendu mati á þeirri áhættu að lána hingað og þar er Ísland sett með löndum eins og Grikklandi og Írlandi. Lánstraust ríkisins er svo lélegt og óvissan svo mikil séð erlendis frá að þetta eru kjörin.

    Fyrir hrun var lítill munur á vaxtaálagi milli Grikklands og Þýskalands, nú er hann margfaldur þeir vextir sem Þýskaland borgar.

    Erlendir aðilar vanmátu áhættuna á að lána til jaðarríkja Evrópu, sérstaklega vanmátu Þjóðverjar þetta. Nú segja menn að það hafi alltaf verið gríðarleg áhætta að lána á þetta svæði og að hún verði til staðar um ókomin tíma. Ég hef skrifað um þetta áður og vitnað í greinar úr FT.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sjö? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur