Þriðjudagur 21.09.2010 - 15:01 - 28 ummæli

Falskar verðbólguvæntingar

Búist er við 1% vaxtalækkun hjá Seðlabankanum á morgun,  þar sem verðbólga hefur hjaðnað mikið og virðist enn á niðurleið.  En hversu lágt mun verbólgan síga áður en hún fer að rísa aftur?

Margt bendir til að Seðlabankinn sé að horfa í baksýnisspegilinn en ekki fram á við.  Vaxtalækkunarferlið hefði átt að byrja fyrr.  Verðbólguvæntingar á næsta ári eru, því miður ekki eins góðar og vænta mætti, og því er hætta á að þetta verði síðasta lækkunin.  Að því liggja nokkur rök:

  • Verðbólga hefur verið að aukast í okkar nágrannalöndum og er komin í 3.1% í Bretlandi og 2.1% fyrir evrulöndin.  Í Bretlandi mælist verðbólga neysluverðs fyrir utan húsnæði nú 4.7%.
  • Það sem hefur haldið verðbólgu í skefjum hér á þessu ári er styrking krónunnar, en verulega hefur hægt á þeirri styrkingu og hún mun varla halda áfram 2011.
  • Uppskerubrestur erlendis á korni og kaffi á eftir að hækka verð á matvælum og fóðri á komandi mánuðum.
  • Orkuverð á Íslandi á eftir að hækka. Taxtahækkanir OR koma til framkvæmda í október og það er aðeins byrjunin.
  • Kjarasamningar eru á lausu og óvíst er um stöðuleikasáttmálann.  Allar launahækkanir fara beint út í verðlagið, þar sem fyrirtækin berjast flest í bökkum.
  • Skuldir fyrirtækja eru að mestu leyti í erlendum gjaldeyri, þessi lán eru flest á óeðlilega lágum vöxtum miðað við lánstraust í dag.  Eftir því sem þessi lán eru endurfjármögnuð eða endurskoðuð, verða fyrirtæki að taka á sig hærri vaxtakostnað sem aftur verður velt út í verðlagið.

Hins vegar er ekki hægt að útiloka að Seðlabankinn ákveði að keyra raunvexti niður fyrir núllið um einhvern tíma, eins og gert hefur verið í mörgum löndum.  Það er þó mun vandasamar hér en erlendis vegna verðtryggingarinnar.   Það mundi leiða til mikillar eftirspurnar eftir óverðtryggðum lánum og verðtryggðum innlánum.

Ef allt er tekið með í reikninginn er vandséð að Seðlabankinn geti lækkað vexti meir en 0.5% á morgun.  En sjáum hvað setur.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (28)

  • Ef þú segir að það sé undirliggjandi verðbólga, er ekki hægt fyrir stjórnvöld að frysta, eða aftengja á einhvern hátt verðbólguna í sambandi við húsnæðislán til þess að fólk missi ekki húsnæðið sitt?
    Er engin vörn fyrir fólk að verjast þessu.
    Ef sama verðbólguskot og kom eftir hrun kemur aftur er þetta bara búið.

  • albert – 21.09 2010 kl. 15:36

    Þá ertu um leið að aftengja verðbólgutryggingu þeirra sem fjárfest hafa í verðtryggðum skuldabréfum og/eða innistæðum. Slíkt færi væntanlega fyrir dómstóla.

    Þar eru lífeyrissjóðirnir stærstir

  • Sjóður. Hvað á fólk þá að gera ef verðbólgan fer af stað?

  • Það er hrikalegur verðbólgutoppur framundan. Verðbólgan mun fara langt yfir 18% (hámark 2008) á Íslandi þegar þessi verðbólgutoppur skellur á með fullum þunga. Vandamálið við verðbólgumælingar á Íslandi er að þær eru rangar og notast við önnur viðmið en í Evrópu, þar sem samanburðurinnn er fenginn.

    Sem betur fer kemur Eurostat með verðbólgutölur fyrir Ísland núna, og það er hægt að taka mark á þeim tölum.

  • albert – 21.09 2010 kl. 16:08

    Ef það væri til einfalt svar þá væri Ísland ekki í þessum vanda.

    Flestir verðtryggðir samningar eru ár eða áratugi fram í tímann og það er flókið mál að vinda ofan af þessu kerfi án þess að setja fjármálakerfið, heimilin, ÍLS eða lífeyrissjóðina á hausinn.
    Ríkið á ekki pening til að bjarga einum eða neinum lengur. Þar er kofinn tómur og IMF prógramminu meira að segja að ljúka.

    Margir treysta svo á afkomu lífeyrissjóðanna í ellinni sem hugsanlega skarast við skammtímahagsmuni hinna sömu í baráttunni við að halda húsinu sínu

  • Þórhallur Kristjánsson

    Peningastefna Seðlabankans er svo galin að maður veit varla hvar á að byrja að tala um alla vitleysuna.
    Næst stærsti útgjaldaliður ríkissins 2009 var vaxtagreiðslur upp á um 90 milljarða ef ég man þetta rétt. Eini liðurinn í ríkisfjármálunum með hærri útgjöld var Heilbrigðiskerfið.

    Vextirnir sem ríkið er að greiða eru að stærstum hluta ákvarðaðir af Seðlabankanum og taka alltaf mið af verðbólgunni. Hávaxtastefna Seðlabankans var semsagt að skapa fjárlagahalla uppá tugmilljarða. Ef Seðlabankinn hefði lækkað vextina hefði ríkið getað sparað einhver ósköp af peningum.

    Það er talað um að í bankakerfinu sytji krónuinnistæður uppá hátt í 2000 milljarða. Útlendingar eiga um 400 milljarða af þessari upphæð en stærstan hlutann eiga væntanlega lífeyrissjóðirnir.

    Lífeyrissjóðirnir heimta að allt sé verðtryggt og að vextirnir séu háir. Þá geta þeir sínt fram á góða ávöxtun. Þar sem fólkið í landinu er eigendur af lífeyrissjóðunum þá er verið að færa peninga úr einum vasa í annan. Skattgreiðendur greiða fjárlagahallan á ríkinu sem er að stórum hluta vegna hárra vaxtagreiðslna og lídeyrissjóðirnir gorta sig af góðri ávöxtun. Hvar er skynsemin í þessu rugli ?

    Strax eftir hrunið hefði átt að deila með tveim í vísitöluna og láta bæði lántakenda og peningaeigendur bera kostnaðin jafnt. Það var ekki gert og mistökin eru augljós í dag.

    Ef ríkið vill lækka verðbæturnar sem leggjast á lánin geta þeir einfaldlega útbúið annan vísitölugrunn og haft í honum liði sem munu halda verðbólgunni lágri. Ég efast um að þeir sem eru með löng verðtryggð lán geti gert nokkuð við því ef þetta yrði gert þannig.

    Að lokum vil ég benda á það enn einusinni að það þarf að breyta um markmið Seðlabankans. Það á að taka verðtrygginguna af og setja upp reglunarpúnkta. Einni púnkturinn ætti að vera að regla viðskiptajöfnuðinn þannig að hann væri að sveiflast í kringum núllið. Þetta væri ekki hægt fyrr en eftir að búið væri að greiða niður erlendar skuldir. Annar reglunarpúnkturinn ætti að vera að regla keffið í kringum verðbólgumarkmið 2-3%.

    Þessu þyfti síðan að stýra með hörku og ákveðni. Þegar búið væri að aftengja verðtrygginguna mundu lífeyrissjóðirnir þrýsta mikið á að ríkið mundi halda verðbólgunni niðri.

    Það er ekki krónan sem eiðilagið allt hér heldur er það kolröng fjármálastjórn. Það á að lækka vextina mikið niður á morgun og hefði átt að vera búið að því fyrir löngu.

  • Þórhallur Kristjánsson – 21.09 2010 kl. 17:52

    Eina lógíska ástæðan fyrir því að vextir hafi ekki lækkað meira hlýtur að vera sú að Íslandi hafi verið bannað að gera það í skjóli gjaldeyrishaftanna. Bannað að halda peningunum innan landsins og á sama tíma keyra vexti niður fyrir verðbólgu.

    Einnig verður að hafa í huga að þessi gjaldeyrishöft voru alltaf hugsuð sem tímabundin lausn. Það að keyra vexti niður bara til að hækka þá aftur þegar höftin verða opnuð er ekki mjög traustvekjandi aðgerð.

    Gjaldeyrishöftin eru mjög tæp lagalega séð meðan menn telja sig ennþá vera aðila að fjórfrelsinu og heimta að aðrir uppfylli sinn hluta.

  • Þórhallur Kristjánsson

    Sjóðue

    Hávaxtastefna Seðlabankans er stærsti þátturinn í vandræðunum sem við erum í í dag.. Þau eru ástæða gjaldeyrishaftanna vegna þess að háir vextir lokkuðu allt þetta erlanda fjármagn hingað inn sem kemst ekki út.

    Þeir virðast seint læra sem stjórna þessu kerfi og halda sig enn við hávaxtastefnuna. Ef eina logíska ástæðan er að okkur er bannað að lækka vextina (AGS) hver er þá logikin í því ?

  • @Þórhallur
    Þú gleymir einni mikilvægri efnahagslegri grundvallarstaðreynd að vextir hafa bein áhrif á gengi gjaldmiðla, hærri vextir, hækkar gengið og lægri vextir lækka gengi gjalmiðils. Gegni krónunnar er nú handstýrt og vaxtastig úr takti við aðrar forsendur of lágir vextir augljóslega grafa enn undan krónunni og festa okkur í gjaldeyrishömlum sem augljóslega er ávísun á stöðnun samdrátt í þjóðarframleiðslu og fátækt. Við getum ekki endalaust verið í skjóli IMF og norrænna landa.

    Efnahagsvanstjórn „góðærisáranna“ var gríðarleg þensla vegna framkvæmda á erlendu lánsfé bæði í höndum opinberra og einkaaðila. Gríðarlega erlendu lánsfé var flutt til landsins og endurlánað og til að minnka þennslu hækkaði Seðlabankinn vexti sem hækkaði gengi krónunnar og bjó til ofurkrónu í stað þess að minnka framkvæmdir og kæla hagkerfið með sköttum og bindiskyldu fyrir bankanna til að minnka lánsfé hingað var ætt í blindni og afleiðingarnar sitjum við uppi með.

    Hagstjórn næstu ára verður eins og að ganga berfætt yfir gólf fullt af glerbrotum. Hvar sem við stígum niður veldur sársauka og mikilvægast að fara sem stystu leið.

  • Þórhallur Kristjánsson

    Gunnr

    Ég er að leggja það til að verðið á krónunni eigi að ráðast af viðskiptajöfnuði en ekki vera á opnum markaði. Það er tómt rugl að hafa krónuna galopna og fljótandi.
    Þegar búið er að greiða erlendar skuldir og viðskiptajöfnuðurinn er að rokka í kringum núll. Þá er krónan rétt skráð og það verður að stýra henni þannig.

  • Já það er erfitt að segja hvaða hagfræðilögmál gilda orðið hér á Íslandi.
    Hrunið er svo algjört. Gjalmiðillinn er í raun hruninn og hér væri algjört eymdarástand ef ekki hefði notið IMF og norrænu landanna en fólk talar eins og það sé orsök ógæfunnar.
    Margir virðast ekki skilja að það eru þrjú meginatriði sem þarf að leggja áhærslu á.

    1. Hallalaus ríkisútgjöld, skuldasöfnunin verður að stoppa nánast hvað sem kostar og það þýðir í raun gríðarlegur niðurskurður þar sem þessi vaxtagjöld þurfa að rúmast innan fjárlaganna. Ef þetta takst mun þetta auka á okkur tiltrú en það þýðir í raun væntanlega 20% fækkun í ríkisstarfsmönnum, launalækkanir (í krónum) og niðurskurð upp á 1/3 af ríkisútgjöldum.
    1 af hverjum 5 krónum til ríkisins fer í vaxtagreiðslur og að óbreyttu mun þetta gleypa stærra og stærra hlutföll.
    Munum það að í hagfræðinni breytast stærðir oftast lógarytmískt en ekki línulega þanning að þetta er á mörkunum að vera viðráðanlegt. Munum það að ríkisútgjöld hafa aukist um 43% frá 2000 til 2008 og fjöldi opinberra starfsmanna um meira en 25% þanning að þetta þarf allt að fara tilbaka til 2000 og þanning þarf að downscala ríkisreksturinn og þetta er ekki til eins árs þetta er til næstu áratuga.
    2. Koma hagkerfinu yfir á annan gjalmiðil og losna við gjaleyrishömlurnar eru gjaldeyrishömlurnar klárlega ávísun upp á samdátt í þjóðarframleiðslunni. Með að skrúfa niður krónugengið mun þetta verða fátækrahólmi og gengið þarf síðan sífellt að skrúfast niður. Lítil sem engin fjárfesting er hér og mörg fyrirtæki hér munu hreinlega flýja land enda er hér ekkert annað í boði en ódýrt vinnuafl. Hlutabréfamarkaðurinn er hruninn og ekki verða Actavis, Marel, Össur og væntanlega ekki Hugbúnaðarfyrirtækið CCP eftir 1-2 ár að óbreyttu. Það er bakhliðin á einangrunarhyggjunni.
    Við erum raunar verst menntaða þjóð Evrópu ef Tyrkland er undanskilið og eigum eftir að missa mikið af okkar best menntaða og yngsta fólki. Læknaskorturinn sem er að koma mun vera hitamælirinn sem mælir þetta enda er það auðveldast að sjá það.
    3. Koma fótum undir burðugt fjármálakerfi en þetta sem nú er er bæði allt of stórt auk þess stendur það á brauðfótum hvað varðar fjármagn.

  • Þórhallur Kristjánsson

    Gunnr
    Við það að lækka vextina sparar rikið sér tugi milljarða í vaxtagreiðslur. Margir virðast ekki átta sig á því að viðskiptajöfnuðurinn var miðað við nýjustu tölur jákvæður um 53 milljarða 2009 og stefnir jafnvel í að hann verði betri í ár. Það þíðir að við getum greitt niður erlendar skuldir.

    Þegar búið er að grinka á erlendum skuldum hefur getur Ísland boðið íbúuunum fínasta líf. Framleiðslugreinarnar fjórar eru að virka fínt Sjávarútvegur,Ferðamennska,Stóriðja og hugverkaiðnaður

  • Þórhallur Kristjánsson – 21.09 2010 kl. 19:55

    Og hver segir að þeir erlendu aðilar sem Íslendingar hafa samið um „fjórfrelsi“ við sætti sig við það að vextir á fjárfestingum þeirra séu keyrðir niður í skjóli gjaldeyrishafta.

    Gjaldeyrishöftin eru á mjög hálum ís til að byrja með en það að misnota aðstöðuna til að búa til óraunhæft vaxtastig er eitthvað sem yrði fljótt inná borð hjá erftirlitsstofnunum.

    Vextir á Íslandi ættu í raun að vera mjög háir til að landið tæmist ekki af peningum

  • Þórhallur Kristjánsson

    Sjóður
    Það er talað um það í fjármálafræðum að eftir því sem von er á betri ávöxtun því meiri áhættu ertu að taka. Þegar erlendir aðilar eru að dæla peningum hingað inn vil þess að græða á vaxtamun þá eru þeir líka að taka áhættu.

    Það er því ekkert rangt við það að þeir peningar sem hingað komu í leit að háum vöxtum verði fyrir áföllum.

  • Góðar umræður. Skuldir ríkisins eru núna yfir 100% af VLF, eða nær 1600 ma kr. Frumjöfnuður á rikisreikningi verður líkleg negatífur um 40 ma á þessu ári en á að vera jákvæður um 55 ma fyrir 2011 sbr. fjárlög 2010.

    Þetta eru gífurlegar stærðir og þýðir að við eru að horfa á næstum 95 ma aðlögun. Svo þurfum við að líta á hvaða frumjöfnuð við þurfum til að geta farið að borga af höfuðstól allra þessara lána. 55 ma afgangur dugar upp í vexti ef þeir eru að meðaltali 3.4%.

    Vandamálið er að á meðan vextir innanlands lækka eru vextir erlendis að hækka, Írland er gott dæmi en írska ríkið borgar nú 6% og Landsvirkjun 6.5%.

    Það mun taka a.m.k 30 ár að koma þessum skuldum í eðlilegar stærðir og þá aðeins ef allt gengur að óskum. Spurningin er, verða einhverjir læknar og ungt fólk eftir á þeim tímapunkti?

  • Þórhallur Kristjánsson

    Andri Geir
    Ef þú lækkar íslensku vextina niður og handstýrir verðbótaættinum spararu ríkinu tugi milljarða í vaxtagreiðslur. þannig geturu snúið við ríkisreikningnum og sett hann í plús.

  • Þórhallur,
    Einmitt, útlendingar vanmátu áhættuna á að fjárfesta á Íslandi, hún er enn til staðar og mun ekki hverfa í náinni framtíð. Þú platar ekki fjármálamarkaðinn nema einu sinni. Ef þetta fjármagn sem núna er fast hér á landi fær ekki áhættuávöxtun þá mun skellurinn lenda á næstu kynslóð. Saga peninganna segir að þau lönd sem fara illa með fjármagnseigendur borga alltaf fyrir það á endanum.

    Í dag er öllu handstýrt hér og það er varla tilviljun að á meðan vextir hafa lækkað hefur gengið verið hækkað, þetta heldur erlendum fjárfestum góðum, þeirra ávöxtun mæld í evrum hefur ekki breyst. En það er ekki hægt að halda þessu áfram endalaust og ég er ekki viss um hvernig og hvenær Seðlabankinn ætlar að vinda ofan af þessu.

  • Þórhallur Kristjánsson

    Andir geir
    Kallar þú það að fjárfesta að leggja peninga inn í banka sem gefa af sér okurvexti ?

  • Þórhallur,
    Þú ert alltaf einni færslu á undan mér. Því miður erum við ekki Japan, sem getur algjörlega fjármagnað sig innanlands á vöxtum nálægt núll. Það er ekki nóg að færa innlenda vexti niður að núlli, verðbólgan veruð líka að falla og vera lág um langan tíma. Við höfum enga reynslu í verðbólgustjórnun. Ef við lækkum vexti niður í núll raunvexti og höldum þeim þar erum við að kalla yfir okkur gjaldeyrishöft í nokkra áratugi.

    Með viðvarandi gjaldeyrishöft verður erlend lántaka erfið og dýr. Hætt er við stöðnun í atvinnulífinu. Það er ekki hægt að bjarga ríkinu með því að fórna einkageiranum!

    Það er því miður engin töfralausn hér.

  • Þórhallur,
    Fjárfestar eru með fé sitt mest í ríkisskuldabréfum. Þeir geta fengið 10% ávöxtun í evrum í Grikklandi sem hefur sama lánstraust og Ísland eða 6% á Írlandi.

    Vexir á Íslandi í krónum verður að meta út frá hinni miklu áhættu og lélega lánstrausi sem hér ríkir.

    Séð með augum erlendar fjárfesta er Ísland og krónan hér ekki spennandi kostur.

  • Þórhallur Kristjánsson

    Það er mikill munur á því að dæla erlendum peningum inn í íslenska banka eða að fá hingað erlenda aðila sem fjárfesta í atvinnuskapandi fyrirtækjum sem gefa af sér tekjur og þá væntanlega í erlendum gjaldeyri.

    Ef erlendir aðilar sjá sér hag í því að fjárfesta hér í fyrirtækjum sem gefa af sér öruggar tekjur þá er ég viss um að þeir geri það. Það eru enn margir möguleikar hér á Íslandi og til gaman má geta þess að við höfum einungis virkjað um 1/3 af virkjanlegu vatnsafli.

    Að halda að hér verði allt lokað þótt við stýrum genginu á krónunni er einfaldlega ekki rétt að mínu viti.

  • Úfff…það er ekki bjart yfir þessu og það virðist enn dökkna með hverjum deginum.

    Ríkisvaldð sem er rekið með þessum hrikalega halla virðist ekki getað hagrætt hjá sér svo neinu nemi. Ég held að á endanum muni ríkið grípa í prentvélina til að fjármagna hallann og endanlega stúta hagkerfinu og öllum skuldugum heimilum.

    Mér líst ekkert á blikurnar…

  • Tek því miður undir það sem Andri Geir segir hér.
    Til viðbótar þessu algjöru hruni hér með ónýtan gjaldmiðil, hrunið fjármálakerfi, hruninn hlutabréfamarkað, ofurskuldug fyrirtæki, heimili og ekki minnst opinbera aðila ríki, sveitarfélög og orkufyrirtæki. Atvinnuástandi sem því miður er haldið uppi beint og óbeint af lántöku hjá opinberum aðilum, ríki sveitarfélögum og eins ekki gleyma bönkum og fjármálafyrirtækjum en þar vinna núna nánast jafn margir og 2007 þegar hér var stunduð umfangsmikil alþjóðleg fjármálastarfsemi.
    Við erum með margar tímasprengjur í garðinum okkar:
    1. Við erum með óleysta Icesave deilu sem er ekkert að hverfa og hvað gerist ef við töpum þessu máli í EFTA dómstólnum þar einhver þá yfir höfuð eitthvað að tala við okkur? Er þá ekki að borga og brosa og þá sjálf að fá lánsfé eða rétta fram fingurinn til ESB og sagt „fuXX yoX“ já og fara kannski í viðskiptastríð við ESB með yfir 500 miljón mans.

    2. Fasteignabólan er enn ósprungin og verð í sérbýli hækkaði 4x að raunvirði á tæpum 10 árum og almennt „verðið“ er núna 3,2 og er haldið uppi af handafli af örvæntingarfullum fjármálastofnunum enda mun þetta í raun blása burtu eigin fé heimila og ríða lánastofnunum að fullu. Þessi hæstaréttardómur er bara smáatriði miðað við þessa tímasprengju sem mun springa það er bara spurning hve lengi þeir geta framlengt í kveikjuþræðinum.

    3. Erlent fjármagn er núna frosið inni í hagkerfinu er önnur ósprungin sprengja.

    4. Pólitískur stöðugleiki er fosenda aðgerða og hvað annars fólki finnst um þessa vinstristjórn þá mun augljóslega pólitísk upplausn stórlega geta veikt okkar stöðu.
    Hitt er stöðugleiki á vinnumarkaði, að það sé ekki verkföll sem augljóslega mun grafa undan okkur og síðan er það fólksflutningar héðan sem mun hugsanlega verða okkar allra stærsta blóðtaka.
    Vandmálið er að við þurfum að horfa fram á áratuga vandræði og þeir sem eru að fegra stöðuna eins og Þórhallur gera sér kannski ekki grein fyrir því hvað í raun gerist ef þjóðarkakan verður rýrari kanski ekki nema 2/3 af því sem hún er núna og það þýðir þá að við erum hálfdrættingar við hin skandinavísku löndin og við erum augljóslega að sætta okkur við að hafa velferðarkerfi næstu áratugina sem er langtum verra með lélegri/dýrari skólum, heilbrigðiskerfi og öldrunarþjónustu.
    Stóra spurningin er hvort okkur takist að lágmarka þetta og komast til baka eða við sökkvum okkur í skuldir og minnkum þjóðarkökuna og einangrum okkur í fátækt. Ísland var eitt fátækasta ríki Evrópu fyrir 100 árum og erum klárlega að nálgast fyrrum Austur Evrópulöndin. Við erum að sökkva meðan þau eru að stíga.

  • Til viðbótar erum við með fjármálakerfi sem er undirfjármagnað og þarf að reka sig á vaxtamun. Gríðarlegar skuldir sem eru kúlulán með gjaldaga fram í framtíðina frá andlitslausum og eignarlausum skúffu og eignarhaldsfyrirtækjum sem hvorki hafa greiðslugetu né greiðsluvilja til að greiða þetta.
    Þessir svokölluðu stöðuleikasamningar til stórra skuldara er klárlega veikleikamerki þeir hafa ekki burði til að afskrifa skuldirnar og eru að reyna að framlengja líf margra Zombia íslansks viðskiptalífs. Fyrirtækja/eignarhaldsfélaga án framtíðar eða hinnar minstu vonar að geta greitt annað en lítið brot af þessu.
    Ósprungin fasteignabóla, væntingar stór hluta heimila sem eru margir með nánast óyfirstíganlega skuldabagga um einhvers konar leiðréttingu en því miður sú leiðrétting verður á kostnað íslenskra skattborgara og íslenskra lífeyrisþega og ákaflega fárra annara. Það er eins og fólk sé farið að gera sér grein fyrir þessu, alla vega sumir.

  • Þórhallur Kristjánsson

    Gunnr
    Þú talar eins og þú viljir bara fá gamla ruglið til bbaka aftur. Þegar við lifðum langt um efni fram. Ísland hefur alla burði til þess að skaffa íbúunum fínt líf miðað við hvernig framleiðslugreinarnar spjara sig.

    Það þarf að eyða skuldum og ein leið er að láta þær brenna upp í verðbólgu. Erlendar skuldir greiðast niður með jákvæðum viðskiptajöfnuði og smá saman styrkist krónan.

    Ef vextir yrðu lækkaðir mundi fasteignamarkaðurinn væntanlega fara af stað aftur því í gegnum tíðina hefur það verið ágætis fjárfesting að fjárfesta í steypu. Meðan verið er að bjóða of háa vexti í bankakerfinu eru peningarnir fastir þar inni og vaxtagreiðslur ríkissins mynda gríðar fjárlagahalla.

    Þritabú Landsbankans er að mjatla inn á IceSave reikninginn og okkur liggur ekkert á þar.

    Mér finst allaveganna skrítið að biðla til gamla kerfissins sem keyrði þjóðfélagið út í skurð.

  • Ef maður lítur á þessa gríðarlegu hækkun á vísitölu húsnæðisverð sérstaklega einbýli á höfuðborgarsvæðinu og lítur á vísitölu kaupmáttar
    http://www.datamarket.com/data/set/uo3/visitala-kaupmattar-launa-1989-2010#display=charts&ds=uo3|ay=d57&axis2=
    Þá sést að vísitala kaupmáttar steig frá janúar 1999 frá 100,2% til janúar 2008 til 120,2% og féll síðan 103,9% maí 2010.
    Þanning að við erum núna á svipuðu róli og við vorum á vormánuðum 2002.
    Merkilegt Þórhallur að þú sérð ekki að þetta er fasteignabóla sem mun springa….
    Frosinn markaður, fjármálafyrirtæki kaupa tilbaka eignir, makaskipti, offramboð, skuldastaða heimila, gríðarlega hátt lánshlutfall ofl. ofl.

  • Jæja… 0,75% niður. Hann hefur viljað fara 0,5% en bara ekki lagt í það.

  • Andri Geir,

    Þú kemur með athyglisverða pælingu/spurningu:
    „… Það mun taka a.m.k 30 ár að koma þessum skuldum í eðlilegar stærðir og þá aðeins ef allt gengur að óskum. Spurningin er, verða einhverjir læknar og ungt fólk eftir á þeim tímapunkti?“

    Sem þokkalega menntaður ungur maður, þori ég að fullyrða að stór hluti fólks í minni stöðu er tilbúið að vera hér og berjast **EF** það er undið ofan af lánamálum okkar þannig að það sé möguleiki að við getum borgað. Ég vil sjá réttlæti, þ.e.a.s. að greiðslubyrði mín/okkar verði skapleg og að ég sjái fyrir mér að klára að borga skuldir fyrir eftirlaunaaldur.

    En eins og málin líta út fyrir okkur hefur allt verið gert fyrir fjármagnseigendur síðan 2008, en ekkert fyrir skuldara.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og einum? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur