Mánudagur 27.09.2010 - 18:09 - 1 ummæli

Langtímavextir hækka

Skuldabréfavísitalan lækkaði mikið í dag og nú hefur vaxtakrafan á 10 ára óverðtryggð ríkisskuldabréf hækkað um rúmlega 75 punkta síðan Seðlabankinn lækkaði stýrivexti um 75 punkta.  Það getur því orðið bið á því að almennir vextir lækki.

Bankar hafa lítið svigrúm til að lækka innlánsvexti á sama tíma og ávöxtun á ríkisskuldabréf hækkar og þar með verður bið á að útlánsvextir lækki.

Lækkun Seðlabankans á sama tíma og tilkynnt var um að afnám gjaldeyrishaftanna væri komin á dagskrá var óheppileg.  Þar með jók Seðlabankinn óvissuna og var varla á bætandi, þar sem margt bendir til að Seðlabankinn sé of bjartsýnn um verðbólguvæntingar.

Ákvarðanir Seðlabankans virðast núna úr takti við væntingar markaðarins.  Bankinn var of varkár fyrir ári síðan og hafði ekki nóga trú á sjálfum sér og stjórnvöldum til að hefja lækkunarferlið fyrr.  Nú virðist bankinn vera orðinn of djarfur og farinn að lækka þegar viðvörunarljós eru að kvikna.  Hér má ekki mikið út af bera, því ef markðurinn missir trúna á virkni Seðlabankans gæti fjármögnunarkostnaður ríkisins hækkað á alversta tíma.

Svo er spurning hvort Seðlabankinn hefði átt að gefa yfirlýsingu um afnám haftanna áður en Icesave er til lykta leitt.  AGS hefur margsinnis sagt að Icesave samningur sé skilyrði fyrir að höftunum verði lyft.  Er AGS kannski að þrýsta á stjórnvöld um að leysa Icesave með því að gefa merki um að erlendir fjárfestar verði að fá sitt og að ekki sé hægt endalaust að láta þá sitja á hakanum – því sé ákvörðunin um að létta höftunum frá AGS komin en ekki Seðlabankanum?

Það er stundum erfitt að átta sig á hver heldur á sleifinni, þegar svona margir kokkar eru í eldhúsinu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Peningamálastefnan er búin að vera kolvitlaus í næstum áratug og Seðlabanki Íslands nýtur álíka mikils trausts og íslenska krónan. Hvort voru það pólitískir klækir eða íslenskt fúsk sem réð því að vextir voru hækkaðir upp úr öllu velsæmi? Yfirvarpið var að halda ætti kviku erlendu fjármagni á landinu en fimmfalt hærri vextir hefðu ekki dugað til þess arna. Þess vegna voru sett gjaldeyrishöft. Það var pólískt illræði af SÍ að hækka vextina samtímis. Áætlun stjórnvalda og AGS var alltof bjartsýn um fjárfestingar erlendis frá og himinn háir vextir hafa haldið mest öllu innlendu fé á beit í Seðlabankanum. Þegar vaxtalækkunarferlið loksins hófst var það 12 mánuðum of seint og núna setur SÍ ferlið í sjálfheldu vegna tálsýnar um að hægt verði að aflétta gjaldeyrishöftum á næstunni. Veit ekki hvort maður á að hlægja eða gráta þegar SÍ hefur máls á afléttingu gjaldeyrishafta korteri fyrir „mother of all“ gjaldeyrisútstreymisárið 2011. Endilega látið SÍ vita að hvorki rithöfundur, gjaldeyrisefnaður tónlistamaður né stjórnvöld vilja að útlendingar fjárfesti í arðbærustu verkefnunum. Nema kannski ekta sænskir útlendingar.

    Það jákvæða er að þessi vitlausa peningamálastefna hefur „óvart“ styrkt verulega fjárhagstöðu „okkar“ ástkæru fjármálafyrirtækja. Norræna ríkisstjórnin kippir þó í íslenska kynið. Góð fjárhús fyrir pólitískt valið fé og góðir beitarhagar eru mikilvægari en sauðheimskir tvífætlingar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og tveimur? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur