Fimmtudagur 11.11.2010 - 11:49 - 6 ummæli

Flöt lækkun dugar ekki

Ein athyglisverðasta niðurstaða sérfræðihóps um skuldaaðgerðir er dreifing húsnæðisskulda eftir ráðstöfunartekjum (bls. 8).  Sú kúrfa er ótrúlega flöt, sem segir okkur að þeir sem eru með lægstu ráðstöfunartekjurnar, þ.e. undir 3 m á ári fyrir hjón og 2 m á ári fyrir einstaklinga verður ekki bjargað með 20% flatri lækkun.  Þetta er stór hópur.  63% hjóna sem talin eru í vanda falla í þennan hóp og 43% einstaklinga.

Til að átta sig betur á þessu, er gott að draga kúrfuna sem hlutfall skulda á móti ráðstöfunartekjum.  Þá kemur í ljós að þeir sem eru ekki taldir í vanda, þ.e. hafa ráðstöfunartekjur yfir 6 m á ári eru með skuldahlutfall undir 300%.  Þeir sem eru með ráðstöfunartekjur undir 3m fyrir hjón (2m einstaklingar) eru hins vegar með skuldahlutfall yfir 600% og í sumum tilfellum upp í 1000%.

Flöt lækkun upp á 15-20% dugar ekki fyrir þennan stóra hóp skuldara.  Það þarf miklu róttækari aðgerðir til að bjarga þessum aðilum.  Enda kemur fram i skýrslunni að flöt lækkun lækkar lánin mest hjá þeim sem eru með hæstu tekjurnar.  Allir fá sömu prósentulækkun.

Einn helsti gallinn á skýrslunni er að flokka fólk í vanda og aðgerðir til handa þeim, ekki eftir skuldahlutfalli.  Það þarf að sníða aðgerðirnar eftir vandanum og hann er mjög mismunandi.

Hópurinn sem hefur skuldahlutfall undir 300% þarf engar aðgerðir, á milli 300%-600% dugar stighækkandi skuldaaðlögun eða lenging lána, fyrir hópinn yfir 600% eru lánin orðin ósjálfbær og allar venjulegar skuldaaðgerðir duga lítið.

Ein aðallexían af þessari skýrslu fyrir framtíðina er að takmarka lán við 300% af ráðstöfunartekjum.  Það tryggir betur en flest annað að heimilin lendi ekki í greiðsluvandræðum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • samt viljum við hin flata lækkun vegna forsendubrests, er það ekki sanngjarnt?

  • Svartálfur

    Hvort varð forsendubresturinn þegar íbúðarverð hækkaði meira en sem nam kaupmáttaraukningu samfara lausbeisluðum lánum eða þegar húsnæðisverð var leiðrétt með hruni?

  • Andri Haraldsson

    Takk fyrir þetta. Eftir því sem kemur fram hjá þér, þá blasir við að eftirfarandi lausn er fær, en hefur hins vegar mjög erfiðar þjóðfélagslegar afleiðingar:

    Taka alla sem eru yfir 600% til gjaldþrotaskipta en gefa þeim uppreisn æru og frelsi frá öllum skuldum (clean slate)

    Taka alla sem eru í 300-600% flokknum og fyrir þá sem eru í lægri tekjum koma þeim nær 300%, gera minna fyrir þá sem eru með hærri tekjur.

    Fyrir þá sem eru undir 300% gera ekki neitt.

    Þessi leið myndi ná því markmiði að klára málið og tryggja að sem fæstir fari á hausinn og að húsnæðismarkaðurinn komist af stað aftur, og með því skapist ákveðin ró í þjóðfélaginu. En auðvitað er þetta ekki sanngjarnt í strangasta skilningi. Það verða svo sannarlega þeir sem græða og þeir sem tapa. En held kannski að allar leiðir verðir þannig, hvort eð er.

  • Svo er spurningin hvar varð forsendubresturinn, í lánum eða launum. Það voru jú launin sem hrundu.

  • Nafni,
    Það sem kemur á óvart er hvað það er stór hluti þeirra sem eru í vanda sem eru í vonlausri stöðu. Fyrir þennan hóp dugir ekkert nema skuldaniðurfelling upp á 50% sem er ekki raunhæft. Því blasir við fjöldagjaldþrot, sama hvernig þetta er reiknað.

    Það verður aldrei hægt að finna sanngjarna launs fyrir alla, en því fyrr sem tekið er á þessu því betra.

  • Sæll Andri og takk fyrir góða pistla

    Mér finnst samt eins og menn séu að hugsa þetta vitlaust…

    Menn deila um kostnað, réttlæti ofl. ofl.

    Vandamálið er húsnæðismarkaðurinn… Hvað þarf að gera til að verði svona þokkalega heilbrigður…

    Lausnirnar virðist miðast við að fólk geti borgað af sínu húsnæði og búið í því til eilífðar. Það engin að ræða eigin fjár upptökuna sem varð í þessu hruni. Eigið fé einstaklinga bókstaflega hvarf og margir eru hreinlega komnir í neikvætt eigið fé.

    Ég myndi telja að flöt niðurfærsla skulda myndi gera meira fyrir húsnæðismarkaðinn en eitthvað vaxtabóta bix.

    Ein af grunnþörfum manneskjunar er að búa í húsnæði, og á meðan sá markaður er frosin og í steik þá koma félagslega vandamál til með að hrannast upp. Fjölskyldur stækka og fólk skilur, deyr, eldist ofl ofl.

    Þórarinn Ólafsson

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sex? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur