Föstudagur 12.11.2010 - 12:58 - 25 ummæli

Bankar á réttri leið

Skýrsla sérhóps um skuldaaðgerðir staðfestir að bankarnir hafa verið á réttri leið í sínum skuldaaðgerðum fyrir heimilin.  Það er sú leið sem hvað best hjálpar þeim verst stöddu (þó ekki verði öllum bjargað) og er hagkvæmust fyrir þjóðarbúið.  Almenn skuldaniðurfelling er dýr, óhagkvæm og tekur ekki á vanda þeirra verst stöddu.  Þetta eru auðvita vonbrigði og á vissan hátt álitshnekkir fyrir samtök heimilanna, Hreyfinguna og Framsóknarflokkinn, sem hafa hvað mest barist fyrir almennri 15-20% skuldaniðurfellingu,  en vonandi geta þau nú sameinast um aðgerðir byggða á niðurstöðum skýrslunnar.

Þó að þessi vinna sérhópsins hafi tekið lengri tíma en menn væntu er niðurstaðan skýr og studd staðreyndum.  Það er aðalmálið.  Nú hafa menn loksins þann talnagrunn staðreynda sem er nauðsynlegur til að hægt sé að vinna að skuldaaðlögun á traustan og ábyrgan hátt.

Ríkisstjórnin verður nú að móta sínar aðgerðir fljótt og örugglega og láta svo fjármálafyrirtækin um að vinna að lausn hvers og eins skuldara.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (25)

 • æi komonn, hvað með forsendubrestinn , af hverju á fólk að borga tvöfalt meira en fyrir hrun, hver er sanngirnin í því? Hvað gerði saklaust fólk til að verðskulda það? Keypti það 1 flatskjá? Almenn niðurfelling myndi skapa einhverja sátt hérna. Jafnvel þótt margt fólk geti borgað þá er hækkunin á lánunum svo hrikalega blóðug að það nær ekki nokkurri átt. Væri sáttur við 10%

 • Ástandið er svo slæmt að fólk er farið að reyna komast úr landi sem laumufarþegar, með skipum Eimskips!

 • Og þú heldur að þessi leið sem þú leggur til sé fær. Ég veit það ekki Andri Geir. Ég dreg það í efa en ég get ekkert fullyrt um það. Það getur margt gerst. Fólk gæti t.d. byrjað að mótmæla á ný, flutt úr landi í mun meiri mæli en ella, stöðvað nýjan Icesave samning, felt ESB umsókn, m.ö.o. það er ekkert gefið að það að gera ekki neitt sé vænlegur kostur í stöðunni.

  Málið er það að réttlætiskennd fólks er óendanlega misboðið. Hvergi hafa lántakendur átt nokkra aðkomu að því að skuldir voru fluttar yfir í nýja banka og möndlað með þær eins og að þær kæmu fólki ekki við. Þeirri spurningu er t.d. ennþá ósvarað hvort að skuldaafslátturinn er orðinn að eiginfé í nýju bönkunum. Hvað hafa menn að fela í sambandi við endurreisn bankana? Um hana var samið í lokuðum bakherbergjum.

  Og ég spyr í hundraðasta skipti. Hvað ætla menn að gera þegar dómsmálin frá sérstökum saksóknara fara að renna í gegnum dómskerfið? Það er varla nokkur maður sem trúir því að þau muni sýna annað en að bankarnir lánuðu í vondri trú. Ætla menn þá að segja, sorry þetta er of seint og vona það besta með að límið í þjóðfélaginu haldi?

  En ég neita því ekki að þú hefur valdið mér vonbrigðum undanfarna daga með athugasemdum sem mest hafa miðað að því að strá salti í sár fólks sem er reitt og sárt yfir meðferðinn á skuldamálunum. Þú átt að vera klárari en svo að þurfa að grípa til slíkra meðala. En ok. það sem við fáum út úr því er þá væntanlega að kynda enn frekar undir reiðina fyrir næstu lotu mótmæla býst ég við.

 • Mér sýnist þú því miður vera búinn að skipa þér í lið þegar þú segir að ríkisstjórnin eigi að „láta fjármálafyrirtækin um að vinna að lausn hvers og eins skuldara“. Þetta tel ég vera það versta sem hægt er að gera í stöðunni: uppskrift að gríðarlegri reiðibylgju sem kraumar undir niðri og getur losnað úr læðingi fyrirvaralítið.

  Af hverju? Jú, bankarnir munu að sjálfsögðu einungis leita lausna fyrir þá viðskiptavini sem eru komnir í algert þrot þannig að bankarnir *neyðast* til að leita lausna fyrir þá.

  Stærstur hluti heimila er hinsvegar sjálfsagt í þeirri aðstöðu að geta greitt af stökkbreyttum lánum sínum, en byrgja inni sívaxandi gremju og reiði vegna þess óréttlætis sem þau eru beitt. Bankarnir munu hinsvegar ótilneyddir *aldrei* bjóða þessum viðskiptavinum sínum upp á neinar lausnir … af því að þeir eru ekki komnir í greiðsluþrot og halda því áfram að greiða, og auðvitað hentar það bankanum ágætlega að láta þessa viðskiptavini borga af láni sem hefur hækkað úr hófi fram: láni sem bankarnir keyptu á sínum tíma með helmingsafslætti, ekki satt?

  Þetta getur einungis endað með því að upp úr sýður. Þessi leið þín er afleit og ósanngjörn, og mun leiða til vondra hluta.

 • Sæll Andri.
  Mig langar að segja þér hvernig staða lána er hjá mér.
  Ég er svo heppinn að ég hélt minni vinnu og hef nóg að gera (Er í upplýsingatækni)
  Ég er ekki í vanskilum og telst til þess hóps sem á ekki að þurfa neina leiðréttingu.
  Reyndar ná endar rétt svo saman hjá mér í dag.
  Hér er staðan
  Lán 1 : Ég tók 13 milljónir Ísl lán 2004
  Lán 2 : Ég tók 12 milljónir Gengistryggt lán mars 2008
  Keypti nýja íbúð í mars 2008 og borgaði í peningum 12 milljónir
  Keypti parket og fl. ca. 1 milljón

  Staðan í dag :
  Ég er búin að greiða af lánum ca.
  Lán 1 : 4,2 Milljónir
  Lán 2 : 3 Milljónir

  Eftirstöðvar
  Lán 1 : 22 miljónir
  Lán 2 : 27 milljónir

  Finnst þér virkilega ekki hafa orðið forsendubrestur varðandi mín mál?
  Nú er ég svo heppin að það er vöntun á minni þekkingu erlendis og ég og mín fjölskylda erum búin að ræða það að ef engar leiðréttingar verða gerðar þá sjáum við enga möguleika á að byggja upp gott líf á þessu landi og munum því væntanlega yfirgefa það.
  Það væri gaman að fá frá þér komment…..

 • Dæs! Þetta er þá búið.
  Kveðja að norðan.

 • Snorri hér að ofan tekur lán í mars 2008. Það er á þeim tíma þar sem öllum sem einhverju máli skipta innan bankakerfis og stjórnsýslu má vera orðið ljóst að bankarnir eru gjaldþrota og lántakan því augljóslega að koma lántakandanum í vandræði.

  Ég kannast við ungan mann sem var að skilja í ágúst/september 2008 og fór í greiðslumat til þess að kanna hvort að hann ætti möguleika á að yfirtaka íbúð þeirra hjóna. Hann stóðst greiðslumatið og tók íbúðina yfir í september örfáum vikum áður en bankakerfið hrundi.

  Þetta eru hrein og klár fjársvik af hálfu þessarar fjármálastofnunnar og ekkert annað. Af öllum mönnum Andri Geir þá ættir þú að vita að kúnnin verður að geta treyst því að ráðgjafinn sé að ráð honum heilt.

 • „Bankar á réttri leið“? Með þessum pistli ertu endanlega búinn að afhjúpa þig.

 • Bjorn Kristinsson

  Snorri
  12.11 2010 kl. 14:43

  Eg myndi nu telja ad thu værir sannarlega i theim hopi sem thyrfti og ætti rett og leidrettingu. Kalt mat Snorri 47 milljona skuld er forsendurbrestur. Thetta er galin stada sem thu lysir.

  Leidretting lana er naudsynleg, annars eru ekki adeins likur heldur miklar likur a thvi ad folk fari, ekki adeins their vegna skulda sinna, heldur einnig foreldrar sem horfa a hvernig samfelagid medhondlar almenning. Theirra rok verda einfaldlega thau ad i sliku samfelagi vilji thau ekki ala upp sin born. Andri, thetta er stada sem er mun liklegri ad komi upp en ekki.

 • Bjorn Kristinsson

  Bidst afsokunar a fyrri færslu en 22+27 eru vist 49 milljonir; thess tha heldur forsendubrestur !

 • Bjorn Kristinsson

  Eitt Andri, ef nyjasta frumvarp vidskiptaradherra er ekki sorglegur vitnisburdur um orettlæti tha tharf eg nyja skilgreiningu a sliku.

  Gerid ykkur grein fyrir ad frumvarpid heimilar fjarmalafyrirtækjum ad bakreikna lan otakmarkad aftur i timann ! Jafnvel their sem hafa lokid vid ad greida upp lanin sin geta og munu sennilega fa bakgreining. Thessi leikur er svo „made in Iceland“, hann ber vott um sjukt samfelag, engin virding borin fyrir borgurum, almennum rettindum eda neytendasjonarmidum.

 • Snorri,

  Ég geri ráð fyrir að þú fáir leiðréttingu á gengistryggða lánið. Hækkun frá 12m upp í 27m á 2.5 árum er meir en sem nemur hækkun jensins svo ég átta mig ekki á hvernig þetta er reiknað hjá þér, nema þú sért í greiðslustöðvun. Alla vega eru líkur til að þetta lán hjá þér lækki þegar nýtt frumvarp viðskiptaráðherra fer í gegn.

  Nú veit ég ekki hvað íbúðin þín er metin á, en það eru líkur á að 110% leið bankanna nýtist þér betur en 15.5% almenn niðurfærsla.

  Svo má ekki gleyma að bankarnir í dag eru ekki reknir af þeim sem ráku þá gömlu í þrot.

  Forsendubresturinn sem varð hér er gengisfellingin og verðtryggða krónan. Aðeins með gjaldmiðlaskiptum komast heimilin út úr þessari verðtryggingarvítahring.

  Að taka verðtryggð lán án þess að hafa tekjur í verðtryggðum krónum er eins og að taka lán í erlendum gjaldeyri. Þessu fylgir gríðarlega áhætta sem hefur verið til staðar hér í 30 ár. Hvers vegna fólki var ekki kynnt þetta af gömlu bönkunum, veit ég ekki. Hvers vegna grunnskólinn kennir ekki nemendum sínum lágmarks fjármálalæsi, veit ég ekki. Hitt veit ég að lán í verðtryggðum íslenskum krónum eru og verða alltaf áhættumikil, eins og dæmin sína.

  Ef menn vilja fara dýru leiðina með almennri skuldaniðurfellingu upp á 200 ma eru líkur á að ÍLS rúlli og ríkið fari í greiðsluþrot. Það verður ekki ókeypist að velta skuldaaðgerðum yfir á eigendur ríkistryggðra bréfa. Það mun kalla á enn meiri niðurskurð alls staðar því ekki verður hægt að brúa ríkishallann með endalausum lánum sem ríkið getur ekki borgað. Erlent og innlent lánstraust ríkisins mun hrapa og næsta kynslóð mun þurfa að taka á sig óeðlilegar byrgðar.

  Ef núverandi kynslóð vill ekki borga vegna forsendubrests er hún einfaldlega að velta vandanum yfir á foreldra sína og börn. Borga munu Íslendigar sama hvaða leið þeir fara. Fjármálamarkaðurinn var ekki fæddur í gær.

 • Ég skil ekki þetta tal um forsendubrest. Ísland er annálað verðbólgubæli og vísitölu hækkun undanfarið er bara alls ekki neitt sem hefur ekki gerst áður. Meðal vísitöluhækkun á ári frá upptöku verðtryggingar 1980 er ca 15%. Vísitöluhækkun (neysluvísitala til verðtryggingar) árið 2008 var 16,4% og hækkunin 2009 var 8,6% þ.a. meðal hækkun þessara 2 ára er vel undir meðaltalinu síðustu 30 árin.

  Snorri í dæmi þínu þá tekur þú ekki fram hver staðan var á verðtryggða láninu í mars 2008 þegar þú kaupir íbúðina heldur kemur með einhvern upphaflegan höfuðstól frá 2004 þ.a. þú ert að ýkja þá hækkun sem þú hefur orðið fyrir á láni 1.

  Við erum bara í kunnuglegri stöðu sem Íslendigar hafa verið í áður að verðtrygginga vísitölur hækka meira en laun. Sagan sýnir það að slíkt er bara tímabundið ástand sem lagast þegar hagvöxtur fer í gang og kaupmáttur hækkar aftur.

 • „Ef núverandi kynslóð vill ekki borga vegna forsendubrests er hún einfaldlega að velta vandanum yfir á foreldra sína og börn.“

  Þetta, er hinn afar sjaldan tjáði kjarni málsins.

  Hugsið vel um þetta, lánafólk.

 • Bjorn Kristinsson

  „Þetta, er hinn afar sjaldan tjáði kjarni málsins.
  Hugsið vel um þetta, lánafólk.“

  Thad hef eg gert i 2 ar. Vid erum ef til vill ekki somu syn a hagkerfid allt eftir thvi hvada leid er farin.

 • Og hverjir fóru óvarlega? Innistæðueigendur sem geymdu meira en 20000 evrur á reikningum eða lántakendur?

  Það sem gengur ekki upp í þessari röksemdafærslu þinni Andri Geir er að það séu komnir nýjir aðilar að rekstri bankana og þar með sé ekkert hægt að gera. Það er ekki hægt að taka skuldir eignanámi, rukka þær af fullum krafti undir nýrri kennitölu og halda að þar með séu öll mál úr sögunni jafnvel þó að í ljós komi að upphaflegur lánveitandi hafi lánað í vondri trú. Þrátt fyrir sterkar vísbendingar um annað undanfarið þá er Ísland ekki enn þá orðið fasistaríki.

  Þegar menn grípa til svona ráða og reyna þess utan að hræða úrganginn úr dómurum landsins til þess að þvinga fram þann vilja sinn að komast yfir illa fengið fé, þá eiga menn á hættu að fá yfir sig 8000 hvæsandi mótmælendur. Það eru liðin tvö ár frá hruni og þessi leið að horfa alveg framhjá hagsmunum lántakenda í samningum við kröfuhafa, en stela í nafni þjóðarinnar ca. 1000 milljörðum til þess að moka ofan í innistæðueigendur, hefur leitt okkur í ógöngur. Við komumst ekki úr sporunum sýnist mér nema að menn finni leið til þess að sætta öll sjónarmið.

 • Sæll Andri

  Heldur þú að staða lífeyrissjóðanna sé rétt eins og hún er gefin upp í dag? Getur verið að lífeyrisþegum sé í raun hlíft?

  Ég óttat mest að „Gjaldþrota kynslóðin“ aka þeir sem eru svo óheppnir að komast illa hjá því að vera með miklu meira af skuldum en eignum í sínum efnhagsreikning þurfi einnig að sjá lífeyrisréttindi sín skert. Það er vegna þess að ég held að meintar eignir í eignarhaldsfélögum með engu nema veði í hlutabréfum reynist minni en menn eru tilbúnir að viðurkenna í dag. Hvað ætli skuldabréf þessi myndu seljast á langt frá pari?

  Ég hef skilning á að peningar ríkissjóðs eru mjög verðmætir í dag. En ef þessi kynslóð (sérstaklega) ásamt mörgum öðrum skuldurum á að borga hluta af partíi sem það tók ekki þátt í hvernig og hvenær á að bæta því fólkið gjaldið sem það á nú að greiða?

  Vill þessi sami hópur greiða áfram til samfélags sem kemur svona fram?

 • Trúði því að þú værir rettsýnn maður Andri Geir. Feilaði á því að athuga fyrir hverja þú værir réttsýnn maður. En nú veit ég það! Valdastéttina og auðvaldið? Stattu þig drengur!
  Svona í framhjáhlaupi þá skulda hvori ég né maki minn 1 krónu í húsnæði. Einn af þessum heppnum frá því fyrir 1981!! En Andri Geir við hér á Íslandi viljum búa í samféalgi sem réttir út hjálparhönd til þeirra sem hafa veikst, orðið fyrir atvinnumissi eða verið rændir af bankamönnum Íslands. Það verður engin sátt í þessu þjóðfélagi fyrr en forsendubresturinn er leiðréttur. Hvorki execlskjöl né reiknistokkar gagnast í þeirri tiltekt! Þetta er hluti af samfélagssáttmálanum og því pólitískt mál. Að blaðra um að ef almenningur fengi leiðréttingu sinna mála nú, yrði reikningurinn sendur á börnin og barnabörnin, nú eða ef fólk hætti að borga af lánum þá lenti það á pabba og mömmu og afa og ömmu. Ef menn skoða þetta út frá samfélgassáttmálanum þá sjá menn fljótlega hvers konar þvæla slíkur málflutningur er!

 • Sigurður Sigurðsson

  Það er alveg ótrúlegt að lesa þennan pistil þinn. Að reyna að halda því fram að fjármálastofnanir hafi einhvern áhuga á því að gera eitthvað sem gagnast samfélaginu er auðvitað rugl og þvæla. Þær gera nákvæmlega bara það sem þær hagnast á. Skuldaaðlögun er þeirra leið til að komast hjá því að sitja uppi með of mikið af eignum

  Það er líka argasta bull að við sem viljum fá leiðréttingu á því sem hefur verið oftekið í formi verðbóta séum að hengja foreldra og börn út til þerris. Kjaftæði Andri.

 • Það eru tvær hliðar á öllum málum. Við megum ekki falla aftur í þá gryfju að viðra ekki öll sjónarmið af stillingu og hófsemi. Hér fyrir hrun hótuðu bankarnir þeim lögsóknum sem ekki héldu sig á mottunni en í dag má ekki segja aukatekið orð um það sem vel er gert í bönkunum. Það sem var svart er orðið hvítt og öfugt, það er ekkert grátt til á Íslandi eins og í öðrum löndum. Svona sveiflur á milli öfga eru ekki af hinu góða.

  Það er athyglisvert að þeir sem kenna nýju bönkunum um allt sem miður fer minnast aldrei á ÍLS sem er 100% í eigu ríkisins. Hvaða aðgerðir er sú stofnun að bjóða upp á sem bankarnir gera ekki? Þá verður fátt um svör?

  Þeir sem gagnrýna sem hæst kennitöluflakkið á nýju bönkunum taka sjaldnast með í reikninginn að ef sú leið hefði ekki verið farin væru þessi lán í innheimtu hjá erlendum kröfuhöfum. Ekki er ég viss um að það væri auðveldara að eiga við þá en nýju bankana. Skuldir hverfa nefnilega ekki við gjaldþrot fjármálastofnanna. Hins vegar get ég tekið undir gagnrýni á neyðarlögin.

  Leiðréttingar þarf að fjármagna alveg eins og í hruninu fjármagnaði AGS ríkið svo við gætum haldi áfram að reka þjóðfélagið. Peningar verða ekki búnir til úr engu. Það er alltaf einhver sem borgar og allar aðgerðir færa fjármagn á milli aðila og kynslóða. Við getum ekki snúið klukkunni við og verðum að gera það besta úr erfiðri stöðu.

 • Sigþór Ari

  Skýrslan fannst mér fyrirfram ákveðin og veik. Markmiðið var að reikna burt þá augljósu staðreynd að almenn skuldaniðurfelling væri ekki raunhæf. Skuldavandi heimilanna er fyrst og fremst skammtímaskuldavandi. Nefndin um skuldastöðu heimilanna sleppir skammtímaskuldum og reiknar út skammtímasjónarmið á langtímaskuldbindingar. 60 milljóna lán í jenum í dag til langstíma með 3 % vöxtum er líklega hagstæðara en 35 milljóna íslenskt lán verðtryggt með 4 % vöxtum. Bankarnir eru að nýta sér þenna kúf til að þvinga fólk í betri skammtímastöðu fyrir það en langtíma fyrir sig. Einhvernveginn þá finnst mér þeir sem fá það verkefni að greina skuldavanda heimilanna geti ekki byrjað á því að henda öllum skammtímaskuldum til hliðar og byrja að reikna dæmið. Einhver hefði fengið lágt á prófi fyrir þá forsendu. Nú tel ég að ríkisstjórnin sé hinsvegar búinn að finna taktin að endanlegri lausn fyrir heimilin en hún felst í

  1. Reikna öll gengistryggð lán í samræmi við dóm hæstarétta
  2. Aðlaga sértæka greiðsluaðlögun þannig að um raunverulegan nauðarsamning sé að ræða án nokkura útgönguleiða fyrir lánadrottna
  3. Setja gjaldþrotafrestin í 2 ár án skilyrða og endurkröfu
  4. Gefa fólki tækifæri næstu fimm árin að losa sig við öll skammtímalán með því að frysta húsnæðislán og önnur lán á meðan sérhvert lán er greitt upp, einhverskonar uppgreiðslugreiðsluaðlögun. Lánin bera að sjálfsögðu vexti í frystingu og lánstími lengist sem nemur frystingunni

  Þannig fá allir sitt og við getum náð okkur úr þessu.

  kv

 • Allar skuldir sem fella þarf niður á að gera 100% á á kostnað þrotabúa gömlu bankana (erlendra kröfuhafa) og til viðbótar á að taka úr þeim það sem upp á vantar til að bæta ríkissjóði og lífeyrissjóðunum þeirra tap að fullu. Það á ekki að skilja 1 aur eftir þarna inni til handa alþjóðlegum fjármálamarkaði fyrr en búið er að bæta Íslandi skaðann að fullu. Og í leiðinni á að taka af þeim fyrir fullt og allt réttin til að fara í mál við Ísland, ríkið og Íslenska borgara þannig að það verði ekki neitt frekar til að tala um. Og ekki væri nú verra að byrja á því áður en farið er á stað í þessar nauðsynnlegu aðgerðir að flytja heim allt fé og eignir sem eru erlendis til að nota í vinnu hér á landi og til að eiga smá forða þegar fílan verður sem mest.

  Allt tal um að Ísland fá ekki aftur aðgang að erlendum mörkuðum er marklaust því allir kaupa og selja þær vörur sem markaður er fyrir. Það má reinka með því að fílan verði mikil í Evrópu en það er líka bara í lagi því það er ekki skinsamlegt að skipta svona mikið við eitt svæði – það á nota allan heimin en ekki gjaldþrota nýlenduveldi sem helsta viðskiptamann.

  Málið er nefnilega að heimurinn er gjaldþrota eins og hann leggur sig af misjöfnum ástæðum þó en það breytir ekki öllu og þetta er þaggað niður vegna þess að elítan veit að hún verður tekin af lífi á torgum úti ef fólk almennt fer að fatta þetta.

 • Sæll Andri
  Ég er þér í raun hjartanlega sammála en það er þó eitt atriði sem vantar í þína númerísku analýsu. Hvers virði er það að skapa einhverskonar sátt? Getur verið að það sé etv hagkvæmara að kaupa friðinn þegar til lengri tíma er litið? Það er ekki auðvelt að reikna það út í Excel (eða Matlab :). Eru þessi rök ekki í raun þau sömu og þú og aðrir hafa haldið uppi í tenglsum við Icesave? Betra að ‘kaupa’ sáttir strax og geta þá amk farið að einblína á uppbyggingu í stað þess að sitja föst áfram í sama hjólfarinu.

 • Ólafur,
  Rétt hjá þér, sátt er auðvita hagkvæm og þarf að taka með í reikninginn, en hvers konar sátt erum við að tala um og hversu lengi mun hún endast?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og einum? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur