Föstudagur 08.04.2011 - 08:07 - 8 ummæli

Hverfur Icesave við „Nei“?

Margir  virðast halda að ef við aðeins segjum „Nei“ þá muni Icesave skuldbindingin hverfa.  Er það skynsamleg ályktun? Varla.

Hér er um alþjóðlega deilu að ræða sem ekki verður leyst einhliða af öðrum aðilanum.  Það er því hæpið að álykta að skuldbinding íslenska ríkisins hverfi ef sagt er „Nei“ og að aðgangur að fjármagni batni og að við losnum við höftin fyrr.  Menn einblína allt of mikið á höfuðstólinn en gleyma vöxtunum.  Japanska ríkið skuldar tvisvar sinnum meira en íslenska ríkið sem hlutfall af landsframleiðslu, um 200%, en Japanir eru ekki í sömu peningalegu vandræðum og Íslendingar.  Hvers vegna?  Jú, meðal annars, vegna þess að þeir borga aðeins um 1% vexti af sínum lánum.  Vaxtakjörin skipta öllu máli og það er þess vegna sem AGS og lánsmatsfyrirtækin eru hlynnt samþykki á Icesave.  Þar með er óvissu eytt, samið er um skuldbindinguna og umfram allt hún fjármögnuð á vöxtum (um 3%) sem eru líklega meir en helmingi lægri en íslenska ríkið gæti fengið á opnum markaði. 

Ef sagt er „Nei“ hverfur skuldin ekki.  Þá heldur óvissan áfram.  Við vitum ekki hver endanlegur höfðustóll á skuldbindingunni verður, hann gæti orðið lægri, sami eða hærri, allt fer eftir endurheimtum úr búi gamla Landsbankans og svo hvort og hvernig framtíðar dómsmál endar.  Það verður því að gefa sér ákveðnar forsendur um líkindadreifingu á  höfuðstól skuldbindingarinnar sama hvort sagt er „Já“ eða „Nei“.  Það hefur engum tekist að koma fram með sannfærandi rök að væntanlegt gildi úr slíkri líkindadreifingu sé lægra við „Nei“ en „Já“.   Það sama á ekki við um vaxtakjörin.

Ef sagt er „Já“ eru vaxtakjörin þekkt, 3% og 3.3%, sem er langt fyrir neðan áhættumetan markaðsvexti miðað við lánshæfismat og skuldatryggingarálag íslenska ríkisins.  Ef sagt er, „Nei“ eru vaxtakjörin óþekkt.  Þau munu þá líklega ráðast af markaðsvöxtum á þeim tíma sem endanlega verður gengið frá Icesave.  Nú eru vexir á alþjóðamarkaði að hækka, Evrópski Seðlabankinn hækkaði vexti í gær og fastlega er búist við að Englandsbanki hækki vexti seinna á þessu ári.  Það er því hæpið að gera ráð fyrir að þeir vextir sem samið hefur verið um muni halda í framtíðinni.  Núverandi samningur er gerður þegar vextir í evrum og pundum eru í sögulegu lágmarki, og það skiptir máli.

Þegar litið er á málið frá þessu sjónarhorni er auðvelt að gera sér grein fyrir hvers vegna Moody´s og önnur lánsmatsfyrirtæki hafa áhyggur af „Nei“.  Með „Nei“ hverfur ekki höfuðstóllinn en vextir hækka.  Ef við gefum okkur að hinn endanlegi höfuðstóll sé hinn sami hvort sem sagt er „Nei“ eða „Já“ (miðað við óvissuna í dag er þetta skynsamleg ályktun) þá eru yfirgnæfandi líkur á að greiðslubyrði ríkisins verið hærri með „Nei“ en „Já“, vegna hækkandi vaxta. 

Kaldhæðni örlaganna er að ef sagt er „Nei“ verða vextir líklega nær hinum upprunalegum vöxtum upp á 6.7% sem Árni Matt og Baldur Guðlaugsson kvittuðu upp á, á frægu minnisblaði þegar fyrst var ákveðið að ganga til samninga.  Eitt er víst, að ef sagt er „Nei“ verða matsfyrirtækin að setja markaðsvexti á þessa skuldbindingu þar til um annað er samið.  Þar með hækka reiknaðar skuldbindingar ríkisins meir við „Nei“ en „Já“.  Og það er hin væntanlega greiðslugeta ríkisins í framtíðinni sem skiptir máli þegar ákveða á ný lán ekki aðeins fyrir opinbera aðila heldur einnig innlenda aðila sem ekki hafa veðhæfar eignir og starfsemi erlendis.  Áhyggjur Landsvirkjunar af „Nei“ eru því vel skiljanlegar.

Nei, það er engin tilviljun að bæði Moody´s og AGS eru fylgjandi samþykki á Icesave.  Og í raun eru það allir sem láta tölurnar tala.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Ólafur Margeirsson

    Sæll Andri

    Ég fæ ekki betur séð en að „já“ muni, ekki frekar en „nei“, síður en svo láta skuldbindinguna hverfa. Og það er líka misskilningur hjá þér að óvissan sé þá þekkt. Það veistu vel. Það mætti alveg eins standa þarna „Ef sagt er „Já“ hverfur skuldin ekki. Þá heldur óvissan áfram.“

    Skemmtilegt að þú skulir minnast á vextina. 3% og 3,3% vextir finnst mér að nokkru leyti háir vextir. Að bera þá saman við markaðsvexti þá sem íslenska ríkið myndi annars borga er heldur ekki rétt. Og ástæðan er þessi:

    Samningsvextirnir (3% og 3.3%) eru á láni þar sem þú ert með veð, þ.e. eignir þrotabúsins. Markaðsvextir (sem væru kannski í kringum 5-6% í dag) eru hins vegar vextir þar sem ekkert veð er að baki. Og eins og þú veist jú vel þá eru vextir á lánum þar sem veð er að baki lægri en á lánum þar sem ekkert veð er til staðar.

    Þannig að samningsvextirnir eru á láni sem ekki aðeins er með veð að baki upp á 89% af skuldunum (110% veðsetning) heldur með ríkisábyrgð líka – „belti og axlabönd“ eins og sagt er. Það væri fráleitt að halda því fram að slíkt lán ætti ekki að teljast öruggara en lán til ríkissjóðs án nokkurs veðs.

    Þess vegna er ekki rétt að bera samningsvextina saman við markaðsvexti.

    Svo varðandi þetta blessaða áhættumat frá Moody’s. Ég hef séð það. Það eru heilar tvær blaðsíður! Bloggfærslan hjá þér er nærri því svo löng! Það hvarflar ekki að mér að taka mikið mark á slíku mati, sérstaklega með það í huga að það er búið að ræða Icesave í ótal öðrum greinum og ritum. Og flestar þeirra hafa verið lengri en mat Moody’s og ítarlegri.

    Með „já“ værum við einnig að treysta ESB til að stuðla að fjármálalegum stöðugleika í Evrópu því við værum að treysta á að „já“ opnaði dyrnar að erlendum lánsfjármörkuðum sem er alls ekki víst að gerist. Þú fyrirgefur vonandi þótt ég treysti ekki ESB til að stöðva lestarslysið sem evrópskt fjármálakerfi er.

    Og hvað gerist ef Neyðarlögin falla? Ef þau falla: ca. 350ma.kr. aukakostnaður við að segja „já“. Þannig að rök um að við séum að forðast einhver neikvæð áhrif af hugsanlegum dómsmálum með því að segja „já“ eru bara því miður ekki rétt.

    Óvissan við að segja „já“ hverfur ekki minn kæri Andri. Því miður mun þetta Icesave rugl halda áfram hvort sem niðurstaðan verður „nei“ eða „já“ á laugardaginn.

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Ólafur,
    Þetta er ekki alveg rétt nálgun hjá þér.

    Þetta er staðan

    Kosið Vextir Höfuðstóll Fjármögnun

    NEI óþekktir óþekktur ótryggð
    JÁ þekktir óþekktur tryggð

    Þar með er ákveðinni óvissu hvað varðar fjármögnu og vexti eytt með því að segja já.

    Gríska ríkið er með sama lánshæfi og Ísland og er að fá 10% vexti á sín ríkistryggðu skuldabréf. Verxtir miðast alltaf við þá áhættu sem fjárfestar taka. Fjármögnun Íslands í dag miðast við þá vexti sem Ísland fær hjá AGS og Norðurlöndunum sem eru rúmlega 5%. Þau kjör standa okkur ekki til boða um langa framtíð enda ekki stætt á að skattgreiðendur í hinum Norðurlöndunum séu að niðurgreiða vexti hér á landi.

    AGS og Moody´s eru ekki fullkomnar stofnanir en þær njóta meira trausts og trúverðugleika en íslenskir aðilar, allt er relatíft. Við búum ekki í absalút heimi.

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Þessi tafla mín skolaðist til. Hún segir:

    Já, fjármögnun og vextir þekktir, höfuðstóll óþekktur.

    Nei, fjármögnun, vextir og höfuðstóll óþekkt.

  • Sæll Andri

    Ég er sammála Ólafi um að í flestum efnum er enginn munur á já-i og nei-i. Lágmarkstryggingin verður greidd í báðum tilfellum af TIF með peningum frá LBI, uppbótartrygginguna fá FSCS og DNB bætta frá LBI (gefum okkur að eigir bankans dugi fyrir því), allir innstæðueigendur fá greitt upp að EUR 100.000 (aftur gert ráð fyrir að eignir LBI dugi fyrir því), innstæður umfram EUR 100.000 verða greiddar út svo fremi sem eignir LBI duga, það sem ekki fæst greitt af LBI fellur líklegast á ríkið vegna mismununar á innlendum og erlendum innstæðueigendum (fer fyrir dóm).

    Það sem er ólíkt er:
    1. TIF mun krefjast forgangs í þrotabú LBI verði lögin felld. Það ætti að vera auðunnið mál. Þar með styttist til muna tíminn sem það tekur TIF að endurgreiða FSCS og DNB.
    2. Vextir hækka á lánum Breta og Hollendinga til TIF en í staðinn styttist tíminn. TIF á endurkröfurétt á LBI vegna vaxtanna, þannig að TIF sendir reikninginn áfram. Ef hann fæst ekki greiddur, þá veldur styttri uppgreiðslutími því að vextir verða annað hvort lægri eða svipaðir.
    3. Moody’s segist lækka lánshæfismatið ef lögunum verður hafnað. En þá taka við lög nr. 96/2009 og Moody’s hefur lýst því yfir að taki sá samningur gildi þá hækki lánshæfismat Íslands. Hvort er það? Hækkar matið eða lækkar það? Fyrir utan að ég sé ekki rökin fyrir því að matið ætti að lækka. Höfnun á lögunum hefur ekkert með það að gera að TIF ætlar að endurgreiða FSCS og DNB. Lögin snúast um ríkisábyrgð upp á 650 ma.kr. og forgangsröð í bú LBI. Það stenst engin rök að lánhæfismat lækki við að hafna 650 ma.kr. ríkisábyrgð. Það er hreinlega heimskulegt og lýsir vanhæfi þess sem það segir til að meta lánshæfi. (Úps, SEC sagði í skýrslu sumarið 2009 að öll matsfyrirtækin hefðu sýnt stórfellt vanhæfi á árunum þar á undan. Ætli það hafi eitthvað breyst?) Hvernig mun síðan Moody’s bregðast við ef TIF greiðir 400 ma.kr. inn á kröfur FSCS og DNB í staðinn fyrir 200 ma.kr.? Lækka lánshæfið enn frekar? Höfum í huga að LBI var með uppbótartryggingu FSCS og DNB. Það þýðir að bankinn borgaði iðgjald til þessara sjóða. Krafa þeirra vegna þessa kemur okkur ekkert við nema eignir LBI dugi ekki til.
    4. Aðgangur íslenskra fyrirtækja að lánsfé. Bíddu, eru ekki íslensku bankarnir yfirfullir af fé. Af hverju sækja fyrirtæki ekki lán til þeirra?
    5. Dómsmál: Ekki er nokkur þörf á að fara í dómsmál vegna lágmarkstryggingarinnar. TIF viðurkennir hana. Dómsmál vegna vaxta gæti komið upp, en það liggur fyrir samkomulag um 5,5% vexti, þannig að þeir taka þá líklegast við. Þar sem þeir greiðast líklegast bara til ársloka 2012, þá skiptir mismunurinn á vöxtum samkvæmt Icesave III ekki nokkru máli í heildarmyndinni. Dómsmál vegna mismununar verður höfðað hvort heldur lögin verða samþykkt eða þeim hafnað.

    Það er sama hvernig ég horfi á þetta, munurinn á því að segja já eða nei er sáralítill hvað varðar kostnað og dómsmál. Áhættan í málinu er aftur færð á herðar skattgreiðenda ef sagt er já, a.m.k. þar til dómstólar komast að niðurstöðu varðandi mismunun. Þá færist hún líklegast á skattgreiðendur hvernig sem fer í atkvæðagreiðslunni.

    Svo merkilegt sem það er, þá verða stærstu áhættuþættirnir óútkljáðir hvernig sem atkvæðagreiðslan fer. Þetta gleyma já-sinnar að nefna í sínum málflutningi.

  • Af hverju segir þú að fjármögnun sé eitthvað minna þekkt ef sagt er nei, en þegar sagt er já. Koma ekki peningarnir alltaf frá LBI? Verða ekki alltaf einhver dómsmál sem trufla endurgreiðsluna? Og varðandi höfuðstólinn, er hann virkilega þekktur? Er það ekki einmitt málið að við vitum ekki hvaða heimtur verða úr þrotabúi LBI og dugi þær ekki fyrir forgangskröfum, þá gæti restin fallið á ríkið sama hvort niðurstaðan verður já eða nei.

  • Björn Kristinsson

    Ég geri nú ráð fyrir því að Landsbankinn muni greiða út úr þrotabúinu óháð niðurstöðu. Það er allavega klárt að þeir muni þurfa að greiða út lágmarkið EUR 20.887.

    Ef eitthvað stendur eftir og niðurstaðan verður NEI þá nálgast menn einfaldlega aftur að klára málið. Ég sé einfaldlega ekki vandamálið.

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Marinó,

    Höfuðstólinn er óþekktur í báðum tilfellum. Vaxtakjörin eru hins vegar tryggð með „Já“.

    Ef sagt er „Nei“ hver tryggir vaxtakjörin og fjármögnunina ef allt fer á versta veg? Það hefur farið fram hjá mér?

    Ef hin fjárhagslega útkoma er sú sama fyrir skattgreiðendur í báðum tilvikum sem hún gæti verið en enginn veit, þá er auðvita skynsamlegra að segja „JÁ“ og halda friðinn við nágrannalöndin.

    Tíminn er peningar.

  • Björn Kristinsson

    Andri, vaxtakjörin eru þekkt en vaxtakostnaðurinn er ekki þekktur. Þetta er stórt atriði.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sex? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur