Föstudagur 24.04.2009 - 10:28 - 6 ummæli

Vinna, velferð, Evrópa, Jóhanna

Það er auðvitað galli á vísu að fyrri hlutinn rímar ekki og seinni hlutinn stuðlar ekki – en þá taka menn bara viljann fyrir verkið. Þessa síðustu daga kveð ég þessa vísu aldrei of oft:

Vinna

Við verðum að ná vinnustöðunum – fyrirtækjunum – af stað aftur. Í finnsku kreppunni um 1990 voru gerð þau afdrifaríku mistök að fyrirtækin urðu gjaldþrota án nokkurs tillits til þess hvort þau voru lífvænleg, og að sama skapi hófst mikið atvinnuleysi – um 50% í þeim héruðum sem verst urðu úti. Þetta leiddi til þrots hjá fjölskyldum, skilnaða, börn fóru á vergang, alkóhólismi geisaði. Og þótt Finnar tækju síðar skynsamlega á í menntamálum og nýsköpun í iðnaði segjast þeir hafa misst fjölda manns í þessu stríði, þar á meðal heila kynslóð þeirra sem þá voru að ljúka skólum og ekki fengu vinnu.

Velferð

Við höfum gert margt vel Íslendingar, þrátt fyrir allt, og þar á meðal er velferðarþjónustan – nú er mikilvægara en nokkru sinni að nota hana til að styrkja fjölskyldurnar og einstaklingana. Við þurfum að skera niður en eigum að hlífa velferðarstofnunum og –sjóðum. Og í þessu samhengi er menntakerfið hluti af  velferð í samfélaginu, bæði fyrir fólkið og fyrirtækin.

Evrópa

Það er engin vinna eða velferð ef allt fer aftur um koll af því menn þora ekki að taka á mesta meininu: Gjaldmiðli sem enginn tekur mark á innanlands eða utan. Krónan er ónýt – og þeir tímar eru liðnir að hægt sé að halda uppi gjaldeyrishöftum nema örskamma hríð. Evran hlýtur að vera markmiðið, og allar líkur benda til að ástandið skáni strax og ríkisstjórn Íslands sendir til Brussel litla póstkortið með skilaboðum um að við viljum semja. Margir mögla gegn Evrópusambandinu – en enginn þeirra hefur lagt fram leið út úr kreppunni eða framtíðarsýn í efnahagsmálum. Ef evruleiðinni er hafnað stöndum við í raun frammi fyrir þeim kosti að segja okkur frá EES-samningnum, því grundvöllur þess samstarfs er fjórfrelsið, þar á meðal frjálsir fjármagnsflutningar. Viljum við það?

Jóhanna

Kreppan í haust var ekki bara bankakreppa og efnahagskreppa heldur breyttist strax í stjórnmálakreppu, og þótt Sjálfstæðisflokkurinn og hugmyndafræði hans beri mesta ábyrgð þarf enginn að furða sig á því að þjóðin snerist gegn stjórnmála-„stéttinni“ allri – sem ekki sá, heyrði né sagði frá, sem hafði tekið þátt í dansinum kringum gullkálfinn hver með sínu móti. Þegar ríkisstjórn Geirs Haarde hrökklaðist frá með skömm var það eiginlega ekki nema einn stjórnmálamaður í landinu sem þorri þjóðarinnar treysti til forystu: Jóhanna. Aðeins hún hafði þann trúverðugleik, þá áru heiðarleika og þann feril þjónustu við alþýðu manna. Það er viðeigandi þversögn að Jóhanna er annarsvegar reyndasti stjórnmálamaður þjóðarinnar, og hinsvegar fulltrúi þeirra gilda sem þarf að hefja til vegs í framtíðinni: heilindi, dugnaður, nægjusemi, hóf.

Vinna, velferð, Evrópa, Jóhanna. Ágæt vísa fyrir daginn á morgun.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Nýi Dexter

    Evrur, réttlæti. Ísland, Íslendingar.

  • Ísak Harðarson

    Það væri samt ágætt að þið byrjuðuð á því að biðjast afsökunar á svikunum við kjósendur ykkar í síðustu kosningum, þegar þið öllum að óvörum mynduðuð stjórn með erkióvini íslensks almennings. Síðan fór sem fór. Hvers vegna ættu kjósendur að treysta ykkur núna? Kraumar ekki sama hentistefnan undir niðri?

  • Sýnið okkur skýrsluna MÖRÐUR…

    Allt opið og uppi á borði…

    já, á hvaða hæð????

  • Án þess að fara út í það hvort valið standi á milli evruuptöku og einangrunnar:

    Til þess að taka upp evru þarf að fara í gegn um ERM II og þá þarf fyrst að komsat út úr höftunum og setja krónuna á fullt flot til að fá viðráðanlegt fastgengi. Síðan þarf að standast hin Maastricht skilyrðin.

    Ef ætlunin er að taka upp evru að lokum þá þarf að vinna að þessum markmiðum á þessu kjörtimabili. Á morgun eru kosningar og enn hefur ekkert raunhæft komið fram um það hvernig Samfylkingin ætlar að fara að því.

    Eru ekki síðustu forvöð núna?

  • Það sem er svo skrítið við málflutning þinn er að
    þú talar eins og með Jóhönnu sé frelsari fundinn.
    Staðreynd er að hún var í síðustu ríkisstjórn,hefur ekki beðist afsökunar á neinu, virðist samkvæmt því ekki hafa haft hugmynd um það sem var að
    gerast,eða hvað. Það gengur ekki að hafa gleymna þjóðarleiðtoga.

  • Örn Úlfar Sævarsson

    Vel ort. Baráttukveðja!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og þremur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur