Þriðjudagur 28.04.2009 - 08:02 - 87 ummæli

Hættu þessu, Þráinn

Hinn ágæti nýi þingmaður Þráinn Bertelsson er enn að vandræðast með heiðurslaunin sín. Þau vandræði hafa sennilega skemmt fyrir honum og framboðinu á síðustu dögunum af því hann langar að halda þessum peningum ofan á þingmannslaunin, og enn halda þau áfram að skemma fyrir. Mig minnir þau séu um það bil 150 þúsund krónur á mánuði, en þingfararkaupið sirka 550.

Þetta eru heiðurslaun sem alþingi veitir sérstaklega, og koma „listamannalaununum“ – starfslaunum listamanna – ekkert við lengur, sem koma úr sérstökum sjóðum utanþings og er úthlutað samkvæmt umsóknum til einstakra verkefna. Heiðurslaunin eru einkum ætluð listamönnum á efri árum, þótt nokkur dæmi séu fyrr og síðar um yngra fólk, og auðvitað er afar sérkennilegt að þau fái maður í fullri vinnu við allt annað en listsköpun. Enda eru ekki nein dæmi um að alþingismaður þiggi slík laun.

Heiðurslaunin eru veitt frá ári til árs með sérstakri tillögu, um þau gilda engin lög. Menntamálanefnd þingsins gerir tillögu um þau að hausti, yfirleitt milli 2. og 3. umræðu fjárlaga, og síðan er sú tillaga borin upp á þinginu. Þetta er sumsé sérstök ný tillaga á hverju ári þar sem listamennirnir eru taldir upp í stafsrófsröð (hér í fyrrahaust) , þótt hefðin sé sú að menn falla ekki af listanum fyrren þeir eru dauðir. Ef Þráinn vill halda áfram að fá heiðurslaunin þarf hann þessvegna sjálfur að taka þátt í því sem alþingismaður að afgreiða tillögu um þennan heiður í sinn garð. Það er nú ekki alveg normalt –

 – en þessutan lendir hann í því klandri að í 64. grein þingskapa stendur að þingmaður megi ekki „greiða atkvæði með fjárveitingu til sjálfs sín“. Þegar kemur að atkvæðagreiðslunni þarf því Þráinn Bertelsson alþingismaður úr Reykjavík norður að sitja hjá eða greiða atkvæði gegn tillögunni – eða þá að forðast að koma í salinn þegar tillagan er afgreidd.

Þetta verða sífelld leiðindi. Málið kemur upp á hverju hausti. Þráinn þarf að skrifa hverja varnargreinina af annarri.

Æ, hættu þessu bara, Þráinn.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (87)

  • Elías Guðmundsson

    Er ekki möguleiki að hafna þessum launum meðan hann situr á þingi,
    eða gefa til góðgerðamála. Og þiggja þau síðan eftir að þingsetu líkur.

  • Jón Hallur

    Sammála Elíasi, alveg eins og ráðherrar ættu að gera við þingfarakaupið.

  • Mörður Árnason

    Lang-einfaldast fyrir hann.

  • En nú liggur fyrir að Þráinn er mesti kvikmyndagerðarmaður Íslandssögunnar, þess vegna er hann sá eini úr þeim hópi á þessum virðulega lista. Allar götur síðan skömmu eftir að hann var síðast í framboði til Alþingis, þá fyrir Framsóknarflokkinn, sem einmitt fór með formennsku í menntamálanefnd Alþingis um þær mundir sem nefndin kom auga á þessi atriði.

  • Vá þetta er alveg magnað, stóraheiðurlaunamálið! Þetta er svo smávægilegt miðað við allt hitt sem undan er gengið, að það er hlægilegt.

    Það er í raun ekkert bitastætt hérna, en samt hikar Mörður ekki við að sletta smá á nýliðana. Er þetta svona eins og í fangelsinu þegar nýr fangið lætur sjá sig? Ætti þráinn núna að ganga upp að aðal hrekkjusvínuni og dúndra hann í andltið, bara svona til sína hver ræður?

  • Jói Jóns

    Auðvitað er Nýtt líf, Dalalíf og öll hinn lífin mesti menningalegi fjársjóður landsins íslendingasögurnar eru auðvitað prump miðað við þessa snilld. Menn sem hafa gert slík stórvirki eiga ekki að þurfa að pukkrast á 500 k á mánuði.

  • vona að fjórflokka sauðirnir fari að hætta þessu skítkasti í Listamanninn og núna þegar úrslit kosninganna eru ljós er fjórflokkurinn byrjaður að undirbúa kaup á þingmönnum utan sinna raða svo takist að lækka verðið á þeim er það gott fyrir spillingarlyðið svo láttu kjurt Mörður nema þú viæjir kaupa….

  • Er þetta ekki það sem þjóðin kaus?

  • Finnst nú reyndar ekkert bogið við að menn þiggi þessi laun og sinni jafnframt öðrum verkefnum, hvort sem þau eru listtengd eða ekki (vonandi er ekki gert ráð fyrir að menn lifi á þessari hungurlús). Og því minna sem listamenn eru innmúraðir í fílabeinsturna, því betra, þannig að það er bara fínt að þeir fáist við eitthvað allt annað líka.Ég held að það sé gott fyrir alþingi að njóta krafta einhvers sem það hefur talið verðugt þessara launa.

    Væntanlega er engin hefð fyrir því að menn afþakki þau vegna nokkurra starfa (er ekki Jón Þórarinsson búinn að vera í áratugi að skrifa íslenska tónlistarsögu?).

  • Sammála, Mörður, þetta er engin veginn boðlegt.
    Það gengur auðvitað ekki upp að einn þingmaður þurfi að taka sér frí þegar greidd eru atkvæði um fjárlög, vegna þess að hann á að fá tiltekna fjárhæð í eigin vasa. Þráinn, þetta er fullkomlega óverjandi, enda hefur þér hvergi tekist að færa rök fyrir máli þínu. Nú síðast talaðir þú um að fara eftir „hefðum“ á Alþingi, í umræðum í Sjónvarpinu. Það eru engar hefðir fyrir því að þingmaður hljóti heiðurslaun og því hlýtur þú að afsala þér þeim!

    Auk þess eru heiðurslaun listamanna nokkurskonar lífeyrir nokkurra listamanna, sem komnir eru á efri ár. Það er því sambærilegt við „eftirlaunaósómann“ (sem Þráinn barðist gegn) að þiggja þessi laun, þ.e. að þiggja tvöföld laun frá ríkinu. Vildi Borgarahreyfingin ekki berjast gegn slíku óréttlæti?

    Er Þráinn virkilega svona siðblindur? Er Borgarahreyfingin það líka? – ég hætti við að kjósa XO eingöngu vegna þessa máls, þó að það hafi ekki farið hátt í aðdraganda kosninga. Borgarahreyfingin var reyndar heppin, að þetta var nánast ekkert rætt, en það voru reyndar fleiri mikilvægari mál sem fjölmiðlar lokuðu augum fyrir…

    Sem sagt, hættu þessu Þráinn! – þetta er óverjandi.

  • Toggi:
    Þú nefnir Jón Þórarinsson. Mér vitanlega var hann ekki kosinn á þing. Því er samanburður við hann fráleitur.
    Við erum að tala um þingmenn, sem jafnframt ætla að fá launagreiðslur í fjárlögum (sem þeir eiga að taka þátt í að afgreiða). Það er siðlaust og ekki boðlegt. Allra síst er það við hæfi hjá hreyfingu sem telur sig siðlegri en flokkarnir sem fyrir eru. Hún er það greinilega ekki, ef þetta verður að veruleika.

    Það er enginn að tala um að Þráinn ætti ekki að fá þessi heiðurslaun við eðlilegar aðstæður. En hann getur ekki haldið þessu til streitu sem þingmaður.

  • Æ látiði nú kallinn í friði með þetta. Þetta er frekar aumt hjá ykkur.

  • Hvernig væri að setja lög sem banna að taka tvöföld laun fyrir vinnu, þarmeðtalin nefndarstörf?

  • Eins og Mörður bendir á eru engin lög um þetta fyrirbæri (jafn skrítið og það nú er).

    Engin hefð er fyrir því að menn afþakki launin vegna starfa. Efast um að það sé hefð fyrir því að menn séu teknir af honum í hinum árlegu umræðum.

    Þráinn kom ekki nálægt því að setja sig á þennan lista.

    „Siðlaust“ er stórt orð sem of oft er notað í smáum tilgangi. Hvaða siðareglu brýtur sá sem þiggur heiðurslaun fyrir listrænt framlag sitt, laun sem hann bað ekki um, kom ekki nálægt að veita sér, og (væntanlega) kemur ekki nálægt að endurnýja?

  • Sammála Merði.

    Þráinn ætti að sjá sóma sinn í að afþakka annað hvort þingfararkaupið eða heiðurslaunin. Ég sé enga aðra lausn í þessu máli, nema að Þráni sé nákvæmlega sama hvað fólki finnst um hann eða það sem hann tekur sér fyrir hendur. Sem samrýmist ekki alveg því að vilja vera í pólítík og sækjast eftir umboði kjósenda.

    Borgarahreyfingin má ekki við því að byrja feril sinn með því að menn í framvarðasveit hennar séu í fréttum vegna fjármálaklúðurs og sjálftöku! Svonalagað færir líka vopnin upp í hendurnar á stuttbuxnadeild Sjálfstæðisflokksins sem getur sagt að þetta sanni að þeirra skúrkar séu nú nákvæmlega ekkert verri eða öðru vísi en „vinstrimenn“ eða „búsáhaldabyltingin“. Þar sé allt morandi í gráðugum og spilltum ormum sem leggi ekkert af mörkum annað en að þiggja bitlinga og sporslur.

    Svonalagað hlýtur líka að vera vatn á myllu þeirra sem eru á móti öllum ríkisstuðningi við listir og menningu.

    Vonandi hefur Þráinn vit á að afþakka heiðurslaunin.

  • Af hverju gerði enginn kröfu um að Matthías afsalaði sér þessum launum þegar hann var ritstjóri Moggans?
    Af hverju gerði enginn kröfu um að Róbert Arnfinnsson eða Gunnar Eyjólfsson afsöluðu sér þessum launum þegar þeir voru samtímis að leika í Þjóðleikhúsinu?
    Af hverju gerði enginn kröfu um að Atli Heimir Sveinsson afsalaði sér þessum launum, þrátt fyrir að vera að vinna að fullt af verkefnum hér og þar á sama tíma og hann þáði heiðurslaun?
    Eða Erró?
    Er alþingismennska eina starfið á Íslandi sem krefst þess að menn afsali sér heiðurslaunum listamanna?
    Það er nú dálítið ósamræmi í þessum málflutningi finnst mér….
    Og mega Gunnar Birgisson, Bjarni Ben., Kristján Þór Júlíusson og hvað þeir nú allir heita sem eru að þiggja laun (og biðlaun) um hvippinn og hvappinn (bæði hjá einkafyrirtækjum en ekki síður hjá hinu opinbera) á meðan þeir sitja á þingi, þiggja laun hvar sem er, nema bara ekki þiggja heiðurslaun listamanna?

  • Þráinn Bertelsson

    Það eru margir sem hafa þörf fyrir að tjá sig um þetta, Þorgerður Katrín kúlulánadrottning og Mörður hinn mildi. Ég þakka fyrir góð ráð og vinsamlegar ábendingar um þetta mál og mun reyna að finna út úr þessu.

  • Mörður Árnason

    Þetta er vel meint og algerlega í góðu, ágæti Þráinn. Ætlaði reyndar að hringja en fann ekkert númer í skránni.

  • Mörður !

    Láttu manninn í friði með sín 150 þús á mánuði.
    Þetta eru VERÐ Laun fyrir að vera góður listamaður !
    Alþingi hefur úrkskurðað svo.

    Hefur þingmaðurinn Mörður ekki eitthvað mikilvægara að sýsla
    en að skítast út í Þráinn Bertelsson

    HÆTTU ÞESSU MÖRÐUR, SVONA GERA MENN EKKI.

  • JHH. Ástæðan fyrir því að menn eru að velta þessum hlutum fyrir sér er vakning í þjóðfélaginu. Siðferði er komið í forgrunn. Það er auðvitað óeðlilegt að verið sé að greiða tvöföld laun.
    PS
    Þó finnst mér heiðurslaun sér á parti, en rétt er að geta þess að hugmyndin á bak við þau var að styðja við listamenn sem höfðu gefið þjóðinni mikið en lápu dauðann úr skel. Þannig hefðu lögin átt að vera þannig að menn hefðu „rétt“ á listamannalaunum ef þeir nytu ekki eftirlauna eða almennra launatekna.

  • Merkilegt að það hefur enginn hér á þessu bloggi, né annarstaðar, getað fært rök fyrir því að Þráinn haldi heiðurslaununum sem þingmaður.

    Stuðningsmenn Þráins tala bara um öfund og skítkast, en færa engin frekari rök fyrir máli sínu.

    Sumir vísa til Matta Jo, Indriða G., Gunnars Eyjólfs eða Róberts Arnfinns, en þessar samlíkingar eiga ekki við. Þeir hafa ekki verið þingmenn!! – um það snýst málið og ekkert annað.

    Þráinn sjálfur hefur heldur ekki getað réttlætt þessar greiðslur. Hann talaði fyrst um “ólympíugull”, sem er fráleitur samanburður enda tekur Alþingi ekki þátt í að samþykkja mánaðarlegar greiðslur fyrir íþróttaafrek. Svo fór hann undan í flæmingi í sjónvarpinu með því að ætla að “kynna sér hefðir í þessu sambandi”. En það vita allir, að það eru engar hefðir, því það hefur enginn þingmaður þegið heiðurslaun!!

    Auk þess væri það fremur slöpp byrjun hjá Borgarahreyfingunni, að ætla að “fara í hefðir í þessu sambandi”. Var hún ekki stofnuð gegn sjálftöku-hefðum?

  • Hvaða bölvaða væl er þetta Birgir, mótórkjafturinn hann Þráinn er afskaplega dómharður um menn og málefni..what goes around comes around, þetta er kallað karma. Öll laun til listamanna á þessu landi þarf að endurskoða og almenningur þarf að fá að koma að þessu vali, víst er það að það eru listamenn sem hafa sannað það með sínum verkum að þeir eigi stuðning skilið, en þar eru allt of margir sem eiga þetta ekki skilið, það þýðir ekkert fyrir listamenn að kvarta yfir skort á siðferði í þjóðfélaginu, þegar allir vita að það er eintómur klíkuskapur í kring um listamannalaun hér á landi, sem sumir mundu kalla SPILLINGU.
    Hvað er það að vera góður listamaður? Er einhver mælikvarði á þessum gæðum?
    Látum fólkið í landinu ráða hver fær laun og hver ekki, þetta eru skattpeningar þeirra.

  • JHH: Þeir heiðurslistamenn sem þú nefnir hafa ekki verið þingmenn. Samanburðurinn því fráleitur.

    Ef Kristján Þór, Gunnar Birgis og einhverjir fleiri hljóta dularfullar greiðslur frá ríkinu, þá ætti frekar að taka á því. Um það snerist einmitt baráttan gegn „eftirlaunaósómanum“, þ.e. að koma í veg fyrir að menn gætu bæði þegið full laun (t.d. sendiherrar eða ráðherrar) og eftirlaun í ofanálag. Eftir langa baráttu tókst að vinda ofan af því ranglæti. Ef sambærileg tvöfeldni á sér stað annarstaðar í kerfinu, þá á að taka á því, en ekki öfugt.

    Eða var Borgarahreyfingin ekki stofnuð til að breyta? – Ætlar hún að sætta sig við allar „hefðirnar“? – Jafnvel að taka þátt í þeim sjálf?

    Þá gerir hreyfingin ekki miklar kröfur til sín. Hefur í raun fallið á fyrsta prófinu.

  • Kristján G. Kristjánsson

    Óskapleg smásál ertu Mörður.
    Þetta eru „heiðurs“laun. Það er verið að heiðra manninn. Hefði Laxness átt að afsala sér Nóbelsverðlaunaupphæðinni af því að hann hafði tekjur annars staðar?

  • Jafnaðarmaður

    Voðalega eru menn eitthvað litlir í sér að vera að verja tíma sínum í slíka smámuni. Menn litilla hugsanna eru ekki til stórátaka fallnir.

    Haltu þessum peningum þínum Þráinn og haltu áfram að skrifa.

    En gerðu mér þann greiða að tjá þig um Þjóðstjórn. Með þjóðstjorn hefur öll þjóðin fulltrúa við ríkisstjórnarborðið.

    Fólk er farið að þreytast á þessu flokkahagsmunapoti gömlu flokkana.

    Notaðu tækifærið þarna, Þráinn, og láttu gusta af þér.

    Þessi listamannaheiðurslaun eru svo lítið mál að ég hálfpartinn skammast mín fyrir að vera að tjá mig um þau.

  • Djöfull ertu minniháttar, Mörður. Heiðurslaun eru viðurkenning á æfistarfi. Vinnu sem hefur verið unnin, ekki vinnu sem verið er að vinna. Hvernig væri að hugsa um aðalatriði ekki aukaatriði. Smjörklípa, einhver?

  • Þorvaldur

    Ja, það vildi ég að ég hefði áhyggjurnar þínar Mörður.

    Látum bara á þetta reyna. Eins og þú segir réttilega, tekur Alþingi ákvörðun í kjölfar niðurstöðu í menningarmálanefnd Alþingis. Alþingi er engin vorkunn að komast að niðurstöðu í þessu máli eins og örðurm, til dæmis í stóra skjaldborgarmálinu, stóra stjórnlagaþingsmálinu, stóra persónukjörsmálinu, stóra auðlindamálinu, og stórasta Evrópumálinu.

    Áfram með smjörið – burt með klípurnar.
    Annars finnst mér mikil eftirsjá af þér á þinginu Mörður, en leyfi mér að vona að þú komir inn og takir þínar fínu rispur – kannski þegar samflokksmaður þarf að bregða sér af bæ eins og gerist á allrabestu bæjum :-Þ

  • Borgarahreyfingin hefur hvorki stutt þennan gjörning eða talað einni röddu gegn honum. Persónulega finnst mér að það þurfi að taka þetta út úr fasanum: Þráinn og heiðurslaunin og legg það til að enginn þingmaður eða aðrir opinberir starfsmenn fái tvöföld eða þreföld laun hjá ríkinu.

  • Svo lengi sem þingmenn sem taka að sér ráðherrastarf halda líka þingfararkaupi þegar þeir þiggja ráðherralaun, finnst mér fráleitt að einhver úr þeirra hópi amist við því að listaðmaður sem býður sig fram til þings afsali sér ekki 90 þúsund krónum eftir skatt sem honum hlotnast sem heiðurslaun listamanna, laun sem hann telst þegar hafa unnið fyrir og honum var úthlutað löngu áður en hann bauð sig fram til þings.

    -Þann dag sem allir þingmenn afsala sér öllum launum og þóknunum umfram þingfararkaup eða ráðherralaun skal ég taka undir með Merði og Þorgerði Katrínu. – Það styð ég eindregið, en persónulega finnst mér þetta vera síðustu þóknanir sem manni ber að afsala sér setjist hann á þing.

  • Erlendur I.

    Ég hef alltaf hugsað heiðurslistamannalaun vera nokkurs konar „atvinnuleysisbætur“ fyrir listamenn til að forða þeim frá því að stimpla sig mánaðarlega og þurfa að leita sér að vinnu. Nú er Þráinn kominn með vinnu sem greiðir sæmilegustu laun. Er þá eðlilegt að hann þyggi „atvinnuleysisbætur“ samhliða. Hann er búinn að njóta heiðursins sem listamaður, ég kaus Borgarahreyfinguna og eitt af því sem orsakaði það var að þetta fólk væri laust við spillinguna og ætlaði að berjast gegn henni. Og þurfa strax að fara að horfa á slíkt í eigin röðum er bara ömurlegt. Ég segi ekki meir, en vona að Þráinn hugsi sinn gang til að stuðla að sátt um málið, og þið hin gefið honum smátíma.

  • Heilbrigð skynsemi

    Þráinn upplýsti það í pallborði hjá Öryrkjabandalaginu fyrir 2 vikum að eiginkona hans er öyrki vegna skelfilegs sjúkdóms sem heitir Parkinson veiki en hún hafi aldrei viljað “liðka” til fyrir ríkinu með því að þiggja örorkubætur, sem hlýtur að vekja furðu allra þeirra sem hafa verið óduglegir að hella sér yfir hann sl. vikur.

    Þar sem Þráinn lætur heiðurslaunastyrkinn renna mánaðarlega til líknarmála hljóta sumir að vera orðnir kjaftstopp ákúrrat – núna.

    Þrainn hefur aldrei verið spurður um það sem skiptir máli, heldur dæmdur án þess að öll kurl hafi verið komin til grafar sem segir mér að íslendingar eru bara ólmir í að leita að sökudólgum til að hengja á dóms og laga þegar að hinir réttu sökudólgar vinna jafnvel enn inni á þingi eða sóla sig einhversstaðar á sólarströnd.

  • sæmundur

    Ég get ekki skilið hversvegna starfandi listamenn ættu að fá laun (heiðurslaun) fyrir vel unnin störf .
    Ég veit ekki til þess að verkamenn eigi kost á heiðurslaunum fyrir vel unninn störf

  • Kjósandi

    Þarna kom rödd skynseminnar.

    Frábært að heyra þetta frá þingmanni Borgarahreifingarinnar Birgittu Jónsdóttur.

    Þráinn kostaði ykkur mörg atkvæði .. en gott að þið komust inn. Mér líst frábærlega vel á þessa hreifingu … en Þráinn með sín tvöföldu laun er baggi á ykkur.

    Vona að þið leysið þetta mál.

  • Heilbrigð skynsemi

    Er Mörður þá ekki til í að opna bókhaldið sjálfur?

    Hversu marga styrki sem fræðimaður hefur Mörður sjálfur þegið undanfarin ár, samfara þingkaupi svo maður fái nú að vita allan sannleikann í málinu?

  • Þáði Mörður laun fyrir ritstýringu íslenskrar orðabókar sem kom út árið 2007? Sat hann ekki á þingi þá? Hvernig var það aftur…?

  • Þú ert gjörsamlega útí skógi Mörður. Eða frekar útí botnlausri fúamýri.

    Þráinn nýtur heiðurslauna vegna þess að þingmenn úr öllum flokkum á Alþingi nema Frjálslyndum lögðu það til og allir viðstaddir þingmenn greiddu því atkvæði kl. 19:33 hinn 22.12.2008. Ég hef alltaf gengið út frá því að þessi laun hétu heiðurslaun af því að Alþingi í nafni þjóðarinnar vildi heiðra viðkomandi listamann. Mér hefur t.d. aldrei dottið í hug að þetta væru eftirlaun listamanna. Ef svo væri myndu þau kannske vera kölluð eftirlaun.

    Eru heiðurslaunin skilyrt við að viðkomandi stundi ekki önnur launuð störf eða má þingmaður kannske ekki þiggja laun frá öðrum aðilum en þinginu? Jafnvel ekki heiðurslaun? Endilega segðu mér ef svo er.

    Mér hefur skilist að upplýsingaskylda þingmanna gangi aðeins útá að þjóðin vissi hvar hagsmunir þingmanna liggja en ekki að banna þeim að greiða atkvæði um mál. Er þetta rangt hjá mér? Og kannske viltu bara gera strangari kröfur til þiggjenda heiðurslauna en annarra þingmanna.

    Auðvitað afsala menn sér ekki heiðurslaunum þótt þeir séu kallaðir af þjóðinni til starfa á Alþingi. Þorgerður varpaði sinni athugasemd fram í pirringskasti og hefndarheift og hefur enda drjúgar ástæður til að vera pirruð og í hefndarhug. En auðvitað vantar dálítð uppá að hún hafi haft efni á athugasemdinni.

    Því miður eru mörg stærri mál en þetta nær okkur og SF en heiðurslaun Þráins þessi dægrin. Þ.á.m. eru styrkir til Steinunnar Valdísar og Helga sem hafa margoft tjáð sig og greitt atkvæði á Alþingi um mál sem varða styrkveitendurna og siðferði í stjórnmálum síðan þau veittu þeim viðtöku. Þetta útspil þitt virkar því dálítið eins og smjörklípa.

  • Mörður! Ekki vissi ég að þú gætir verið svona gamansamur eins og Björn Bjarnason.

  • sæmundur

    Þráinn Bertelsson hefur ætíð verið bæði vinsæll rithöfundur og kvikmyndaleikstjóri og örugglega séð tekjur af því sem venjulegu launafólki dreymir ekki um að hafa. Hversvegna skyldu skattpeningar okkar vera síðan notaðir til þess að greiða honum heiðurslaun 150 – 200 þús á mánuði .og þessutan kemur hann til með að fá þingfararkaup og þegar að því lýkur þá 3 – 6 mánuði á biðlaunum
    Hann getur bara sótt um að gerast Grímu verðlaunahafi

  • Steinn Magnússon

    Ef lögfræðingur situr á þingi og er jafnframt bæjarstjóri einhverstaðar og jafnvel verktaki, eða bara meðeigandi á einhverri lögfræðistofu á hann þá líka að afþakka tekjurnar sem hann þiggur þaðan? Hvað með það ef menn fá arð af hlutabrefum, eða lífeyrir eftir maka eða önnur áunninn réttindi?

    Það smekklausasta við þessa umræðu alla er þegar menn einsog Eiður Guðna ríða á vaðið og tala um pólitískar úthlutanir til handa Þráni. Margur heldur mig sig, kemur upp í hugan. Hvað hefur pólitískt skipaður sendiherra sem siðferðilega viðmiðun í því hvað sé óviðeigandi?

  • Hver er munurinn á verktakatekjum og verðlaunatekjum?

    Jú, báðir borga skatta af þeim.

    Annar þeirra (Þráinn) telur það vera tekjur vegna þess að hann var heiðraður fyrir ÞEGAR unnin störf

    og hinn (Mörður) lítur á sínar tekjur sem lögleg hjáverk?

    eða hvernig var svarið aftur?

  • Eiður Guðnason

    Auðvitað mun ÞB afsala þér þessum launum, sem Framsóknarflokkurinn rétti honum á sínum tíma. Kvikmyndagerðarmennirnir Friðrik þór og Ágúst Gyðmundsson stóðu honum langtum fram þegar þetta var ákveðið. Líka HrafnmGunnlaugsson. Þetta var pólitík. Versta tegund af pólitík

  • Jón Guðmar Jónsson

    Það er hlálegt að heyra í sjálfskipuðum siðapostulum um heiðurslaun Þráins meðan Hrunadansarar og aðrir landráðamenn þessarar þjóðar ganga lausir án athugasemda frá þeim hinum sömu sem jafnvel eru þingmenn og fyrrverandi ráðherrar og gætu jafnvel flokkast undir Hrunadansara sjálfir.

    Nóg var nú gert í því á sínum tíma að reyna að koma í veg fyrir að Þráinn kæmist á heiðurslaun listamanna, þannig að hann fari nú að afsala sér þeim sjálfviljugur.

    Aðrir hafa tilgreint þingmenn og ráðherra sem hafa haft fullar tekjur fyrir önnur störf, hagnað, arð, leigutekjur fasteignum osfrv. Hvað skyldi maður fá í leigutekjur af tíu íbúðum eins og dæmin sanna, án þess að hafa afsalað sér þingmanns og ráðherralaunum.

    Þú, Þráinn! Varst ekki kosinn á þing til þess að að láta ráðskast með þig af einhverju jakkalakkaliði, þingmönnum eða öðrum, nú eftir kosningar. Þú varst meira að segja kosinn á þing, þótt þú segðir skýrt og skorinort fyrir kosningar að þú ætlaðir ekki að afsala þér heiðurslaununum, ef þú næðir kjöri inn á þing. Þú skuldar því engum neitt í þessu máli.

    Umfram allt haltu áfram að vera sá Þráinn Bertelsson, sem við þekkjum, þegar á þing verður komið, auk þess að leggja öllum góðu málunum lið sem þú kemur til með að gera.

    Þér, Þráinn ráðlegg ég þér einfaldlega þetta. Farðu eftir landslögum í þínu heiðurslaunamáli, sbr. eftrirlaunalög til dæmis! Fóru ekki menn í öllum flokkum eftir þeim, fyrir og eftir breytingu á þeim. Alþingi breytir þá lögum þar um, ef það sér ástæðu til. Þú skalt undir engum kringumstæðum afsala þér heiðurslaununum.

    Ef einhver lög núgildandi eða framtíðar segja ekki heimilt að þiggja heiðurslaun og fullt þingfararkaup á sama tíma, þá haltu heiðurslaununum (mér er sem ég sjái einhvern þingmann gera tillögu um að þú verðir sviptur heiðurslaunum í framtíðinni, hvað þá að fá það samþykkt) og taktu þér hlutfallslega lægra þingfararkaup. Er ekki verið að tala um tæknilega útfærslu á öllum hlutum í dag. Þessi gæti ekki verið einfaldari.

    Auk þess legg ég til að Þráinn Bertelsson fá tvöföld heiðurslaun listamanna, það er núverandi heiðurslaun og svo önnur fyrir að gera lífið og tilveruna svo margfalt skemmtilegri fyrir mörg okkur hinna.

  • Jón Guðmar Jónsson

    Segir einn ágætur sendiherra. Skipað gæti ég væri mér hlýtt.

    Nei! Þráinn afsalar sér sko aldeilis ekki þessum heiðurslaunum, þrátt fyrir að þeir ágætu listamenn sem sendiherrann (og fyrrverandi þingmaður og ráðherra) nefnir skuli ekki vera komnir í þennan heiðurslistamannahóp ennþá!

    Þetta er bara eins og skáldið sagði á sínum tíma þegar hann var spurður hvort sumir aðrir hefðu ekki verið jafnt eða betur komnir að Nóbelsverðlaununum á sínum tíma en hann. Honum skildist á sumum að annar hver Íslendingur hefði átt að fá þau!

  • Steinn Magnússon

    Eiður skrifar:
    „Friðrik þór og Ágúst Gyðmundsson “

    Gerir þessi maður út blogg sem gengur útá að gagnrýna stafsetningu og málfar !???

    Settu nú tappann í flöskuna aftur, hún telst víst ekki til risnu lengur og menn verða að vera sparir á erlenda munaðarvörur einsog vín nú á tímum gjaldeyrishafta.

    😀

  • Þetta snýst aðeins um eitt – þingmaður Borgarahreyfingarinnar er HRÆSNARI. Segir öðrum að hugsa út fyrir kassann en vill svo fá að vera í friði með sín tvöföldu laun. Skiptir ekki máli hver upphæðin er eða hvort launin bera forskeitið listamanns- eða heiðurs-, þetta er spurningu um PRINSIP sem Borgarahreyfingin á að sýna og með því þessari hegðun sinni er Þráinn að afhjúpa sig sem þann lýðskrumara sem maður svo sem bjóst við að hann væri og það sem verra er – hann er að rústa TRÚVERÐUGLEIKA Borgarahreyfingarinnar.

    Hate to tell you – but I told you so about this guy!

    Ætlar nú að spretta upp „Þráins-armur“ í Borgarahreyfingunni sem ver þennan HRÆSNARA fram í rauðan dauðann?

  • Æi hvað þið getið verið asnaleg. Hvað skiptir þetta máli? Er ekki verið að gera úlfalda úr mýflugu. Þetta eru einhver heiðurlaun sem kallinn er að fá og hví í ósköpunum má hann ekki njóta þeirra? Hann setti ekki þessar reglur um heiðurslaun eða listamannalaun. Sjálfsagt má deila um hvort slík laun eigi að yfir höfuð rétt á sér, en það kemur þessu máli ekkert við. Mér þykir nú Mörður taka nokkuð niður að vera að gera þetta að umtalsefni og skil ekki alveg hvað þar býr að baki, nema bara gamla góða sér íslenska illgirnin reki hann til þess??

  • Þorsteinn Hauksson

    Einhver nefndi hér að ofan hvers vegna fá ekki verkamenn verðlaun ( heiðurslaun) frá ríkinu fyrir vel unnin störf. Er Þráinn eitthvað merkilegri.

  • Ótrúleg umræða.

    Þetta er ekki flókið.

    Það fer ekki saman og er siðlaust að Þráin sé á tvöföldum launum. Heiðurslaunin er ellistyrkur og alls ekki gert fyrir að menn starfi á Alþingi á meðan þeir njóta þess styrks.

    Borgarahreyfingin var stofnuð gegn svona Sjálftöku en Þráin getur greinilega ekki séð þá annmarka sem á þessu eru.

    Ég minni líka á að Framsókn hafnaði Þráni fyrir þessar kosningar og hann leitaði anna, bara eitthvað, í leit að flokki sem hann gæti farið fyrir.

    Það tókst.

    Það hefur enginn fært rök fyrir því að hægt sé að réttlæta það að Þráin sé á tvöföldum launum, annar styrkur frá ríkinu, á meðan hann situr á Alþingi.

    Borgarahreyfingin verður að grípa hér inn í ef Þráin er of siðlaus til að sjá þetta sjálfur.

  • Akkúrat, Friðrik. Þú bendir réttilega á að þrátt fyrir alla þessa umræðu hefur enginn kominn með rök fyrir því að Þráinn eigi að halda þessum heiðurslaunum. Einu „rökin“ eru, að láta ekki undan þrýstingin, eða eitthvað álíka gáfulegt. Það eru heldur engin „rök“ að tala um að Mörður eigi ekki að skipta sér af þessu, osfrv. Þetta er jú spurning um prinsipp.

    Heiðurslaunin eru veitt af Alþingi. Helst eiga allir þingmenn að greiða þar atkvæði. Það er auðvitað einsog hver annar skrípaleikur ef á þessum fámenna lista verði einn þingmaður! – sem getur þá ekki greitt atkvæði og getur líklega ekki tekið sæti í menntamálanefnd þingsins (þar hefði Þráinn líklega væri ágætis kandídat).

    Hvað hefði Þráinn sjálfur sagt ef vinur hans Davíð Oddsson hefði fengið heiðurslaun listamanna jafnframt launum sem forsætisráðherra? – það hefði líklega eitthvað heyrst frá honum og ýmsum fleirum.

    Og talandi um rök, þá eru verstu rökin að benda á að ýmis önnur sjálftaka sé í gangi. Gerir Borgarahreyfingin virkilega ekki meiri kröfur en svo að hún sætti sig við að taka í samskonar sukki og allir hinir…?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur