Þriðjudagur 12.05.2009 - 09:40 - 8 ummæli

Réttlæti, skynsemi, ESB

Einsog Jóhann Ársælsson fyrrverandi alþingismaður hefur bent á – margoft – er ómögulegt að ganga í Evrópusambandið án þess að hafa leyst deiluna um eignarhald sjávarauðlindarinnar.

Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar, stendur í 1. grein laga um stjórn fiskveiða frá 1990, en í nokkrum áföngum – fyrst og fremst framsalinu í sömu lögum 1990 og veðsetningu kvótans 1997 – hefur hinn raunverulegi eignarréttur að verulegu leyti verið afhentur útgerðarmönnum.

Þetta er bæði ranglátt og óskynsamlegt. Ranglætið er augljóst, vitleysan liggur í því að það fyrirkomulag er miklu skilvirkara fyrir atvinnugreinina að þeir sæki sér veiðiheimildir sem vilja veiða, borgi eigandanum, þjóðinni, fyrir þær sanngjarnt gjald og geti aukið eða minnkað við sig eftir hentugleikum – í stað lénsveldis og leiguliðabúskapar, og í stað sífellds fjárstreymis úr greininni þegar útgerðarmenn eða erfingjar þeirra flytja sig í Kringluna eða til Spánar eða í næstu bankastjórn.

Nú eða aldrei

Kerfið hefur verið óþolandi allan tímann frá 1984 en nú verður að hefjast handa við breytingar. Annarsvegar vegna þess að hvorugur kvótaflokkurinn er lengur í ríkisstjórn heldur hafa stjórnarflokkarnir fengið þingmeirihluta með nokkurnveginn samhljóða sjávarútvegsstefnu. Hinsvegar vegna þess að við getum illa gengið í Evrópusambandið án þess að tryggja áður raunverulega þjóðareign sjávarauðlindarinnar.

Þegar Íslendingar gengu í EES náðist sú undantekning í samninginn að erlendir menn mættu ekki festa fé sitt í útgerð og fiskvinnslu. Fyrir þessari undantekningu var barist eingöngu út af kvótakerfinu, enda heimskulegt fyrir greinarnar að geta ekki leitað fjár utan landamæra nema lánsfjár með vöxtum. Að vísu búum við ekki við eins hreinar línur nú og ætla mætti – menn þekkja bæði óbeina erlenda hlutafjáreign í kvótafyrirtækjum, meðal annars í gegnum olíufélög, og svo það að fyrirtæki hafi fengið erlend bankalán með veði í eignum sínum, þar á meðal kvótanum. En undantekningarákvæðið stendur samt í EES-samningunum og veitir þar ákveðna vörn.

Það er augljóst að svona bann yrði ekki samþykkt í aðildarviðræðum við ESB, nema þá í mesta lagi sem aðlögunarákvæði nokkur ár. Ef við göngum ekki frá þessum málum áður blasir þessvegna við að eftir ESB-aðild leiti útgerðarfyrirtæki sér erlendra hluthafa sem þannig „eignast“ hlut í kvóta fyrirtækisins. Það gerist þá sem enginn vildi – eða hvað? – að fiskimiðin fara bakdyramegin úr íslenskum höndum – og til hvers voru þá unnin þau stríð sem miðaður er við íslenskur hetjuskapur á síðustu öld?

Bara ef lúsin íslensk er …

Nú má segja sem svo að það skipti litlu hvort sægreifarnir eru inn- eða útlendir ef þjóðin glutrar nytjastofnum sjávar úr eigu sinni. Rétt hjá Hannesi Hafstein, það er ekki þannig að „bara ef lúsin íslensk er / er þér bitið sómi“ – einsog þeim finnst stundum í VG. Á hinn bóginn kemur svo það að eins djöfullegt og það hefur verið að eiga við íslenska sægreifa í þessu máli, þá flækist það um allan helming þegar sægreifaveldið verður orðið samevrópskt.

Það er þessvegna rétt hjá Jóhanni Ársælssyni: Við sem viljum aðild að ESB verðum að leggja áherslu á að leysa þetta mál strax. Til þess er ágæt aðferð, fyrningarleiðin, og sem málamiðlun við blessaða útgerðina – sem nú reynir í örvæntingu að efna til uppþota á landsbyggðinni – er í góðu lagi að fresta greiðslu veiðigjalds þangað til fer að rofa til í efnahagsmálum. Eru fyrirtækin ekki hvort eð er í gjörgæslu hjá ríkisbönkunum?

Réttlæti, skynsemi og ESB – það eru ástæðurnar þrjár fyrir veiðigjaldi og fyrningarleið við fiskveiðistjórnun.

Og raunar bendir margt til þess að þetta hafi LÍÚ fundið út fyrir löngu. Að þrálát andstaða sambandsins við Evrópusambandsaðild stafi einmitt af því að þeir sjá að kvótamálið yrði að leysa fyrir inngöngu. Draumurinn um einkaeign kvótans sé hin raunverulega fyrirstaða, ekki margfræg fiskveiðistefna ESB eða bírókrasían hræðilega í Brussel.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Eftirfarandi er tekið af vala.blog.is og eru atriði sem valda mér áhyggjum. Hver er þín skoðun á þessu. Gætum við landað góðum sjávarútvegsdíl hjá ESB en misst svo allt vegna lögsókna annarra ríkja hjá Evrópudómstólnum?

    1)Ég set stórt spurningamerki við það að aðildarríki Evrópusambandsins séu fullvalda í klassískum skilningi þess orðs, þó ekki væri nema fyrir það að hvergi í neinum sáttmálum hefur nokkru sinni verið sett inn ákvæði eða aðferð fyrir þessi ríki að ganga úr ESB. Það er einfaldlega ekki talinn vera möguleiki fyrir lönd að yfirgefa ESB og þó svo að einhverjir hafi viðurkennt að það væri kannski tæknilega mögulegt þá veit enginn nákvæmlega hvernig væri hægt að losna við Brussell svo duga skyldi ef til þess kæmi. Hvernig, ég bara spyr, geta ríki sem ekki hafa skýlausan rétt til að ganga úr alþjóðlegri yfirstjórn talist fullvalda? Að auki, ef að stjórnarskrá Evrópu verður leidd í lög sem æðstu lög sambandsins (æðri en stjórnarskrá sambandsríkjanna) hvernig í ósköpunum geta löndin talist fullvalda?

    2)Vegna aktívisma evrópudómstólsins þá er það langt í frá að það nægi að lesa Lisbon sáttmálann og kunna hann utanað, það er það sem úr honum verður næstu árin á eftir í meðförum dómstólsins sem jafn miklu máli skiptir og það fáum við ekki að skrifa undir, það kemur bara í ljós. Það er hins vegar búið að sýna sig að ákvæðin eru sjaldnast túlkuð þröngt eða túlkuð ríkjum í hag, langflestar túlkanir snúa að því að auka áhrif og völd sambandsins á kostnað fullveldis ríkja.

  • Ríkið getur fengið allan sjávarútveginn í fangið ef það bara fer að krefjast jafn mikils af honum og gert er af heimilum þessa lands. Þannig væri hægt að ná öllum flotanum og kvótanum í ríkiseigu sem síðan gæti skipulagt greinina upp á nýtt á hátt sem ekki gerði hana ofurskuldsetta og sem skilaði arði fyrir íslenska þjóð.

  • Mörður Árnason

    Sæl Hrönn og takk fyrir spurningarnar.

    1) Nei, það er alveg rétt, ESB-ríkin eru ekki fullvalda með þeim hætti sem í því hugtaki fólst áður, að ríki heims væru nánast einsog skip á sjó, hvert um sig sjálfstæð heild án nokkurs sambands sín á milli nema í undantekningartilvikum. — Reyndar má efast um að þessi hugmynd hafi nokkurntíma gengið alveg upp í veruleikanum, en það er önnur saga. — ESB-ríkin hafa einmitt ákveðið að deila hluta af fullveldi sínu með því að framselja parta af því til sameiginlegra stofnana, ráðherraráðs, Evrópuþings og ESB-dómstóls — og í tilviki evruríkja til Seðlabanka Evrópu. Svo má deila um hvort þetta hefur dregið úr raun verulegu sjálfstæði hvers ríkis um sig. Vel má færa að því rök að í raun hafi þessi skipan dregið úr sjálfstæði stórþjóðanna, stríðsríkjanna og nýlenduveldanna fyrrverandi, eða að minnsta kosti athafnafrelsi þeirra og hagsmunasvigrúmi, — en um leið hafi styrkst raunverulegt sjálfstæði smærri þjóðanna, að ekki sé talað um þjóðir innan stórra ríkja einsog Skota eða Katalóna. — Margir segja nú að við höfum þegar skert fullveldi okkar með EES-samningnum, þar sem hluti löggjafar- og dómsvalds var framseldur stofnunum ESB, sem við höfum svo ekkert um að segja. Þess vegna mundi fullveldi okkar eflast við inngöngu, þegar við kæmum að borðinu ar sem ákvarðanir eru teknar og hefðum áhrif á þær ákvarðanir, einkum þær sem okkur varða mestu.

    2) Nei, ég kannast ekki við það að ESB-dómstóllinn túlki fremur hagsmunum sambandsins í hag en einstakra ríkja. Hann leggur til grundvallar heildarlöggjöf Evrópusambandsins, bæði grunnreglur þess í Rómarsáttmálanum og sáttmálum sem síðar eru komnir, þar á meðal Lissabon-textanum ef hann verður samþykktur, og líka reglur í aðildarsamningum við einstök ríki, sem hafa sama lagagildi og grunnsáttmálarnir. Í vafamálum eru almennu reglurnar hinsvegar sterkar — jafnræði íbúa og fyrirtækja innan ESB (eða EES!) sem heildar, reglur um frjálsa samkeppni og svo framvegis, en þar koma líka til álita ýmis félagsleg og byggðavæn sjónarmið. — Í sjálfu sér er þetta sama áhættan og þegar lög eru samþykkt á alþingi — menn vita ekki fyrirfram hvernig dómstólarnir túlka vafaatriði í þeim. Á þessu hafa íslensk stjórnvöld reyndar brennt sig áður — sem betur fer — þegar mannréttindadómstólar og -nefndir túlka íslensk lög þannig að þau standist ekki alþjóðaskuldbindingar um vernd mannréttinda. Síðasta dæmið er einmitt um eignarhald kvótans!

  • Takk fyrir svarið.
    Þú hefur sem sagt ekki áhyggjur af því að það virðist engin útgönguleið ef okkur liði illa þarna inni. Ríki heims hafa varla verið áður eins og skip á sjó, því menn hafa alltaf fundið leiðir til samstarfs þegar það samstarf skilar öllum aðilum ávinningi. Ég nenni ekki að tala um annaðhvort eða.. það er leiðinleg umræða.
    Ég hef aftur á móti miklar áhyggjur af því , að þó Evrópa sé auðvitað sá heimshluti sem við tilheyrum og eigum eðlilega að hafa mest samstarf við, að þá sé skilningur yfirvalda í Brussel ekki mikill á íslenskum aðstæðum. Við höfum oftast fengið að fljóta með í norrænu og alþjóðlegu samstarfi sem einskonar „gulla-gull“ , þ.e.a.s. notið kostanna en sloppið við aðgangseyrinn. Ég er ekki viss um að umheimurinn hugsi svona hlýlega og móðurlega til okkar lengur og hvort eð er löngu kominn tími til að við göngum upprétt til samstarfs við aðra.

    Við græðum eflaust ótalmargt á ESB en við eigum líka marga dýra hagsmuni að verja gegn ESB. Ég er mjög hlynnt viðræðum en er ekki endilega bjartsýn á niðurstöður. Þú kannast ekki við að ESB-dómstóllinn sé hlutdrægur og þó trú þín sé góð þá er þetta eitt af því sem ég vildi fá „skriflegt“.
    Takk fyrir mig

  • Verði þér að góðu. Nei, ég hef ekki áhyggjur af útgönguleið. Það er rétt hjá þér að ekkert ákvæði er um brottför í sáttmálum ESB núna, en slíkt ákvæði er þó í Lissabon-drögunum sem nú er verið að bera upp í ESB-ríkjunum. Aðeins ein þjóð hefur yfirgefið ESB síðan það var stofnað fyrir hálfri öld rúmri — það gerðu Grænlendingar í fullum friði á níunda áratugnum, og náðu um leið ágætum samstarfssamningi við sambandið. Sjá annars nokkuð góðan Samfylkingarbækling um ESB, sem yðar einlægur átti þátt í að koma saman:

    http://www.samfylkingin.is/Framtíðin/Um_ESB/

  • Nú eða aldrei???? Ertu ekki að meina eftir 30 ár?

    Það er óhætt að segja að prófessorinn í kynlífi þingvallarbleikjunnar þurfi nú að hneppa öllum tölum og beita sínum þokka sem mest hann má til að landa einhverjum ESB samningi miðað við trakteringarnar sem Ísland hefur fengið í erlendu pressunni undanfarið.

    Erlendir embættismenn finna lykt af þvi eins og að Íslendingar ætli sér nefninlega inn í ESB með þvi að fá allt fyrir ekki neitt. Þeir sjá í gegnum þetta og gefa ekkert eftir. Líklegt að Össur komi til baka með handónýtan samning. Jafn handónýtan og allt annað sem frá þessum … hefur komið.

  • Mörður Árnason

    Þú getur sjálfur verið gapuxi, Jói. Hér í athugasemdum má kalla sjálfan mig öllum illum nöfnum en menn verða að gæta velsæmis um aðra og sérstaklega auðvitað gagnvart góðum félögum og vinum vefsíðuhaldarans. Ritskoðun framkvæmd 😉 // M

  • Fyrst höfðu útgerðarmenn fullt frelsi til að gera út allt árið með eins mörgum skipum og þeir gátu komist yfir (í þá gömlu góðu daga). Síðan var farið að takmarka dagafjöldann sem mátti vera á veiðum og bannað að kaupa ný skip – nema að úrelda jafn mörg tonn á móti. Að lokum voru teknir upp kvótar sem var úthlutað til þeirra sem voru að bagsa í útgerð (en ekki hverra?).

    Til viðbótar, til að hægt væri að hagræða í greininni (en í henni var mikil offjárfesting), var kvóti gerður seljanlegur milli skipa. Það er reyndar eina leiðin til að hagræða í greiðinni – án þess að taka upp svokallaða úreldingu, sem skattgreiðendur greiða fyrir.

    Danir hafa tekið upp framseljanlega kvóta. Líka Nýja Sjáland, Bandaríkin, Noregur (fyrir allan uppsjávarfisk), Spánn, Rússland og fleiri og fleiri.

    Mörður. Ein afar einföld og skýr spurning.

    Á Írlandi eru gerð út 30 stór og öflug fiskiskip til veiða á uppsjávarfiski (makríl, hestamakríl og kolmunna). Flest eru gerð út frá útgerðarbænum Killybegs á vesturströnd Írlands. Ýmsar ástæður eru til þess að ekki eru verkefni fyrir nema 10 – 15 skip. Því er hvert skip nú bundið í 6 til 8 mánuði á ári en veiðir í 4 – 6 mánuði.

    Útgerðirnar eru allar illa settar, skulda mikið í írskum bönkum og geta eiginlega hvorki lifað né dáið.

    Þú hefur mikinn skilning á réttlæti og ranglæti – og því væri gott að þú kæmir með einhverja réttláta og góða lausn fyrir þessa vinalegu frændur okkar?

    Ps. Bara svo svarið verði málefnalegt (en ekki skítkast út í LÍU eða sægreifa – eins og stundum vill brenna við í þessari umræðu) þá skal tekið fram að Pjónkur á engan hlut í nokkrum kvóta (ekki einu sinni mjólkur..) og hefur aldrei svo mikið sem migið í saltan sjó.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og þremur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur