Laugardagur 16.05.2009 - 14:04 - 23 ummæli

ESB og herinn … Munurinn

Ég er sammála forseta Íslands: Við eigum að gera allt sem hægt er til að komast hjá því að kljúfa þjóðina í tvær fylkingar sem standa hvor á móti annarri gráar fyrir járnum í marga áratugi. Ekki endurtaka í deilum um ESB þau átök um hersetuna sem við erum loksins laus við.

Hef reyndar sagt þetta lengi sjálfur – sem „hægfara“ Evrópusinni hér fyrrum – að við eigum ekki að ganga í Evrópusambandið nema góður meirihluti styðji málið og svo sé í pottinn búið að andstæðingar og efasemdarmenn hafi haft öll tækifæri hugsanleg til upplýsingar, umræðu og athugasemda.

Í þessu sambandi er reyndar merkilegt að í bæði hin fyrri skipti þegar deilur urðu um aðild Íslendinga að evrópskum samstarfssamtökum leið ekki á löngu þar til hatrömm andstaða nánast gufaði upp og bæði stjórnmálamenn, forystumenn í atvinnulífi og allur almenningur héldu áfram á þeirri braut sem mörkuð hafði verið. Þetta gerðist bæði eftir Efta-aðildina 1970, og svo eftir gildistöku EES-samninganna 1994. Fyrri átök um Evrópumál skildu því ekki eftir sig nein þau mein í þjóðarsálinni sem herseta og Natóaðild ollu.

Kannski vegna þess að í bæði skiptin var um að ræða einskonar málamiðlun? EFTA varð niðurstaðan í lok sjöunda áratugarins og höfðu þó kviknað hugmyndir nokkrum árum áður (Gylfi Þ.) um að ganga í þáverandi EBE. Og Evrópska efnahagssvæðið virtist á sínum tíma vera svipaður kostur fyrir þá sem vildu njóta góðs af sameiginlegum Evrópumarkaði án þess að gangast undir Rómarsamninginn.

Núna er hinsvegar ekki í boði neinskonar málamiðlun. Næstu missiri, og reyndar frekar mánuði, er það annaðhvort Evrópusambandið með stefnu á evruna sem kontrapunkt í endurreisninni, eða þá ekki Evrópusambandið og einhverjar allt aðrar forsendur að baki nýju Íslandi, forsendur sem enginn efasemdarmanna um ESB hefur viljað gefa út. Annaðhvort af því þeir hafa ekki hugmynd um hverjar þær geti verið – eða vegna þess að þeir vilja ekki segja okkur frá þeim: Margra ára gjaldeyrishöft og afleit lánskjör á fjármálamörkuðum, beinn eða óbeinn ríkisrekstur helstu fyrirtækja, háir skattar, viðvarandi atvinnuleysi.

Það má ekki ýkja samlíkingu milli hermálsins og Evrópusambandsins. En á sínum tíma tókst heldur engin málamiðlun um herinn – þótt andstaða við hersetuna kæmi auðvitað í veg fyrir fleiri herstöðvar, umsvif og áhrif en oft stóð til bæði vestanhafs og hér í stjórnarráðinu. Sum mál eru einfaldlega ekki þannig að um þau náist málamiðlun með því að krafa eins um hundrað og annars um núll endi í 50. Annaðhvort er her eða ekki her. Annaðhvort er fljót virkjað eða ekki virkjað. Annaðhvort ESB eða ekki ESB – ónýt króna eða traust evra.

Hinn hægfara Evrópusinni gat fyrir kreppu leyft sér þá skoðun að ekki skipti öllu máli hvort ESB-aðild yrði samþykkt árinu fyrr eða síðar. Mestu skipti að ferðin yrði örugglega farin og að sem flestir vildu vera með. Núna er hinsvegar ekkert til lengur í Evrópumálum sem heitir hægfara.

Í tilefni af ágætum ábendingum forseta Íslands er þó rétt að benda á mikilvægan mun hermálsins annarsvegar og ESB-aðildar hinsvegar.

Ákvarðanir um hersetuna eftir stríð, 1946, 1948 eða 1951, um Nató-aðild 1949 – og um alla skipan þessara mála alveg fram að tilkynningunni 15. mars 2006  – voru teknar án þess þjóðin væri spurð. Sjálfur herverndarsamningurinn var samþykktur á þingmannafundi þar sem andstæðingarnir voru ekki boðaðir, atkvæði greidd um Nató-aðildina með táragasið í vitum þings og þjóðar.

Um Evrópusambandsaðild á að kjósa. Eftir vel undirbúnar samningaviðræður sem eiga að vera eins gagnsæjar og hægt er tökum við okkur til og ræðum niðurstöðuna góða stund – tvo til þrjá mánuði? – þannig að allar raddir komist að og bæði jámenn og neimenn fái aðstoð af almannafé við að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Svo úrskurðar meirihluti kjósenda, og hvor sem niðurstaðan verður er líklegast að hún standi óbreytt heilan eða hálfan mannsaldur.

Þetta er mikill munur. Lýðræðið er nefnilega ekki bara skársta aðferð sem til er við að stjórna löndum. Það er líka eina góða leiðin til að taka erfiðar ákvarðanir.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (23)

  • Að frátalinni evrunni undursamlegu sem nú fer svo mjúkum höndum um útflutning Íra og ferðaþjónustu Grikkja, að hvaða leiti er ESB „forsenda fyrir Nýju Íslandi“?

    Er það kannski vonin um að aðild að batteríinu muni stórauka tiltrú á Íslensku efnahagslífi jafnvel þótt að Lettar, Ungverjar og Pólverjar séu búnir að koma sér í meiriháttar klandur þar inni (já, og þrátt fyrir að vandi Íslands sé ekki PR vandi neitt frekar en vandi bankanna fyrir hrun)?

  • Sæll Mörður og takk fyrir allt gamalt og gott.

    Mér sýnist grundvöllur fyrir málamiðlun aðildarsinna og andstæðinga. Málamiðlunin væri að kosið yrði um það hvort við ættum að sækja um inngöngu.

    Mál stefna nú í þann farveg að kosið verði um aðildarsamning sem Samfylkingin, með innan við 30 prósent fylgi, keyrir áfram. Um það ráðslag verður aldrei nein málamiðlun.

    Það sem mun gerast að er ESB-málið mun þjappa saman öllum andstæðingum ríkisstjórnar og ríkisstjórnarflokka og, fari svo sem horfir, verður ríkisstjórnin knesett vegna þess að hún var einþykk og vildi ekki bjóða málamiðlun í Evrópupælingunni.

    Staðan er þrátt fyrir allt sú að Samfylking einn flokka taldi aðild veigamesta þáttinn í endurreisn landsins. Aðrir flokkar voru með áherslur á sértækari aðgerðir. Þótt Framsókn hafi opnað á aðildarumsókn var innganga ekki alfa og omega stefnuskrár þeirra.

    Maður er þó ekki vonlaus um að stjórnarsinnar sjái að sér, a.m.k. ekki meðan þú skrifar í þeim tón og anda sem ræður ríkjum í þessari bloggfærslu.

  • Ég hélt að loksins ætlaði einhver að velta upp spurningunni um evróðusambandsherinn. Vita menn að það er á stefnuskrá evrópusambandsins að hafa einn evrópuher. Hver er staða Íslands og Íslendinga þegar kemur að því? Verða íslensk ungmenni hugsanlega kvödd í herinn ef til styrjaldar kemur?

  • Vil benda Bergi á að það er ekki herskylda á Íslandi. Það er ekki einu sinni her. „Evrópuherinn“ verður bara samstarf þeirra herja sem fyrir eru í ESB. Hvorki meira né minna.

  • EinarE: Í Lissabonsáttmálanum er kveðið á um skilyrðislausa varnarskyldu ESB ríkja gagnvart hvort öðru, að ríki skuli bjóða mannafla sinn og aðstöð fram í þágu sameiginlegra varna sambandsins og að ríki skuli efla hernaðargetu sína jöfnum höndum.

    Lissabon er ætlað að verða grunnurinn undir Evrópusamrunan næstu áratugi og er almennt orðað plagg. Hvaða stefnu ESB mun síðan móta á þessum grunni (t.d lágmark af VLF til varnarmála) er ekki vitað og mun ekki koma fram í aðildarsáttála Íslands.

    Þátttaka í því sem kallast „permanent structured cooperation“ er hinsvegar valfrjáls.

  • Hans: Þetta eru svipaðar skuldbindingar og eru í NATO.

  • 1) Prósessinn:
    Þú skrifar eins og andstæðingar aðildar við ESB fái „tækifæri til að sætta sig við“ aðild út af því að allt verður svo lýðræðislega gert.

    Munuð þið „Evrópusinnar“ sætta ykkur við niðurstöðuna þegar þið tapið málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu?

    Eða verður bara ný þjóðaratkvæðagreiðsla ad infititum eða þangað til þið náið 50.1% ?

    2) Hinn valkosturinn:
    Er að halda því gríðarlega valdi að geta prentað okkar eigin peninga (gefið út ríkisskuldbréf, stýrt vöxtum o.s.frv.). Af hverju í ósköpunum viljum við gefa frá okkur okkar besta vopn í baráttunni fyrir betri lífskjörum? Það að einblína bara á hrunið og afleiðingar þess er þvílík skammsýni að það nær ekki nokkru tali. Það að missa krónuna er til frambúðar.

  • Öfgafullur hræðsluáróður innlokunarmanna er svo ótrúlega ósvífinn því fyrir löngu er ljóst að þessir menn vita betur en þegar þeir ljúga sjálfstæðis- og fullveldisafsali uppá Dani og hinar 26 ESB þjóðirnar, og auðlindaránum uppá ESB og annarlegum hvötum ef ekki bæði illsku og heimsku uppá Evrópu-búa, að maður á vart lengur orð yfir þetta lið. Vænisýki nær því ekki þar sem Páll og félagar vita miklu betur en það sem felst í orðum þeirra.

  • EinarE: Nei.

    1) Sé fimmta grein N-Atlantshafssáttmálns virkjuð með einróma samþykki aðildarríkja er ríkjum tæknilega aðeins skylt að gera þær ráðstafanir sem þau telja við hæfi. Þau áskilja sér hinsvegar réttinn til þess að grípa til vopna til varnar bandalagsríki án þess að leita samþykkis öryggisráðs SÞ fyrst.

    Við vitum auðvitað hver tilgangur NATO er og hvað yrði gert ef ríki yrði fórnarlamb óréttmætrar árásar en það er engin leið til þess að flækjast í eitthvað ófyrirséð vegna þess að varnarskyldan er ekki bein og skilyrðislaus.

    2) NATO leggur litlar kvaðir á herðar Íslendingum um framlag til sameiginlegra varna bandalagsins. Hvaða kvaðir ESB kann að leggja á herðar okkur í framtíðinni er ekki hægt að vita nú.

    3) NATO er annars eðlis en ESB. Það er ekki alhliða pólitískt samrunabandalag og því eru ekki sömu möguleikar á að beita þrýstingi til þess að ná fram samþykki aðildarlands á einhverjum ráðstöfunum og innan ESB.

    4) N-Atlantshafssáttmálinn er endanlegur grunnsáttmáli NATO. Það er ekkert meira eða stærra á leiðinni eftir 20 ár.

    Með ESB er aldrei að vita og stjórnarskrár-/Lissabonmálið sýnir tekur ESB nei aldrei gilt sem lokasvar.

  • Hans: Það er enginn að fara að skylda Íslendinga í einhvern her. Það er bara fjarstæðukennt að halda þessu fram, og lúalegt að reyna að nota þetta sem hræðsluáróður gegn ESB aðild.

  • EinarE: Ef þú hefðir lýst Evrópusamrunanum eins og hann lítur út í dag fyrir einhverjum fyrir 30 árum þá hefðir þú verið sakaður um lúalegan hræðsluáróður.

  • Írar eru að fá undanþágu frá herskylduákvæðum Lissabonsáttmálans. Undnaþágan auglýsir ætlun ESB: Að búa sér til herlið, rétt eins og öll stórveldi á öllum tímum hafa gert.

  • Ólafur Eiríksson

    tilvitnun:
    „Núna er hinsvegar ekki í boði neinskonar málamiðlun. Næstu missiri, og reyndar frekar mánuði, er það annaðhvort Evrópusambandið með stefnu á evruna sem kontrapunkt í endurreisninni, eða þá ekki Evrópusambandið og einhverjar allt aðrar forsendur að baki nýju Íslandi, forsendur sem enginn efasemdarmanna um ESB hefur viljað gefa út. Annaðhvort af því þeir hafa ekki hugmynd um hverjar þær geti verið – eða vegna þess að þeir vilja ekki segja okkur frá þeim: Margra ára gjaldeyrishöft og afleit lánskjör á fjármálamörkuðum, beinn eða óbeinn ríkisrekstur helstu fyrirtækja, háir skattar, viðvarandi atvinnuleysi.“

    Hvernig er mögulegt að ræða þessa hluti á þessum nótum Mörður, þegar ljóst er að aðild að ESB hefur ekkert með gjaldmiðilsmál okkar að gera næsta áratug eða svo? ESB og evran eru í erfiðum málum, það síðasta sem þeir munu gera er að fara að veita fordæmalausar tilslakanir og stefna þar með tiltrú evrunnar í tvísýnu meira en nú þegar er orðið. Rússíbanareið íslenska hagkerfisins er fjarri því lokið og það mun taka mörg ár að vinda ofan af ójafnvægi og ofurskuldum þess áður en nauðsynlegum stöðugleika er náð til að uppfylla skilyrðin fyrir aðild að myntbandalaginu. Þetta er augljóst mál.

    Undir þennan óþægilega leka hefur verið sett síðustu mánuði með því að íslenska krónan fái svokallað ,,skjól“ hjá evrópska seðlabankanum. Merkilegt nokk þá er ekkert slíkt í boði, hér virðist vera á ferðinni alger misskilningur á fyrirkomulagi því sem kallast erm 2.

    Þessi valkostur sem þú stillir upp er því ekki fyrir hendi, hann er hugarburður – við komumst aldrei hjá því að móta hér peningamálstefnu til næsta áratugar, aðild að ESB eða slíkt breytir engu um það.

  • hvaða smjaður er þetta?

    „Sammála forseta Íslands“…. ????

    Sá maður er fullkomlega búinn að skíta í sig og á þjóð sína. Getur þú ekki bara verið sammála flestum íslendingum sem vilja ekki kljúfa þjóðina?

    Það er best að gleyma Ólafi. Hann er stórkostleg mistök í alla staði og best að minnast ekki á nafn hans á Íslandi. Slíkt getur klofið þjóðina. (þó að hópurinn sem skerst af með bessastaðanesinu sé nú orðið ansi lítill).

    Bara komment á ritstíl. Mér finnst þessi færsla byrja illa. Vantar stíl og stæl ef þú byrjar svona. Sammála restinni.

  • Sæll Mörður, ég vona að þín spá rætist og á næstu mánuðum fari í hönd snaggaraleg og öflug samningalota við ESB sem endi með þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildina.
    Það eru stuðningsmenn við þessa aðferðarfræði víða en þeir hafa nú bara ekki eins hátt og úrtölumennirnir!

  • Hrafnkell

    Sammála Mörður, eins og svo oft. Held að Friðrik hitti naglan á höfuðið. Þeir eru mun fleiri sem eru sáttir við þessa málsmeðferð og vilja gjarnan fá að taka snapra umræðu um kosti og galla ESB aðildar þegar línur skýrast.

    Við höfum fyrir löngu tekið stefnuna á Evrópusamstarf, fyrst með EFTA síðan með EES. Auðvitað hljótum við að vilja vega og meta hvort við þróum þetta samband ennfrekar með aðild að ESB – allt annað er bara rökleysa.

  • Stundum er ESB ruglað saman við íslenska saumaklúbba. Ég sakaður um að vera á móti konum og Evrópubúum fyrst ég vil ekki senda skattana mína til Brussels. Þegar ég mótmæli þessu rugli þá er spurt hvort Danir og Svíar hafi það ekki fínt í sambandinu. Veðrið gott hjá þessum þjóðum og nóg að borða. Ég svara því bara til að Danir og Svíar hafi það gott þrátt fyrir ESB en ekki vegna þess.

    ESB er ekki saumaklúbbur þrátt fyrir skoðanir Marðar. ESB er stjórntæki. Fyrir hverja? Ekki þjóðirnar sem þar eru, ekki fyrir fólkið sem býr þarna. Nei, heldur fjármagn, eigendur þess og stórar fyrirtækjasamsteypur. Þrátt fyrir fögur orð og ennþá fallegri fyrirheit þá hafa þeir ríku orðið ríkari og þeir fátæku fátækari í ESB. ESB hefur ýtt undir þessa þróum með tilskipunum og lagasetningu.

    Þökk sé ESB þá þurfa Íslendingar að borga hærra rafmagnsverð og meira fyrir vatnið. Allt í nafni samkeppni og frjáls markaðar. Della eða skynsemi.

  • Björn: Hættu nú að drekka samsæriste. ESB er fyrst og fremst hugsjón um frið, mannréttindi, lýðræði og samvinnu. Þeir sem eru á móti ESB skiptast í tvo hópa. Annars vegar vinstri menn eins og þig sem halda því fram að ESB sé einhverskonar fyrirtækja, frjálshyggjuveldi, og hins vegar hægri menn sem básúna það að ESB sé miðstýrt sósíalista helvíti. Reynslan og sagnfræðin segja okkur að skynsemin liggur yfirleitt mitt á milli tveggja öfga. Þar af leiðandi virðist ESB vera hið besta mál, sem og hið gríðarfarsæla „Sozialdemokratie.“

  • Sigurður

    Tökum frekar upp kínverskan gjaldmiðil ef eini ávinningur okkar við inngöngu í ESB er fjárhagslegur.

  • EinarE

    Þú hlýtur að vera einn sá heimskasti auðtrúaðasti einstaklingur sem hefur skrifað komment í allri sögu internetsins. Þú ert fokking heimskingi. Það tekur því ekki að yrða andsvari á þennan heilaþvott þinn.

    ..og öll þið skoðanasystkini EinarsE getur drullast til að lemja ykkur sjálf í hausinn. Hvað í andskotanum þarft til að þið vaknið?!? Þið ætlið að trúa þessu bölvaða bulli samspillingarhyskis sem svífst einskis til að halda völdum. Þetta helvítis stjórnmálafólk allt saman getur rotnað í helvíti um aldur og ævi, sama í hvaða helvítis flokki það stendur. Hvaða flokkur er annars nýbúinn að fljóta sofandi að feigðarósi??

    Reynið að hundskast til að hugsa sjálfstætt. Djöfulsins andskotans helvíti. Ef samspillingarpakkið ætlar að troða okkur í umsóknarferli án þjóðaratkvæðagreiðslu, þá þýðir það stríð á Íslandi. Stríð þar sem þessu undirlægju esbpakki verður stútað!

  • Það er eitt að segja og annað að gera. Forsetinn er fyrir löngu búinn að kljúfa þjóðina. Helmingur þjóðarinnar er forsetalaus. Hefur þú velt því fyrir þér af hverju Ólafi Ragnari lá svona á að koma á stjórn vinstri grænna og samfylkingar eins og sigmundur davíð greinir frá? Hefur þú velt fyrir þér hlut forsetans og hans góðu frúar í vef útrásarvíkinganna? Forsetinn, Dorritt, össur, einar karl haraldsson, kristján guy burgess, alþjóðaverið, al thani, ólafur ólafsson, sigurður einarsson, enex, Jón Ásgeir Jóhannesson, Róbert Wessmann. Hvað eiga þau sameiginlegt?

  • Ómar Kristjánsson

    „Verða íslensk ungmenni hugsanlega kvödd í herinn ef til styrjaldar kemur?“

    „kki bara ungmenni heldur flestir íslendingar. Einn aðaltilgangur ESB með að fá okkur „þarna inn“ er að fá aðgang að fólkinu til að nota í esb herinn.

    Haha ekki hægt annað en hlægja að ruglinu sem vellur uppúr and-sinnum.

    „Will the Treaty create a European army?

    No. Military capabilities remain in national hands. The Treaty foresees that Member States can make available civilian and military resources to the Union for the implementation of its Common Security and Defence operations. However, any Member State has the right to oppose such operations and all contributions to them will be always on a voluntary basis.

    A group of Member States who are willing and have the necessary capability will be able to undertake disarmament operations, humanitarian and rescue tasks, military advice and peace-keeping tasks. No Member State can be forced to participate in such operations.“
    http://europa.eu/lisbon_treaty/faq/index_en.htm#15

  • Árni Snævarr

    Sæll Mörður, það eru margar góðar pælingar í þessu hjá þér, sérstaklega þó hvernig menn hafa fylkt sér á bakvið það sem þú kallar málamiðlanir á borð við EFTA og EES. Vel athugað hjá þér. en af hverju í dauðanum að blanda Ólafi Ragnari inn í málið? Æ Mörður gleymdu honum. Bestu kv. Árni

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og tveimur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur